eftir Jóhann Geirdal
Eftirfarandi greinaflokkur eftir Jóhann Geirdal, bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ, birtist á vefritinu politik.is í febrúar og mars 2004
1. hluti – Brottför hersins
Brottför hersins
Nú eru liðin rúm 10 ár síðan Bandaríkjamenn vildu fara héðan með stóran hluta herafla síns og allan flugherinn. Síðan þá hefur verið ljóst að þeir sáu ekki lengur tilgang í því að halda úti herstöð á Keflavíkurflugvelli a.m.k. ekki út frá hernaðarlegu sjónarmiði. Íslensk stjórnvöld gátu þá kríað út tveggja ára frestun á því að flugherinn færi, þó fækkaði hann flugvélum úr 12 í 4 svo hægt væri að tala um það sem samningsaðilar kölluðu ,,trúverðugar varnir”.
6. maí 1993 birti Morgunblaðið á forsíðu stóra frétt um að herinn væri að fara. Viðræður bandarískra og íslenskra ráðamanna fóru af stað og kom bandarísk sendinefnd hingað þann 6. ágúst 1993. Samkvæmt upplýsingum sem Agnes Bragadóttir hafði aflað sér í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, og utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna voru meginatriði tillagna Bandaríkjamanna þessi:
- 12 F-15 orrustuþotur Flughers Bandaríkjanna hyrfu á brott frá Íslandi, frá og með 1. janúar 1994.
- Fjarskiptakerfi Bandaríska sjóhersins öðru nafni: SOS-US-System, hætti starfrækslu í áföngum á árunum 1994 til 1997. Þar yrði um tæknilega úreldingu að ræða, þar sem í stað þessa njósnakerfis yrði notast við gervihnattakerfi.
- Þyrluflugbjörgunarsveitin yrði sömuleiðis á brott, en þó mun sú afstaða bandarískra stjórnvalda ekki hafa verið jafn ófrávíkjanleg og afstaðan með brottflutning orrustuflugsveitarinnar.
Tillögur Bandaríkjamanna um brottflutning orrustuþotnanna 12 hefðu falið það í sér að 554 starfsmenn bandaríska flughersins hefðu farið héðan og um það bil 250 starfsmenn sjóhersins. Auk þess hefði þessi ráðstöfun með algjöru brotthvarfi F-15 flugsveitarinnar frá Keflavík haft það í för með sér að allir starfsmenn þyrluflugbjörgunar- sveitarinnar, 100 talsins, hefðu farið líka. Samtals hefði því fækkað um rétt liðlega 900 hermenn á Keflavíkurflugvelli, við það að hrinda tillögum Bandaríkjamanna í framkvæmd, sem hefði jafngilt um 25% niðurskurði herafla á Keflavíkurflugvelli. (Baksíða Mbl. 6. janúar 1994)
Þessum kröfum Bandaríkjamanna mættu íslensk stjórnvöld með gagnkröfum, þar var krafist í nafni Íslendinga að hér yrðu ,,trúverðugar loftvarnir áfram tryggðar á grundvelli skuldbindinga varnarsamningsins.” Hvað svo sem ,,trúverðugar loftvarnir” eru.
Knúðu fram minni niðurskurð
Niðurstaða viðræðnanna, sem lauk með undirskrift vararvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, dr. Williams J. Perry og Jóns Baldvins Hannibalssonar, utanríkisráðherra, 4. janúar 1994 fól í sér að orrustuþotum, sem staðsettar voru á Keflavíkurflugvelli, yrði fækkað úr 12 í 4; viðhalda átti þeirri aðstöðu sem fyrir hendi var, til að halda úti orrustuþotum; og flotaflugstöðin yrði áfram starfrækt.
