Monthly Archives

March 2007

Ríkisstjórnarflokkarnir studdu innrásina í Írak

By Uncategorized

eftir Magnús Má Guðmundsson formann Ungra jafnaðarmanna

Magnús Már Guðmundsson, form. Ungra jafnaðarmanna Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars og á vef Ungra jafnaðarmanna, Politik.is, 19. mars.

Um miðjan febrúar árið 2003 vildi Tony Blair að vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna fengu lengri tíma til að sinna starfi sínu í Írak. Nokkrum dögum síðar sagði Hans Blix, yfirmaður vopnaeftirlitsnefndar SÞ, að Írakar sýndu raunveruleg merki um samvinnu. Í framhaldinu fór hann fram á að vopnaeftirlitsmenn fengu nokkra mánuði til viðbótar við störf sín í landinu. Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra sagði á Alþingi 3. mars að hann undirstrikaði nauðsyn þess að ályktanir SÞ héldu annars væri hætta á að öryggishlutverk samtakanna yrði dregið niður og að lokum myndu SÞ verða fyrir álitshnekkjum.

Skömmu fyrir innrásina
Á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 7. mars sagði Mohamed El Baradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, að engar vísbendingar hefðu komið fram um að Írakar hefðu endurnýjað kjarnorkuvopnaáætlun sína. Stuttu síðar sagði hann stofnuna þurfa ,,tvo til þrjá mánuði til viðbótar til þess að geta slegið því föstu að Írakar vinni ekki, og hafi ekki unnið, að þróun kjarnorkuvopna.”

George Bush, Tony Blair og José María Aznar, þáverandi forsætisráðherra Spánar, hittust og funduðu á Azoreyjum 17. mars. Þar gaf Bandaríkjaforseti SÞ sólarhringsfrest til að ákveða hvort samtökin styddu stríð gegn Írak undir forystu Bandaríkjanna. Skömmu síðar sagðist Davíð Oddsson styðja yfirlýsinguna.

Stuðningur Íslands við stríðið var ákveðin af tveimur mönnum sem sýndi og sýnir ótrúlega vanvirðingu þeirra manna gagnvart lýðræði í landinu og um leið sinni eigin þjóð. Þetta var gert án þess að utanríkismálanefnd Alþingis kæmi saman, en nefndin á að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um ,,meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál, jafnt á þingtíma sem í þinghléum.” Ef stuðningur við stríð er ekki meiri háttar utanríkismál – hvað er þá meiri háttar utanríkismál?

Skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma þann 20. mars hófst stríð í Írak.

SÞ og alþjóðasamfélaginu sýnd vanvirðing
Ísland var og er á lista sem gengur þvert gegn samþykktum alþjóðasamfélagsins, heimilaði aðgerðir sem ekki voru studdar af Sameinuðu þjóðunum og tóku ekki mið af upplýsingum manna eins og Hans Blix og Mohamed El Baradei. Hvað sem fólki finnst um SÞ og það hversu svifaþung samtökin geta verið þá geta þjóðir, líkt og þjóðirnar á lista hinna viljugu gerðu, ekki hegðað sér á þennan hátt. Það er óábyrgt. Með þessum gjörningi sýndu Íslendingar í samvinnu við félaga okkar á listanum Sameinuðu þjóðunum og alþjóðasamfélaginu í heild sinni gífurlega vanvirðingu og um leið drógu við úr áhrifamætti SÞ.

Hroki Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna
Kofi Annan, þáverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fullyrti um miðjan september 2004 að árásarstríðið í Írak hefði ekki verið í samræmi við stofnsáttmála SÞ og væri í því ljósi ólöglegt. Ákvörðun sem þessa væri ekki hægt að taka fram hjá öryggisráði SÞ. Í framhaldinu sagðist Halldór Ásgrímsson ekki hafa skipt um skoðun hvað varðaði lögmæti innrásarinnar í Írak þrátt fyrir yfirlýsingu aðalritara SÞ. Halldór sagði að fólk ætti ekki að vera að ,,dvelja svona mikið við fortíðana eins og er verið að gera” og sagði hann jafnframt að það ætti frekar að horfa til framtíðar. Varðandi gjöreyðingarvopnin sagðist Halldór hafa orðið ,,a.m.k. fyrir miklum vonbrigðum” með að upplýsingar sem hann hafði haft undir höndum hafi ekki verið réttar.

