Monthly Archives

March 2008

Stríðinu verður að linna – útifundur á Ingólfstorgi 15. mars

By Uncategorized

Nokkur hundruð manns komu saman á Ingólfstorgi í dag, 15. mars í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn hernámi Íraks og stríðsrekstri Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra þar. Á fundinum fluttu ávörp Hjalti Hugason prófessor og Steinunn Rögnvaldsdóttir nemi og Hörður Torfason söng.
þessa mynd tók Grímur  Dellsén
Eftir fundinn gengu fundarmenn út í Kirkjustræti fram hjá Alþingishúsinu og eftir Pósthússtræti og Austurstræti að Stjórnarráðinu. Í fararbroddi var borin líkkista með nöfnum fólks sem hefur verið drepið í þessu ófriðarbáli síðustu vikur, lítið en samt svo stórt tákn um þau hundruð þúsunda sem þessi herför hefur kostað. Og á undan og eftir kistunni voru bornir borðar með áletrununum „Stríðinu verður að linna“ og „Ekki meir“.

dsc04530

Ályktun fundarins

 

Útifundur á Ingólfstorgi haldinn 15. mars 2008 fordæmir langdregið hernám Bandaríkjanna og fleiri ríkja í Írak og Afganistan. Einnig varar fundurinn við áformum um innrás í Íran sem nú er undirbúin af miklum ákafa.

Innrásin í Írak fyrir 5 árum var knúin fram af Bandaríkjunum á vísvitandi upplognum forsendum til þess að sölsa undir sig olíuauð Íraks og styrkja stöðu sína á svæðinu. Stríðið sem fylgdi í kjölfarið hefur valdið ómældum skaða á öllum sviðum. Talið er að hundruð þúsunda, jafnvel yfir milljón manna hafi fallið og margfalt fleiri særst. Allir innviðir samfélagsins hafa verið eyðilagðir og þeir sem eftir lifa líða stöðugar hörmungar. Enginn sér fyrir endann á þessu ástandi sem er gegnsýrt af hatri, vonleysi og örvæntingu.

Íslensk stjórnvöld studdu innrásina og bera því ábyrgð á afleiðingum hennar. Það er ekki nóg að harma innrásina og láta stroka sig út af tilteknum lista. Það er ekki hægt að stroka út söguna. Íslensk stjórnvöld verða að snúa við blaðinu af heilum hug, biðja afsökunar á sínum hlut og beita sér með fullri virkni á alþjóðavettvangi fyrir því að allir erlendir herir yfirgefi Írak og Afganistan. Sameinuðu þjóðirnar verða að hafa forystu í friðar- og uppbyggingarstarfi sem byggir á fullveldi ríkjanna á svæðinu og hagsmunum fólksins. Leitast verður við að slíkt ferli breiðist út um öll Mið-Austurlönd svo réttlátur friður getið náð fram að ganga.

Við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld greiði skuld sína við fólkið í Írak og Mið-Austurlöndum með því að berjast fyrir þessum markmiðum.

Ávarp Hjalta Hugasonar

Ágætu friðarsinnar!

Í dag er okkur í fersku minni hvernig heimsbyggðin stóð á öndinni um þetta leyti fyrir fimm árum. Herveldið í vestri og fleiri vígfús ríki þrýtu á alþjóðasamfélagið um sameiginlegar, vopnaðar aðgerðir gegn Írak. Hin yfirlýstu markmið voru færð í fagran búning. Fáum hernaðarandstæðingum dulist þó að undir kraumuðu olíuhagsmunir og stigvaxandi andúð Bush-stjórnarinnar á hinum múslimska heimi.

Hvarvetna lögðu friðarsinnar sig fram um að afstýra innrás. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna synjaði um staðfestingu og framkvæmdastjóri samtakanna, lýsti innrásina brot á alþjóðalögum. Allt um það urðu vonir okkar að engu. 20. mars 2003 létu hin vígfúsu ríki til skarar skríða. Það varð okkur, íslenskum friðarsinnum, sérstak áfall að tveir menn sem nú eru horfnir af vettvangi stjórnmála skráðu nafn lýðveldisins á lista þeirra sem að innrásinni stóðu án samráðs við þing eða þjóð. Það er áhyggjuefni að síðar hafa nýir ráðamenn tekið við sem sumir eru óbundnir af arfleifð fyrri ríkisstjórnar. Þeir hafa þó ekki sé ástæðu til að draga okkur út af lista hinna viljugu og láta svo að hann hafi misst gildi sitt. Eftir stendur að íslenska ríkið hefur ekki tekið afstöðu gegn stríðinu. – Gamla yfirlýsingin sem hljómaði hér fyrir fimm árum og raunar oft síðan „Ekki í okkar nafni“ er því enn í fullu gildi.

