Baráttan heldur áfram!

By 28/10/2006 Uncategorized

kjartanolafsson Húsfyllir var á hinum mánaðarlega föstudagskvöldverði í Friðarhúsi 28. október. Kjartan Ólafsson fv. alþingismaður kom og fjallaði um hleranamálið auk þess sem hann rifjaði upp ýmislegt úr sögu baráttunnar gegn hernámi og herstöðvum, en hann var meðal stofnenda Samtaka hernámsandstæðinga, framkvæmdastjóri samtakanna og aðalhvatamaður að fyrstu Keflavíkurgöngunni. Í fróðlegu og bráðskemmtilegu erindi fagnaði hann því að loksins væri herinn farinn en benti jafnframt á að í nýgerðum samningum milli Íslands og Bandaríkjanna væri gert ráð fyrir nánu samstarfi milli landanna á hernaðarlegu sviði sem meðal annars fæli í sér tengsl milli Landhelgisgæslunnar og bandaríska hersins og undraðist hann hversu litla athygli það hefði fengið. Baráttunni væri því engan veginn lokið og brýndi hann herstöðvaandstæðinga til að láta ekki deigann síga.

ragnararnalds Þess má geta að Ragnar Arnalds, sem var í líka forystu Samtaka hernámsandstæðinga og hefur einnig séð ástæðu til að fá að sjá hlerunarskjöl sem varða hann, kom í kvöldverð í Friðarhúsi 29. september í tilefni brottfarar hersins og rifjaði upp ýmislegt úr baráttunni. Hann benti á þau áhrif sem barátta hernáms/herstöðvaandstæðinga hefur haft en margir átta sig ekki á. Í eðli sínu eru þau nefnilega ekki mjög sýnileg en mikilvæg samt, því að uppi voru áform um miklu meiri herstöðvar, svo sem herflugvelli á Rangárvöllum, í Skagafirði og í Aðaldal og flotastöð í Hvalfirði. Það verður sjálfsagt aldrei úr því skorið hver áhrif andófsbáttunnar voru, en það er vert að velta fyrir sér hvort íslensk stjórnvöld hefðu ekki orðið eftirgefanlegri gagnvart Bandaríkjamönnum ef engin skipulögð andstaða hefði verið gegn þessum áformum.

Kjartan benti á í erindi sínu að hernámsandstæðingar hefðu alltaf lagt mikið upp úr friðsamlegum aðgerðum enda kom nánast ekki til átaka frá 30. mars 1949 og þar til utanríkisráðherrafundur NATO var haldinn í Reykjavík 1968. Eigi að síður létu stjórnvöld hlera síma Samtaka hernámsandstæðinga, sem sýnir kannski umfram allt hversu mikill þyrnir í augum þeirra þessi samtök voru. Með friðsamlegri baráttu sinni þvældust þau sífellt fyrir því að stjórnvöld gætu þjónað heimsveldinu eins og þau hefðu viljað. Og fyrir það megum við þakka Kjartani, Ragnari og fjölmörgum öðrum sem héldu þessari baráttu uppi á árum áður. Og, eins og Kjartan benti á, baráttunni verður að halda áfram!

Myndin af Kjartani er tekin af www.mbl.is og myndin af Ragnari af www.xx.is