Í dag, 2. ágúst, eru mótmælaaðgerðir víðsvegar um Bandaríkin gegn hugsanlegri innrás í Íran. Sjá nánar vefsíðuna Stop War On Iran. En munu þeir ráðast á Íran? Þórarinn Hjartarson fjallar um þá spurningu hér í þessari grein:
Ofanskráð spurning brennur heitt á þeim sem láta sig heimsfriðinn einhverju skipta. En stóru fréttastofurnar umorða spurninguna að vanda, og spyrja: Eru Íranir að framleiða kjarnorkuvopn og væri það ekki hættulegt heimsfriði? Fólk veit að stóru vestrænu fréttastofurnar (þær litlu íslensku þar með) hafa logið okkur full um Afganistan og Írak enda eru þær eign og málpípur bandarískra og annarra vestrænna heimsvaldasinnaðra auðhringa. Samt lætur fólk alltaf sömu fréttastofur segja sér hver séu helstu vandamálin á heimsvísu í dag. Í Afganistan eru Talíbanar vandamálið. NATO hins vegar stundar þar friðargæslu í bland við þróunarhjálp (sbr. umsagnir utanríkisráðherra Íslands). Í gömlu Júgóslavíu voru það serbneskir þjóðernissinnar sem skilgreindir voru sem glæpamennirnir en NATO kom bara til að stilla til friðar. Í Írak var Saddam og gjöreyðingarvopn hans vandamálið. Nú er helsta hættan tengd kjarnorkuvopnum Írana. Það þarf að verja Evrópu og Bandaríkin fyrir þeim með eldflaugakerfum í A-Evrópu. Og kannski verður nauðsynlegt að sprengja kjarnorkuverin þeirra. Fréttastofurnar mala eins og peningavaldið vill.
Bandaríkin og heimsvaldastefnan
Þetta er hið grátlega: Eftir að hafa hlustað á Bush og hina viljugu fylgismenn hans stunda sinn skítuga málatilbúnað til að réttláta innrás og verða svo berir að lygunum eftir á, heldur fólk áfram að láta sömu aðila skilgreina þau „vandamál“ sem á dagskrá eru. Fólk sér þá ekki að vandamálið mikla eru þessir heimshöfðingjar sjáfir. Mannkynið stendur nú frammi fyrir meiri ógn en áður í 70 ár, jafnvel meiri en nokkru sinni.
Jú, segja margir, Bush er illmenni. En þá kemur næsta viðbára: Það þarf að skipta um stjórnendur. Bush er fífl, en Rice vill raunar vel. Hillary Clinton er þó betri. Og Obama er betri en Clinton. Þetta hlýtur að skána eftir kosningar.
Það er kjaftæði. Það sem fólk hefur ekki látið sér skiljast er að vandinn liggur ekki í brjáluðum stjórnendum heldur í grundvelli kerfisins. Heimsvaldasinnaður kapítalismi byggist á arðráni á heimsvísu. Það eru hans ær og kýr að sveigja efnahagskerfi annarra landa og svæða undir sig og sína hagsmuni. Með mismunandi aðferðum; með aðferðum fríverslunar, með regluveldi (reglur Alþjóðabankans, Heimsviðskiptastofnunarinnar…), eða með aðferðinni að deila og drottna til að veikja andstæðinginn – m.a. að styðja aðskilnaðarsinna: Tsétsena í Rússlandi, Bosníu-múslima eða Kosovo-Albani í Júgóslavíu, Darfúrhérað í Súdan, Tíbet í Kína, Kúrda og Síta umfram Súnnía í Írak, Balúka í Íran – eða þá með beinu innrásarstríði. Sem sagt með illu eða góðu.
Eftir fall Sovétríkjanna hefur dans heimsveldanna haft eftirfarandi sérkenni:
- Risaveldið er aðeins eitt. Yfirburðir þess yfir önnur heimsveldi eru gífurlegir, en mestir á hernaðarsviðinu.
- Það hefur tekið sér óformlega þá stöðu að sjá um hervarnir fyrir allt heimsvaldakerfið.
- Hinar heimsvaldablokkirnar viðurkenna þá stöðu, þó svo að risaveldið noti hana miskunnarlaust til að ota fram eigin hagsmunum og bægja hinum frá.