Í byrjun árs 2005 kom í ljós í könnun sem Gallup framkvæmdi að 84% Íslendinga voru á móti því að við séum á lista hinna viljugu þjóða. Davíð Oddsson skildi ekkert í því að Gallup skyldi spyrja ,,svona” og taka þátt í ,,uppþoti stjórnarandstöðunnar”. Þáverandi formaður utanríkismálanefndar Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, reyndi að gera lítið úr lista hinna vilju og sagði listann ekki skipta máli. Siv Friðleifsdóttir reyndi einnig að draga úr mikilvægi lista hinna viljugu og sagði aukinheldur að nú væri aðeins uppbyggingin eftir og að ,,fólk [virtist] ekki átta sig á því.” Uppbyggingin eftir. Er það raunin? Hvernig er ástandið í Írak í dag? Ekkert lát virðist vera á óöldinni í Írak og sífellt fleirum verður ljóst hvaða hörmungar stríðið hefur kallað yfir írösku þjóðina. Samt sem áður stendur Sjálfstæðisflokkurinn fast á því að stuðningur við innrásina hafi verið réttur. Afstaða Framsóknarflokksins er óljós en Jón Sigurðsson formaður flokksins hefur farið ófáa hringi í málinu eftir að hann kom fram á sjónarsviðið sem handvalinn eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar sl. sumar.

Hinir staðföstu stríðsandstæðingar
Um þessar mundir eru liðin fjögur ár frá því að innrás Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra í Írak hófst með formlegum stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar. Mánudagskvöldið 19. mars kl. 20 munu hinir staðföstu stríðsandstæðingar efna til baráttusamkomu í Austurbæ þar sem allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þar verður innrásinni mótmælt og þess krafist að íslensk stjórnvöld axli ábyrgð vegna hins svívirðilega stuðnings við hið ólöglega árásarstríð. Ungir jafnaðarmenn tilheyra hinum staðföstu stríðsandstæðingum.

Mótmælasamkoma í Austurbæ

By Uncategorized

Á fjögurra ára afmæli Íraksstríðsins efna ýmsir hópar og samtök til baráttusamkomu í Austurbæ, þar sem stríðsrekstrinum og stuðningi Íslands er mótmælt.

Kjarni málsins

By Uncategorized

austurbaerStundin: Mánudagskvöldið 19. mars, kl. 20

Staðurinn:
Austurbær (gamla Austurbæjarbíó)

Dagskráin:

Ávörp: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Helgi Hjörvar

Tónlistaratriði: XXX Rottweilerhundar, Ólöf Arnalds & Vilhelm Anton Jónsson

Upplestur: Bragi Ólafsson

Kynnir: Davíð Þór Jónsson

Aðstandendur: Hinir staðföstu stríðsandstæðingar

Samtök hernaðarandstæðinga
MFÍK
Þjóðarhreyfingin – með lýðræði
Ung vinstri græn
& Ungir Jafnaðarmenn

Gegn stríðinu í Írak: Munið fundinn í Austurbæ mánudaginn 19. mars kl. 20

By Uncategorized

notowar Sjá dagskrá

Næstkomandi þriðjudag, 20. maí, verða liðin fjögur ár frá innrásinni í Írak, innrás Bandaríkjanna, Bretlands og fleiri ríkja með fulltingi lufsulegra þýja, svokallaðra viljugra eða staðfasta ríkja, eins og íslensku ríkisstjórnarinnar undir forystu Davíð Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar – og megi skömm þeirra lengi uppi vera. Nú, fjórum árum seinna, líður varla sá dagur að ekki berist fréttir af því að tugir óbreyttra borgara falli eða örkumlist – þessar fréttir eru farnar að líða hjá skynfærum hins almenna borgara rétt eins og fréttirnar af Nasdaq-vístölunni. Það verður ekki framhjá því litið að íslenska ríkisstjórnin er samábyrg vegna dauða og örkumla hundruð þúsunda almennra borgara í Írak auk hermanna frá ýmsum löndum.

