Guðrún Valgerður Bóasdóttir, betur þekkt sem Systa, er fallin frá 67 ára að aldri. Hún varð starfsmaður Samtaka herstöðvaandstæðinga um miðjan níunda áratuginn, á miklum umsvifatímum í sögu friðarhreyfingarinnar í miðju Köldu stríði og kjarnorkukapphlaupi stjórnveldanna. Systa tók meðal annars virkan þátt í alþjóðastarfi samtakanna og átti stærstan þátt í að SHA tóku virkan þátt í Græna netinu svokallaða í árdaga internetsins.
Baráttan gegn stríði og ofbeldi átti huga Systu alla tíð. Hún var drifkraftur í starfsemi Samstarfshóps friðarhreyfinga um áratuga skeið, sem skipulagt hafa kertafleytingar gegn kjarnorkuvopnum og friðargöngur á Þorláksmessu. Eftir að samtökin komu sér upp eigin félagsmiðstöð, Friðarhúsi, árið 2005 tók hún ástfóstri við verkefnið og á hvað stærstan þátt í þróun Friðarhúss í gegnum árin.
Samtök hernaðarandstæðinga votta fjölskyldu og vinum Guðrúnar Valgerðar Bóasdóttur innilega samúð. Hennar verður sárt saknað í friðarhreyfingunni.
Þeim sem vilja minnast hennar er bent á reikning Friðarhúss:
Kt. 600404-2530
Rn. 0130-26-002530