Reykjavíkurakademían efnir til málþings fimmtudaginn 18. maí milli kl. 16:30 og 18:30. Umræðuefnið er mótmæli og varpa fundarboðendur fram ýmsum áleitnum spurningum í kynningu sinni:
„Í tilefni af því má spyrja hvar mörkin milli eðlilegra og óeðlilegra mótmæla liggja og hvenær mótmælendur gangi of langt. Einnig má spyrja hve langt yfirvöld megi ganga til að hefta mótmælendur. Hvenær helgar tilgangurinn meðalið? Mega mótmælendur sletta skyri og príla upp krana og mega yfirvöld elta mótmælendur á röndum eða loka þá inni í skóla í Reykjanesbæ? Þetta eru ekki aðeins spurningar um einstök tilvik heldur einnig grundvallarspurningar um mikilvægi mótmæla og andstöðu fyrir lýðræðismenningu hverrar þjóðar. “
Frummælendur verða Viðar Þorsteinsson, heimspekingur og Illugi Gunnarsson, hagfræðingur.
Að loknum erindum verða pallborðsumræður með frummælendum og Gesti Guðmundssyni, prófessor í félagsfræði við Kennaraháskóla Íslands og Írisi Ellenberger, sagnfræðingi og umhverfisverndarsinna.
Fundarstjóri er Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki við Viðskiptaháskólann á Bifröst.
Málþingið er haldið í aðalsal ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121, 4. hæð og er öllum opið.