Þessi innrás hófst þrátt fyrir mestu mótmælaaðgerðir sögunnar. Kannski má segja að mótmælaaðgerðir vegna Víetnamstríðsins hafi verið meiri, en aldrei hafa verið jafn víðtækar og fjölmennar mótmælaaðgerðir á jafnstuttum tíma og voru veturinn 2002 til 2003. Ekki tókst þó að koma í veg fyrir innrásina. Verkinu er því ekki lokið. Rétt eins og mótmæli á Vesturlöndum áttu sinn þátt í að binda endi á Víetnamstríðið getum við hugsanlega lagt okkar að mörkum til að stytta þann hörmungartíma sem rann upp í Írak með innrásinni 20. mars 2003 – og var raunar hafinn miklu fyrr með viðskiptabanninu í kjölfar fyrra Persaflóastríðsins.

Sem betur fer er hreyfingin, sem varð til gegn þessu stríði, enn í fullu fjöri. Víða um heim eru ýmiskonar aðgerðir nú þessa dagana. Hér skulu nefndar aðgerðir í Bandaríkjunum og nokkrum Evrópulöndum:

Bandaríkin: Mótmælafundur við Pentagon í Washington laugardaginn 17. mars. Sjá A.N.S.W.E.R. Á heimasíðu United for Peace and Justice er listi yfir fyrirhugaðar aðgerðir á meira þúsund stöðum í Bandaríkjunum.

England: Á Englandi hefur að undanförnu farið saman barátta gegn endurnýjun Trident-kjarnorkusprengjuflauganna, gegn Írakstríðinu og þátttöku Breta í því og gegn áformum Bandaríkjamanna um innrás í Íran.
Miðvikudaginn 14. mars voru mótmæli gegn endurnýjun Trident-flauganna.
Þriðjudaginn 20. mars verður svokallað almannaþing í London til að ræða Írak, fyrirhugaða innrás í Íran og utanríkisstefnu Bretlands eftir Blair. Sjá Stop the War Coalition og Campaign for Nuclear Disarmament.

Rétt er að geta þess að 27. janúar voru gífurlega fjölmennar mótmælaaðgerðir í Washington gegn stríðinu, talið er að allt að hálf milljón manns hafi tekið þátt í þeim og 24. febrúar tóku allt að 100 þúsund manns þátt í mótmælaðgerðum í London.

gegnstridi danm 20070317 Danmörk laugardaginn 17. mars:
útifundir í Álaborg, Árósum, Óðinsvéum, Kaupmannahöfn og Rönne.
Allir danskir hermenn heim, nú!
Sjá Nej til krig.

gegnstridi sverige 20070317 Svíþjóð laugardaginn 17. mars:
útifundir í Stokkhólmi, Gautaborg, Málmey og víðar.
Bandaríkin út úr Írak.
Nätverket Mot Krig.

Sjá myndir hér og hér.

gegnstridi irland 20070324 Írland laugardaginn 24. mars: Írland láti af stuðningi við stríðið, bandaríski herinn burt frá Shannon-flugvelli! Irish Anti War Movement

gegnstridi belgia 20070318 Belgía sunnudaginn 18. mars. Útifundur í Brussel. Stop USA, Coordination Nationale d’Action pour la Paix et la Démocratie, Mother Earth.

Grikkland laugardaginn 17. mars: 17 Μάρτη, Πανελλαδικό Αντιπολεμικό Συλλαλητήριο, Αθήνα, Πλ. Συντάγματος 2:00 μμ. www.stop-the-war.gr

Ítalía laugardaginn 17. mars: útifundur í Róm. Þar er lögð áhersla á að Ítalir dragi herlið sitt til baka frá Afganistan, en það hefur verið deilumál þar að undanförnu. 17 MARZO A ROMA P.za della Repubblica ore 15 MANIFESTAZIONE NAZIONALE per il ritiro delle truppe dall’Afghanistan e da tutti i fronti di guerra. Confedarazione Cobas

Eina leiðin til friðar er að Bandaríkin hverfi frá Írak

By Uncategorized

eftir Einar Ólafsson

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2007

Eina hugsanlega leiðin til að binda enda á sívaxandi ofbeldi í Írak er að bandaríski herinn hverfi á braut ásamt herliðum annarra svokallaðra viljugra ríkja. Jafnframt verða bandarísk fyrirtæki að draga starfsemi sína úr landinu, fyrirtæki eins og Halliburton, Bechtel og olíufyrirtækin sem nú eru að leggja undir sig olíuvinnslu í landinu.