Vegna takmarkaðs og yfirborðslegs fréttafluttnings kann stríðið í Írak að hafa hrepp þau örlög að ýmist týnast í ofngótt frétta eða verða að tilbreytingarlausu þrástefi sem ekki nær athygli. Slík viðbrögð ofmettunar eru hættuleg þar sem þau slæva meðvitund og dómgreind. Veist þú t. d. að sú styrjöld sem stendur suður við Persaflóa er þegar orðið eitt mannskæðasta stríð sögunnar. Og enn sér ekki sér fyrir endann á mannfórnum. Enn á ný höfum við orðið vitni að því sem mannkynsfræðarar hafa boðað á öllum tímum að ofbeldi verður ekki stöðvað með ofbeldi, vopn leysa ekki vanda, hernaður er ekki rétt svar við harðstjórn. Fórnarlömb stríðs eru fyrst og fremst óbreyttir borgarar, karlar, konur, og börn sem hvergi koma að átökum en eru svipt framtíð sinni og von. Þeim er samvera okkar í dag helguð.

Til að binda endi á þjáningar friðsamra borgara í Írak er ófrávíkjanleg krafa að sett verði í gang friðarferli sem nær yfir öll Miðausturlönd og að sannleiks- og sáttastarfi verði komið af stað, þar sem mannréttindabrot verði rannsökuð og upplýst með réttlæti og sættir að leiðarljósi. Slíkt friðarferli verður þó máttlítið verði það aðeins unnið ofan frá af ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum. Þvert á móti verður það að byggjast á samvinnu við almenning í þeim löndum þar sem stríð geysar og að því verða að koma allar þær þjóðir sem aðild eiga að ófriðnum sem gerendur eða þolendur. Auk þessa verður að grípa til ýmissa annarra aðgerða sem Samtök hernaðarandstæðinga hafa beint athygli að og sem við skorum á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir.
— — —

Stríðsherrar vilja bæði skapa og skrifa söguna. Samkvæmt þeirra kokkabókum stóð stríðið í Írak aðeins í 40 daga. Að þeirra mati er samkoma okkar hér því hlægileg tímaskekkja. Þeir hafa enda fyrir löngu beint athyglinni annað meðal annars að Íran. En þeir eru þó ekki herrar sögunnar. Eða hvað? Það er sláandi að hlusta á lýsingar í helstu fjölmiðlum okkar á atburðum í Írak þegar þeir á annað borð gefa þeim gaum. Lýsingarnar eru allar á forsendum innrásaraðilanna. Þegar til átaka kemur er það vegna þess að skæruliðar, hermdarverkamenn, múgur eða skríll lætur til sín taka. Sú staðreynd er fyrir borð borin að Írak er hersetið land,

enn er tekist á um yfirráð í landinu,
enn fara innrásarþjóðirnar með töglin og hagldirnar,
enn dæla ríkisstjórnir þeirra fjármunum í herlið sín
og enn er mannfall mikið á dáða bóga.
Hvað sem sögutúlkun stórveldanna líður er því ljóst að stríðið stendur enn.

Þess vegna tökum við undir með einfaldri en afdráttarlausri kröfu friðarsinna sem hljómar um heim allan um þessa helgi:

Allur heimurinn gegn stríðinu! — Stríðinu verður að linna!

15mars2008c

Ávarp Steinunnar Rögnvaldsdóttur

Góðir fundargestir

Við erum hér stödd til að minnast þess að um fimm ár eru síðan að Bandaríkjamenn réðust inní Írak og hertóku landið. Við erum hér til að setja enn og aftur fram þá kröfu að í landi langt í burtu endi hrikalegt stríð og þegnar landsins fái aftur að lifa mannsæmandi lífi.

„Írak“ – hvað hugsið þið um þegar þið heyrið þetta nafn?

Hvernig er að búa í Írak? Getum við gert okkur það í hugarlund?

Hvernig var að búa í Írak áður en Bandaríkjamenn með stuðningi frá leppríkjum sínum ákváðu að ráðast þangað inn til að finna gereyðingarvopn, fundu engin og breyttu ástæðuni í að þeir væru í stríði gegn hryðjuverkum, fundu engin tengsl Íraka við Al-kaída eða Osama bin laden og breyttu þá ástæðunni í að þeir væru að “frelsa” Íraka, um leið og þeir læstu klónum í olíuna þeirra.

En hvernig var Írak – fyrir „frelsunina“?

Ja, hérna eru nokkur dæmi um hvernig Írak var:

Í Írak voru 18 ríkisreknir háskólar og 10 einkareknir háskólar, auk 28 tækniskóla. Um 50% háskólanema voru konur, og konur voru einnig um 50% á atvinnumarkaði. Konur þurftu ekki að ganga með slæður þó að margar gerðu það, þær gátu farið sinna ferða í gallabuxum og bol, óáreittar.

