Steinunn Þóra Árnadóttir alþingismaður og friðarsinni flutti eftirfarandi ávarp við Reykjavíkurtjörn 6. ágúst sl.
Ágæta samkoma,
Í kvöld fleytum við kertum hér á Reykjavíkurtjörn til að minnast þeirra sem létu lífið eða örkumluðust 6. og 9. ágúst 1945, þegar Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjum yfir Japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki.
Yfir 200 þúsund óbreyttir borgarar létu lífið í þessum árásunum. Tugir þúsunda strax við sprengingarnar, aðrir dagana og vikurnar á eftir. Að auki hefur fjöldi fólks í áranna rás misst heilsuna eða látist úr sjúkdómum eins og krabbameini, geislaveiki eða genagöllum sem má rekja beint til sprengjanna – og fólk er enn að deyja – eins og við vorum svo átakanlega minnt á í sjónvarpsfréttum í vikunni.
Þó svo að við minnumst þess nú í kvöld að 70 ár eru liðin frá þessum voðaverkum og fögnum því auðvitað að kjarnorkuvopnum hafi ekki aftur verið beitt í hernaði, fer því fjarri að kjarnorkuógnin sé úr sögunni.
Vissulega var jákvæður og sögulegur samningur gerður við Írani fyrir aðeins nokkrum vikum um að Íran muni ekki þróa kjarnorku til nota í hernaðarlegum tilgangi. Því ber að fagna.
Og sem betur fer hafa lang flestar þjóðir heimsins engin áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Þannig hafa 113 ríki hvatt til þess á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að kjarnorkuvopn verði bönnuð og þeim eytt. Því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki kosið að skipa sér í þann hóp.
Í dag eru ríkin sem búa yfir kjarnorkusprengjum 9 og áætlað að sprengjurnar séu 16 þúsund talsins. Það eru vissulega færri sprengjur en þegar verst lét á tímum kalda stríðsins – en er eftir sem áður miklu meira en nægjanlegt til að eyða öllu lífi á jörðinni mörgum sinnum. Obbann af þessum sprengjum eiga Rússar og Bandaríkjamenn.
Vandinn er hinsvegar sá að í stað þess að keppast um að eiga sem flestar kjarnorkusprengjur gengur kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup samtímans út á það að eiga bestu kjarnorkusprengjurnar.
Þess vegna hafa annarsvegar verið þróaðar sprengjur sem eru mörgum sinnum öflugri en þær sem varpað var yfir Hiroshima og Nagasaki. Í nýlegri skýrslu alþjóðlega Rauða krossins var bent á það að ef slík sprengja væri sprengd yrðu afleiðingarnar ekkert í líkingu við þær sem urðu fyrir 70 árum – heldur margfallt meiri og verri.
Hinsvegar er verið að búa til svokölluð strategísk kjarnorkuvopn – sem herstjórnendur telja að hægt verði að nota með staðbundnari eyðileggingarmætti, þar sem geislavirkni komi einungis til með að ná til takmarkaðs svæðis.
– Og það er nákvæmlega þar sem ein helsta kjarnorkuvá samtímans liggur. Í því að stjórnmálamenn og herstjórnendur telji í lagi að beita þesskonar kjarnorkuvopnum – því skaðinn verði einungis staðbundinn.
Sjálfsblekkingin verður varla meiri eða hættulegri.
Og raunar er þessi skelfilega vegferð þegar hafin, þar sem geislavirk efni eru notuð í vopn til að auka eyðileggingarmáttinn. Sprengjur með sneyddu úrani hafa nefnilega verið notaðar í mörgum af styrjöldum liðinna ára, þar á meðal í Írak. Heilbrigðisstarfsmenn hafa bent á hörmulegar afleiðingar þessara vopna og sýnt fram á hvernig tíðni alvarlegra fæðingargalla og fósturskemmda er margfaldur á þeim svæðum þar sem þau hafa verið notuð. Geislavirkni er því bætt ofan á þær hörmunar sem stríð leiða yfir almenna borgara.
Við Íslendingar státum okkur oft af því að vera herlaus þjóð. Til að geta hinsvegar staðið undir nafni sem raunveruleg friðelskandi þjóð verðum við að krefjast þess af ráðamönnum okkar að þeir tali máli friðar og afvopnunar á meðal þjóða heimsins. Og þá ekki hvað síst kjarnorkuafvopnunar.
Raunin er hins vegar sú að Íslendingar eru aðilar að hernaðarbandalagi sem byggir tilveru sína að miklu leyti á kjarnorkuvopnum. Kjarnorkuvígbúnaður er hornsteinn í stefnu NATÓ og bandalagið áskilur sér rétt til notkunar kjarnorkuvopna að fyrra bragði. Það er vegna aðildarinnar að Nató sem Ísland hefur ítrekað setið hjá eða greitt atkvæði gegn tillögum sem miða að útrýmingu kjarnorkuvopna. Við erum hluti af vandanum en ekki lausninni.
Við verðum að víkja af þessari braut. Við verðum að hafna kjarnorkubandalögum, hvaða nafni sem þau nefnast. Og við verðum að krefjast þess að öll þau ríki sem hafi yfir þessum vítisvélum að ráða hætti tafarlaust þróun og framleiðslu þessara vopna og eyði þeim sem fyrir eru. Við verðum að berjast fyrir stofnun og stækkun kjarnorkuvopnalausra svæða og að þeir afvopnunarsáttmálar sem þegar eru við lýði sé virtir.
Aðeins þannig getum við tryggt að það verði aldrei aftur annað Hiroshima. Að það verði aldrei aftur annað Nagasaki. Að kjarnorkuvopnum verði aldrei aftur beitt.
Takk fyrir mig.