Ég veit ekki mikið um Jens Stoltenberg. Hann er norskur stjórnmálamaður, og sem slíkur er hann líklega ekkert verri eða betri en önnur eintök úr þeirri stétt.
En mig langar til að leggja út af nokkrum orðum sem Stoltenberg lét falla í minningarguðþjónustu og hafa flotið um netheima í kjölfar hryðjuverkanna í Osló og Útey. Orðin koma upprunalega frá Helle Gannestad, ungri konu í Verkamannaflokknum sem fylgdist skelfingu lostin með atburðum föstudagsins úr fjarlægð og póstaði hnitmiðuðum skilaboðunum á Twitter:
„Ef einn maður getur sýnt af sér svona mikla illsku, hugsið ykkur þá hversu mikinn kærleik við getum skapað saman.“
Þetta eru fleyg orð og mikilvæg. Þau verða enn mikilvægari fyrir það hvaðan þau berast út í heiminn – úr munni stjórnmálamanns sem er kjörinn leiðtogi milljóna. Þau verða mikilvægari fyrir það hvenær orðin falla – eftir að þjóð hans hefur verið höggvin í bakið á hæpnum og hatursfullum forsendum.
Þau verða mikilvægari fyrir það hvaða orð hann hefði getað valið í staðinn; hvaða orðum margir hefðu búist við frá manni sem hefur völd og lifir og hrærist í stjórnmálaheimi þar sem átök eru tíð.
Hvað er Stoltenberg að segja með þessum ummælum og fleirum á svipuðum nótum? Skilaboðin eru þessi: Elskum okkur út úr ofbeldinu. Þeir sem elska verða alltaf fleiri og sterkari en þeir sem hata.
Skilaboðin eru til marks um mikla manngæsku og líkleg til að blása Norðmönnum kærleiksríkt líf í brjóst á stund þar sem auðvelt er að vilja hata og hefna.
„Við munum elta þá uppi,“ sagði annar þjóðarleiðtogi fyrir tíu árum. „Réttlætið mun hafa betur,“ sagði hann líka – og réðist svo inn í tvö lönd í leit að réttlætinu, sem enn hefur ekki fundist, nema síður sé.
Á þessum tveimur þjóðarleiðtogum er mikill og mikilvægur munur. Annar hatar og hefnir, hinn hvetur og elskar.
John Lennon, sonur minn og þú
„Stríðinu er lokið – ef þú vilt það.“
Þetta sagði John Lennon, annar maður sem skildi máttinn í kærleikanum og einfaldleikann í leitinni að friði. Þetta skilur átta ára sonur minn líka. Hann skilur yfirlýsingu Lennons vegna þess að ég hef útskýrt hana fyrir honum og geri mitt besta á hverjum degi til að iðka sjálfur frið og kærleik. Saman höfum við sonur minn horft á friðarsúluna varpa einföldu og ákveðnu ljósi friðar frá Viðey, við höfum rætt um hugmyndina á bakvið friðarsúluna, rætt um boðskap John Lennons og Yoko Ono, rætt um að gefa friðinum séns, rætt um að friður sé alltaf innan seilingar ef maður vilji það, rætt um að friður sé ákvörðun, rætt um að ofbeldi sé aldrei réttlætanlegt, rætt um að ást í garð sjálfs sín og annarra sé ákvörðun – sáraeinföld ákvörðun um að ljósið sé sterkara en myrkrið.
Af hverju dreg ég son minn og uppeldisaðferðir inn í þetta samhengi? Vegna þess að ég hef ákveðið að ég þurfi að ræða við hann að fyrra bragði um stríð og frið, ást og hatur.
Að mér beri að gera það, sem foreldri.
Að ég verði að gera það.
Af hverju? Vegna þess að nú þegar hafa fjölmargir aðrir rætt málefni heimsins við hann, án þess að spyrja mig fyrst og án þess að hann hafi sjálfur gefið til þess sérstakt leyfi. Þar er ég að vísa í málflutning samfélagsins í heild sinni; þau óbeinu skilaboð haturs og réttlættrar hefndar sem berast okkur öllum, daglega.
Börn hafa ekki fullkominn skilning á heiminum, en þau eru næmari en við fullorðna fólkið. Þau skynja strauma og megindrætti í kringum sig, stundum á forsendum upplýsinga og stundum á forsendum tilfinninga. Og út frá þessum megindráttum draga þau ályktanir og nota þær til að skapa sér forsendur til að lifa eftir.
Hvaða skilaboð sendir samfélagið börnum (og okkur öllum)? Skilaboð friðar? Eða skilaboð réttlátrar reiði, hefndar, átaka, aðskilnaðar og ofbeldis? Teiknimyndir, barnamyndir og ævintýramyndir snúast mjög margar um baráttu góðs og ills, enda er sú barátta miðlæg í allri mannlegri tilvist – líka innra með hverri manneskju.