Kaldastríðinu var lokið
Á blaðamannafundi sem ráðherrarnir héldu eftir undirritunina kom fram „að dr. Perry telur að varnarþörfin á Norður-Atlantshafi, miðað við núverandi aðstæður í heiminum, sé ekki mjög mikil, né heldur telur hann að hún verði ýkja mikil í náinni framtíð. … Á þessu augnabliki sjáum við enga hernaðarlega ógn sem stafar að neinu NATO-ríki, þar með talin Ísland og Bandaríkin. En það er erfitt að segja til um hvað framtíðin felur í skauti sér.” Jafnframt kemur fram í inngangi samningsins að hann sé gerður m.t.t. til breyttra aðstæðna í öryggismálum Evrópu vegna loka kalda stríðsins. Tekið var fram að í sameiningu yrði unnið að því að draga úr kostnaði við rekstur stöðvarinnar, sem fól fyrst og fremst í sér niðurskurð hjá verktökum og lækkun launa íslensks launafólks. Samningstími var tvö ár.
Næsti frestur, áframhaldandi niðurskurður
9. apríl 1996 undirrituðu, eftir þónokkrar viðræður, Walter B. Slocombe, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra nýtt samkomulag, nú til 5 ára. Þegar drög að þeim samningi voru tilbúin sagði utanríkisráðherra á blaðamannafundi: ,,Við hljótum að skilja það á þessum aðhaldstímum á Vesturlöndum að við þurfum að verða við slíkum málaleitunum. Við teljum það þess vegna vera hagsmunamál okkar og þeirra að lækka kostnað við rekstur stöðvarinnar, þannig að hún geti skilað sömu markmiðum og áður fyrir minna fé og það verði jafnframt til þess að tryggja nauðsynlega viðveru þessa liðs hér á landi.” (Mbl. 26. mars 1996)
Í því fólst að einkaréttur verktaka yrði afnuminn í þrepum fram til 2004 og áfram hélt aðhaldið og niðurskurður á launum þess fólks sem vann hjá hernum.
Íslenskir ráðamenn lítillækkaðir
Gildistími þessa samkomulags var til 2001, síðan þá hefur ekki tekist að endurnýja samkomulag og staðfesta Bandaríkjamanna að skera niður á Miðnesheiðinni verður stöðugt meiri. Á meðan íslenskir ráðamenn þykjast ekki sjá hvert stefnir þarf starfsfólk hjá hernum að lifa í stöðugum ótta um uppsagnir, þ.e. aðrir en þeir sem nú þegar hafa fengið uppsagnarbréfin. Þessi þvermóðska íslenskra stjórnvalda veldur því að það fólk sem nú er að missa atvinnu sína hefur að litlu að hverfa.
Það kemur æ betur í ljós að Bandaríkjamenn eru farnir að ögra íslenskum stjórnvöldum m.a. með því að endurnýja ekki samning við íslensk stjórnvöld um áframhaldandi rekstur stöðvarinnar, samningurinn rann út 9. apríl 2001 fyrir næstum þremur árum. Á þeim tíma gera Bandaríkjamenn það sem þeim sýnist. Síðustu fréttir eru að Orion-kafbátaleitarvélar flotans sem að nafninu til hafa verið hér virðast vera farnar. Í Morgunblaðinu 14. febrúar s.l. segir um þetta mál: ,,Síðastliðna sex mánuði hefur hálf flugsveit haft aðsetur hér, a.m.k. tæknilega séð, en vélarnar hafa engu að síður að langmestu leyti verið að störfum annars staðar í Evrópu þar sem þörfin hefur verið talin meiri en komið til Íslands annað slagið, m.a. vegna viðhalds.” Jafnramt segir í sömu frétt Morgunblaðsins: ,,Utanríkisráðuneytið bíður enn eftir skýringum frá Bandaríkjamönnum á því hvort eða hvenær Orion-eftirlitsflugvélar verði sendar til landsins. Orion-vélarnar sem hér voru síðast héldu á brott 5. febrúar en önnur flugsveit hefur ekki verið tilnefnd til þess að koma til landsins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins liggur ekki fyrir hvort það verður gert eða ekki; mun sú ákvörðun alfarið vera á forræði aðgerðastjórnar Bandaríkjahers sem tekur í því efni væntanlega mið af þörfinni á þessum vélum annars staðar.” Það er ekki mikil reisn yfir íslenskum ráðamönnum við þessar aðstæður.