- Hinar heimsvaldablokkirnar eru drifnar áfram af sömu gróðasókn sem er lögmálsbundin í gangverki kapítalismans en hafa ekki sömu möguleika til valdbeitingar. Hugmyndafræðilegur mismunur (sem t.d. ESB-sinnar elska að tala um) er afar lítill en hagsmunirnir eru mismunandi þar sem um keppinauta er að ræða.
- Bandaríkin eru hnignandi heimsveldi þrátt fyrir sögulegan sigur á Sovét-blokkinni. Önnur heimsveldi eru smám saman að draga það uppi á efnahagssviðinu. ESB, Kína Japan…
- Staðan er að því leyti önnur en t.d. 1930 að þá voru herskáustu heimsveldin (Þýskaland, Japan) ung og landhungruð og í sókn. Nú er hins vegar herskáasta heimsveldið (BNA) gamalt og efnahagsvopn þess hafa sljóvgast. Það minnir á geitung um haust.
- Heimsveldin hlýða ennþá Stóra bróður en hagsmunaárekstrarnir vaxa jafnt og þétt.
- Um skeið hefur dans heimsveldanna snúist alveg sérstaklega um áhrifin yfir hinni takmörkuðu auðlind, olíubirgðum heimsins. Hnattræn dreifing helstu hernaðarátaka og staðsetning herstöðva BNA sýnir þetta afar skýrt.
Því verður ekki neitað að frá bandaríska valdakerfinu berast nú misvísandi skilaboð gagnvart innrás í Íran. Það er alls ekki að sjá að sú misvísun fylgi hugmyndafræðilegum línum. Leiðandi demókratar standa nú á bak við síharðnandi kosti sem Írönum eru settir. Frú Clinton er t.d. augljóslega haukur gagnvart Íran og í samskiptum Ísraels og Araba. Það er ekki síst innan úr forustu hersins og CIA sem alvarlegar viðvaranir hafa komið. Og mótbárurnar eru greinilega það sterkar að þær koma upp á yfirborðið svo ráðamenn virka reikandi í málinu. Hvernig á að skilja þetta?
Íran og heimsvaldastefna Bandaríkjanna
Þegar veðurútlit er dökkt skimar maður eftir leiðarljósum. Ég ætla að leyfa mér að benda á kanadísku vefslóðina globalresearch.ca. Þar er stunduð mikil umræða um hnattvæðingu og hagsmunabrölt heimsveldanna almennt og brölt BNA sérstaklega, umræða sem hefur komið mér að góðu gagni undanfarið. Ég vil benda sérstaklega á einn skríbent, Michel Chossudovsky, sem lengi hefur skrifað um alþjóðastjórnmál. Árið 1997 vakti hann athygli með skarpri greiningu á hnattvæðingunni í bókinni The Globalization of Poverty: Impacts of IMF and World Bank Reforms. Eftir 2001 hefur hann þó einkum sinnt hagsmunaátökum heimsveldanna og hernaðarstefnu BNA. Strax árið 2002 kom út bókin America’s “War on Terrorism” sem var endurútgefin og uppfærð 2005. Í seinni tíð birtir vefsíðan í sífellu upplýsandi greinar, eftir Chossudovsky og aðra, um stríðin í Afganistan og Írak, og ógnanirnar gegn Íran. Auk ýmislegs viturlegs um bæði efnahagsmál og alþjóðastjórnmál. Með stuðningi af þessum höfundum mætti leggja fram nokkra þætti til greiningar á stöðunni kringum Íran. Verður ráðist inn?
A) Í bókinni America´s “war on terrorism” frá 2002 tengdi Chossudovsky atburðina 11. september 2001 við stefnumörkun nýhægrimannanna kringum Bush og Cheney, m.a. í mikilvægum klúbbi álitsgjafa, „Verkefni fyrir nýju amerísku öldina“, frá árinu 2000. Hann sló þar föstu að „hryðjuverkaógnin“ væri ekki neins konar greining á raunveruleikanum heldur pólitískt slagorð og pólitískt vopn herskárrar heimsvaldastefnu. „Stríð gegn hryðjuverkum“ væri merkimiði fyrir nýja bandaríska stórsókn. Þetta hefur komið æ betur í ljós (um þetta, m.a. túlkanir Chossudovsky, hef ég fjallað í greininni „11. september og „stríðið gegn hryðjuverkum““ hér á Friðarvefnum 8. des. 2007).
