Þórarinn Hjartarson á Akureyri sendi Friðarvefnum þessa grein til birtingar.
Nú er hafið efnahagslegt stríð gegn Rússlandi. Viðskiptaþvinganir og diplómatísk einangrun. Bandaríkin eiga frumkvæðið. Evrópuríkin fylgja á eftir í halarófu – að vanda. Ísland veitir virkan stuðning – eins og venjulega þegar ófriður er í boði. Ástæðan er íhlutun Rússlands í málefni Úkraínu. Nú eru stóru vopnin skekin.
Ásakanir Rússa um vestræna íhlutun í Úkraínu, tal Pútíns um að Bandaríkin og Vesturveldin hafi staðið á bak við valdaskiptin í Úkraínu og þar með umsátur um Rússland eru hins vegar afgreidd í vestrænni pressu sem samsæriskenning. Hlustið bara á eða lesið íslensku pressuna. Vestræn íhlutun er þar aldrei til umræðu. Óheillavænleg þróun mála á Krím er sprottin af valdahroka Pútíns, punktur og basta. Pútín er æ oní æ líkt við Hitler. Fyrstur til þess varð Zbigniew Brzezinski, gamli utanríkisráðgjafi Carters forseta sem enn hefur háa stjörnu og sem Obama kallar „one of our most outstanding thinkers“. Daginn eftir fylgdu bæði Hillary Clinton og John McCain í kjölfarið og brúkuðu Hitlerstimpilinn á Pútín. Garry Kasparov tönglaðist á því í viðtali við Þóru Arnórsdóttur og síðan hefur hver étið það upp eftir öðrum. Sjá: Brzezinski compared Putin to Hitler.
Nú skal horft í austur og rök færð fyrir því að vestræn íhlutun sé einmitt afgerðandi í Úkraínu og að umsátrið um Rússland sé raunverulegt.
I. Bandarískir strategistar.
Zbigniew Brzezinski er einn mikilla áhrifamanna um bandaríska stjórnlist síðustu áratuga. Í bók sinni The Grand Chessboard frá árinu lýsti hann valdataflinu mikla og nýjum möguleikunum í nýrri stöðu eftir fall Sovétríkjanna:
„Veldi sem ræður Evrasíu ræður tveimur af þremur þróuðustu og efnahagslega frjósömustu svæðum heims. [Um ris Ameríku skrifar hann:] …Í fyrsta sinn í sögunni kemur fram ekki-evrasískt veldi sem er ekki aðeins leiðandi gerðadómari um valdaskipan í Evrasíu heldur er æðsta vald á hnettinum. Ósigur og hrun Sovétríkjanna var lokaskref í hinni hröðu valdatöku vesturhvelsins með Bandaríkin sem eina, og í raun fyrsta, hnattveldið.“ (1. Kafli, „Hegemony of a New Type“) Skrif Brzezinskis um Úkraínu eru áhugaverð: „Úkraína, nýr og mikilvægur reitur á evrasíska taflborðinu, er hnattpólitískur hverfipunktur af því sjálf tilvera hennar sem sjálfstætt ríki hjálpar til að breyta Rússlandi. Án Úkraínu hættir Rússland að vera evrasískt veldi…. En vinni Rússland aftur yfirráð yfir Úkraínu.. fær Rússland sjálfkrafa aftur efni til að verða voldugt heimsveldi sem spannar Evrópu og Asíu.“ (2. Kafli, „The Eurasian Chessboard“)
Opinskáar vangaveltur Brzezinskis eru óvenjulegar af því Bandarískir strategistar tala yfirleitt lítið á torgum og láta altént ekki uppi strategískar áætlanir sínar. Undantekningar eru fáar. En Wesley Clark var svartur sauður. Hann var um tíma einn þessara manna, var m.a. yfirhershöfðingi NATO í Kosovo-stríðinu. Seinna fór hann á bak við félaga sína, ræddi opinskátt þeirra ráðabrugg og gaf okkur þannig gægjugat inn í launhelgar veldsins. Hann sagði frá fundi sínum árið 1991 með Paul Wolfowitz, þá vararáðherra og síðar varnarmálaráðherra. Wolfowitz sagði þar að Bandaríkin hefðu nú 5-10 ár til að „hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm.“ Nokkrum vikum eftir 11. september 2001, þegar innrás í Afganistan var nýhafin kom Clark aftur við í Pentagon – og sagði frá því:”…í Pentagon í nóvember 2001 hafði einn af yfirhershöfðingjunum tíma fyrir spjall. Undirbúningur fyrir innrás í Írak var í fullum gangi, sagði hann. En það var fleira í gangi en hún. Hún var rædd, sagði hann, sem liður í fimm ára hernaðaráætlun, og alls var um sjö lönd að ræða, fyrst Írak, síðan Sýrland, Líbanon, Líbíu, Íran, Sómalíu og Súdan (http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=TY2DKzastu8)