Á sama tíma hefur sú viðleitni til að lækka kostnað við rekstur stöðvarinnar, sem Halldór skildi svo vel fyrir átta árum leitt til þess að búið er að segja upp fjölda íslenskra starfsmanna og skerða kjör þeirra sem þar eru enn í vinnu. Nú eru þeir jafnvel farnir að neita að taka mark á kjarasamningum og úrskurðum Kaupskrárnefndar sem hingað til hefur þó farið með ákvarðanavald um kaup og kjör á vellinum. Síðustu fréttir herma að lögfræðingar Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis séu að undirbúa að stefna Utanríkisráðherra vegna vanefnda hersins gagnvart launafólki.
Allir sem fylgjast með þessari þróun geta séð í hvert stefnir. Jafnvel þó íslenskum stjórnvöldum takist að kreista út einn frestinn enn, eru litlar líkur miðað við reynsluna að þau noti þann frest til að búa atvinnulíf á Suðurnesjum undir þá breytingu sem óhjákvæmilega verður með brottför hersins. Það er nauðsynlegt að íslenskir ráðamenn taki sig á, horfist í augu við raunveruleikann og setji markið á framtíðaruppbyggingu á þessu svæði í stað þess að sjá starfsemina á vellinum koðna niður án þess að eitthvað komi í staðinn.
Stinga höfðinu í sandinn
Oftast þegar ég hef á undanförnum árum varað við þessari þróun og bent á að það sé nauðsynlegt að takast á við uppbyggingu þessa svæðis með brottför hersins í huga hafa menn ekki verið tilbúnir til að ræða það. Menn hafa látið nægja að hrópa að ég sé herstöðvarandstæðingur og þess vegna vilji ég bara að herinn fari. Þar með hafa þeir líka komið sér undan því að horfast í augu við það sem þeim finnst vera óþægilegt. Vissulega er það rétt að ég hef allaf verið á móti því að hér sé her, en einmitt þess vegna hef ég alltaf haft það í huga að hann kæmi til með að fara. Ég, sem jafnframt er búsettur á Suðurnesjum og hef lengi verið í bæjarstjórn Keflavíkur og svo Reykjanesbæjar, hef eðlilega haft miklar áhyggjur af atvinnuástandinu og sérstaklega sinnuleysi ráðamanna gagnvart þeim breytingum sem nú eiga sér stað. Þeir sem aldrei hafa hætt sér útí þá hugsun að hér geti verið herlaust eða a.m.k. veruleg minnkun á umsvifum hersins, eru hins vegar á engan hátt undir það búnir að takast á við þennan vanda. Þeir eiga erfitt með að eiga frumkvæði að uppbyggingu á annarri starfsemi. Þeirra viðbrögð hafa einfaldlega verið að stinga höfðinu í sandinn og þóst ekki vita neitt um þróunina. Íbúar á Suðurnesjum og þeir sem starfa nú hjá hernum eiga betra skilið.
2. hluti – Eðlileg viðbrögð
Eðlileg viðbrögð við staðföstum ásetningi Bandaríkjamanna eru að viðurkenna það einfaldlega að þeir ákveða sjálfir sína utanríkisstefu. Sjái þeir ekki ástæðu til að halda úti starfsemi sinni hér þá höfum við ekki mikil áhrif þar á. Þó það takist að tefja brottför eða samdrátt þá er sú töf dýrkeypt. Á meðan er þrengt að fólkinu eins og sagan sýnir og tíminn ekki notaður til uppbygginar til framtíðar.
Við eigum að gera þá kröfu að horft sé til framtíðar og krefjast þess að okkur sé gerð grein fyrir áætlunum um breytingar eins fljótt og auðið er svo hægt sé að vinna þær með skipulögðum hætti. Það þarf að semja um viðskilnaðinn við fólkið, landið og mannvirkin.