Írakar bjuggu ekki í tjöldum, heldur í húsum, með vatnslögnum og rafmagni. Tölvur og internetið voru löngu komin í gagnið. Göturnar og svæðin í borgunum höfðu nafn, en svo gleymdust nöfnin og nú er bara sagt: „þarna þar sem stóri gígurinn er, eftir að flugskeytið sprakk þar þú veist“ eða „húsið við hliðina á þessu þarna sem að fjölskyldan var myrt“. Og nöfnin eru uppfærð reglulega þegar að nýjar sprengjur springa og aðrar fjölskyldur eru drepnar.

Í Írak, fyrir stríðið, þá fóru næstum öll börn í skóla. Árið 2006 hafði það hlutfall fallið niður í 30%. Þessi 30% eru nánast bara strákar. Hvorki stúlkur né fullorðnar konur fara einar út nú á dögum, og ef að þær sjást í gallabuxum getur það verið þeirra dauðadómur. Stríðið hefur blásið byr í vængi bókstafstrúarmanna. Áður skipti það ekki aðalmáli hverrar trúar þú varst, þú gast búið þar sem þú vildir, klæðst því sem þú vildir, ferðast þangað sem þú vildir. Nú er stúlkum sem ekki eru tilhlýðilega klæddar rænt og þeim misþyrmt, ferðafrelsi er takmarkað, hvar áttu að búa þegar búið er að sprengja húsið þitt og það eru þjóðernishreinsanir í gangi, það er verið að þurka út minnihlutahópa í Írak. Bókstafstrúarmenn höfðu ekki þau völd sem þeir hafa nú – ekki fyrr en eftir stríðið.

Eftir innrásina í Írak eru hryðjuverkaárásir í heiminum öllum sjö sinnum fleiri heldur en fyrir innrásina.

Lokið augunum

Hvað hugsið þið um þegar ég segi „Írak“?

Hvað sjá Írakar sjálfir á hverjum degi núna eftir „frelsunina“?

Líkkistur, lífvana líkamar, lík finnst hér, lík finnst þar, sprengja springur, konur í svörtu, erlendir hermenn með byssur, margar byssur, byssur alls staðar, skriðdrekar, sprengjur, unglingar með sjálfsmorðssprengjur. Framtíð þjóðarinnar sprengir sig upp í loft á hverjum degi, framtíð þjóðarinnar er sprengd í loft upp af öðrum á hverjum degi, framtíð þjóðarinnar er skotin þegar hún er að leika sér útí garði.

Á hverjum degi koma kisturnar, á hverjum degi finnast fleiri lík, á hverjum degi springa sprengjur, á hverjum degi deyja ástvinir, sorgin og reiðin heltekur feður, mæður, systur, bræður og börn. Alla. Framtíð þjóðarinnar deyr.

Írak var ekki fullkomið land. En það var mörgum sinnum skárra fyrir innrásina heldur en eftir hana. Í síðustu viku voru 384 óbreyttir borgarar drepnir, eða lík þeirra komu í leitirnar. Og það eru fimm ár síðan að innrásin hófst. Þetta er vikan í Írak. Þetta er lífið í Írak. Þetta er það sem við viljum burt.

Og við erum hér til að láta þá kröfu hljóma – stríðinu verður að linna! Það eru milljónir manna um heim allan að segja það sama á fundum sem þessum í dag og í næstu viku. Og lengur. Krafan verður alltaf að hljóma, jafn lengi og þörf krefur. Við verðum alltaf að standa upp og mótmæla drápum og ofbeldi á saklausum borgurum og þrýsta á ráðamenn að beita sér fyrir friði, ekki taka þátt í stríði! Við verðum að gera þetta, ekki bara fyrir þau, heldur líka okkur. Því ef við getum ekki einu sinni staðið upp og sagt nei við fjöldamorðum á saklausum börnum, ef við sjáum ekki tilganginn með því að mótmæla grimmdarverkum…

Hvað erum við þá orðin?

