Langt er um liðið frá því að Samtök hernaðarandstæðinga urðu við ákalli erlendra friðarhreyfinga og hvöttu íslenskar sveitarstjórnir til að samþykkja friðlýsingu sína fyrir kjarnorku-, efna- og sýklavopnum. Skemmst er frá því að segja að árangurinn varð vonum framar. Fyrstu misserin sóttist baráttan hægt, en að lokum tókst að fá velflest sveitarfélög til að gera slíkar samþykktir og mun árangurinn hér á landi vera betri en í velflestum öðrum löndum.
Tvær af þeim fimm sveitarstjórnum sem ekki höfðu fengist til að samþykkja friðlýsingu hafa nú breytt afstöðu sinni. Það eru Sandgerðisbær og Vogar á Vatnsleysuströnd. Íbúum þessara sveitarfélaga er því innilega óskað til hamingju með að bætast í hóp hinna friðlýstu, sem leggja lóð sín á vogarskálar afvopnunar í heiminum.
Þrjú sveitarfélög hafa þó enn ekki sinnt kallinu. Það eru Reykjanesbær, Skútustaðahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur.