Monthly Archives

December 2007

Rússar troða illsakir við granna sína

By Uncategorized

eftir Einar Ólafsson

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 6. des. var sagt frá auknum hernaðarumsvifum Rússa. „Rússar láta æ meir til sín taka á hernaðarsviðinu. Í ágúst hófu Rússar reglulegt eftirlitsflug með langdrægum flugvélum út fyrir lofthelgi landsins líkt og á dögum kalda stríðsins. Í haust hófu kafbátar þeirra eftirlitsferðir á Norður-Atlantshafi og nú er komið að Norðurflotanum.“

Síðan sagði fréttamaðurinn orðrétt: „Stjórn Pútíns hefur látið æ meir til sín taka á alþjóðavettvangi og ekki látið segja sér fyrir verkum. Stórauknar tekjur af olíusölu hafa eflt sjálfstraust Rússa og þeir troða illsakir við granna sína. Pútín vill að rússneski björninn geti enn sýnt hrammana en sofi ekki vært í hýði sínu. Útgjöld til heraflans hafa verið stóraukin. Erlendir hernaðarsérfræðingar segja þó fjarri lagi að Rússar séu jafn öflugt herveldi og fyrir fall Sovétríkjanna 1991.“

Það hefur löngum verið siður að nota einhverskonar myndhvörf um Rússland: „rússneski björninn“, og þau bjóða upp á að spinna áfram: „hann sýnir hrammana“ og “sefur ekki vært í hýði sínu“. Rússar eru óargadýr, þeir er ekki siðmenntaðir. Þess vegna er líka allt í lagi að segja að þeir „troði illsakir við granna sína“. Ætli ríkissjónvarpið íslenska hafi gert mikið úr því að sjálftraust Bandaríkjamanna hafi aukist eftir lok kalda stríðins og þeir farið að troða illsakir við önnur lönd?

Mér varð að orði að þarna vantaði fréttaskýringu. Hér kemur hún í stuttu máli:

Rússland hefur um langan aldur verið eitt af stórveldunum og Sovétríkin, þar sem Rússland hafði forystu, var annað tveggja risavelda. Eftir hrun Sovétríkjanna var Rússland áfram stórveldi, en ákaflega lemstrað. Önnur sovétlýðveldi urðu sjálftstæð og gömlu fylgiríkin austantjalds hölluðu sér til vesturs. Varsjárbandalagið var lagt niður.

En ekki NATO. Það fór að þenjast út til austurs. Austantjaldsríkin fyrrverandi eru gengin í NATO auk sovétlýðveldanna fyrrverandi við Eystrasaltið. Áður var Austur-Evrópa milli NATO og Sovétríkjana. Nú er NATO komið sumsstaðar upp að landamærum Rússlands. Það er helst að Úkraína sé á milli en NATO og Úkraína sem og NATO og Georgía hafa verið að þróa tengsl sín að undanförnu auk þess sem Bandaríkin hafa aðstoðað Georgíu við uppbyggingu herafla síns. Þá eru Bandaríkin með herstöðvar í einhverjum af hinu nýju NATO-ríkjum sem og í fyrrum Júgóslavíu og austur í Kirgistan og Úsbekistan.

Það var ekki nóg með að bandalagssvæði NATO færi að þenjast út til austurs eftir lok kalda stríðins. NATO fór líka að færa starfsemi sína út fyrir bandalagssvæði sitt, en það hafði ekki gerst fyrr og var ekki gert ráð fyrir því í Norður-Atlantshafssamningum. Það hófst með afskiptum NATO af stríðinu í Bosníu 1994 en næsta skref var þó öllu umdeildara, loftárásirnar á Júgóslavíu 1999 í óþökk Rússlands og án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkin hófu líka að ráðast inn í önnur lönd, fyrst Írak 1991, svo Afganistan 2001 og aftur Írak 2003 án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Og NATO hefur komið í kjölfar innrásarliðsins bæði í Afganistan og NATO. Árið 2002 sögðu Bandaríkin upp ABM-samningnum um almennt bann við uppsetningu gagneldflauga gegn langdrægum eldflaugum, sem var mikilvægt skref í kjarnorkuafvopnun, og hefur síðan unnið að uppsetningu gagnflaugakerfis og hefur NATO komið að þeirri áætlun. Uppsagnir Rússa á afvopnunarsamningum hafa komið í kjölfarið.

Ef við horfum á kort sjáum að Rússland er girt af með herstöðvum Bandaríkjanna og NATO allt frá Eystrasalti suður um Evrópu og austur yfir allt til Pakistan auk þess sem NATO og Bandaríkin hafa gert innrásir í þrjú lönd í áttina að Rússlandi. Jafnframt hafa hernaðarútgjöld Bandaríkjanna farið vaxandi og með aðild sinni að NATO hafa sum nýju aðildarríkjanna skuldbundið sig til að auka hernaðarútgjöld sín. Bandaríkin og NATO hafa samráð við Rússa, bjóða þeim stundum að NATO-borðinu, en taka í raun sáralítið mark á þeim. Þannig er sífellt verið að ógna gamla heimsveldinu og jafnframt niðurlægja það.

