Eins og fram hefur komið hér á Friðarvefnum, með tilvísunum í fjölmiðla, voru sex manns handteknir við mótmæli vegna málþings NATO á Hilton-hótelinu í Reykjavík á miðvikudagskvöldið. Talið var að einn þeirra hefði verið handtekinn fyrir að kveikja í fána NATO.
Samkvæmt frétt Fréttablaðsins í dag, 30. janúar, segir lögreglan hins vegar að þeir hafi verið handteknir vegna óhlýðni.
Í fréttinni segir að ekki sé ólöglegt að kveikja í fána NATO, miðað við almenn hegningarlög, einungis megi sekta þá sem opinberlega smána fána erlendrar þjóðar, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs.
Blaðið hafði samband við Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, sem segist hafa borið fánann eftir að kveikt var í honum, en hann var ekki verið handtekinn.
„Þetta var nælonfáni sem brennur upp á fjórum sekúndum. Löggan sá þetta þegar hann var kominn í tætlur. Þá hlupu þeir að mér og tóku fánann,” segir Snorri. Hinir handteknu hafi hins vegar reynt að hrifsa fánastöngina af lögreglu.
Haft er eftir Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni að ef ákært væri út af slíku yrði líklega beitt sömu rökum og í Bandaríkjunum 1989. Þá var ákært fyrir flaggbrennu sem fór fram í pólitískum tilgangi. Hinn ákærði var sýknaður þar sem hann nyti tjáningarfrelsis. Slík ákæra yrði skemmtilegt álitaefni hér á landi, segir Ragnar.
Sú viðbára lögreglu, að hinir handteknu hafi verið handteknir vegna óhlýðni vekur upp spurningar. Sá, sem þetta skrifar, var á vettvangi og þykist geta fullyrt að viðbrögð lögreglu gagnvart fánabrunanum hafi verið fullkomlega óeðlileg, sérstaklega ef fánabruninn var í sjálfu sér ekki ólöglegur, og því stenst ekki að hægt hafi verið að handtaka nokkurn í sambandi við hann fyrir óhlýðni við lögreglu.
Án þess hér hafi verið kannað hvort aðrar handtökur standist lögfræðilega, þá virðist vera samkvæmt þeim frásögnum sjónarvotta, sem fram hafa komið, að lítil ástæða hafi verið til að handtaka þá miðað við aðstæður. Ekki kom til umtalsverðra átaka, í mesta lagi virðist vera að einhverjir í hópi mótmælenda hafi sýnt mótþróa eða „óhlýðni“ í kjölfar óeðlilegra viðbragða lögreglu við umræddri fánabrennu. Fátt bendir til að aðstæður hafi kallað á handtökur eða beitingu þess harkalega vopns sem piparúði óneitanlega er.
Sú spurning vaknar hvort það hafi þrýst á lögregluna að beita þessum harkalegu aðgerðum, að þarna var um að ræða fund sem NATO átti aðild að, ásamt íslenskum stjórnvöldum. Þarf NATO einhverja sérstaka vernd gagnvart íslenskum þegnum sem kallar á viðbrögð lögreglu, sem eru vafasöm, ef ekki í ströngum lagalegum skilningi, þá út frá eðlilegum skilningi á þegnrétti til tjáningar og mótmæla?
– eó