15mars2008d 01

——–
Sjá myndir [1]

15. mars – stíðinu verður að linna

By Uncategorized

15mars2008a

    Útifundur á Ingólfstorgi kl. 13
    laugardaginn 15. mars

    Sjá nánar

Tillögur SHA um aðgerðir til að binda endi á hernám Íraks og koma á friði í landinu

Samtök hernaðarandstæðinga hafa afhent utanríkisráðherra, utanríkismálanefnd Alþingis og þingflokkum stjórnmálaflokkanna tillögur um aðgerðir til að binda endi á hernám Íraks og koma á friði í landinu. Tillögurnar eru þessar:

  1. Hernáminu verði hætt, allar erlendar hersveitir og málaliðar flutt úr landinu og erlendar herstöðvar lagðar niður. Dregið verði verulega úr stærð og umfangi bandaríska sendiráðsins og erlendir verktakar hverfi á brott.
  2. Írak endurheimti fullveldi sitt og heild landsins verði virt.
  3. Sameinuðu þjóðirnar verði í forsvari fyrir sveitum sem vinni að uppbyggingu friðar í Írak í samvinnu við fjölþjóðleg samtök og stofnanir á svæðinu og víðar. Írakar fái aðstoð við að byggja upp innviði samfélagsins og íbúarnir, einkum börn og ungt fólk, fái aðstoð við að takast á við sálrænar afleiðingar af hörmungum undanfarinna ára.
  4. Skuldir Íraks verði afskrifaðar.
  5. Bætur verði greiddar vegna viðskiptabannsins, innrásarinnar og hernámsins.
  6. Írak og íbúar þess fái full yfirráð yfir olíulindum landsins.
  7. Miðausturlönd verði svæði án gereyðingarvopna.
  8. Sett verði af stað sannleiks- og sáttaferli, þar sem mannréttindabrot verði rannsökuð og upplýst með réttlæti og sættir að leiðarljósi.
  9. Samvinna fólksins, samvinna þjóða. Friðarferlið verði ekki aðeins unnið ofan frá af ríkisstjórnum og alþjóðlegum stofnunum, heldur byggist á samvinnu við almenning og milli þjóða.
  10. Sett verði í gang friðarferli fyrir öll Miðausturlönd.

Nánari greinargerð fylgir hverju lið.

Æ fleiri eru þeirrar skoðunar að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra verði að draga herlið sín út úr Írak. Ljóst er, hvað sem líður ágreiningi um aðdraganda innrásarinnar, að með henni hefur ekki tekist að stuðla að friðsamlegu samfélagi í Írak. Hernámið er meginorsök þess ófriðarástands sem nú ríkir í landinu. Hins vegar er ólíklegt að óöldin í Írak hætti sjálfkrafa þótt hernáminu ljúki.

Því er mikilvægt, um leið og þess er krafist, að hernámi Íraks ljúki, að gerð verði áætlun um leiðir til friðar í framhaldi af því. Slíkar áætlanir hafa verið settar fram að undanförnu, meðal annars af áhrifamiklum stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum.
Í janúar síðastliðnum gaf friðarstofnunin Transnational Foundation (TFF) í Lundi út tillögur um friðarferli í Írak. Stofnunin hefur verið að kynna þær að undanförnu og hefur Hans von Sponeck, fyrrum yfirmaður hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna í Írak, meðal annarra unnið að þeirri kynningu. Tillögur SHA eru í meginatriðum sniðnar eftir tillögum TFF.

Í stefnuyfirlýsingu sinni kvaðst ríkisstjórnin harma stríðsreksturinn þar og vilja leggja sitt á vogarskálar friðar, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbygggingarstarfi. Ísland studdi innrásina í Írak og ber ábyrgð á henni sem og eftirleiknum. Því afhenda Samtök hernaðarandstæðinga ríkisstjórninni tillögur sínar í þeirri von að hún taki þær til skoðunar, frekari vinnslu og framkvæmda.

Lagt er til að Ísland hafi frumkvæði að því að setja fram tillögur í þessum anda og leiti eftir samvinnnu við önnur ríki, þar á meða þau ríki sem studdu innrásina en hafa nú annað hvort dregið stuðning sinn til baka eða hætt þátttöku í hernáminu.

Tillögurnar í heild eru aðgengilegar hér:

Tillögur SHA um aðgerðir til að binda endi á hernám Íraks og koma á friði í landinu

15. mars: Stríðinu verður að linna

By Uncategorized

15mars2008a

Útifundur á Ingólfstorgi kl. 13

laugardaginn 15. mars

Dagskrá

Ávörp:
Hjalti Hugason prófessor
Steinunn Rögnvaldsdóttir nemi

Tónlistarflutningur:
Hörður Torfason

Allt frá því að Bandaríkin stóðu fyrir innrásinni í Írak 20. mars 2003 hafa verið árlegar mótmælaaðgerðir víða um heim upp úr miðjum mars, en veturinn 2002 til 2003 voru einhverja mestu og víðtækustu mótmælaaðgerðir sögunnar, og meðal annars voru nánast stöðugar mótmælaaðgerðir vikum saman í Reykjavík.

Enn er stríðinu í Írak mótmælt dagana 15.-24. mars.

Í kjölfar ráðstefnu, sem haldin var í Lundúnum 1. desember, var hvatt til aðgerða um allan heim dagana 15. til 22. mars. Í framhaldi af því var sett upp vefsíðan http://theworldagainstwar.org. Þar má finna upplýsingar um fyrirhugaðar aðgerðir í mörgum löndum.

