Monthly Archives

February 2007

Alþjóðlega friðarhreyfingin 2007 – helstu aðgerðir og kjörorð

By Uncategorized

24Feb07Leafletedit 000 Á Alþjóðlegu samfélagsþingunum (WSF) eru jafnan ýmsir fundir og fyrirlestrar um friðarmál sem friðarsamtök skipuleggja. Þá nýta friðarhreyfingarnar þessar samkomur líka til skrafs og ráðagerða og undanfarin ár hafa þeir fulltrúar ýmissa friðarsamtaka sem þarna hittast tekið saman og sent frá sér yfirlit um helstu verkefni og aðgerðir friðarhreyfingarinnar á árinu.

Á Alþjóðlega samfélagsþinginu í Nairobi 20.-25. janúar sl. sendu fulltrúar friðarsamtakanna frá sér eftirfarandi áætlun (Sjá No Bases):

24. febrúar: Aðgerðir í London gegn Trident-flaugum, hersveitirnar verði kallaðar heim frá Írak.
(CDN, Stop the War Coalition)

5.-9. mars: Alþjóðleg ráðstefna gegn erlendum herstöðvum verður haldin í Quito og Manta í Ekvador.
(No Bases)

17.-20. mars: Alþjóðlegar aðgerðir gegn hernámi Íraks.

29. mars – 1. apríl: Fimmta Kaíró-ráðstefnan í Kaíró í Egyptalandi.
(sjá auglýsingu frá StWC)

2. júní: Mótmæli gegn fundi G8-ríkjanna í Rostock í Þýskalandi. Friðarhreyfingar leggi áherslu á mótmæli gegn stríði.
(sjá upplýsingar og vefsíður hér)

15. maí: Alþjóðlegar mótmælaaðgerðir til að minna á flótta (Nakba) Palestínumanna.

7.-9. júní. Alþjóðleg mótmæli til að minna á 40 ára hernám Ísrael í Palestínu.

29. nóvember: Alþjóðlegar aðgerðir til að sýna Palestínumönnum samstöðu.

Maí 2008: Friðarráðstefna í Tókíó í Japan (“global article 9 conference to abolish war”). (Nánari upplýsingar: article-9@peaceboat.gr.jp)

Helstu kjörorðin eru þessi:

Stöðvið stríðið – allt herlið heim!
Látið íraska olíu í friði.
Öllum bandarískum herstöðvum í Írak verði lokað.
Skaðabætur og réttlæti handa íröskum fórnarlömbum og föngum!

Stöðvið stríðin!
Hernám Ísraels í Palestínu verði stöðvað.
Kaupum ekki ísraelskar vörur – refsiaðgerðir gegn ísraelska hernáminu.
Látið verði af hótunum gegn Íran.
Allt herlið út úr Afganistan.
Loftárásum á Sómalíu verði hætt.
Stuðningur Bandaríkjanna við stríðsherra í Afríku verði stöðvaður.
Leitað verði friðsamlegra lausna í Darfur í stað hernaðaríhlutunar.
Hætt verði að skerða mannréttindi og borgarlegt frelsi í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum.

Sjöunda Alþjóðlega samfélagsþingið var haldið í Nairobi 20.-25. janúr

By Uncategorized

wsf 2007 2 Sjöunda Alþjóðlega samfélagsþingið – eða samfélagsvettvangurinn, World Social Forum (WSF) á enskri tungu – var haldið í Nairobi í Kenía 20.-25. janúar 2007.

Fyrsta þingið var haldið í Porto Alegre í Brasilíu í janúar 2001 og þar var það haldið aftur næstu tvö árin. Mikil áhersla hefur verið lögð á að halda þingið í Rómönsku-Ameríku, Afríku eða Asíu frekar en Evrópu eða Norður-Ameríku til að auka hlut hinna fátækari þjóða.

Þingið varð strax mjög fjölsótt og þó margfaldaðist fjöldinn sem sótti það annað og þriðja árið og fór þá hátt í 100 þúsund manns. Það er auðvitað gríðarlega stórt verkefni að skipuleggja svona þing og Porto Alegre var valin sem fundarstaður fyrstu árin vegna velvilja borgaryfirvalda þar, enda hafa fæst þeirra ótal samtaka sem að þessu koma úr miklu sjóðum að ausa. En það stóð alltaf til að halda þingið í annarri heimsálfu og 2004 var því valin staður í Mumbai (áður Bombay) á Indlandi. Þar voru borgaryfirvöld reyndar ekki eins hagstæð og í Porto Alegre en hins vegar eru öflug samtök og hreyfingar á Indlandi sem gátu tekið verkefnið að sér í samvinnu við hina alþjóðlegu verkefnisstjórn. Þingið á Indlandi tókst vel og enn sóttu þingið hátt í 100 þúsund manns.

Næsta ár, 2005, var þingið aftur flutt til Porto Alegre og var nú fjölmennara en nokkru sinni fyrr, skráðir þátttakendur voru 155 þúsund manns. En draumurinn var að halda þingið í Afríku þar sem brýn þörf var á að styrkja hinar félagslegu hreyfingar sem á undanförnum áratug hafa verið miklu sterkari í Asíu og Rómönsku-Ameríku auk Evrópu og Norður-Ameríku. Til að létta aðeins á var nú ákveðið að hafa þingið á þremur stöðum í þremur heimsálfum, í Caracas í Venesúela, Karachi í Pakistan og Bamako í Malí. Fulltrúar frá Íslandi voru í Caracas og Bamako eins og sagt var frá hér á Friðarvefnum í fyrra.

Þessir fundir tókust með ágætum og með reynsluna frá Bamako ákveðið var að halda þingið á einum stað í Afríku árið 2007, í Nairobi í Kenýa. Um 80 þúsund manns voru við opnun þingsins 20. janúar og tugir þúsunda tóku þátt í meira en eitt þúsund fundum og öðrum samkomum sem haldnir voru á þinginu.

Nánari upplýsingar má fá í WSF-útgáfu Terraviva. Terraviva er sérstök útgáfa Inter Press Service til að fjalla um atburði eins og WSF eða hinar stóru ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna.

Sjá einnig heimasíðu WSF og vefsíðu WSF 2007.