Monthly Archives

January 2007

Frá miðnefnd SHA

By Uncategorized

fredsakademietMiðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga kom saman til fundar s.l. fimmtudag. Rétt er að minna á að öllum félagsmönnum er heimilt að sitja fundi hennar. Á fundinum voru samþykktar þrjár ályktanir eða áskoranir, þar sem hnykkt er á klassískum baráttumálum hreyfingarinnar:

Ályktun 1:

SHA mótmæla öllum viðræðum um varnarsamstarf við Norðmenn og Dani. Að gefnu tilefni gera samtökin einnig kröfu um bann við heræfingum á Íslandi og benda í því sambandi á ósprungnar sprengjur, skothylki í þúsundatali og annað drasl á heræfingasvæðum liðinna áratuga.

Ályktun 2:

SHA gera þá kröfu til ríkisstjórnar Íslands að hún lýsi því yfir að Íslendingar verði teknir af lista þeirra þjóða sem styðja innrás og hernám í Írak og íslenska þjóðin beðin afsökunar á þeim hræðilegu mistökum sem þar voru gerð. Ennfremur að hætt verði þátttöku í hernámi Afganistans og stuðningi við Íraksstríðið hvort sem er með fjárframlögum eða yfirlýsingum. SHA telja það ekki sæma Íslendingum að styðja fjöldamorð og dauðarefsingar eða fantaskap við saklaust fólk eins og í Gvantanamo. Íslendingar eiga ekkert sökótt við fátækt fólk í Asíu eða annarsstaðar í heiminum.

Áskorun:

SHA skora á Alþingi og ríkisstjórn að segja upp herverndarsamningnum við Bandaríkin frá 1951, enda þjónar hann engum skynsamlegum tilgangi og hefur aldrei gert. Ennfremur að Ísland segi sig úr NATO og verði þannig ekki lengur aðili að vígbúnaðar- og kjarnorkuvopnabandalagi sem stendur fyrir árásum og hernámi í fjarlægum löndum.

Friðarmiðstöð á Suðurnesjum

By Uncategorized

GDQEDRBT Eftirfarandi grein eftir Þórarinn Eyfjörð birtist í Morgunblaðinu 27. desember 2006. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar. Fleiri greinar svipaðs efnis er að finna á slóðinni: https://fridur.is/herinnognato/brottfor.

Loksins er erlent herlið farið frá Íslandi og bandarískur þjóðfáni dreginn niður í síðasta sinn á Miðnesheiði. Þetta er gleðiefni á marga lund bæði fyrir íslenskt samfélag og vegna þess vitnisburðar sem í þessu felst varðandi friðarþróunina í okkar heimshluta. Að vísu hefði viðskilnaður Bandaríkjahers getað verið með meiri reisn gagnvart fámennri vinaþjóð. En kannski var ekki við slíku að búast því að Bandaríkjamenn hafa setið hér fyrst og fremst vegna eigin hagsmuna og hafa nú með verkum sínum staðfest að þeim er nokk sama um það hvernig þeir koma fram við samstarfsþjóð. En hinu verður ekki litið fram hjá að íslensk stjórnvöld hefðu getað sýnt af sér meiri manndóm í viðskiptum sínum við hið erlenda herveldi. Það hefði til að mynda verið mannsbragur að því að taka fast á Kananum þegar bændur leituðu fulltingis stjórnvalda varðandi hreinsun á Heiðarfjalli en þrælslund stjórnvalda stýrði þar ferð, því miður.

Suðurnesjamenn standa frammi fyrir einstöku tækifæri. Nú er lag að taka frumkvæðið og byggja upp íslenska friðarmiðstöð sem nyti viðurkenningar á alþjóðavettvangi. Að vísu þá þarf íslenska þjóðin að hreinsa upp það skemmdarverk sem fyrrverandi ráðherrar unnu á orðspori og stöðu Íslands með því að svíkja þjóð sína inn í beinan stríðsrekstur í Mið-Austurlöndum. En Íslendingum ætti ekki að verða skotaskuld úr því að biðja alþjóðasamfélagið afsökunar og sýna viljann í verki með því að veita rífleg framlög til endurreisnar á írösku samfélagi, um leið og þeir kynna friðarmiðstöðina til sögunnar.

Gefum okkur það að Íslendingum takist að hreinsa mannorð sitt á alþjóðavettvangi. Þá gætu Suðurnesjamenn stefnt að stofnun Friðarsamtaka Norður-Atlantshafs (hugmynd að nafni = North Atlantic Peace Organisation, NAPO). Markmið slíkra samtaka væri að halda úti rannsóknarstofnun friðar, bjóða alþjóðasamfélaginu ráðstefnuþjónustu til friðarumræðna, kynna hlutlaust svæði fyrir friðarsamninga þannig að Ísland og Friðarmiðstöðin nytu alþjóðlegrar viðurkenningar sem traust umhverfi þar sem deiluaðilar og stríðandi þjóðir gætu gengið að því vísu að öllum væri gert jafn hátt undir höfði. Það má vinna þessari hugmynd fylgi á ýmsa vegu. Öflugri utanríkisþjónusta Íslendinga gæti verið falið að vinna sérstaklega að markaðssetningu Íslands sem land friðar þar sem alþjóðasamfélagið gæti gengið að framúrskarandi aðstöðu og allri þjónustu á sviði ráðstefnuþjónustu og friðarsamninga. Búa mætti til tengingar við friðarverðlaun Nóbels og efna til alþjóðlegrar ráðstefnu um vinnu verðlaunahafans og samfélagssýn. Slík ráðstefna myndi draga að sér þátttakendur frá öllum heimshornum. Hægt væri að markaðssetja á alþjóðavísu Friðarmaraþon þar sem hlaupið yrði frá Reykjavík til Reykjanesbæjar. Þetta er vel gerlegt núna þegar búið er að tvöfalda Reykjanesbrautina því hægt væri taka aðra akreinina undir hlaupið. Slíkt hlaup yrði verðugur arftaki Keflavíkurgöngunnar. Ennfremur væri hægt, í samvinnu við ýmis alþjóðleg friðarsamtök, að skipuleggja alls kyns viðburði. Til dæmis alþjóðlega friðarkeppni í siglingu kjölbáta frá Frakklandi hingað norður til Íslands, „Tour de Islande“, alþjóðlega hjólreiðakeppni í nafni friðar um hálendi Íslands, o.s.frv. o.s.frv. Af nógu er að taka. Með þessu gæti íslenska þjóðin og Suðurnesjamenn sérstaklega fléttað saman ferðamennsku og friðarstarf. Varla er hægt að hugsa sér göfugra markmið í stríðshrjáðum heimi en að vinna að friði. Suðurnesjamönnum gæti nú gefist fágætt sóknarfæri. Spurningin er sú hvort þeir geti nýtt sér það eða hvort leifar herstöðvarinnar á Miðnesheiði verði einungis minnisvarði um umdeilt samband við Bandaríkjamenn og dapurlegan viðskilnað þeirra.

Þórarinn Eyfjörð