Börnin horfa, heyra og skynja öll átökin; hlusta á foreldra sína takast á, sjá bílstjóra rétta öðrum fingurinn og heyra fótboltaáhangendur öskra hatursfullar athugasemdir í átt að dómaranum og hinu liðinu.
Fréttir fjalla um átök og glæpi. Umfjöllun um stjórnmál hverfist í kringum persónuleg átök og skotgrafahernað og stjórnmálaleiðtogar vega hver annan í orðum og frösum eins og það sé hluti af starfslýsingu þeirra.
Skilaboðin frá samfélaginu eru þessi, í nokkrum stuttum punktum:
Ofbeldi er sjálfsagður hlutur.
Ofbeldi er mjög oft réttlætanlegt.
Ofbeldi á rétt á sér ef málstaðurinn er góður.
Ofbeldi á rétt á sér ef þinn málstaður er góður.
Hefnd er eðlilegt viðbragð við árás.
Í fjölmiðlum birtist kærleikurinn á tyllidögum og ögurstundum; kærleikur og ást birtast okkur sem síðasta fréttin í fréttatímanum – örstutt „human interest“ frétt um börn eða dýr, krúttleg neðanmálsgrein, aukaatriði.
Ég vil ekki að sonur minn líti á ofbeldi sem sjálfsagðan hlut. Ég vil ekki að hann fái næði til að trúa smátt og smátt á skilaboð samfélagsins – þess vegna trufla ég hann að fyrra bragði með því að tala um kærleika og frið. Ég tala við hann vegna þess að þar liggur mín ábyrgð.
Ég vil að sonur minn líti á kærleikann sem sjálfsagðan hlut; sem grunnafl og einu heilbrigðu grunnafstöðuna til lífsins.
***
Eftir hörmungar og áföll skiljum við öll yfirlýsinguna sem Stoltenberg hafði eftir Helle Gannestad:
„Ef einn maður getur sýnt af sér svona mikla illsku, hugsið ykkur þá hversu mikinn kærleik við getum skapað saman.“
Við skiljum þetta og erum algerlega sammála – á ögurstundinni þar sem einn hatursfullur maður hefur notað skipulagsgáfu og fjármuni til að deyða og meiða. En ögurstundir eru sem betur fer ekki algengar. Við horfumst ekki í augu við ómælda illsku á hverjum degi. En þess vegna gleymum við. Þess vegna förum við í gegnum dag eftir dag án þess að lifa sjálf eftir þessum kærleiksríka boðskap.
Við gleymum. Við látum smámuni lífsins valda okkur gremju, reiði, óróleika og andúð. Við förum í vörn gagnvart mökum og fjölskyldumeðlimum, vinum og kunningjum. Við aðgreinum okkur í huganum frá „öðrum“ og ýtum þannig undir sundrung og aðskilnað. Við gerum þetta öll upp að einhverju marki. Og við látum eins og það sé allt í lagi að bregðast við heiminum með andúð, með því að taka þátt í átökum. Samt skiljum við innst inni að það er bara stigsmunur á daglegri andúð og sjúklegu hatri eins og birtist í Noregi þann 22. júlí 2011.
Mjög mikill stigsmunur, en stigsmunur engu að síður, fremur en eðlismunur – vegna þess að allt hatur er tærandi og særandi.
Innst inni skiljum við að allt sem þarf er ást. Að fyrsta skrefið í átt að friði í heiminum er persónulegur friður og innri afstaða þar sem kærleikur er grunnaflið; ekki hefnd, gremja, reiði og aðskilnaður.
Tækifærið: Eftir Útey
Í þessu felst tækifærið. Eftir Útey. Eftir hvaða hörmungar sem er. Við höfum alltaf tækifæri til að bregðast við hatri með kærleik. Bæði eigin „léttvæga“ og daglega hatri og óskiljanlegu hatri sem deyðir og meiðir.
Við höfum alltaf tækifæri til að draga djúpt andann og skilja að kærleikur er grunnaflið í lífinu; að hatrið er blekking og afbökun, að hatrið er óheppilegur misskilningur.
Og síðast en ekki síst: Við höfum alltaf tækifæri til að ákveða að iðka og tala um kærleikann á hverjum degi; tala um hann við okkur sjálf, við vini og fjölskyldu, við börnin okkar.
Okkar hlutverk er að þora að mæta hatursfullum áróðri með kærleika, sama hvort hann birtist í fjölskylduboði eða á netinu. Okkur ber að tala um kærleikann á hverjum degi vegna þess að nógu margir aðrir eru tilbúnir til að segja okkur – í gegnum fjölmiðla, fréttir og neyslumenningu – að hatur sé eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt ástand.
Þetta er tækifærið: Ákvörðun um að muna. Eftir Útey. Eftir allt saman. Alltaf.
Ást og friður.
Ekki bara á tyllidögum. Ekki bara á ögurstundum.
Alltaf ást og friður.
Davíð A. Stefánsson