II. Áform að veruleika.
Síðari þróun staðfestir að hér töluðu menn nálægt háborg valdsins – og að þessi stórbrotnu áform hafa raunverulega ráðið gerðum Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Og þau hafa að verulegu leyti gengið eftir. Í samræmi við þankagang Brzezinskis hefur það verið mikið forgangsmál bandarískrar utanríkisstefnu að veikja Rússland. Árið 1991 leystust Sovétríkin upp. Gorbatsjov forseti sætti sig þá við þjóðaratkvæði um sjálfstæði Úkraínu og samþykkti sameiningu Þýskalands gegn því loforði frá Bush eldra að NATO færði ekki lönd sín í austur! Bandarískir strategistar lögðu síðan gjörva hönd að valdaskiptunum í Rússlandi. Aðferðin var einkum sú að styðja til valda rétt þenkjandi hópa og kaupa aðra upp. Rússland var svo sett í sjokkmeðferð frjálshyggjunnar í umsjá AGS og Alþjóðabankans. Kúrinn var: einkavæðing, blóðugur niðurskurður og afreglun í skiptum fyrir lán. Jeltzin var lánardrottnum sínum eftirlátur og Clinton hafði hann í lengstum taumi. Rússland hætti í skjótri svipan að vera til sem Evrasíu-veldi og sem raunverulegur mótspilari við taflborðið mikla. Í hugum Rúsa er 10. áratugurinn mikill niðurlægingartími. Þó ekki væri fyrir annað en hrun lífskjara. Á fjórum árum, 1991-1995, lækkaði meðalævilengd rússneskra karlmanna um 5 ár, frá 63 árum til 58.
III. Pútíntíminn.
Árið 2000 tok Pútín við sem forseti. Um það leyti snérist efnahagsþróun landsins við frá hörmungarhaglægð 10. áratugarins til vaxtar. Pútín snéri við sjokkeikavæðingunni og þjóðnýtti aftur nokkur af risafyrirtækjunum sem einkavædd höfðu verið. Hann hefur nokkuð aukið hernaðaruppbyggingu Rússlands að núju. Á utanríkissviðinu snérist hann einnig gegn þeirri þróun sem orðin var – að heimurinn væri „einpóla“ þar sem Bandaríkin og nánustu bandamenn höfðu fullkomin yfirráð. Rússland tók í samvinnu við Kína að mynda andstöðupól sem rekur stundum fleyga í hnattpólitísk áform vestrænna strategista.
IV. Svar Vestursins: árásarstefna.
Þróuninni undir stjórn Pútins hafa Vesturveldin mætt með með fjandskap og æ herskárri afstöðu með hverju nýju skrefi í þróuninni. Aðferðin er að reyna að einangra Pútín, rugga bátnum“ hjá honum með því að styðja við innlend andstöðuöfl og sauma jafnframt að vinaríkjum Rússa.
V. Útþensla NATO.
Sovétríkin og Warsjárbandalagið leystust upp og hurfu kringum 1990. Þar með var horfinn grunnurinn sem NATO hvíldi á en bandalagið leysti sig ekki upp heldur breytti sér skjótlega hnattrænt bandalag. Stækkunin bandalagsins með nýjum aðildarríkjum var fyrst og fremst inn á gamla svæði Sovét og Austurblokkarinnar. Sú stækkun hefur verið nær alveg samstíga stækkun ESB. Yfirleitt er ESB skrefi á undan, innganga í ESB er næsti undanfari NATO-aðildar. NATO er þannig komið upp að landamærum Rússlands og ríki með s.k. „stuðningsaðild“ að NATO og með aðildarumsóknir eru í Kákasuslöndum, Mið-Asíu og á allar hliðar við Rússland (því að handan Beringsunds er Kanada).
VI. Vopnabirgðir.
Ef skoðaðar eru nýlegar tölur um útgjöld til hernaðar gefur það nokkra mynd af því hvaðan mesta hættan kemur. Þá stóðu Bandaríkin fyrir 39% útgjalda en Rússland stóðu fyrir 5,2% þrátt fyrir heruppbyggingu Pútins. Bandaríkin hafa yfir 700 utanlands-herstöðvar um allan heim en Rússland hefur nú eina herstöð utan lands (flotastöð í Sýrlandi) eftir að Krímstöðin var innlimuð í Rússland. Aðildarríki NATO eru með vel yfir 60% herútgjalda og USA og NATO hafa hernaðarsamvinnu við mikinn meirihluta ríkja heims svo Rússland er í samanburðinum mjög einangrað. Nýjustu tölur frá SIPRI um vopnaútgjöld eru frá 2013 fyrir 2012: http://www.globalissues.org/print/article/75#WorldMilitarySpending