Í Bandaríkjunum hafa verið aðgerðir í undirbúningi um allt landið, og standa samtökin United for Peace and Justice (www.unitedforpeace.org) fyrir mörgum þeirra, en fjölmörg samtök koma að aðgerðum víða um landið. Þessar aðgerðir verða flestar miðvikudaginn 19. mars. Í sambandi við þær hefur verið sett upp vefsíðan www.5yearstoomany.org. Þar hafa verið skráðar aðgerðir á 475 stöðum víðs vegar um Bandaríkin, en aðaláherslan er lögð á stóran fund í Washington. Samtökin A.N.S.W.E.R. (www.internationalanswer.org) hafa skipulagt aðgerðir víða um landið þann 15. mars, en taka höndum saman við önnur samtök um stórfundinn í Washington 19. mars. Þá má einnig benda á vefsíðuna www.resistinmarch.org með upplýsingum um aðgerðir í mörgum löndum.

Í Bretlandi verða aðgerðir 15. mars og verður megin áherslan lögð á Lundúnir og Glasgow (www.stopwar.org.uk).

Flestar aðgerðirnar verða 15. mars, en sums staðar veðra þær 16. mars eða í vikunni og um helgina á eftir. Hér verða talin um nokkur lönd sem við höfum haft fregnir frá og vefsíður með nánari upplýsingum

15. mars:

Noregur:Oslo, Bergen og Kristianssand,
www.ingenkrig.no,
www.hentsoldatenehjem.org/aktiviteter

Danmörk: Kaupmannahöfn, Árósum, Óðinsvéum, Álaborg og Rönne,
www.nejtilkrig.dk.

Svíþjóð í mörgum borgum og bæjum,
www.motkrig.org.

Finnland: Helsinki

Spánn í mörgum borgum,
www.aturemlaguerra.org,
www.forosocialsevilla.org,
www.herriak.org/ki.

Ítalía: Róm,
www.peaceandjustice.it.

Írland: Dublin,
www.antiwarireland.org.

Norður-Írland: Belfast, www.bawm.org.

Austurríki: Vín,
www.linkswende.org.

Pólland: Varsjá,
www.isw.w.pl.

Tékkland: Prag 15. mars og víða um landið alla vikuna á undan,
www.nezakladnam.cz.

Tyrkland, víða um landið.

Kanada í mörgum borgum,
www.ecawar.org,
www.acp-cpa.ca/en,
www.mcpj.org,
www.echecalaguerre.org,
www.nowar-paix.ca,
www.nowar.ca,
http://canadiansagainstwar.org,
www.stopwar.ca,
www.windsorpeace.org,
einnig í 19. mars í Vancouver

Nýja Sjáland

Í vikunni á eftir verða aðgerðir meðal annars í þessum löndum:

Belgía: 16. mars verður friðarganga 27 km frá Leuwen til Brussel,
www.geenoorlog.be,
www.cnapd.be,
22. mars verður svokallað NATO Game Over við höfuðstöðvar NATO í Brussel,
www.bombspotting.org,
www.vredesactie.be.

Ástralía: Sydney, 16. mars,
www.stopwarcoalition.org.

Kórea: Seoul, 16. mars,
www.antiwar.or.kr.

Puerto Rico, 18. mars,
madrescontralaguerra.blogspot.com.

Frakkland: París, 19. mars,
www.aawfrance.org,
Toulouse, 22. mars,
www.laguerretue.org.

Þýskaland í fjölmörgum borgum 21.-24. mars,
www.friedenskooperative.de/om2008.htm.

Grikkland, 22. mars: Samfylking gegn stríði í samstarfi við fjölmörg önnur samtök, þ.á.m. ýmis helstu verkalýðsfélög landsins,
www.stop-the-war.gr

Japan, 22. mars í a.m.k. þremur borgum

Munið 15. mars!

By Uncategorized

Útifundur á Ingólfstorgi kl. 13.

Mótmælum stríðinu í Írak!
Mótmælum hernaðarhyggju og heimsvaldastefnu!
Stuðlum að friði!

Friðargæsluliðar til Afganistan – röng ákvörðun segir Morgunblaðið

By Uncategorized

Ákveðið hefur verið að senda fjóra friðargæsluliða frá Íslandi til Afganistan á næstunni til viðbótar þeim þrettán sem nú eru þar (sjá frétt í Morgunblaðinu 5. mars). Þetta friðargæsluverkefni í Afganistan hefur verið afar umdeilt og hafa Samtök hernaðarandstæðinga gagnrýnt það.

