Ályktun frá miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga vegna kjarnorkuslyssins í Japan
Síðustu daga hafa fregnir af kjarnorkuslysinu í kjölfar náttúruhamfaranna í Japan vakið óhug um víða veröld. Það er áminning um hversu skaðleg kjarnorkutæknin getur reynst ef óvænt áföll koma upp á.
Það er einmitt ekki hvað síst vegna hættunnar á slysum eða óhöppum, sem íslenskir friðarsinnar hafa um árabil barist fyrir því að sett verði bann við umferð og geymslu kjarnorkuvopna í íslenskri landhelgi. Hættan á slysum í kjarnorkukafbátum má vera öllum kunn og óþarft að fjölyrða um hversu alvarlega afleiðingar það hefði ef slíkt óhapp yrði í námunda við landið.
Samtök hernaðarandstæðinga höfðu á sínum tíma frumkvæði að því að fá íslensk sveitarfélög til að friðlýsa sig fyrir kjarnorkuvopnum og brugðust langflest þeirra við því kalli. Raunar vildu aðeins fimm sveitarfélög ekki vera friðlýst fyrir geymslu og meðferð kjarnorkuvopna: Grímsnes- og Grafningshreppur, Reykjanesbær, Sandgerði, Skútustaðahreppur og Vogar.
Enn er þó eftir stóra málið, að Alþingi bindi í lög fortakslaust bann við slíkri umferð. Frumvarp um þetta efni liggur tilbúið í utanríkismálanefnd Alþingis. Samtök hernaðarandstæðinga skora á þingmenn að ljúka málinu fyrir vorið.