Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi efna til mótmælastöðu við Akureyrarflugvöll laugardaginn 8. ágúst klukkan 14.30 til að mótmæla aðflugsæfingum bandarískra orrustuflugvéla og vörslu hergagna á flugvellinum.
Samtökin mótmæla harðlega þeim heræfingum NATO sem hér eru stundaðar undir yfirskyni loftrýmisgæslu fyrir Ísland. Þær ógnir sem nú steðja að íslensku sjálfstæði eru frá amerískum og evrópskum fjármálakapítalisma. NATO er hernaðararmur þeirra afla. NATO er úlfurinn sem á að vernda lambið.
Í janúar sl. var haldin í Reykjavík mikilvæg NATO-ráðstefna undir heitinu: „Öryggishorfur á Norðurheimskautssvæðinu“, og er það í samræmi við nýjan áhuga stórveldanna á þessu svæði. Hernaðarlegar áherslur Bandaríkjanna og NATO verða ekki aðskildar frá efnahagslegum hagsmunum. Það liggur beint við að tengja aukinn áhuga NATO á Íslandi og norðurslóðum ekki aðeins við vaxandi hernaðarlega þýðingu svæðisins heldur vaxandi mikilvægi flutningaleiða í Norðurhöfum og olíuvinnslu í framtíðinni.
Nánari upplýsingar veitir Þórarinn Hjartarson, formaður Félags hernaðarandstæðinga á Norðurlandi (sími 462 4804/netfang thjartar@internet.is).