VII. Vinir Rússa „hreinsaðir upp“.
Wolfowitz sagði 1991 að Bandaríkin þyrftu að „hreinsa upp gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna“ á næsta áratug. Sá áratugur leið og komið var 2001. Þá hrundu tvíburaturnarnir og bandarísku strategistarnir skilgreindu betur óvini Bandaríkjanna. Bush yngri og sendiherra hans hjá SÞ. John Bolton tilnefndu „öxulveldi hins illa“: Írak, Íran, Norður-Kóreu, Kúbu, Líbíu og Sýrland. Allt eru það lönd í flokknum sem Wolfowitz nefndi „gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna“. Eftir fall Sovétsins hafa þau fyrst og fremst unnið sér það til óhelgi að eiga vingott við Rússland og Kína og e.t.v. að vera ekki galopin fyrir hnattvæðingu vestrænna auðhringa. Bandaríkin með Evrópuríkin í eftirdragi hafa síðan ráðist á þau eitt af öðru með beinum innrásarstríðum staðgengilsstríðum og efnahagslegum refsiaðgerðum. Markmiðið er „valdaskipti“, gera þau að „skjólstæðingsríkjum“ Vesturblokkar. Eftir að Írak var sprengt í tætlur átti Rússland aðeins tvo bandamenn í Miðausturlöndum, Sýrland og Íran. Annar þeirra engist nú sundur og saman í staðgengilsstríði (staðgenglar studdir af Vestrinu), hinn býr við umsátur NATO-veldanna.
VIII. Land í herkví.
Eftir fall Sovétríkjanna og einkum eftir aldamótin 2000 hafa Bandaríkin og NATO fært eldflaugaskotpallana upp að landamærum Rússlands og í næsta nágrenni. Kjarnorkuvopnaskotpallar eru fyrir löngu komnir upp í NATO-löndunum Póllandi, Tékklandi, Rúmeníu og Búlgaríu. Á NATO-þingum er jafnan fullyrt að eldsflaugarnar beinist að Íran (sem á engin kjarnorkuvopn) en flestir vita að það er brandari. NATO-herstöðvar eru auðvitað í Eystrasaltsríkjum og nokkrum fyrrverandi Mið-Asíulýðveldum Sovétríkajnna, NATO á í nánu hernaðarsamstarfi við Finnland og Georgíu o.s.frv. http://www.globalresearch.ca/encircling-russia-us-nato-military-bases-in-eastern-europe/15824
IX. Framlag „mannréttindasamtaka“.
Á seinni árum hafa vestrænir strategistar, leyniþjónustur og stjórnvöld þróað aðferðir til að grafa undan „óæskilegum“ stjórnvöldum með hjálp „frjálsra félagasamtaka“ og stofnana sem starfa innan viðkomandi landa og „lýðræði“ og mannréttindi“. Bandaríkin fara fyrir á þessu sviði sem öðrum. Þaðan er stýrt öflugum samtökum sem starfa á heimsvísu og eru nátengd CIA. Öflugustu samtökin í þeim flokki eru US Agency for International Development (USAID) sem eru grein af Utanríkisráðuneytinu í Washington, og eftir því fjársterk. Önnur afar öflug, einnig á fjárlögum, eru National Endowment for Democracy (NED), svo er International Republican Institute (IRI), National Democratic Institute (NDI), Freedom House og seinna kom til International Center for Non-Violent Conflict (ICNC). Öll þessi samtök og stofnanir veita gríðarmiklu fjármagni sem rennur til pólitískra flokka, vestrænt sinnaðra „mannréttindasamtaka“, stúdentasamtaka og hreyfinga í viðkomandi landi. Hér er stutt og glögg grein um efnið: http://www.globalresearch.ca/colored-revolutions-a-new-form-of-regime-change-made-in-the-usa/27061 Þegar Victoria Nuland, bandaríski varautanríkisráðherrann, sagði í ræðu að Bandaríkin hefðu varið 5 milljörðum dollara í að byggja upp stjórnarandstöðuna í Úkraínu átti hún væntanlega fyrst og fremst við stuðning gegnum USAID. En formlega frjáls félagasamtök eins og NED ku hafa stutt ein 65 prósékt innan Úkraínu fjárhagslega. Sjá: http://www.sott.net/article/273602-US-Assistant-Secretary-of-State-Victoria-Nuland-says-Washington-has-spent-5-billion-trying-to-subvert-Ukraine .