Fólkið
Það fólk sem unnið hefur hjá hernum og er nú þegar farið að missa sína vinnu hefur ekki að miklu að hverfa. Mikilvægt er að slíkar breytingar eigi sér stað með skipulögðum hætti og eins löngum fyrirvara og unnt er. Æskilegt hefði verið að leita leiða til að auðvelda fólki að aðlagast þessum breytingum, t.d. með starfslokasamningum við þá sem elstir eru. Það er ekki auðvelt fyrir fólk sem lengi hefur unnið á sama stað og er jafnvel komið til ára sinna að finna starf við hæfi. Eðlilegt hefði líka verið að yngra fólkið gæti nýtt hluta af sínum uppsagnarfresti og helst lengri tíma til að sækja námskeið eða að mennta sig á annan hátt til að bæta stöðu sína á almennum vinnumarkaði þegar að starfslokum kemur. Leita þarf leiða til að auðvelda fólki að taka þátt í atvinnusköpun t.d. með því að gefa því kost á að undirbúa slíka uppbyggingu áður en látið er af störfum, aðstoða við útvegun heppilegs húsnæðis og lækkun ýmiss upphafskostnaðar, m.a. með aðstoð atvinnuleysistryggingasjóðs. Þannig hefði verið hægt að að auka líkurnar á að það hefði að einhverju að hverfa þegar að starfslokum kemur. Það er augljóst að því meiri sem aðlögunartíminn er því meiri líkur eru á að árangur náist. Þess vegna er mikilvægt að ráðamenn hætti að gefa rangar upplýsingar. Þeir hafa lengst af haldið því fram um að ekki séu líkur á samdrætti, þrátt fyrir að þeir hafi vitað annað.
Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ lofuðu oddvitar Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna því að ekki yrði um samdrátt að ræða ef þeir næðu meirihluta. Þeir ættu góða að í ríkisstjórninni sem gætu tryggt hagsmuni þeirra sem vinna hjá hernum. Ungir sjálfstæðismenn stóðu með kröfuspjöld við vallarhliðin þar sem fólki var sagt að ef það kysi ekki Sjálfstæðisflokkinn væri það ávísun á atvinnuleysi, því herinn færi ef þeir yrðu ekki við völd. Sjálfstæðismenn náðu meirihluta í Reykjanesbæ, samt er samdráttur hjá hernum og bæjarstjórinn hefur nú sagt að hann hafi vitað að það yrði um samdrátt að ræða. Það er ljótur leikur að blekkja fólk á þennan hátt. Fólk sem vinnur á Keflavíkurflugvelli býr nú við mikið óöryggi og það vita þeir best sem nú hafa fengið uppsagnarbréfin.
Landið
Strax og ljóst er hver samdrátturinn verður er mikilvægt að farið verði yfir það hvaða land sem nú heyrir undir s.k. varnarsvæði geti losnað. Semja þarf um hvernig hreinsun á því verður háttað og eyðingu á ýmsum úrgangi sem fylgir þeirri starfsemi sem þar hefur átt sér stað. Jafnframt er mikilvægt að hugað sé að því hvernig það landrými geti nýst þörfum Suðurnesjamanna til atvinnu eða íbúabyggðar. Það er t.d. með ólíkindum að það land sem kallað hefur verið Nikkel svæðið sé enn ónýtt og skeri í sundur byggð Njarðvíkur og Keflavíkur, þrátt fyrir að það hafi ekki verið notað af hernum í mörg ár. Í því tilviki er herinn þó búinn að skila landinu en í stað þess að utanríkisráðuneytið leggi áherslu á að það komist í nýtingu, byggðinni til hagsbóta er það upptekið í að finna leiðir til að hafa sem mestar tekjur af sölu þess.