Hverjir eru að troða illsakir við aðra? Hverjir sýna hrammana? Hverjir æða eins og óargadýra um allar þorpagrundir? Er von nema björninn rumski? Hverslags fréttaflutningur er þetta eiginlega?

Og svo má auðvitað spyrja: Er framferði Bandaríkjana og NATO vel til þess fallið að stuðla að heimsfriði? Hvað erum við yfirleitt að gera í þeim klúbbi?

Ráðstefna hernaðarandstæðinga í London hvetur til alþjóðlegra mótmæla 15.-22.mars 2008

By Uncategorized

WAWtoptableweb 1. desember var haldin í London alþjóðleg ráðstefna hernaðaraandstæðinga. 1200 manns sóttu ráðstefnuna og fulltrúar frá 26 löndum ávörpuðu hana. Það voru bresku samtökin Stop the War Coalition sem stóðu fyrir ráðstefnunni, en þau voru stofnuð í september 2001 og hafa staðið í fararbroddi ásamt bandarískum friðarsamtökum gegn stríðsæsingum og aðgerðum Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra.

Fulltrúar á ráðstefnunni samþykktu að stuðla að mótmælaaðgerðum um allan heim gegn hernámi Íraks og Afganistans og stríðshótunum gagnvart Íran dagana 15.-22. mars 2008 í tilefni af því að 19.-20. mars verða liðin fimm ár frá innrásinni í Írak. Hvatt er til að undirbúningur verði hafinn sem fyrst.

Stop the War Coalition ákvað fyrir sitt leyti að stefna að aðgerðum laugardaginn 15. mars 2008.

Sjá frétt á heimasíðu Stop the War Coalition.

Sjá myndbandsupptökur af ræðum og ávörpum.

Á ráðstefnunni var samþykkt eftirfarandi ályktun (sjá enskan texta):

    „Þessi ráðstefna, sem sótt er af fulltrúum frelsishreyfinga og hreyfinga friðar, stríðsandstöðu og andheimsvaldastefnu víðs vegar um heim, lýsir yfir andstöðu sinni við hið „endalausa stríð“ Bandaríkjastjórnar gegn ríkjum, þjóðum og hreyfingum hvarvetna á jörðinni.

    Við andæfum íhlutun Bandaríkanna og bandamanna þeirra í sjálfstæð ríki og höldum fram rétti allra þjóða til sjálfsákvörðunar. Við styðjum alla þá sem berjast fyrir friði og gegn heimsvaldastefnu.

    Sérstaklega krefjumst við:

    Að tafalaust verði bundinn endir á hið ólöglega hernámi Íraks, sem hefur valdið dauða hundruða þúsunda og hrakið milljónir manns á flótta, að allt erlent herlið verði þegar dregið til baka og íraska þjóðin og fulltrúar henni fái fullt fullveldi.

    Að hætt verði hverskyns undirbúningi að árás á Íran og því heitið að öll deilumál verði leyst algerlega eftir diplómatískum leiðum.

    Að erlent herlið verði dregið til baka frá Afganistan og afgönsku þjóðinni leyft að ákveða framtíð sína.

    Að palestínsku þjóðinni verði tryggt réttlæti og að endir verði bundinn á árásarstefnu Ísraels í Mið-Austurlöndum.

    Að bundinn verði endir á áætlanir Bandaríkjanna um eldflugavarnir og að öll ríki taki virkan þátt í að hamla gegn kjarnorkuvopnum.

    Við lýsum yfir samstöðu með öllum sem berjast fyrir friði, félagslegu réttlæti og sjálfsákvörðunrétti um allan heim, og við skuldbinum okkur til að styrkja einingu okkar og þróa ný form samstarfs.

    Þess vegna lýsum við því yfir að dagur innrásarinnar í Írak verði aðgerðadagur um allan heim til stuðnings kröfunum: GEGN ÁRÁS Á ÍRAN og ERLENDUR HER BURT ÚR ÍRAK og AFGANISTAN. Við skorum á allar hreyfingar gegn stríði að skipuleggja fjöldamótmæli og aðgerðir þann dag.“

Dagfari á netinu

By Uncategorized

Dagfari - nóvember 2007Tímarit SHA, Dagfari, kom út í nóvember og hefur verið borið út til félagsmanna. Blaðið er að vanda efnismikið og að þessu sinni óvenjuveglegt, 40 litprentaðar síður.

Vegna fjölda áskorana hefur Dagfari nú verið gerður aðgengilegur á PDF-formi hér á Friðarvefnum.

Ritstjóri Dagfara var að þessu sinni Þórður Sveinsson.

