Eftirfarandi ályktun var samþykkt á landsfundi SHA sl. sunnudag:
Á dögunum fjölgaði enn í hópi þeirra íslensku sveitarfélaga sem friðlýst eru fyrir geymslu og umferð kjarnorku-, sýkla- og efnavopna. Nú eru einungis þrjú sveitarfélög eftir, sem ekki hafa gert slíkar samþykktir; Grímsnes- og Grafningshreppur, Reykjanesbær og Skútustaðahreppur. Þessar undirtektir eru í samræmi við skýran meirihlutavilja þjóðarinnar, sem ekki vill sjá slík vopn í landinu.
Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga minnir á að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar frá árinu 2009 var gert ráð fyrir því að Ísland og íslensk landhelgi yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Fundurinn skorar á Alþingi að standa við stóru orðin og friðlýsa landið fyrir lok kjörtímabilsins.