Birtist í Fréttablaðinu 7. ágúst 2007
Nató-leiðangurinn í Afganistan, undir forystu Bandaríkjanna og á þeirra forsendum, er þegar orðinn að u.þ.b. eins fullkominni martröð og hugsast getur. Frá fyrstu tíð höfðu margir efasemdir um að Bandaríkin og Vesturlönd myndu ríða feitari hesti frá leiðangri sínum þangað en Rússar gerðu á sinni tíð. Burtséð frá afar hæpnu réttmæti þess að hefja loftárásirnar á Afganistan á sínum tíma í kjölfar atburðanna 11. september 2001 spurðu margir hvort yfirhöfuð væri raunsætt að ætla að aðferðafræði haukanna í Bandaríkjunum myndi skila árangri og hverjar fórnirnar yrðu. En það var hafist handa og sprengjum var látið rigna úr háloftunum yfir þetta vanþróaða land, Afganistan, vikum saman.
Mótspyrna brotin á bak aftur í helstu borgum og samvinnuþýðri ríkisstjórn komið á laggirnar. Það reyndist auðveldara að heyja stríðið en eiga við eftirleikinn.
Tilgangslaust blóðbað
Samkvæmt hinum nýju formúlum Bandaríkjamanna höfðu þeir forgöngu um stríðið, sáu að mestu um sprengingarnar og ræstu síðan Nató út til að að hreinsa upp eftir sig. Nú brjótast Nató-ríkin um á hæl og hnakka, fórna lífi hermanna sinna í meira og minna tilgangslausri baráttu, ungt fólk fellur nær daglega sem óvelkomnir gestir í framandi landi. 420 Bandaríkjamenn, 68 Bretar, 66 Kanadamenn, 25 þjóðverjar, 21 Spánverji o.s.frv. eru fallnir frá því stjórn talibana var komið frá 2001. Og það sem verra er: Mannfall óbreyttra borgara sökum aðgerða Nató-herjanna er stórfellt. Deilt er um hversu mörg þúsund eða jafnvel tugir þúsunda óbreyttra borgara hafi fallið frá því átökin hófust en hafið er yfir vafa að í ýmsum aðgerðanna hafa allt eins margir eða fleiri óbreyttir borgarar fallið en raunverulegir liðsmenn talibana eða annarra andófsafla gegn hinni erlendu hersetu. Undangengið eitt og hálft ár er talið að 6.500 manns a.m.k. hafi fallið og ekki er fjarri lagi að álykta að fullur helmingur hafi verið óbreyttir borgarar.
Þverrandi stuðningur
Þetta stríð eru Vesturlönd að heyja meira og minna í óþökk og í andstöðu við íbúa viðkomandi svæða og ráðandi öfl þar. Yfirleitt hefur sýnt sig að slík barátta er vonlaus. Sjálfum erkifjendunum, talibönum, vex fiskur um hrygg og ópíumframleiðsla í skjóli uppreisnar- og stríðsherra og héraðshöfðingja hefur náð fyrri hæðum og rúmlega það.
Þó svo eigi að heita að ríkisstjórn Karzai ráði Kabúl, nærliggjandi svæðum og að einhverju leyti ferðinni í stærstu borgum er þó enginn afgangur af því. Þegar út í héröðin kemur og einkum landamærasvæðin milli Afganistan og Pakistan er hið gagnstæða upp á teningnum. Flótti virðist vera við það að bresta á í Nató-liðinu og þverrandi stuðningur heima fyrir við áframhaldandi þátttöku í aðgerðunum verður æ meira áberandi í umræðum um málið, t.d. í nágrannalöndunum Noregi og Danmörku.
Staða Íslands verði endurmetin
Ófarirnar í Afganistan eru stærsta og alvarlegasta dæmið um afleiðingar hinnar nýju stefnu þegar Nató var breytt úr svæðisbundnu varnarbandalagi í alheimshernaðarbandalag og aðila sem skyldi láta til sín taka í fjarlægum heimsálfum, skv. forskrift Bandaríkjamanna, hinnar árásargjörnu aðferðafræði, hugmyndanna um fyrirbyggjandi styrjaldir og allt það. Er þetta nýja Nató virkilega sá félagsskapur sem við eigum heima í í ljósi atburðanna í Írak, Afganistan og víðar? Væri ekki hyggilegast fyrir okkur að staldra við og byrja á því, þó ekki væri annað, að kalla alla Íslendinga heim frá Afganistan, a.m.k. alla þá sem eru þar á forsendum eða í tengslum við Nató? Af nógu er að taka á vettvangi borgaralegrar, friðsamlegrar þróunarsamvinnu og hjálparstarfs, bæði þar og annars staðar, þó svo við látum öðrum eftir að standa í slíku á hernaðarforsendum. Minna má á, í þessu sambandi, þær breytingar sem Alþingi sameinaðist um að gera á frumvarpi til laga um íslensku friðargæsluna. Þar var tekinn af allur vafi um að sú starfsemi skuli skilgreind sem borgaraleg og vera á slíkum forsendum.
Höfundur er formaður Vinstri grænna og situr í utanríkismálanefnd.