Ályktun frá miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga:
Miðausturlandastríðið sem staðið hefur sleitulítið frá innrás Bandaríkjanna og bandalagsþjóða þeirra inn í Írak árið 2003 og teygt sig víða um lönd, hefur enn tekið á sig nýjar og furðulegar myndir. Nú horfir heimsbyggðin upp á árásir Tyrklandsstjórnar gegn Kúrdum jafnt innan sem utan landamæra sinna, undir yfirskyni stríðs gegn hryðjuverkum og hinum alræmdu ISIS-sveitum.
Fáránleiki þessa málatilbúnaðar ætti að vera öllum ljós, enda má auðveldlega færa fyrir því rök að Tyrkir hafi öðrum fremur stuðlað að uppgangi ISIS-hreyfingarinnar til að þjóna eigin hagsmunum innan grannríkja sinna. Markmið Tyrklandsstjórnar er að berja niður eðlilegar kröfur kúrdnesku þjóðarinnar um sjálfsákvörðunarrétt og stofnun eigin ríkis, sem og að ala á misklíð þjóðarbrota í von um stundarvinsældir heimafyrir.
Nú bregður svo við að Nató-ríki hafa lagt blessun sína yfir málflutning tyrknesku stjórnarinnar og styðja framferði hennar. Með kaldrifjuðum hætti er Kúrdum því eina ferðina enn fórnað sem peði í valdatafli vestrænna ríkja í þessum heimshluta. Með aðildinni að Nató eru Íslendingar stuðningsaðili þessa gjörnings. Stækkar því enn sá smánarblettur sem af Nató-aðildinni hlýst. Samtök hernaðarandstæðinga minna því á þá sjálfsögðu kröfu að Ísland gangi úr Nató og standi utan allra hernaðarbandalaga.