Alþjóðlegu samfélagsþingunum í Bamako og Caracas lokið

By 30/01/2006 Uncategorized

Foro Social Mundial 2006 Eins og komið hefur fram hér á síðunni er Alþjóðlega samfélagsþingið – World Social Forum – að þessu sinni haldið í þrennu lagi á þremur stöðum: í Bamako í Malí, Caracas í Venesúela og Karachi í Pakistan. Á síðastnefnda staðnum verður þingið haldið í mars en þingið í Bamako stóð dagana 19.-23. janúar og í Caracas 24.-29. janúar. Þetta er sjötta skiptið sem Alþjóðlega samfélagsþingið er haldið. Það var fyrst haldið í Porto Alegre í Brasilíu árið 2001 og þar hefur það alltaf verið haldið þar til nú utan árið 2004 þegar það var í Mumbai á Indlandi.

Þrátt fyrir gífurlegan fjölda sem hefur sótt þessi þing, yfir 100 þúsund manns á síðustu árum, hefur sáralítið frést af þeim hingað til Íslands. Að þessu sinni sóttu a.m.k. þrír Íslendingar þingin, Viðar Þorsteinsson, námsmaður í Bretlandi, fór til Caracas og Alistair Ingi Grétarsson og Halla Gunnarsdóttir til Bamako en nokkrar greinar hafa birst að undanförnu eftir Höllu frá Bamako í Morgunblaðinu. Við munum væntanlega segja nánar frá þessum þingum á næstunni og megum vænta þess að þau Alistair Ingi og Halla segi okkur frá för sinni í Friðarhúsinu þegar þau koma heim.

www.forumsocialmundial.org.br
www.fsmmali.org
www.forosocialmundial.org.ve
www.ipsterraviva.net/tv/wsf2006/default.asp