B) Um þá togstreitu sem varð meðal heimsvaldasinna í aðdraganda Íraksstríðsins 2002-03 fjallaði Chossudovsky í greininni „The Anglo-American Military Axis“ sem birtist á vefsíðunni þann 10. mars 2003, skömmu fyrir innrásina í Írak. Hann benti fyrst á hvernig bandarískir og breskir olíuhringar og vopnaframleiðsluauðvald hafði þá runnið saman á undangengnum áratug. Síðan greindi hann ástæðurnar fyrir óeiningu heimsveldanna í aðdraganda innrásarinnar. Þar sagði m.a.
-
„Fyrirhuguð innrás í Írak er til þess ætluð að bola hinum evrópsku, rússnesku og kínversku hagsmunum frá olíulindunum í Miðausturlöndum og Mið-Asíu. Á meðan BNA á Balkanskaga „deildi molunum“ með Frakklandi og Þýskalandi, í aðgerðum undir verndarvæng NATO og SÞ, er innrásin í Írak til þess gerð að tryggja bandarísk yfirráð en veikja frönsk, þýsk og rússnesk áhrif á svæðinu.“ (globalresearch.ca/articles/CHO303B.html, bls. 1)
Í nýlegri grein bendir Chossudovsky á að BNA hafi náð mikilvægustu markmiðum Íraksstríðsins. M.a. vegna viðskiptabannsins gegn Írak höfðu bandarískir auðhringar verið fjarverandi frá olíunni í Írak fyrir 2003 en keppinautarnir nutu gæðanna. En eftir innrás og 5 ára hernám er þar í landi „spillt nýlenduhagstjórn… sem miðar að beinu afsali eigna- og umráðaréttar heilla þátta hagkerfisins yfir til fáeinna bandarískra auðhringa.“
(Sjá: globalresearch.ca/index.php?context=va&aid=9501)
C) Um hættuna á stríði gegn Íran skrifar Chossudovsky í nýrri grein, frá 4. júlí sl., „Iran: War or Privatization: All Out War or “Economic Conquest”?“ Íranir hafa sett í gang umfangsmikla einkavæðingu ríkisfyrirtækja, m.a. sölu þeirra á erlendan markað, og ýmsir sérfræðingar telja að þetta sé eftirgjöf Írana gagnvart þrýstingi frá BNA. Svo er ekki, segir Chossudovsky. Þessi stefna Írana opnar á umfangsmiklar fjárfestingar þeirra sem þegar eiga fjárfestingar í Íran; Ítalir, Rússar, Þjóðverjar, Kínverjar, Japanir o. fl. Bandarískir fjárfestar eru ekki þar á meðal vegna viðskiptabanns Bandaríkjaþings á Íran frá 1996. Og nú í lok maí var borið fram í bandaríska þinginu frumvarp um að herða mjög á því viðskiptabanni. Frumvarpið verður líklega borið undir atkvæði á næstunni og nái það fram að ganga munu Bandaríkin beita efnahagslegum refsivendi alla þá sem eiga viðskipti við Íran. Chossudovsky telur einmitt að frumvarpið beinist ekki síður að erlendum fjárfestum en að Írönum sjálfum, að það miði einmitt að því að hindra fjárfesta annarra landa í því að hirða stærri hluta af írönsku kökunni en orðið er.
D) Samt er það rétt að misvísandi skilaboð berast nú úr bandarísku efnahags- og valdakerfi gagnvart því hvort stefna skuli að stríði. Í því sambandi bendir Chossudovsky einkum á það að ólíkir þættir bandaríska auðvaldsins hafa ólíka hagsmuni í málinu. Stríð við Íran mundi auðvitað stórlega skaða þungavigtarþætti efnahagslífsins, svo sem borgaralega neyslu- og verslunarhagsmuni sem hafa allan hag af friðsamlegum og opnum viðskiptum við Miðausturlönd og múslimaheiminn. Á andstæða vogarskál leggjast hins vegar afar voldugar efnahagsblokkir eins og olíuauðurinn og auðhringarnir í vopnaframleiðslu og vopnasölu. Chossudovsky er ekki sérlega bjartsýnn og telur að utanríkisstefnan muni enn um sinn stjórnast af sömu öflum, sem beita vilja trompi hernaðarafls og telja að heimsvaldahagsmunir Bandaríkjanna séu undir því komnir, með hjálp þess afls, að skapa sem hreinast bandarískt yfirráðasvæði um öll Miðausturlönd.
