Skip to main content
Monthly Archives

April 2009

1. maí í Friðarhúsi

By Uncategorized

427175377EUHtYW phHið árvissa og sívinsæla 1. maí kaffi SHA verður í Friðarhúsi og hefst kl. 11. Setið verður að spjalli fram að kröfugöngu verkalýðsfélaganna sem leggur að stað frá Hlemmi. Kaffigjald kr. 500.

Um kvöldið verður fjáröflunarmálsverður Friðarhúss og samkoma í tilefni af baráttudegi verkalýðsins. Matseld og skipulagning verður að þessu sinni í höndum félaga í Rauðum vettvangi, sem eru sérstakir hollvinir Friðarhúss.

Matseðillinn er á þessa leið:

* Íslensk kjötsúpa
* Grænmetis-lasagne

Borðhald hefst kl. 19. Verð kr. 1.500.

Boðið verður upp á ýmis skemmtiatriði fram eftir kvöldi.

Hlutabréf í Friðarhúsi SHA ehf – einstakt tilboð til 30. apríl

By Uncategorized

427175377EUHtYW ph

Eftir 30. apríl hækkar hlutur í Friðarhúsi SHA ehf úr 10 þúsund krónum í 15 þúsund. Hlutur keyptur fyrir 1. maí mun sem sagt hækka þá um 50%.

Þann 19. ágúst 2005 varð langþráður draumur að veruleika þegar Friðarhús SHA ehf festi sér húseignina á Njálsgötu 87, á horni Snorrabrautar. Friðarhús SHA ehf var stofnað 30. mars 2004. Tilgangur þess er að eiga og reka húsnæði fyrir Samtök hernaðarandstæðinga og skapa vettvang fyrir miðstöð friðar- og afvopnunarbaráttu á Íslandi.

Stofnfélagar voru 15 með 1,18 milljónir króna, þar af átti SHA 500 þúsund sem þau eiga enn. Í apríl 2009 eru félagar orðnir 269 og innborgað hlutafé 7,4 milljónir króna. Kaupverðið var 9,5 milljónir. Í október 2008 var borgað upp bankalán löngu fyrr en björtustu vonir gerðu ráð fyrir. Nú eru einu skuldir félagsins verðtryggt lán frá SHA, sem stendur í 1,7 milljónum. Byrjað er að greiða það niður. Það sem vantar í þessar upphæðir eru tekjur af mánaðarlegum kvöldverðum, sem við stöndum fyrir, og gerðu okkur kleyft að borga lánið upp. Síðan höfum við fengið nokkra styrki frá velunnurum og ómælda sjálfboðavinnu til að gera húsið í stand.

Á aðalfundinum 1. mars 2009 var farið yfir rekstrar og eignastöðu félagsins. Í ljósi þess að félagið stendur mjög vel og eignastaða er langt umfram innborgað hlutafé ákvað fundurinn að eftir 30. apríl 2009 skyldi verð á nýjum hlutum vera fimmtán þúsund krónur í stað tíu þúsund. Þessi hækkun er tæplega vísitöluhækkun frá stofnun félagsins fyrir 5 árum. Hér hefur sumsé verið farin öfug leið miðað við hinn almenna fjármálamarkað.

Þeir sem vilja gerast hluthafar eða bæta við sig geta lagt beint inn á reikning nr. 0130-26-2530 í eigu Friðarhúss, kt. 6004042530. Innleggsnótan gildir sem kvittun en koma þarf fram í texta hver leggur inn og hvort þetta sé styrkur eða hlutur. Hver hlutur er tíuþúsund krónur fram að 30. apríl 2009 en framvegis fimmtánþúsund krónur.

Frekari upplýsingar veita

Sigurður Flosason gjaldkeri SHA, sími 554 0900,
Sigríður Gunnarsdóttir gjaldkeri Friðarhúss, sími 552 4346,
Elvar Ástráðsson, sími 561 5549,
Stefán Pálsson, sími 617 6790.