Meginástæða ofbeldisins er innrás og hernám Bandaríkjanna. Það er sama hversu mikið herlið Bandaríkjamenn senda til Írak, þau hryðjuverk sem þar eru framin dag hvern verða ekki stöðvuð með hervaldi því að hryðjuverkin eru vopn hins valdalausa gegn hervaldinu. Þótt ekki sé rétt að kenna villimannsleg hryðjuverk, sem valda fyrst og fremst limlestingum og dauða almennings, við frelsisbaráttu er það samt vafalaust að innrás og hernám Bandaríkjanna í Írak er orsök þessa ástands.

Engin von er þó til að ofbeldinu linni sjálfkrafa þótt Bandaríkjamenn hverfi á braut ásamt þýjum sínum. Átökin eru orðin miklu flóknari en svo. En þá fyrst, þegar Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hverfa á brott, verður hægt að byrja að vinna að friði. Þá verða Bandaríkjamenn að halda sig til hlés en láta önnur ríki, ríkjasambönd eða yfirþjóðleg samtök og stofnanir, sem á engan hátt komu að innrásinni, svo sem Sameinuðu þjóðirnar (en ekki NATO sem er undir forystu Bandaríkjanna), gangast fyrir friðarumleitunum í Írak og að þeim verða allir innlendir aðilar að koma.

Nú er ekki líklegt að Bandaríkjamenn muni fallast á þetta, af því að það er ekki meginmarkmið þeirra að koma á friði, lýðræði og stöðugleika í Írak. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir þeim er að ná ítökum í landinu meðal annars til að ná yfiráðum yfir olíuframleiðslunni. Þó að mikilvægt sé fyrir þá að koma á friði er þeim meira virði að halda ítökum sínum.

Alþjóðasamfélagið svokallaða verður því að þrýsta á Bandaríkin að hverfa frá Írak. Og þar gegna hin svokölluðu viljugu ríki mikilvægu hlutverki. Meðal þeirra er Ísland. Íslenska ríkisstjórnin getur alls ekki sagt að hún hafi haft rangar upplýsingar þegar hún ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrásina. Ef svo var, þá var utanríkisráðuneytið engan veginn starfi sínu vaxið. Mjög trúverðugar upplýsingar lágu fyrir um að sáralitlar líkur væru á að gjöreyðingavopn væru til í Írak og vopnaeftirlitsmenn báðu um aðeins lengri frest til að sannreyna það sem lá næstum ljóst fyrir. Aðrar ástæður, sem tíundaðar hafa verið, eru jafnfráleitar. Jafnframt lágu fyrir skýrslur frá ýmsum viðurkenndum aðilum um hugsanlegar afleiðingar innrásar þar sem spáð var miklum hörmungum. Það eina sem íslensk stjórnvöld geta gert núna er að skammast sín og lýsa því yfir að þessi stuðningur hafi verið mistök. Jafnframt verða þau að horfast í augu við ábyrgð sína á þeim hörmungum sem dunið hafa yfir írösku þjóðina frá því að innrásin hófst (látum viðskiptabannið og allt sem því fylgdi liggja milli hluta að sinni). Síðan ætti ríkisstjórnin að hafa frumkvæði að því að fá önnur „viljug ríki“ til að gera hið sama og snúa sér svo sameiginlega til bandarískra stjórnvalda og krefjast þess að þau hverfi frá Írak, bæði með her og bisness, svo hægt verði að fara að vinna að friði. Loks ber Íslendingum að opna landið fyrir íröskum flóttamönnum, því að hverjir eiga að gera að ef ekki þeir sem bera ábyrgð á ástandinu?

Friðsöm utanríkisstefna

By Uncategorized

Höfundur: Lárus Páll Birgisson

Hér er hvatningarbréf sem Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði og friðarsinni, hefur afhent fjölda alþingismanna að undanförnu. Það birtist fyrst á vefritinu Eggin 16. maí.

Friðsöm utanríkisstefna
Hvatning til þingmanna, ráðherra og annarra valdhafa á tímum ófriðar og manngerðra hörmunga

Orsakir stríðs.
Í gegnum söguna hafa menn réttlætt stríðsátök á ótal vegu. Hvert stríð kallar á útskýringar ráðamanna um ástæður þess að taka upp vopnaða baráttu gegn öðrum manneskjum. Ástæðunum fjölgar í jöfnu hlutfalli við stríðin og þegar sagan er skoðuð virðast ástæðurnar nær óþrjótandi. Trúarbrögð, landvinningar, siðferðisbarátta, gereyðingavopn, hryðjuverk, harðstjórar og jafnvel friður hefur verið notað sem réttlæting á stríðsrekstri og svona mætti lengi telja.

