Monthly Archives

October 2007

Friðarverðlaun Nóbels 2007 – meiri háttar mistök

By Uncategorized

Eftir að tilkynnt var 12. október hverjir fengju friðarverðlaun Nóbels 2007 sendi Jan Øberg, framkvæmdarstjóri friðarstofnunarinnar Transnational Foundation for Peace and Future Research í Lundi í Svíþjóð, frá sér eftirfarandi yfirlýsingu, sem hér er birt með góðfúslegu leyfi hans.

Friðarverðlaun Nóbels 2007 – sérstaklega hlutur Al Gores – ber vott um tækifærisstefnu og mun óhjákvæmilega draga úr trúverðuleika verðlaunanna.

Alfreð Nóbel skrifaði í erfðaskrá sína að friðarverðlaunin skyldu veitt „þeim sem mest hafa lagt fram til að skapa bræðralag milli þjóða, uppræta eða draga úr þeim herafla sem fyrir hendi er og halda eða hvetja til friðarþinga“ (den som har verkat mest eller best för folkens förbrödrande och afskaffande eller minskning af stående armeer samt bildande och spridande af fredskongresser).

Án þess að draga úr mikilvægi hlýnunar jarðar eða verka þeirra sem nú hljóta verðlaunin – ,,Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar“ (Intergovernmental Panel on Climate Changes -IPCC) og Al Gores – þá er það í hæsta máta umdeilanlegt hvort þeir verðskulda FRIÐARverðlaun – jafnvel þótt það sé túlkað út frá núverandi aðstæðum en ekki aðstæðum ársins 1895 þegar Nóbel lagði fram sína hugsjón.

Hugmyndin um frið og skilgreining friðar ætti raunar að vera víð. En hvorugur verðlaunahafanna hefur lagt fram meira í þeim efnum en þúsundir einstaklinga og samtaka sem hafa helgað líf sitt baráttu gegn hernaðarstefnu, kjarnorkustefnu, styrjöldum, ofbeldi eða fyrir friði, umburðarlyndi, sáttum og samlyndi – þeim grundvallargildum sem eru forsendur friðarverðlauna Nóbels.

Það er líka leitt til þess að vita veita að verðlaunin eru veitt fyrir verk sem tengjast stjórnvöldum og fela í því í sér þau skilaboð að það séu stjórnvöld frekar en fólkið sjálft sem skapa frið.

Sérstaklega verður að líta til þess að sem varaforseti Bills Clintons kom Al Gore aldrei fram sem friðflytjandi. Ríkisstjórn Clintons og Gores rak stefnu sem miðaði að hernaðaruppbyggingu og myndun hernðarbandalaga allt í kringum Rússland – og glataði stærsta tækifæri sögunnar til nýrrar heimsskipunar.

Þvert á alþjóðleg lög og án umboðs Sameinuðu þjóðanna stóðu þeir fyrir loftárásum á Serbíu og Kósovó, ákvörðun sem byggðist á ófullnægjandi skilningi á Júgóslavíu og fullyrðingum um þjóðarhreinsanir, nokkuð sem hefur stuðlað að hörmulegu ástandi núna í Kósovó (sem hugsanlegt er að sjóði upp úr á þessu eða næsta ári) og þeir stóðu líka fyrir árásum á Afganistan og Súdan.

Það hefði mátt tengja verðlaunin umhverfismálum ef þau hefðu verið veitt einhverjum sem hafa barist gegn hernaði eða öðrum ofbeldisáhrifum á alþjóðlegt umhverfi: mengun af völdum hernaðar, þúsundum herstöðva sem valda umhverfisspjöllum, meðvituðum hernaði gegn umhverfinu, vígvæðingu í geimnum og á höfunum, og – að sjálfsögðu – kjarnorkuvopnum sem mundu valda enn meiri hitabreytingum en núverandi hlýnun jarðar ef þeim yrði beitt.

Í norsku Nóbelsnefndinni á sæti fólk sem hefur lítinn ef nokkurn bakgrunn í starfi eða kenningum um friðarmál. Það er samt ekki hægt að nota sem afsökun fyrir að gera málefni friðar og friðarverlaunin sjálf að aðhlátursefni.

Í dag hafa friðarverðlaun Nóbels verið gerð enn lítilvægari – til viðbótar við þá skömm að þau voru aldrei veitt Gandhi heldur fólki eins og Kissinger, Shimon Peres og Arafat.

