Monthly Archives

August 2009

Kertafleyting á Reykjavíkurtjörn 6. ágúst 2009

By Uncategorized

kertafleyting3 Íslenskar friðarhreyfingar standa að kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn fimmtudaginn 6. ágúst 2009. Safnast verður saman við Suðvesturbakka Tjarnarinnar (við Skothúsveg) klukkan 22:30 en þar mun Stefán Pálsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga flytja stutt ávarp. Fundarstjóri verður Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður. Að venju verða flotkerti og friðarmerki seld á staðnum.

Einnig verða kertafleytingar á Akureyri og Egilsstöðum.

Fleytt er kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkueldanna í japönsku borgunum Hírósíma og Nagasakí dagana 6. og 9.ágúst 1945. Þetta er tuttugasta og fimmta kertafleytingin á Tjörninni af þessu tilefni. Fyrsta kertafleytingin var í ágúst 1985 þegar 40 ár voru liðin frá kjarnorkuárásunum. Þá sendu japanskir “hibakushar” (en svo eru eftirlifandi fórnarlömb kjarnorkuárásanna nefnd) hingað til lands kerti með beiðni um stuðning við baráttu þeirra gegn kjarnorkuvopnum. Tveir fulltrúar þeirra komu einnig hingað til lands í boði Samtaka herstöðvaandstæðinga.

Um leið og friðarsinnar minnast þeirra sem féllu í kjarnorkuárásunum leggja þeir áherslu á kröfuna: Aldrei aftur Hírósíma! Aldrei aftur Nagasakí! Rödd friðar þarf að heyrast og hljóma um allan heim. Yfirvöld verða að fá skýr skilaboð um að stríð sé ekki valkostur. Loftárásir og heræfingar tryggja ekki frið. Vandamál heimsins verða ekki leyst með ofbeldi og vopnavaldi heldur samvinnu og viðræðum. Krafa okkar er friðsamur og kjarnorkuvopnalaus heimur.

Samstarfshópur friðarhreyfinga:
Félag leikskólakennara.
Friðar og mannréttindahópur BSRB
Friðar og mannréttindanefnd Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar
Heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samtök hernaðarandstæðinga
SGI á Íslandi (Friðarhópur búddista)

Nánari upplýsingar gefa:
Ingibjörg Hararldsdóttir, sími:8495273 netfang: inghar@centrum.is
Steinunn Þóra Árnadóttir, sími: 690 2592 netfang: steiarn@hi.is

Ályktun gegn aðflugsæfingum Nató á Akureyrarflugvelli.

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi lýsa furðu sinni á því að utanríkisráðherra þjóðarinnar skuli heimila aðflugsæfingar orrustuflugvéla Atlantshafsbandalagsins og vörslu hergagna þess á Akureyrarflugvelli undir yfirskini loftrýmiseftirlits.

Samtökin krefjast þess að herafli bandalagsins yfirgefi Akureyri án tafar og að utanríkisráðherra biðji þjóðina afsökunar á þeirri fylgisspekt hans við Bandaríkjaher sem hér birtist. Slíkur stuðningur við núverandi útþenslustefnu Bandaríkjanna og NATO – í norðurhöfum sem öðrum heimshlutum – þjónar ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar og er neyðarleg uppákoma fyrir sitjandi vinstri stjórn.

Nánari upplýsingar veitir Þórarinn Hjartarson, formaður SHA á Norðurlandi (sími 4624804 og netfang thjartar@internet.is).