En þetta eru ekki hinar raunverulegu ástæður stríðs heldur afsökunin, réttlætingin sem ráðamenn telja fólki trú um að séu réttar og sannar. Hinar raunverulegur ástæður stríðsátaka eru ótti, hatur, græðgi og skortur á kærleika og umburðarlyndi. Hinar raunverulegu ástæður eru því ekki hinar ytri aðstæður eða pólitískt landslag heldur þær tilfinningar sem búa innra með okkur. Á þessum tilfinningum nærast stríðsæsingamenn.

Það eru mikil sannindi þegar sagt er að fyrsta fórnarlamb stríðsátaka sé sannleikurinn. Með markvissum áróðri er hægt að vekja upp ótta almennings gegn öðrum þjóðum. Í hlutverkaspili stjórnmálamanna eru það iðulega þeir sem eru hinir réttsýnu boðberar sannleikans og hinir sem ekki eru á sama máli settir í hlutverk óvinarins. Þegar hræðsla og hatur almennings við “óvininn” er orðin fullþroska geta ráðamennirnir fengið sínu fram og beitt “óvinin” miskunarlausu ofbeldi í skjóli ótta og þagnar almennings. Þannig eru styrjaldir ekki einkamál stjórnmálamanna heldur sameiginlegt mein allra manna sem láta hjá líða að sporna við þeim.

Af hverju friður?
Að fá að lifa í friði er mannréttindamál sem allir ættu að láta sig varða. Friður er ástand sem flestir menn sækjast eftir og það er réttur okkar fá að lifa í friði. Sá sem fer í stríð gegn náunga sínum brýtur þannig á rétti hans til að lifa í friði og sviptir um leið sjálfan sig þeim sama rétti. Þannig tapa allir stríðandi aðilar mikilvægum mannréttindum sem felast í því að fá að lifa í friði.

En það eru ekki bara hinir stríðandi aðilar sem tapa mikilvægum mannréttindum. Saklausir borgarar, menn, konur og börn eru svipt réttinum til að lifa í friði að þeim forspurðum. Lang stærstur hluti þeirra sem falla eða særast í styrjöldum eru almennir borgarar. Þeir fá engu ráðið um það hvort farið sé í stríð eða ekki. Stríðandi aðilar vanvirða rétt þessa fólks til að fá að lifa í friði og sá sem slíkt gerir fremur mannréttindabrot.

Ef sannfæring manna segir þeim að þeir hafi rétt á að lifa í friði, án ótta við yfirvofandi ofbeldisverk stríðsvéla, þá ber þeim að auðsýna öðrum manneskjum sömu virðingu. Okkur ber skylda til að koma fram við náungann af sömu virðingu og við viljum láta koma fram við okkur. Friðarbaráttan snýst ekki um pólitísk ágreiningsefni heldur siðferði og mannréttindi. Friðarbaráttan er ekki átök á milli hægri og vinstri heldur er hún barátta á milli góðs og ills, þess sem er rétt og þess sem er rangt.

Friðsöm utanríkisstefna.
Ævarandi hlutleysi var eitt sinn hugtak sem íslenska þjóðin kaus að fara eftir. Í orðunum fólst sú hugsjón að standa utan við hvers kyns milliríkjadeilur þar sem ofbeldi og vopnuð átök einkenndu samskiptin. Í dag er staðan því miður önnur og verri. Íslendingar eru aðilar að hernaðarbandalagi sem valdið hefur þjáningu og angist milljóna manna, kvenna og barna. Við höfum stutt ólögmætan stríðsrekstur þar sem stríðsglæpir og mannréttindabrot eru framin daglega af bandamönnum okkar. Íslenskir piltar ganga um í herbúningum með alvæpni í fjarlægum löndum undir yfirskyni friðargæslu.

