Ávarp á kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn

By 10/08/2009 Uncategorized

Stefán Pálsson, sagnfræðingur og formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, flutti eftirfarandi ávarp á kertafleytingu Samstarfshóps friðarhreyfinga að kvöldi 6. ágúst.

Félagar

Í tuttugasta og fimmta sinn erum við saman komin til að fleyta kertum hér á Reykjavíkurtjörn. Á þessum langa tíma höfum við fengið sýnishorn af öllum mögulegum veðrum. Við höfum fleytt í rjómablíðu, úrhellisrigningu og hávaðaroki. En hversu truntulegt sem veðrið kann að vera, er alltaf eins og eitthvað gerist þegar kertin eru sett á vatnið. Reykjavíkurtjörn er aldrei fallegri en einmitt á þessu kvöldi.

nuclear testingÞað er hálfóraunverulegt að þessi fallega aðgerð sé haldin til að minnast jafn ljóts verknaðar. Kjarnorkuárásirnar á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki í ágústbyrjun 1945, eru einhver svartasti bletturinn í sögu mannkyns. Enginn atburður á jafn skýrt tilkall til að teljast stærsti stríðsglæpur sögunnar.

Sú var tíðin að orðið „hryðjuverk“ hafði raunverulega merkingu. Það var áður en valdamenn heimsins tóku að beita því sem allsherjar réttlætingu fyrir hvers kyns kúgun og ofbeldi. En eitt sinn skildum við merkingu orðsins: hryðjuverk eða terrorismi er sú aðferð að ná fram markmiðum sínum með því að skapa ógn og skelfingu með ofbeldi gagnvart lífi og limum almennra borgara. Samkvæmt þeirri skilgreiningu voru kjarnorkuárásirnar hreinræktað hryðjuverk.

Með því að varpa sprengjunum á borgirnar tvær, vildu bandarísk yfirvöld sýna umheiminum og þá ekki síst Sovétríkjunum – verðandi andstæðingi í köldu stríði – fram á eyðileggingarmátt hinna nýju vopna sinna. Önnur borgin, Nagasaki, var raunar sérstaklega valin með tilliti til þess hversu heilleg hún væri fyrir, svo áhrifamáttur eyðileggingarinnar sæist sem best. Á þriðja hundrað þúsund manna máttu gjalda með lífi sínu fyrir þessa vopnasýningu. Það er þessara fórnarlamba sem við minnumst hér í kvöld.

Árið 1985, þegar við kom fyrst saman hér á bakkanum, vorum við að bregðast við ákalli japanskra friðarsinna um að halda á lofti minningu þeirra sem létust í árásunum og að leggja áherslu á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna. Þá var kjarnorkukapphlaup risaveldanna í algleymingi. Fjölmiðlar fluttu reglulega fregnir af því hversu oft vopnabúr vestursins og austursins gætu eytt öllu mannkyni. Á sama tíma gældu leiðtogar heimsins við möguleikann á að heyja og vinna kjarnorkustríð, meðal annars með því að fylla heimshöfin af kjarnorkuskipum og -kafbátum.

Sjaldan hefur framtíð mannkyns verið í jafnmikilli hættu og á tímum kjarnorkukapphlaupsins á níunda áratugnum. Og það var ekki stjórnmálamönum eða hernaðarfræðingum að þakka að því lauk ekki með ósköpum. Það var almenningur – frjáls félagasamtök friðelskandi fólks sem réðu úrslitum. Það var með friðargöngum, kertafleytingum, dreifibréfum og haganlega sömdum slagorðum, sem leiðtogar risaveldanna voru þvingaðir að samningaborðinu.

Þannig hefur þetta raunar alltaf verið. Allir mikilvægustu afvopnunarsamningar sögunnar hafa orðið til vegna krafna að neðan – frá fólkinu og upp. Öllum hugmyndum um að takmarka vopnaeign eða vopnaframleiðslu hefur, á öllum tímum, verið mætt með fullyrðingum um að slíkt sé óraunhæft eða jafnvel skaðlegt. Aldrei hefur frumkvæðið komið frá þeim sem ráða – þótt aftur og aftur hafi þeir þurft að láta undan samtakamætti fjöldans.

Það var hin alþjóðlega friðarhreyfing sem fyrst leiddi heiminum í ljós hvílíkar vítisvélar kjarnorkusprengjur væru í raun og veru. Það barátta hennar sem kom því til leiðar að notkun kjarnorkuvopna varð pólitískt ómöguleg í stríðum á borð við Kóreustríðið og Víetnamstríðið – herforingjum Bandaríkjanna og síðar annarra hervelda til sárrar skapraunar.