Það vill svo til að 28. febrúar, rétt áður en þetta var tilkynnt, var tekin til umræðu á Alþingi þingsályktunartillaga sem fjórir þingmenn Vinstri grænna lögðu fram í nóvember:

Tillaga til þingsályktunar um heimkvaðningu friðargæsluliða frá Afganistan og endurskipulagningu íslensku friðargæslunnar.

    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að kalla heim íslenska friðargæsluliða í Afganistan, sem þar starfa sem hluti liðsafla NATO. Jafnframt verði þátttaka Íslands í friðargæslu og verkefnaval endurskipulagt í samræmi við markmið nýrra laga um íslensku friðargæsluna. Skal utanríkisráðherra vinna að þeirri endurskipulagningu í nánu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

Svar utanríkisráðherra við þessari tillögu og umræður má lesa á vef Alþingis. Í umræðunum tók Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins undir þessa tillögu.

En það eru ekki aðeins SHA, þingmenn Vinstri grænna og Jón Magnússon sem gera athugasemdir við þessa þátttöku Íslendinga í starfsemi NATO í Afganistan. Í leiðara Morgunblaðins 7. mars er sagt að það sé fráleit ákvörðun að senda friðargæsluliða til Afganistan. „Nær væri að kalla þá heim,“ segir í leiðaranum. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem þessu skoðun kemur fram í leiðara Morgunblaðsins, sama afstaða kom fram í leiðara blaðsins 30. júlí 2007.

Það er full ástæða til að birta leiðara Morgunblaðsins á Friðarvefnum og vonum við að ritstjórinn taki því vel.

Leiðari Morgunblaðsins 7. mars 2007:

Röng ákvörðun

Það er röng ákvörðun hjá utanríkisráðherra að senda fleiri Íslendinga til Afganistans. Samtals á að senda fjóra Íslendinga til landsins til viðbótar við þá, sem fyrir eru.

Þetta er röng ákvörðun í grundvallaratriðum. Í Afganistan er háð ógeðslegt stríð. Við Íslendingar erum formlegir aðilar að því stríði vegna þess, að við höfum sem aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu samþykkt, að bandalagið sendi þangað herlið. Ekki er vitað til að við höfum sett nokkra fyrirvara fyrir þeirri ákvörðun af okkar hálfu.

Við höfum haft uppi tilburði til að senda fólk til Afganistans á undanförnum árum, væntanlega vegna aðildar okkar að stríðinu við talíbana. Við höfum engan her. Við höfum engar hernaðarhefðir. Við erum blautir á bak við eyrun við slíkar aðstæður eins og reynslan hefur sýnt. Það er fráleit ákvörðun að fjölga Íslendingum í Afganistan. Nær væri að kalla þá alla heim. Og eðlilegast væri að fram færi opinber rannsókn á athöfnum okkar í Afganistan svo að þjóðin hafi það á hreinu hvað hefur gerzt. Höfum við verið menn til að greiða fjölskyldu 12 ára gamallar afganskrar stúlku, sem dó vegna aðgæzluleysis fulltrúa Íslands, bætur? Hefur það verið gert?

Er ekki kominn tími til að utanríkisráðuneytið upplýsi Alþingi og almenning um það, hvers vegna Geir H. Haarde, þáverandi utanríkisráðherra, kallaði jeppasveitirnar heim á sínum tíma? Er ekki kominn tími til að upplýsa hver vopnabúnaður þeirra var? Hvernig stendur á því að eitt ráðuneyti getur falið slíkar upplýsingar fyrir Alþingi Íslendinga?

Innan Atlantshafsbandalagsins standa yfir harðvítugar deilur á milli Bandaríkjamanna og margra aðildarríkja þess vegna þess, að þau ríki vilja ekki senda hermenn sína til Afganistans og vilja kalla heim þá hermenn, sem þar eru fyrir. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hefur leyft sér að skipta aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins í tvo hópa, þá sem sinna kalli þeirra um fleiri hermenn til Afganistans vegna þess að þeir hafa ekki sjálfir yfir fleiri hermönnum að ráða og hina sem sinna því kalli ekki. Það er fróðlegt fyrir þau ríki, sem átt hafa aðild að Atlantshafsbandalaginu frá árinu 1949, að upplifa slíka tvískiptingu. Þau færðu öll fórnir á tímum kalda stríðsins, þar á meðal við. Fórn okkar var sú, að fallast á að bandarískt herlið væri á Íslandi í hálfa öld. Það var ekki lítil fórn. Ákvörðun, sem skipti íslenzku þjóðinni í tvær fylkingar allan þann tíma.

Það er röng stefna í grundvallaratriðum að senda Íslendinga á svæði þar sem styrjaldarátök standa yfir. Við kunnum ekki að starfa á slíkum svæðum.