En friður kemst ekki á með vopnavaldi og stríðsrekstri. Hugtökin stríð og friður eru það miklar andstæður að annað þrífst ekki þar sem hitt er til staðar. Þannig getur stríð ekki verið til staðar þar sem friður ríkir og friður er ekki þar sem stríð geysa. Það er bara um eitt hugtak að velja, annaðhvort stríð eða frið.

Hvort hugtakið viljum við Íslendingar tileinka okkur í utanríkismálum?

Viljum við tilheyra þeim þjóðum sem halda opnum þeim möguleika að ráðast á önnur ríki með vopnavaldi ef óleysanlegur ágreiningur kemur upp eða viljum við tileinka okkur friðsama utanríkisstefnu þar sem allar þjóðir geta áhyggjulaust átt í viðræðum við okkur án ótta við ofbeldisaðgerðir af okkar hálfu ef viðræður renna út í sandinn?

Hagur okkar af friðsamri utanríkisstefnu verður ekki reiknaður í peningum því ávinningurinn er mun meiri en allur auður heimsins. Með friðsamri utanríkisstefnu leggjum við grunninn að betri heimi og verðum brautryðjendur í heimsmynd friðar og kærleika þar sem stríð og vopnuð átök heyra sögunni til. Með friðsamri utanríkisstefnu verðum við fyrirmynd annarra þjóða í milliríkjasamskiptum og með því að hafna alfarið ofbeldi og stríðsrekstri sem ásættanlegu samskiptamunstri þjóðanna ávinnum við okkur ævarandi virðingu friðelskandi fólks um heim allan.

Það eina sem stendur í vegi fyrir því að svona muni verða er aðgerðarleysi þeirra sem völdin hafa. Á meðan enginn gerir neitt þá breytist ekkert. Það er á valdi ráðamanna að koma málefnum að og kynna góðar hugmyndir þjóðunum til heilla því ekki er það á valdi einmanna andófsmanns á Austurvelli, það get ég vottað.

Hvar stendur þú?
Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins stendur skrifað:

“48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.”

Sé það sannfæring þingmanna að ofbeldi og vopnuð átök sé óásættanleg aðferðafræði í samskiptum manna og þjóða þá ber honum að standa við þá sannfæringu sína á þingi.

Samkvæmt þessum lögum er þingmaður ekki skyldugur til að fylgja stefnu flokks síns ef stefna hans er andstæð siðferði hans og sannfæringu.

Á Alþingi starfa 63 þingmenn. Vissulega getur verið erfitt að sannfæra 63 þingmenn um að friðsöm utanríkisstefna sé landi og þjóð til heilla. En þökk sé lýðræðishefðum sem kveða á um að meirihlutinn skuli ráða þá þarf ekki að sannfæra nema 32 þingmenn til að friðsöm utanríkisstefna verði að veruleika.

Ef þú ert einn af þeim sem telur stríð ásættanlegt samskiptaform við erlend ríki þá hvet ég þig til að endurskoða hug þinn í ljósi þeirra mannréttindabrota sem slíkar aðgerðir kalla á.

Sért þú hinsvegar einn af þeim sem hafnar ofbeldi sem réttmætri aðferðafræði í samskiptum þjóðanna og virðir rétt fólks til að lifa í friði þá bið ég þig að leita allra leiða til að sannfæra starfssystkini þín um réttmæti og skynsemi slíkrar stefnu í utanríkismálum.

Engin þjóð á skilið meiri virðingu en hún sýnir öðrum.

Engin þjóð á skilið meiri frið en hún veitir öðrum.

Með friðsamri utanríkisstefnu getum við Íslendingar skipað okkur fremst í flokk þeirra þjóða sem hafna stríðsrekstri og ofbeldisverkum í nafni pólitískra ágreiningsefna. Sem friðsöm þjóð munum við öðlast virðingu og vegsemd annarra ríkja og verða fyrirmynd þjóðanna í samskiptum okkar við ólíka bræður okkar og systur sem byggja þessa Jörð.

Ég hvet þig kæri þingmaður að standa vörð um þau gildi sem við Íslendingar höfum tileinkað okkur í mörg hundruð ár, gildi friðar og kærleika, virðingar og vinsemdar.

Virðingarfyllst

Lárus Páll Birgisson

sjúkraliði

Raunir lygarans

By Uncategorized

Munið samkomuna í Austurbæ mánudagskvöldið 19. mars!
* * *
Grein þessi birtist í Dagfara, tímariti SHA, sem út kom í mars 2007.