Það var hin alþjóðlega friðarhreyfing sem kom því til leiðar að risaveldin féllust á að hætta kjarnorkutilraunum í andrúmsloftinu. Það var hin alþjóðlega friðarhreyfing sem knúði í gegn stofnun kjarnorkuvopnalausra svæða – jafnvel í heilu heimsálfunum, eins og í Suður-Ameríku og á Suðurskautslandinu. Þetta er hin stolta arfleið friðarhreyfingarinnar.

Fyrir 25 árum var ógnin af kjarnorkuvopnunum augljós. Við vorum minnt á hana nánast daglega í blöðum, sjónvarpi, dægurlögum, kvikmyndum… Þótt kjarnorkuógnin í dag sé ef til vill ekki jafn áþreifanleg, er hún svo sannarlega enn til staðar. Stutt er síðan það varð fullsannað að Norður-Kórea hefur bæst í hóp kjarnorkuvelda. Fyrir fáeinum vikum sjósettu Indverjar sinn fyrsta heimasmíðaða kjarnorkukafbát. Í nágrannaríkinu, kjarnorkuveldinu Pakistan, stappar nærri að ríki borgarastyrjöld. Metnaður Írana til að koma sér upp kjarnorkuvopnum er öllum kunnur – og eina kjarnorkuveldið í Miðausturlöndum, Ísrael, sendir nágrönnum sínum lítt duldar hótanir.

Staðreynd málsins er sú, að þótt kjarnorkuvopn séu í hugum þorra fólks minna áhyggjuefni nú en fyrir fáeinum árum – þá er hættan á að gripið verði til þeirra í hernaði, óðagoti eða fyrir slysni meiri nú en á flestum öðrum tímum frá árásunum 1945. Þetta sýnir fullkomið gjaldþrot þeirrar hugmyndafræði að friður verði best tryggður með ógnarjafnvægi – að tilvist fleiri og fleiri kjarnorkuvopna sé besta vörnin gegn því að slíkum vopnum verði nokkurn tíma beitt.

Það er í ljósi þessa, sem sígildum kröfum okkar friðarsinna um algjöra kjarnorkuafvopnun er sífellt að vaxa fiskur um hrygg. Sífellt fleiri – þar með talið gamlir þjóðarleiðtogar og ráðamenn sem seint verða sakaðir um að vera sérstakar friðardúfur – hafa komist að þeirri niðurstöðu að sú stefna stórveldanna, að reyna að hefta frekari útbreiðslu kjarnavopna, sé tálsýn. Það eina sem geti nú komið í veg fyrir að kjarnorkuvopn komist í hendur sífellt fleiri ríkja og jafnvel stjórnmálahreyfinga, sé að þegar í stað verði hafist handa við allsherjar útrýmingu kjarnorkuvopna.

Bandaríkin og Rússland eiga 95% allra kjarnorkuvopna í heiminum. Með hverju árinu sem þessi lönd halda áfram að viðhalda þessum vopnabúrum sínum og þróa þau frekar, því ódýrari og auðveldari verða þessi vopn í smíðum. Sú staðreynd að blásnautt og einangrað þriðja heims ríki eins og Norður-Kórea hafi getað komið sér upp kjarnorkusprengju skýrist ekki af afrekum vísindamanna í Pyongyang – útlagaríkin hirða einfaldlega molana sem hrjóta af borðum stóru kjarnorkuveldanna.

Þess vegna hefur krafan um útrýmingu kjarnorkuvopna aldrei verið mikilvægari. Þar er fyrsta skrefið að Bandaríkin og Rússland skeri stórlega niður vopnabúr sín. Að þróun og tilraunum með nýjar gerðir kjarnorkuvopna verði tafarlaust hætt. Að látið verði af öllum hugmyndum um að flytja kjarnorkuvígbúnað upp í geiminn – og að höf heimsins verði friðuð fyrir þessum óskapnaði. Þar getum við Íslendingar lagt okkar af mörkum, með því að samþykkja það stjórnarfrumvarp sem liggur fyrir Alþingi um algjöra friðlýsingu Íslands og íslenskrar lögsögu fyrir kjarnorkuvopnum.

Þetta eru stórhuga markmið og kannski kann það að virðast óraunhæft að þau muni nást með jafn hugljúfum aðgerðum og að fleyta kertum á litlum tjörnum í bæjum vítt og breitt um Ísland. En munum þá, að þannig og aðeins þannig hefur friðarbaráttan unnið sína stærstu sigra.

Við fleytum kertum í kvöld í 25. sinn, til að minnast fólksins sem drepið var í mestu hryðjuverkum sögunnar fyrir 64 árum, í þeirri vissu að með hverju árinu færumst við nær kröfu okkar um heim án kjarnorkuvopna.