Það sem við kunnum og getum er að hjálpa fátæku fólki víða um heim við að tryggja þeim aðgang að grundvallarþáttum, sem mannlegt líf byggist á. Við kunnum að útvega þeim vatn og setja upp brunna hér og þar. Við kunnum að byggja skóla. Við kunnum að skipuleggja skólastarf. Við kunnum að byggja upp heilsugæzlu við erfiðar aðstæður. Þetta kunnum við og þetta eigum við að gera. Þetta á að vera sú grundvallarstefna, sem starf svonefndra friðargæzluliða byggist á.

Getur það verið að einhverjum þyki þetta ekki nógu fínt? Er þetta ekki nógu spennandi? Geta íslenzkir ráðherrar ekki baðað sig í sviðsljósinu, með stóru strákunum, sem eru að reka stríð út um allan heim, ef fulltrúar Íslands eru við jafn lítilmótleg verk og að tryggja fátæku fólki aðgang að vatni?

Hvernig stendur á því, að á Alþingi Íslendinga hafa ekki farið fram grundvallarumræður um þessi mál, sem geta leitt til stefnumörkunar í grundvallaratriðum í þessum efnum? Við sendum menn til Afganistans. Við köllum fólk heim frá Afganistan. Þetta er allt hálfkák af okkar hálfu enda kunnum við ekki til verka.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær í tilefni af hinni nýju ákvörðun um að fjölga fólki í Afganistan:

„Það er búið að skoða öryggismálin mjög vandlega. Borgaralegir starfsmenn eru ekki sendir á svæðið nema mat á öryggismálum hafi farið fram.“

Það væri gagnlegt fyrir hinn nýja upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins að kynna sér yfirlýsingu ráðuneytisins frá þeim tíma, þegar ákveðið var að senda Íslending á græna svæðið í Bagdað. Það var allt svo öruggt á græna svæðinu í þeirri borg. Annað kom í ljós nokkru síðar og utanríkisráðherra tók þá skynsamlegu og réttu ákvörðun að kalla þann starfsmann heim. Vonandi eiga tilgreind ummæli ekki eftir að sækja upplýsingafulltrúann heim eins og þá gerðist.

Nú er utanríkisráðherra okkar á leið í kynnisferð til Afganistans. Til hvers? Hverra hagsmuna eigum við að gæta þar, sem kalla á slíka heimsókn? Engra annarra en þeirra að þar eru útsendir fulltrúar utanríkisráðuneytisins, sem kalla ætti heim þegar í stað.

Hvers vegna er ráðherrann þá að fara í heimsókn til Afganistans? Ráðherrann er að fara vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum, sem þrýsta nú á önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins um að senda fólk til Afganistans.

Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, að Ingibjörg Sólrún yrði leikbrúða Bandaríkjamanna, en það verður hún í ferð sinni til Afganistans.

Allt snýst þetta um grundvallarþætti í utanríkismálum okkar á nýrri öld við breyttar aðstæður. En um þau grundvallaratriði fást engar umræður, hvorki á Alþingi né annars staðar. Hvers vegna ekki?

Og meðal annarra orða: Hvað skyldi Samfylkingarfólk segja um stríðsleik Ingibjargar Sólrúnar?!

8. mars kl. 14 í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur

By Uncategorized

fridardufa Alþjóðlegur baráttudagur kvenna
fyrir friði og jafnrétti

Dagskrá í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur
laugardaginn 8. mars 2008 kl.14

Friður og menning

Fundarstjóri: Kristín Steinsdóttir, rithöfundur

Birna Ólafsdóttir, sjúkraliði
Þáttur verkalýðshreyfingar í menningu

Petra Deluxsana, í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna
Leit að hamingju

Kristín Vilhjálmsdóttir, kennari
Det flyvenda tæppe

Guðrún Lára Pálmadóttir, trúbador spilar á gítar og syngur

Ólöf Nordal, myndlistarmaður
Bríetarbrekka

Guðrún Kristinsdóttir, prófessor við Kennaraháskóla Íslands.
Friður á heimilinu – Sjónarhóll barna

María S. Gunnarsdóttir, formaður Menningar- og friðarsamtakanna MFÍK
Friðaruppeldi

Opið út
sýnir brot úr leikritinu mammamamma.
Leikarar: María Ellingsen, Þórey Sigþórsdóttir, Magnea Valdimarsdóttir og Birgitta Birgisdóttir
Leikmynd: Ólöf Nordal og Þórunn María Jónsdóttir
Tónlist: Ólöf Arnalds
Leikstjóri: Charlotte Böving

Konur heims – skyggnumyndasýning / Harpa Stefánsdóttir

Í föndurhorni friðarsinna: vinabönd og friðarsvanir

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK, Bandalag háskólamanna, BSRB, Félag ísl. hjúkrunarfræðinga, Kennarasamband Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Samtök hernaðarandstæðinga, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um kvennaathvarf, SFR – Stéttarfélag í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélag Íslands, St.Rv. – Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Þroskaþjálfafélag Íslands

www.mfik.is/

Stöðvum fjöldamorðin á Gaza – útifundur á Lækjartorgi miðvikudaginn 5. mars kl. 12:15