Hið klassíska vandamál lygarans er að þurfa að muna öll þau ósannindi sem hann lætur sér um munn fara. Hverju laug hann, hvenær og að hverjum? Lökustu lygararnir eru hinir minnislausu, sem freistast til að breyta frásögn sinni í sífellu. Þeir fara undan í flæmingi, verða margsaga og að viðundrum þegar saga málsins er rifjuð upp.

Málflutningur Framsóknarflokksins á fjórum árum sem liðin eru frá upphafi Íraksstríðsins ber öll merki hins lélega lygara. Frá því að þáverandi formaður Framsóknarflokksins ákvað í samvinnu við kollega sinn úr Sjálfstæðisflokknum, að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjamanna, hafa Framsóknarmenn verið á flótta og reynt að endurrita söguna eftir því sem hentar hverju sinni.

Um þessar mundir reyna leiðtogar Framsóknarflokksins einkum að halda sig við tvær útgáfur af sögunni. Annars vegar er það túlkun Guðna Ágústssonar varaformanns, að listi “staðfastra stuðningsþjóða stríðsins” hafi verið raunverulegur – en að bandarískir ráðamenn hafi sett nafn Íslands á hann í heimildarleysi. Hins vegar er það skýring formannsins, Jóns Sigurðssonar, sem segir að ekki hafi verið um neinn formlegan lista stuðningsþjóða að ræða. Þess í stað hafi birst merkingarlaus fréttatilkynning á heimasíðu Hvíta hússins, með upptalningu á nöfnum nokkurra ríkja, sem ekki hafi neitt sérstakt gildi.

Götin í þessari röksemdafærslu eru slík að erfitt er að vita hvar skal byrja. Ef við ímyndum okkur í augnablik að þeir Guðni og Jón segi rétt frá, hlyti það að kalla á hörð viðbrögð íslenskra stjórnvalda ef meint vinaþjóð Íslendinga, Bandaríkin, sendu upplogna tilkynningu um stuðning við hernaðaraðgerðir. Eðlileg viðbrögð væru þau að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á þessum blekkingum og krefja Bandaríkjastjórn skýringa.

Auðvitað var ekki um neina slíka sviksemi að ræða, enda þrættu foringjar íslensku ríkisstjórnarinnar aldrei fyrir það á vordögum 2003 að leitað hefði verið eftir formlegum stuðningi Íslendinga. Stuðningslistinn alræmdi var margoft ræddur í aðdraganda Alþingiskosninganna 2003. Stjórnarflokkarnir voru harðlega gagnrýndir fyrir að setja Ísland á listann, en þeir svöruðu því til að stríðið væri óhjákvæmilegt og að sannanir um gereyðingavopnaframleiðslu Íraka ættu eftir að koma í ljós. Þegar þessar umræður eru rifjaðar upp kemur glöggt í ljós hversu fráleitur uppspuni formanns og varaformanns Framsóknarflokksins er nú.

En var stuðningsþjóðalistinn raunverulegt fyrirbæri – eða bara merkingarlaus fréttatilkynning sem engum orðum er eyðandi í? Í bandarísku forsetakosningunum 2004 var meðal annars tekist á um listann, þar sem John Kerry frambjóðandi Demókrata hæddist að því hversu fáar “öflugar vinaþjóðir Bandaríkjanna” þar væri að finna. Bush forseti reyndi að malda í móinn og benti á að Kerry hefði gleymt Póllandi. Þau ummæli urðu fleyg, en voru fremur talin forsetanum til háðungar. Eftir stendur að foerseti Bandaríkjanna og mótframbjóðandi hans töldu báðir að listinn hefði raunverulegt gildi þegar komið var vel fram á árið 2004.

Í umræðum um stuðningsyfirlýsinguna dæmalausu, grípur ríkisstjórnin oft til þeirra raka að fráleitt sé að afturkalla stuðninginn – og raunar óframkvæmanlegt. Gegn því má benda á að ráðamenn í Kosta Ríka álpuðust til að lýsa stuðningi við stríðsreksturinn, en urðu afturreka með þá ákvörðun þegar andstaða heima fyrir og ströng lagaákvæði reyndust standa í veginum. Í september 2004 óskaði Kosta Ríka-stjórn eftir því að vera tekið af stuðningslistanum og varð Hvíta húsið við þeirri beiðni.