Nagoya, Japan, 12. október, 2007

Með vinsemd

Jan Øberg

Ég fagna friðarsúlunni í Viðey

By Uncategorized

eftir Einar Ólafsson

Ég fagna friðarsúlunni í Viðey. Ég fagna henni af því að henni er ætlað að minna á mikilvægi friðar og að við beitum okkur fyrir friði. Ég fagna henni sem minnismerki um John Lennon, sem var bæði stórkostlegur listamaður og baráttumaður fyrir friði.

Friðartáknið getur verið ópólitískt í sjálfu sér, frammi fyrir því getum við sameinast um markmiðið, en á leiðinni verður margt sem taka þarf afstöðu til. Það gerði Lennon. Friðarbarátta hans tengdist baráttu fyrir réttlæti, baráttu gegn kúgun. Það nægir að nefna heiti nokkurra laga hans til að gefa hugmynd um boðskap hans: Give Peace a Chance, Power to the People, Woman Is the Nigger of the World, Working Class Hero. Því fór boðskapur hans fyrir brjóstið á bandarískum ráðamönnum á myrkum tíma Víetnamstríðsins. Þeir buðu hann ekki velkominn til Bandaríkjanna. Nú er aftur kominn myrkur tími í Bandaríkjunum, tími Íraksstríðsins.

Það voru líka myrkir tímar fyrr í Bandaríkjunum, svo sem tími McCarthy-ismans á sjötta áratug síðustu aldar. Þá voru margir miklir listamennn illa séðir. Listamenn sem börðust fyrir réttindum verkafólks, kvenna, blökkumanna – og fyrir friði, gegn kjarnorkuvopnum, gegn heimsvaldastefnu.

Það var á þeim tíma sem Ísland bast Bandaríkjunum æ sterkari böndum, en ekki fyrst og fremst bandarísku þjóðinni eða þeirri mannréttindahugsjón sem öðrum þræði tengdist upphafi Bandaríkjanna, heldur bandaríska herveldinu, bandaríska heimsveldinu. Ísland gerðist aðili að hernaðarbandalaginu NATO undir forystu Bandaríkjanna, tók við bandarísku herliði og lagði til land undir bandaríska herstöð. Þessi herstöð var hér á tímum Víetnamstríðsins, íslensk stjórnvöld létu undir höfuð leggjast að gagnrýna vini sína í Washington fyrir þetta stríð sem mótmælt var á götum úti um allan heim. Íslensk stjórnvöld tóku aldrei frumkvæði í baráttunni gegn kjarnorkuvopnum, enn hefur ekki náðst samstaða um kjarnorkuvopnalaust Ísland. Það samrýmist ekki veru okkar í NATO, sagði utanríkisráðherra síðustu ríkisstjórnar, Halldór Ásgrímsson, þeirrar ríkisstjórnar sem samþykkti innrásina í Írak.

Það er því fagnaðarefni þegar borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu tveggja þeirra flokka sem framar öðrum stóðu að inngöngu Íslands í NATO, herstöðvum á Íslandi og stuðningi Íslands við loftárásirnar á Júgóslavíu og innrásina í Írak og hafa hafnað tillögum um kjarnorkuvopnlaust Ísland, býður nú Yoko Ono, ekkju Johns Lennons og baráttufélaga, velkomna til Reykjavíkur til að setja upp þetta friðartákn í Viðey meðan þingmannasamtök hernaðarbandalagsins sitja bakvið luktar dyr í Laugardalshöllinni.

Fyrrverandi borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti árið 2002, eins og flest önnur sveitarfélög hafa gert, að umferð og geymsla kjarnorku-, efna- og sýklavopna verði bönnuð í borgarlandinu. Sú ákvörðun stendur enn og væntanlega mun núverandi borgarstjórn ekki víkja frá henni frammi fyrir friðarsúlunni í Viðey. Og vonandi mun borgarstjórn Reykjavíkur stíga enn frekari skref í friðarbaráttunni, svo sem með því að setja reglur um að herskip kom ekki í höfn í Reykjavík, eða að borgarstjórinn í Reykjavík sameinist um 1800 öðrum bæjarstjórum í friðarsamtökum bæjarstjóra (Mayors for Peace) sem borgarstjórarnir í Hírósíma og Nagasakí komu á fót árið 1982.