By Uncategorized

Efnt verður til útifundar á Lækjartorgi í hádeginu á morgun, miðvikudaginn 5. mars klukkan 12:15, til að mótmæla blóðbaðinu á Gazaströnd. Kröfur dagsins eru: Stöðvum fjöldamorðin og rjúfum umsátrið um Gaza. Ræðumenn verða Katrín Fjeldsted læknir og Ögmundur Jónasson alþingismaður. Fundarstjóri er Sveinn Rúnar Hauksson formaður Félagsins Ísland-Palestína.

gazaplakat2

Fjölmennum!

Látum sem flesta vita af fundinum!

Umsögn SHA um frumvarp til varnarmálalaga

By Uncategorized

Utanríkismálanefnd Alþingis sendi í síðasta mánuði Samtökum hernaðarandstæðinga til umsagnar frumvarp utanríkisráðherra til varnarmálalaga. Samtökin gerðu margvíslegar athugasemdir við frumvarpið, en aðaltillaga þeirra var að frumvarpinu yrði vísað frá, enda er tilgangur þess að mynda lagalegan ramma utan um aðild Íslands að NATO og hernaðarsamstarf við NATO og einstök NATO-ríki. Sögðu samtökin að nær væri að Alþingi beitti sér fyrir úrsögn Íslands úr NATO, en jafnvel þótt það yrði ekki, þá stefnir frumvarpið að því að binda í lög það sem íslensk stjórnvöld settu fyrirvara á við undirritun Atlantshafssamningsins árið 1949, það er að segja fulla þátttöku í hernaðarsamstarfi NATO. Þannig má segja að með þessum frumvarpi sé lagt til að látið verði af öllum fyrirvörum sem hafa verið á aðild Íslands að NATO. Í ljósi þess töldu SHA því rétt að vísa þessu frumvarpi frá.

Til vara, ef ekki yrði fallist á að vísa frumvarpinu frá, gerðu samtökin margar athugasemdir við einstök atriði þess. Þótt markmiðið með frumvarpinu, eins og því er lýst í 1. grein, líti vel út, það er að setja ramma og reglur um þessa starfsemi og „auðvelda lýðræðislegt eftirlit með varnartengdri starfsemi“, þá þykir samtökunum lítil innstæða fyrir þeim fyrirheitum. Samtökin gagnrýndu frumvarpið fyrir að gera ráð fyrir miklu valdi utanríkisráðherra en takmörkuðu hlutverki Alþingis og utanríkismálanefndar. Þá vara samtökin við því að sett verði á fót sérstök stofnun, Varnarmálastofnun, til að sinna þessum málum, enda hætt við að hún hafi tilhneigingu til að sanna sig og viðhalda sjálfri sér þegar miklu frekar er ástæða til að draga sem mest úr þessum málaflokki, og væri nær að stefna að því að halda honum svo í skefjum að hann rúmaðist innan einnar skrifstofu í utanríkisráðuneytinu, eins og var lengst af. Þá er gagnrýnt að Ratsjárstofnun verði innlimuð í Varnarmálastofnun, en í staðinn ætti að leggja áherslu á borgaralega starfsemi hennar og fela hana flugmálayfirvöldum. Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir hernaðarlegum varnar- og öryggisvæðum, en samtökin telja að þau ætti að afnema í stað þess að binda þau í lög með þessu frumvarpi.

Umsögnini lýkur með þessum orðum:

Sem fyrr segir leggja SHA til að frumvarpinu verði vísað frá í heild sinni, enda vart á vetur setjandi. Kjarni þess er hernaðarhyggja – grímulausari en sést hefur í íslenskri löggjöf til þessa. Með þessu frumvarpi er verið að lögfesta eða setja lagalegan ramma um þátttöku Íslands í þeirri hernaðarstefnu- og starfsemi sem nú fer vaxandi víðsvegar um heim og veldur friðelskandi fólki æ meiri áhyggjum.

Vert er að hafa í huga að á sama tíma og fjármunum er ausið í málaflokka þá, sem nú eru skilgreindir sem varnarmál, er fé skorið niður til þeirra þátta sem fremur snúa að öryggi almennings, svo sem almennrar löggæslu og almannavarna. Íslenskum stjórnvöldum væri nær að hlúa að þeim þáttum en að leggja fram réttnefnt hermálafrumvarp með tilheyrandi útgjaldaliðum.

Umsögnina í heild má lesa hér:
Umsögn SHA um frumvarp til varnarmálalaga