Þingflokkur VG hefur sent frá sér ályktun vegna árása Ísraels á Líbanon og farið fram á fund í utanríkismálanefnd vegna ástandsins.
-
Ályktun frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs skorar á íslensk stjórnvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að stöðva frekari manndráp og eyðileggingu í Líbanon. Alþjóðasamfélagið verður að koma Ísrael í skilning um að frekari stríðsglæpir og mannréttindabrot verða ekki þoluð. Öll ríki Sameinuðu þjóðanna geta haft áhrif í þessu efni og leggur þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs til að íslenska ríkisstjórnin beini þeim tilmælum til forseta Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna að þingið verði kallað saman ( skv. ályktun SÞ no. 377) þegar í stað með það fyrir augum að samþykkja kröfu um að vopn verði lögð niður. Fyrir þessu eru fordæmi.
Þingflokkur VG hefur þegar sent forseta Alþingis erindi með ósk um að utanríkismálanefnd komi saman hið bráðasta til þess að ræða þá stöðu sem nú er uppi og á hvern hátt Íslendingar geti lagt sitt af mörkum til að stöðva manndrápin og eyðilegginguna.