Alþjóðlegi samfélagsvettvangurinn (World Social Forum) er að þessu sinni ekki stór samkoma á einum stað eða fáum heldur um allan heim, það verða haldnir fundir og alls kyns aðgerðir víðsvegar um heim undir kjörorðinu „Annar heimur er mögulegur“, eða hvernig við viljum orða það á íslensku, – kannski „við eigum völ á öðruvísi veröld“.
Frá því því Alþjóðlegi samfélagsvettvangurinn var haldinn í fyrsta sinn í Porto Alegre í Brasilíu arið 2001 hefur honum verið valinn tími seint í janúar eða á sama tíma og valdamenn heimsins, auðmenn og þeim þóknanlegir stjórnmálamenn, hafa komið saman í Davos í Sviss á hinum Alþjóðlega efnahagsvettvangi (World Economic Forum – stundum nefnt Alþjóðlega efnahagsstofnunin, enda starfandi að staðaldri þótt helsta ráðstefnan sé einu sinni á ári). Samfélagsvettvangurinn er vettvangur til að ræða annarskonar samfélagskipan en þá sem ræðst af auð- og hervaldi. Þessar samkomur hafa verið geysilega fjölsóttar fram að þessu, yfir hundrað þúsund manns þegar mest hefur verið.
26. janúar er dagur Alþjóðlega samfélagsvettvangsins í ár, en víða eru skipulagðir fundir, ráðstefnur og ýmiskonar aðgerðir dagana í kringum 26. janúar. Til að halda utan um þetta hefur verið komið upp vefsíðunni www.wsf2008.net, en annars er www.forumsocialmundial.org.br hin varanlega vefsíða.