Stuðningsyfirlýsing ríkisstjórnar Íslands við innrásina í Írak var raunveruleg. Bandaríkjastjórn sóttist eftir samþykki hérlendra ráðamanna og fékk það. Auðvitað sögðu Bandaríkjamenn ekki alla söguna um tilefni og tilgang stríðsins, en það gátu allir séð í gegnum sem á annað borð kærðu sig um það.

Staðreyndin er sú að það ekkert að koma á óvart við stuðningsyfirlýsinguna frá 2003. Hún er í rökréttu samhengi við þá utanríkisstefnu sem Íslendingar hafa fylgt á undanförnum áratugum. Megineinkenni hennar er blindur stuðningur við hernaðarhagsmuni Bandaríkjanna og NATO, hvar sem er í heiminum. Þessi afstaða á sér margslungnar skýringar, þar á meðal efnahagslegar og stjórnmálalegar. Einn veigamesti þátturinn var þó lengi vel herstöðin á Miðnesheiði og áhugi íslenskra valdhafa að tryggja sem mest umsvif hennar með tilheyrandi hermangi.

Með brottför hersins sl. haust jukust því líkurnar á að Íslendingar muni á komandi árum geta myndað sér sjálfstæða utanríkisstefnu og sleppi takinu á pilsfaldi risaveldisins. Að tryggja að svo verði er eitt stærsta og brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála.

Stefán Pálsson

Er hryðjuverkaógnin raunveruleg? Fundur á Akureyri laugardaginn 17. mars kl. 14

By Uncategorized

waronterror Fyrirlestur sem þú ættir ekki að sleppa.

Laugardaginn 17. mars kl. 14.00. Skrifstofu Vinstri grænna, Hafnarstræti 98, Akureyri.

Í tilefni af því að 19. mars er innrásin í Írak fjögurra ára heldur Elías Davíðsson erindi á vegum Samtaka hernaðrandstæðinga.

Opið öllum.

Er hryðjuverkaógnin raunveruleg?

Titill erindisins er leiðandi og gefur í skyn að það sem fjölmiðlar segja um hryðjuverkaógnina geti verið ýkt eða tilbúið. Fyrst mun Elías sýna fram á, að barátta gegn hryðjuverkum er nú eitt af meginviðfangsefnum NATO og vestrænna ríkja á sviði öryggismála. Næst rýnir hann í forsendur þessa átaks, þ.e. hve umfangsmikil hryðjuverkaógnin sé. Hann mun greina milli tveggja flokka af hryðjuverkum, annars vegar raunverulegra hryðjuverka og hins vegar sviðsettra hryðjuverka. Að lokum mun Elías ræða um notagildi hryðjuverkaógnunarinnar fyrir stjórnun á samfélögum.

Elías Davíðsson er kerfisfræðingur, forritari og tónlistarmaður, f. í Palestínu 1941, en hefur búið hér á landi frá 1962. Á liðnum árum hefur hann stundað rannsóknir á sviði þjóðaréttar og mannréttinda, m.a. um hryðjuverk, þ.m.t. atburðina 11. september 2001 og hryðjuverkin í London og Madrid. Árið 2005 flutti hann erindi á alþjóðlegri ráðstefnu lýðræðissinnaðra lögfræðinga í París, um hryðjuverkaógnina. Erindið hefur verið birt í tímariti um alþjóðamál sem gefið er út í Tehran og í nýútkominni bók í Bandaríkjunum. Það heitir “The War on Terror: A Double Fraud Upon Humanity” og er birt á vefsíðu Elíasar www.aldeilis.net

Elías er stofnandi íslensku 11. september hreyfingarinnar og vefstjóri evrópsku vefsíðu 11. september hreyfingarinnar. Sú hreyfing berst fyrir því að atburðirnir 11. september 2001 verði upplýstir að fullu.

Munið:
17. mars á Akureyri!
19. mars í Reykjavík

Þriðjudagsbíó róttæklingsins

By Uncategorized

Anarkistabókasafnið Andspyrna og SHA standa fyrir kvikmyndasýningum á þriðjudögum í mars. Að þessu sinni verður sýn sænska heimildarmyndin Terrorists!

Seldur verður matur á vegum Andspyrnu-fólks.