Mannvirkin
Hvaða mannvirki verða tekin úr notkun? Hvernig verða þau rýmd, verður það gert með tilliti til hagsmuna okkar? Hvernig á að ganga frá þeim mannvirkjum sem hætt verður að nota og verða ónothæf? Okkar krafa ætti að sjálfsögðu að vera sú að ónothæf mannvirki verði fjarlægð, hús rifin, sökklar fjarlægðir og gróðursett í sárið. Önnur mannvirki, sem gætu nýst okkur við endurreisn atvinnulífsins þurfa Íslendingar að taka yfir um leið og þess er gætt að þau verði rýmd í nothæfum einingum. Þarna er mikið af húsnæði og nú nokkuð fjölmenn byggð. Passa þarf uppá að það húsnæði sem þarna losnar fari ekki í almenna notkun, því það gæti haft veruleg áhrif á byggingarstarfemi á svæðinu. Það er því mikilvægt að skipulega verði unnið að rýmingu og um leið fundin nýting sem ekki hefur skaðleg á húsnæðismarkað byggðanna í kring. Ef tekið verður á þessu af festu og í líkingu við það sem hér er lýst eru verulegar líkur á að draga megi úr áhrifum fækkunar í herliðinu, eða brottfarar þess, á atvinnulíf á Suðurnesjum.
Í næstu grein verður bent á nokkra af þeim fjölmörgu möguleikum sem skapast við verulegan samdrátt hjá hernum á Keflavíkurflugvelli eða við brottför hans.
3. hluti – Óþrjótandi möguleikar
Óþrjótandi möguleikar
Á Suðurnesin fluttist fjöldi fólks víða að af landinu til að stunda þá atvinnu sem þar var að fá eftir að herinn hóf hér starfsemi sína. Þessi stóri vinnustaður hafði veruleg áhrif á aðra atvinnustarfsemi. Oft hafa Suðurnesin ekki notið sömu fyrirgreiðslu vegna þess að „þar var herinn”.
Nú í samdrættinum þrengir að. Það má ekki loka augunum fyrir því sem er að gerast. Nagandi óvissa um framtíðina og óundirbúinn samdráttur eins og hann kemur nú fram er eins og hægfara dauði. Lítið gerist, menn reyna að hanga í því sem þeir hafa, þora ekki að hugsa annað af ótta við að haldreipið slitni. Það verður því að gefa Suðurnesjamönnum nýja von, benda á aðra möguleika og sýna vilja til að hrinda þeim í framkvæmd. Það eru hagsmunir byggðanna á Suðurnesjum að tekið verði af alvöru á þeim vanda sem vera hersins hefur skapað á svæðinu.
Hér á eftir ætla ég að nefna nokkur dæmi sem skoða þarf af fullri alvöru, einmitt út frá því ástandi sem hér getur skapast.
Innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar
Lengi hefur verið rætt um þann möguleika að flytja innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar. Margir kostir eru við það. Búast má við að aukinn kostnaður af rekstri flugvallarins lendi á Íslendingum í framtíðin og því enn nauðsynlegra að auka nýtingu hans og losna við kostnað við rekstur annars flugvallar í tæpra 50 km. fjarlægð. Tvöföldun Reykjanesbrautar auðveldar flutning til og frá flugvellinum til höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt mætir þetta óskum margra Reykvíkinga um að losa um landið í Vatnsmýrinni.
Landhelgisgæsluna til Suðurnesja
Ein ástæða þess að íslensk stjórnvöld héldu fast í það að flugherinn væri hér með ,,trúverðugar varnir” var sú staðreynd að það kallaði á veru þyrlubjörgunarsveitarinnar hér. Á Keflavíkurflugvelli er aðstaða fyrir þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og hafnaraðstaða t.d. í Keflavíkurhöfn.
Fangelsi
Bent hefur verið á að það gæti falið í sér verulegan sparnað fyrir íslenska ríkið að nýta húsnæði Íslenskra Aðalverktakar undir nýtt ríkisfangelsi. Sé jafnframt tekið tillit til atvinnuástandsins hér og að mikilvægt er að húsnæði sem er að losna vegna minnkandi umsvifa hjá hernum fái nýtt hlutverk, virðist áhugavert að þessi kostur sé skoðaður af mikilli alvöru.