ESB, Evrópuherinn og Lissabonsáttmálinn

By Uncategorized

nato euFélagsfundur SHA í Friðarhúsi fimmtudaginn 16. apríl kl. 20.

Evrópusambandið hefur tekið örum breytingum á síðustu misserum. Sambandið hefur tekið stór skref í átt að sameiginlegri utanríkisstefnu og hugmyndir um sameiginlega varnar- og öryggisstefnu hafa verið ofarlega á blaði. Hvert stefnir Evrópusambandið í hernaðarmálum?

* Haraldur Ólafsson veðurfræðingur og félagi í SHA reifar hernaðarstefnu ESB eins og hún birtist m.a. í Lissabonsáttmálanum.

Almennar umræður.

Sýning í Friðarhúsi: Frá inngöngunni í Nató til bankahruns og búsáhaldabyltingar

By Uncategorized

DSC05533

Í Friðarhúsinu Njálsgötu 87 hefur verið sett hefur verið upp myndlistarsýningin

1949 til 2009: Frá inngöngunni í Nató til bankahruns og búsáhaldabyltingar.
Innsýn í sögu mótmæla með ljósmyndum og veggspjöldum.

Nýjar ljósmyndir frá þátttakendum í mótmælum vetrarins. Sterkar hugsjónir og þrautseigja þegar þjóðinni var að endingu ofboðið en stutt er í örvæntingu og ofbeldi.

Sýningin er opin á laugardögum og sunnudögum í apríl klukkan 13 til 16.

Sýningarstjóri er Harpa Stefánsdóttir.

Upplýsingar gefa Elvar Ástráðsson sími 868 3354 og Stefán Pálsson sími 617 6790

DSC05528

Hverju svara flokkarnir, IV.hluti: Loftrýmiseftirlit

By Uncategorized

kjorklefi4. spurning: Telur hreyfing ykkar að „loftrýmiseftirlit“ Nató-þjóða við Ísland
þjóni einhverjum tilgangi – sé svo, með hvaða hætti?

Framsóknarflokkur:

Þar sem eitt hlutverk NATO er að vera varnarbandalag aðildarþjóðanna teljum við mikilvægt að nærvera NATO sé sýnileg jafnvel þó að það sé ekki varanlegt ástand, m.a vegna fælingarmáttar sem í því felst.

Borgarahreyfingin (svar frá Birgittu Jónsdóttur varaformanni):

Hreyfingin telur að við þurfum að sinna fyrst þeirri bráðu vá sem steðjar að heimilum landsins og stigvaxandi atvinnuleysi. Ég upplifi ekki að loftrýmiseftirlit sé eitthvað sem skynsamlegt sé að sóa fjármunum í.

Samfylkingin:

Loftrýmiseftirlit hefur þann tilgang að gæta að lofthelgi landsins og tryggja reglubundið eftirlit. Þannig fá flugsveitir nágrannaríkja okkar, sem þyrftu að veita okkur aðstoð á hættutímum, tækifæri til að kynnast aðstæðum hér við land. Jafnframt er viðhaldið rétti okkar til eftirlits og gæslu öryggis í lofthelgi okkar og komið í veg fyrir að aðrar þjóðir líti á lofthelgi Íslands og íslenska flugumsjónarsvæðið sem einskismannsland. Tíðni slíks eftirlits er hins vegar atriði sem sjálfsagt er að hafa til stöðugs endurmats í ljósi efnahagsástands og hættumats á hverjum tíma.

Vinstri græn:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð sér engan jákvæðan tilgang með þessum herflugsæfingum.

Hverju svara flokkarnir, III.hluti: Stjórnarskrármál

By Uncategorized

skriftarambod3. spurning: Telur hreyfing ykkar rétt að binda í stjórnarskrá að Ísland megi aldrei fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum né styðja slíkan gjörning?