Það er þá aukaatriði þótt gleymst hafi að bjóða út í Viðey fulltrúum virkustu friðarsamtaka Íslands, Samtaka hernaðarandstæðinga og Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna, sem hafa t.d. í hátt á þriðja áratug staðið fyrir árlegri friðargöngu í Reykjavík á Þorláksmessu og kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn í minningu fórnarlamba kjarnorkusprengjanna í Hírósíma og Nagasaki. Má vera að þessi samtök þyki of pólitísk, en látum það liggja milli hluta.

Ályktun frá SHA í tilefni af vígslu friðarsúlu í Viðey

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa ánægju sinni með þá ákvörðun að vekja athygli á mikilvægi friðarbaráttu í heiminum sem felst í því að sérstök friðarsúla listakonunnar Yoko Ono sé afhjúpuð í Viðey. Sömuleiðis fagna SHA vilja borgaryfirvalda til að kynna Reykjavík sem miðstöð friðar.

Til að slík stefnumörkun sé trúverðug verður þó fleira að koma til. Eigi Reykjavík að geta staðið undir nafni sem friðarborg er fráleitt að bjóða þangað hernaðarbandalögum til fundarhalda, þar sem lagt er á ráðin um
vígvæðingu og stríðsrekstur. Fundir á borð við þingmannaráðstefnu NATO geta ekki samrýmst stöðu Reykjavíkur sem friðarmiðstöðvar.

Á sama hátt er fráleitt að finna friðarsúlu af þessu tagi stað nokkur hundruð metra frá þeim stað í Sundahöfn þar sem stærstu og voldugustu herskip NATO liggja við bryggju á hverju sumri. Er ef til vill ætlunin að friðarsúlan í Viðey gegni hlutverki innsiglingarljóss fyrir herskip sem hingað koma?

SHA hvetja borgaryfirvöld til þess að nota tækifærið við vígslu friðarsúlunnar og lýsa því yfir að herskipakomur í Sundahöfn verði ekki heimilaðar í framtíðinni. Þannig gæti Reykjavíkurborg stigið raunverulegt skref í átt til friðar og afvopnunar.

Um friðarsúluna, sjá:

Hugsa sér frið – Imagine Peace – vefur Reykjavíkurborgar

Imagine Peace – imaginepeace.com

Fundur um NATO og NATO-þingið á Litlu-Brekku í hádeginu á mánudag

By Uncategorized

nonato Í tilefni af ársfundi NATO-þingsins munu Samtök hernaðarandstæðinga standa fyrir fundi í Litlu-Brekku í Bankastræti í hádeginu mánudaginn 8. október.

Rætt verður um eðli hernaðarbandalagsins og baráttuna gegn því hér heima og erlendis. Ögmundur Jónasson alþingismaður kemur og ræðir um breytingar á NATO síðustu misserin. Þingmenn eru sérstaklega hvattir til að mæta, enda liggur starfsemi Alþingis niður vegna NATO-þingsins.

Á fundinum verður boðið upp á kaffi og gestir geta pantað sér súpu. Allir velkomnir.

Ályktun SHA vegna fundar NATO-þingsins í Reykjavík

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla því að til standi að halda þingmannafund NATO hér á landi um komandi helgi. Íslendingar eru herlaus og friðelskandi þjóð, sem ekki á að taka að sér gestgjafahlutverk fyrir slíkar samkomur. Að þessu tilefni vilja SHA minna á eftirfarandi staðreyndir um hlutverk og eðli NATO:

• NATO er hernaðarbandalag sem hefur yfir að ráða gríðarlegum hernaðarmætti. NATO hefur ekki útilokað beitingu kjarnorkuvopna að fyrra bragði.

• NATO hefur tekið þátt í árásarstríðum, s.s. á Balkanskaga. Um þessar mundir tekur bandalagið virkan þátt í hernámi Afganistan og hefur með aðgerðum sínum leitt til dauða fjölda saklausra borgara.

• Aðildarríki NATO eru ásamt Rússlandi langstærstu vopnaframleiðslulönd í heimi. Með vopnasölu sinni til stríðshrjáðra svæða bera þau ábyrgð á þjáningum fólks um víða veröld,

• NATO og einstök NATO-ríki hafa staðið gegn gerð og samþykkt fjölmargra afvopnunarsamninga á liðnum árum og áratugum, þar á meðal á sviði kjarnorkuafvopnunar.