Kvikmyndaver
Nokkuð langt er orðið síðan bent var á möguleika á að nýta hluta af aðstöðunni á Keflavíkurflugvelli undir kvikmyndaver. Þarna eru stór hús sem hægt er að nýta til slíkrar starfsemi. Sumir gerðu góðlátlegt grín að þessari hugmynd þegar hún var fyrst sett fram. Sú gróska sem verið hefur í kvikmyndagerð hér á landi gerir þessa hugmynd þó enn áhugaverðari. Framtíðarmöguleikar okkar á þessu sviði eru miklir og þessi hugmynd því verulega áhugaverð, fáist menn til að vinna í þessu máli af alvöru.
Háskólabær, orkugarðar
Nýlega kom fram að sérstök staðarvalsnefnd vegna Tækniháskólans er nú að skoða sjö hugsanlega staði fyrir nýja byggingu skólans. Búist er við að nefndin skili af sér tillögum til menntamálaráðuneytisins á næstu dögum. Áhugaverð staðsetning fyrir skóla á háskólastigi gæti einmitt verið á Suðurnesjum. Á Keflavíkurflugvelli er mikið húsnæði sem kemur til með að losna, húsnæði sem ekki má fara á almennan markað, en gæti hentað vel sem stúdentagarðar. Þar eru líka margvíslegir aðrir kostir s.s. félagsaðstaða, leikskóli, íþróttahús og þannig mætti áfram telja. Það fólk sem þar býr nú hefur nýtt margvíslega þjónustu í nágrannasveitarfélögunum. Þess vegna má tala um nokkra umframgetu í þjónustu t.d. í Reykjanesbæ. Fjöldi fólks á Suðurnesjum sækir háskólanám til Reykjavíkur. Tvöföldun Reykjanesbrautar og hugsanlegur innanlandsflugvöllur gerir Suðurnesin að tilvöldu svæði fyrir háskóla.
Hugmyndir hafa verið uppi um orkugarða sem tengst gætu því háhitasvæði sem hér er. Hitaveita Suðurnesja er leiðandi aðili í orkunýtingu. Slík aðstaða í tengslum við háskóla gæti skapað gott sambýli.
Heilsutengd ferðaþjónusta
Töluverðir möguleikar geta falist í móttöku ferðamanna sem hingað vilja leita sér til heilsubótar. Bláa Lónið er leiðandi fyrirtæki á því sviði. Margir telja að hægt sé að færa út kvíarnar og bjóða jafnvel uppá margvíslegar læknisaðgerðir. Á Keflavíkurflugvelli er sjúkrahús, við brottför hersins gæti skapast möguleiki á að nýta það í þessum tilgangi.
Styrking ferðaþjónustunnar
Það sem hér hefur verið nefnt mun jafnframt nýtast til að styrkja enn frekar almenna ferðaþjónustu á svæðinu. Möguleikarnir eru miklir og má t.d. nefna safn um landafundina sem gerði grein fyrir siglingum víkinga hingað og héðan til vesturheims. Hér er til staðar skip, Íslendingur, sem er eftirlíking af skipum forfeðra okkar og því hefur verið siglt þá leið sem þeir sigldu forðum. Hér eru miklir möguleikar sem kæmu til með að styrkjast með nýjum áherslum í atvinnuuppbyggingu á svæðinu.
Stjórnvöld hafa brugðist
Því miður hafa stjórnvöld ekki látið hagsmuni Suðurnesjamanna ráða sínum gjörðum. Hagsmunir þeirra sem starfa hjá hernum eru ekki þeir að vera í stöðugri óvissu um framtíðina, að kjör þeirra séu skorin jafn og þétt niður og að þrengt sé að þeim á allan hátt. Þeirra hagsmunir eru fyrst og fremst að hafa trausta og örugga vinnu, ekki endilega að hafa vinnu hjá bandarískum her. Stjórnvöld þurfa því að beita sér á allan hátt til að efla atvinnu til mótvægis við þann samdrátt sem nú á sér stað. Leita þarf allra leiða til uppbyggingar og möguleikarnir eru margvíslegir, mun fleiri en hér hafa verið nefndir. Til að nýta þá þurfa menn hins vegar að vera tilbúnir að horfa til framtíðar og hætta að einblína á hvort þeir vilji af einhverjum ástæðum hafa hér her eða ekki.