Framsóknarflokkur:

Væntanlegt stjórnlagaþing ætti að taka á þessu máli og þar kæmi vel til greina að binda hendur stjórnvalda þannig að dæmið með Íraksstríðið endurtaki sig ekki.

Borgarahreyfingin (svar frá Birgittu Jónsdóttur varaformanni):

Styðjum það heilshugar

Samfylkingin:

Slíkt kemur fyllilega til álita, enda er Atlantshafsbandalagið varnarbandalag og fer ekki með ófriði á hendur öðrum ríkjum.

Vinstri græn:

Stuðningur Íslands við árásarstríð Bandaríkjanna og Bretlands í Írak var skelfileg mistök og brýnt að tryggja að sú staða geti aldrei aftur komið upp að ráðherrar í ríkisstjórn geti upp á sitt einsdæmi gert Ísland að beinum eða óbeinum árásaraðila í stríði. Ákvæði um þetta efni í stjórnarskrá hljóta að koma til alvarlegrar athugunar þegar ráðist verður í endurskoðun hennar síðar á þessu ári.

Hverju svara flokkarnir, II.hluti: Herverndarsamningurinn

By Uncategorized

kjorsedillFriðarvefurinn heldur áfram að birta svör stjórnmálaflokkanna við spurningalista Samtaka hernaðarandstæðinga um friðar- og afvopnunarmál.

2. spurning: Hver er afstaða ykkar til uppsagnar herverndarsamningsins við Bandaríkin?

Framsóknarflokkur:

Herverndarsamningi við Bandaríkin verður ekki sagt upp að frumkvæði Framsóknarflokksins nema eitthvað annað komi í stað hans og framsóknarmenn hafa engin áform um annan herverndarsamning. Aðild að ESB gæti breytt þessu en það kemur ekki ljós nema í aðildarsamningi.

Borgarahreyfingin (svar frá Birgittu Jónsdóttur varaformanni):

Við höfum ekki rætt það og ekkert um það fjallað í stefnuskrá okkar. Innan Borgarahreyfingarinnar – þjóðin á þing er fólk með misjafnar skoðanir sem hefur komið sér saman að starfa að nauðsynlegum lýðræðisumbótum til að tryggja að þjóðin verði aldrei aftur valdalaus í stórum málefnum er varða hag allra borgara landsins. Mín persónulega skoðun er eindræg: ég fagnaði því enda búin að vera meðlimur í SHA um langa hríð.

Samfylkingin:

Sjálfstæð þýðing varnarsamstarfsins við Bandaríkin er nú orðið afar lítil umfram það sem leiðir af aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Varnarsamningurinn er nú í reynd orðinn rammi um hvernig aðkomu Bandaríkjanna að vörnum landsins yrði háttað á ófriðartímum og hann hefur því litla praktíska þýðingu. Sjálfsagt er að endurmeta þörf fyrir hann, sem og þörf fyrir varnarviðbúnað okkar að öðru leyti, í ljósi hættumats á hverjum tíma.

Vinstri græn:

Flokkurinn var þeirrar skoðunar að segja beri upp herverndarsamningnum við Bandaríkin á meðan hér var ennþá bandarísk herstöð. Brottför hersins frá Miðnesheiði hefur í engu breytt þeirri afstöðu. Öryggishagsmunum Íslands er betur borgið með því að landið reki sjálfstæða utanríkisstefnu með friðsamleg samskipti við aðrar þjóðir að leiðarljósi, en bindi ekki trúss sitt við mesta hernaðarveldi samtímans, Bandaríkin.

Bjarni Harðarson, L-lista:

Ég var einlægur herstöðvaandstæðingur og fagnaði mjög burtför hersins. Aftur á móti tel ég með sömu rökum og ég gaf hér fyrr algerlega óþarft að segja samningi þessum upp nú. Komi hins vegar upp árekstrar í samstarfi þjóðanna tel ég að ekki þurfi að útiloka uppsögn þessara samninga.