• Það er innbyggt í skipulag NATO að Bandaríkjamenn hafi með höndum hernaðarlega stjórn þess. Bandarríkjastjórn hefur ítrekað notað NATO sem verkfæri eftir innrásir sínar, bæði í Afganistan og í Írak, undir yfirskini friðargæslu eða uppbyggingarstarfs.

• Ein af röksemdum Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra, gegn tillögum um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum árið 2004 var að það samrýmdist ekki skuldbindingum Íslands gagnvart NATO.

• Hinar umdeildu áætlanir Bandaríkjanna um gagneldflaugakerfi eru gerðar með fullu samþykki NATO og eru í raun liður í áætlunum NATO. Þessar áætlanir eru taldar spilla mjög fyrir viðleitni til afvopnunar.

• Einstök aðildarríki NATO bera höfuðábyrgð á stríðinu í Írak sem kostað hefur hundruð þúsunda Íraka lífið og hrakið milljónir á flótta.

Um leið og Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla fundarhöldum þessum, hvetja þau íslensk stjórnvöld til að taka upp sjálfstæða og friðsama utanríkisstefnu. Úrsögn úr NATO er rökrétt fyrsta skref í þá átt.

Ársfundur NATO-þingsins í Reykjavík 5.-9. október.

By Uncategorized

53. ársfundur NATO þingsins sem verður haldinn í Reykjavík 5.-9. október. NATO-þingið var stofnað árið 1955 sem samstarfs- og samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkja NATO. Í dag eiga 26 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sæti á NATO-þinginu og 13 ríki aukaaðild. Þingið hefur þó enga formlega stöðu innan bandalagsins en með árunum hefur komist á náin og virk samvinna NATO-þingsins og NATO. Meginhlutverk NATO-þingsins er að upplýsa og efla samstöðu þjóðþinganna. Þingið er, samkvæmt því sem segir á vef Alþingis, vettvangur þar sem þingmenn aðildarríkja NATO og aukaaðildarríkja geta fræðst um málefni bandalagsins, komið skoðunum sínum og áhyggjuefnum á framfæri og skipst á skoðunum um öryggis- og varnarmál.

Á NATO-þinginu eiga sæti 248 þingmenn frá aðildarríkjunum 26, auk þingmanna 13 aukaaðildarríkja, svo sem Sviss, Svíþjóðar, Finnlands, Rússlands og fleiri landa fyrrum Sovétríkjanna sem og fyrrum Júgóslavíu. Fjöldi fulltrúa frá hverju þjóðþingi er í hlutfalli við fólksfjölda í hverju ríki. Ísland hefur þrjá fulltrúa og þrjá til vara. Fulltrúar Alþingis eru Ragnheiður E. Árnadóttir formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir varaformaður og Magnús Stefánsson. Varamenn eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Kristinn H. Gunnarsson.

Einn þingflokkur, Vinstrihreyfingin grænt framboð, hefur ekki tilnefnt neinn fulltrúa. Alþýðubandalagið hafði á sínum tíma sama hátt á. Það er þó alls ekki algilt að stjórnmálaflokkar sem eru andvígir NATO eða gagnrýnir á bandalagið haldi sig utan við þessar samkomu. Þannig á til dæmis Vinstriflokkurinn í Þýskaland (Die Linke) fulltrúa, sömuleiðis Sósíalíski vinstri flokkurinn (Sosialistisk Venstreparti) í Noregi og Sósíalíski þjóðarflokkurinn (Socialistisk Folkeparti) í Danmörku. Einingarlistinn (Enhedslisten) í Danmörku hefur hins vegar engan fulltrúa.

Búist er við rúmlega 700 gestum á fundinn, þar af um 350 fulltrúa þjóðþingaþinga. Kostnaður Íslands vegna þingsins er áætlaður 150 milljónir.

Um Íslandsdeild NATO-þingsins á vef Alþingis
Um fundinn á vef Alþingis
Vefur NATO-þingsins
Um fundinn á vef NATO-þingsins

Í tilefni fundarins mun SHA standa fyrir hádegisverðarfundi mánudaginn 8. okotóber. Dagskrá fundarins og staðsetning verða auglýst síðar

Ung Vinstri-græn efna til friðarstundar við Laugardagshöll, fundarstað NATO-þingsins, laugardaginn 6. október kl. 8 árdegis.