Landsbankinn og Marel í hergagnaframleiðslu

By Uncategorized

Föstudaginn 30. nóvember birtust tvær litlar en athyglisverðar fréttir í Fréttablaðinu. Hin fyrri bar fyrirsögnina: Eyrir Invest og Landsbankinn gerðu tilboð um að taka yfir Stork N.V. í Hollandi: Taka þátt í hergagnaframleiðslu.

Samkvæmt fréttinni eiga Íslendingar með þessu í fyrsta sinn svo vitað sé með beinum hætti hlut í félagi sem framleiðir hergögn. Um er að ræða iðnaðarsamstæðuna Stork N.V. í Hollandi sem þjónustar hergagnaiðnað og smíðar hluti sem notaðir eru í margvíslegum lofthernaði auk þess að sinna viðhaldi. Eyrir Invest, Marel og Landsbankinn hafa átt í þessu félagi, segir blaðið. Stork N.V. er skipt í fjögur svið, þar á meðal Stork Food Systems og Stork Aerospace. Samkvæmt annarri frétt í sama blaði er stefnt að hlutafjárútboði Marel Food Systems eftir áramótin til að fjármagna kaup félagsins á Stork Food Systems.

Þetta er reyndar ekki alveg ný frétt. Í júlí síðastliðnum birti stjórnarformaður Marel Food Systems yfirlýsingu um að LME, félag í eigu Landsbanka Íslands, Marel Food Systems og Eyris Invest, hafi eignast um 19,50% hlut í Stork N.V. fyrirtækjasamstæðunni. LME er því stærsti einstaki hluthafinn í Stork N.V., segir í yfirlýsingunni (sjá hér). Þannig eiga þessi íslensku fyrirtæki ekki bara hlut í matvælaframleiðslusviði fyrirtækisins heldur fyrirtækinu sjálfu með því sviði sem sinnir hergagnaframleiðslunni.

Það er Stork Aerospace sem sinnir hergagnaiðnaðinum og er lauslega gerð grein fyrir þeirri starfsemi í fyrri frétt Fréttablaðsins:

    „Stork Aerospace framleiðir meðal annars hluti í F-16 orrustuþotur Lockheed Martin, kemur að smíði stéls og fleiri hluta í NH90 herþyrlunni fyrir Eurocopter og smíðar vélarhluta í Tiger-bardagaþyrluna. Þá er hergagnaframleiðandinn Raytheon meðal viðskiptavina Stork, en fyrirtækið kemur meðal annars að gerð skotrörs MK56-eldflaugaskotpallsins. Sömuleiðis framleiðir Stork búnað fyrir hergagnaframleiðandann Thales.

    Í fyrra nam velta Aerospace, hluta Stork N.V., 549 milljónum evra, eða um fimmtíu milljörðum króna. Í framleiðsluhluta Stork Aerospace falla 53 prósent undir loftvarnasvið, en 47 prósent undir borgaralegan flugiðnað. Í þjónustuhlutanum nemur hlutdeild loftvarna hins vegar ellefu prósentum.

    Eignarhaldsfélagið LME hafði safnað að sér 43 prósenta hlut í iðnaðarsamstæðunni Stork N.V. í Hollandi. Með yfirtöku Marels á Stork Food Systems, sem er nú að ganga í gegn, selur LME allan hlut sinn. Eyrir Invest og Landsbankinn, sem áttu LME með Marel, taka þátt í yfirtökutilboði London Acquisition á Stork N.V. Eyrir Invest fer með fimmtán prósenta eignarhlut í London Aquisition og Landsbankinn tíundapart.“

    (www.visir.is/article/20071130/FRETTIR01/111300231)

24 stundir taka fréttina upp laugardaginn 1. desember. Þar er sagt að Marel dragi sig út úr Stork N.V. en eignist eitt dótturfélaga þess, Stork Food Systems. Eyrir og Landsbankinn munu þó áfram eiga í Stork N.V. Þess má geta að Eyrir er nátengt Marel, en einn af aðaleigendum þess, Árni Oddur Þórðarson, er stjórnarformaður Marels. Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems, staðfesti samkvæmt frétt 24 stunda að Marel ætti í Stork Aerospace. „Hinsvegar segir hann fyrirtækið ekki framleiða vopn heldur taki t.d. þátt í framleiðslu á hlutum í orrustuflugvélar.“

Fleiri fréttir um þetta hafa birst í íslenskum fjölmiðlum eins og sjá má ef sett eru inn orðin „marel“ og “stork“ á leitarvélar á netinu. Þar hefur þó yfirleitt ekki verið lögð áhersla á hergagnaframleiðsluna.

Í frétt Fréttablaðsins er getið um þátt Stork í framleiðslu F-16 orrustuþotna Lockheed Martin, sem er einn af mikilvægari hergagnaframleiðendum í Bandaríkjunum, en fyrirtækið hefur átt þátt í fleiri vörum Lockheed Martin eins og sjá má af frétt í Defense Industry Daily 21. nóv. 2005.