(Sjá: globalresearch.ca/index.php?context=va&aid=9501)
Munu þeir ráðast á Íran?
Vitnum nú ekki meira í Chossudovsky en spyrjum enn sömu spurningar: munu þeir ráðast á Íran?
Varðandi frambjóðendurna tvo: Ólíkir frambjóðendur í BNA eru ekki fulltrúar mismunandi hugmyndafræði. Þar kemst enginn langt nema hann sé gulltryggður heimsvaldasinni, enda er ekki lýðræði í BNA. Obama er ekkert minni heisvaldasinni en McCain. Eftir forkosningarnar talar hann æ betur í takt við zíoníska lobbýið og verður almennt herskárri í tali. En bandarísk utanríkisstefna er samt ekki eimreið á teinum sem er alveg óumbreytanleg.
Ýmsir ytri þættir hafa áhrif. Ég nefni baráttu vestrænna friðarhreyfinga. Í Víetnamstríðinu hafði barátta þeirra veruleg áhrif. Áhrif friðarhreyfinga um þessar mundir eru miklu minni, því miður, þó svo að almennur stuðningur við stríðsrekstur í Miðausturlöndum hafi alltaf verið minni en stuðningur við stríð í Indó-Kína.
Annað hefur meiri áhrif, andstaðan í þeim löndum sem ráðist var inn í. Gengi innrásarherjanna í Afganistan og Írak hefur verið heldur slæmt og mannfall í þeim allmikið. Alhliða andstaða við hernámið í þessum samfélögum er harðvítug, pólitísk sem hernaðarleg. Sívaxandi óvild og hatur á Bandaríkjamönnum og stuðningsmönnum þeirra í Miðausturlöndum og öllum múslimaríkjum er flestum ljóst. Þessu reyna bandarískir heimsvaldasinnar í Írak að svara m.a. með því að „balkanísera“ stríðið, framkvæma „hryðjuverk undir fölsku flaggi“, sá fræum ófriðar eins og hægt er milli trúarhópa og vinna skipulega að uppskiptingu Íraks. Ennfremur að leigja út hermennskuna, fá hermannaleigur til aðstoðar, fá snauða Afríkumenn til að berjast upp á kaup o.s. frv. En hið slaka hernaðarlega gengi, og dvínandi pólitísk áhrif, er auðvitað áhyggjuefni öllum heilvita mönnum í BNA, stjórnmálamönnum sem öðrum, og almenningur hefur síst af öllu áhuga á þriðja stríðinu.
Enn einn þátt er alveg nauðsynlegt að nefna. Hizbolla. Ísrael er ætlað meginhlutverk í áformaðri árás heimsvaldasinna á Íran. En nú blasir það æ betur við að Ísrael getur ekki farið sínu fram líkt og áður. Leiftursókn Ísraels inn í Líbanon til að brjóta aftur Hizbolla í júlí 2006 mistókst vegna harðvítugrar og afar vel skipulagðrar mótspyrnu samtakanna. Og tilraun líbanskra stjórnvalda í maí sl. til að beygja undir sig Hizbolla endaði með fullum sigri samtakanna svo nú er viðurkennt að þau eru langsamlega sterkasta stjórnmálaaflið í landinu, ekki aðeins hernaðarlega. Fróðir menn búast ekki við því að Hizbolla muni horfa aðgerðarlaus á Ísrael ráðst með kjarnorkuvopnum á Íran. Nærtækt svar frá Hizbolla væri að ráðast með sprengjuvörpum á Tel Aviv. Í áratugi hafa Ísraelar ráðist ótal sinnum á granna sína, allra oftast á Líbanon, og getað gert það áhyggjulítið, en nú er sú staða breytt. Það er kannski þyngsta lóðið á vogarskálina gegn nýju stórstríði nú um stundir. (Sjá greinina „Why Hezbollah’s Victory may lead to peace in the Middle East“.
Þórarinn Hjartarson