X. Litabyltingar.
Í samræmi við áætlanagerð amerísku strategistanna sem nefnd var í upphafi hefur starf umræddra „mannréttindasamtaka“ beinst sérstaklega inn á svæði gömlu Austurblokkarinnar og Sovétríkjanna. Mjög mikilvægur þáttur þess starfs eru sk. „litabyltingar“. Þekktastar undir því nafni eru „rósabyltingin“ í Georgíu og „appelsínugula“ byltingin í Úkraínu. Fyrsta byltingin með öll einkenni „litabyltinga“ var gerð í Serbíu árið 2000 þegar Miloshevic var steypt af stóli. Öll bandarísku samtökin og stofnanirnar sem talin voru hér að ofan voru þar djúpt innblönduð undir forustu USAID. M.a. stóð National Democratic Institute fyrir námskeiði fyrir serbneska andstöðuforingja í Búdapest í október 1999. Þegar svo „litabyltingarnar“ voru gerðar í Georgíu 2003 og Úkraínu 2004 skutu upp kolli sömu lógó og merki, sömu kröfur og slagorð og í Serbíu og aðgerðasinnar frá serbnesku samtökunum Otpor ferðuðust austur á nýjar byltingarstöðvar. Mikilvægur stuðningur hinna bandarísku samtaka var í formi fjölmiðlunar (blöð, útvarpsstöðvar, sjónvarpsstöðvar m.m.) en einnig var pólitísk þjálfun mikilvæg og svo fyrst og síðast peningaflæði. Fjórða „litabyltingin“ var svo „túlípanabyltingin“ í Kirgisíu 2005. Seinna kom „arabíska vorið“ þar sem mjög margt af því sama endurtók sig. Kanadíski rithöfundurinn Andrew Gevin Marshall hefur gert góða úttekt á hinum eldri „litabyltingum“: http://dandelionsalad.wordpress.com/2009/11/03/colour-coded-revolutions-and-the-origins-of-world-war-iii-part-2-by-andrew-gavin-marshall/
XI. Vestrið bak við tjöldin í Kænugarði.
Valdaránið í Úkraínu 2014 er „litabylting“ af bandarísku vörumerki og fingraför vestrænnar leyniþjónustu eru þar út um allt. Í frægu „Fuck the EU“ símtali sem lak út afhjúpaði Victoria Nuland ítarleg bandarísk plön um ný stjórnvöld í Úkraínu, nefnilega með „The big three“: Föðurlandsflokkurinn undir Yatsénjúk verði höfuðið í bandalagi við UDAR-flokk Klitschos og svo Svoboda-foringjann Tiahnybok. Tveir þeir síðanfenfndu eigi að mynda bandalag með Yatsénjúk en vera utan stjórnar, sagði Nuland. Allt þetta gekk eftir. Sjá: http://steigan.no/2014/02/26/victoria-nuland-fuck-the-eu/ Ég ætla ekki hér að fjalla um valdaránið í Kænugarði. Vísa aðeins í grein eftir Steve Weissman sem sýnir hvernig Geoffrey Pyatt, bandaríski sendiherrann í Úkraínu (sá sem Nuland var að tala við í hinu fræga símtali) og hans teymi fjármagnaði og skipulagði valdaránið gegnum ýmis „frjáls félagasamtök“: http://readersupportednews.org/opinion2/277-75/22758-meet-the-americans-who-put-together-the-coup-in-kiev
XII. ESB er forgarður NATO.
ESB bauð Úkraínu samning sl. vor og bauð landinu harða kosti í anda Grikklands með blóðugum niðuskurði undir eftirliti AGS. Úkraína er vissulega mikilvæg sem markaður og hráefnabúr ekki síst fyrir þýskan iðnað. En mikilvægasti þáttur málæsins er samt hernaðarlegur og valdapólitískur. Í samningnum er t.d. eftirfarandi klausa sem varla hefur róað Rússa: The Association Agreement will promote gradual convergence on foreign and security matters with the aim of Ukraine’s ever deeper involvement in the European security area.” Og þetta er aðalmálið varðandi íhlutanir Vesturveldanna í Úkraínu. Að koma landinu inn í vestræna hernaðarkerfið. Auðlindir Úkraínu eru þrátt fyrir allt númer tvö.
XIII. Viðbrögð Rússa skiljanleg.
Með íhlutunum sínum í málefni Úkraínu gengu NATO-veldin skrefi lengra en nokkru sinni. Með vopnuðu valdaráni ruddu þau til valda í forgarði Rússlands ríkisstjórn sem er a.m.k. hálffasísk og ákaflega Rússlands-fjandsamleg. Afleiðingin er að nú er ófriðvænlegra í Evrópu en í áratugi. Það er ekki hægt að fagna viðbrögðum Rússa en þau eru fullkomlega skiljanleg. Ég vil að lokum benda uppistöndurum heimsins eftirfarandi setningu frá John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna þegar hann snupraði Pútín fyrir framferðið: “You just don’t, in the 21st century, behave in 19th century fashion by invading another country on completely trumped up pretext.”