Monthly Archives

November 2006

Húsin á heiðinni

By Uncategorized

thorleifurfridriksson Eftirfarandi grein Þorleifs Friðrikssonar sagnfræðings birtist í Morgunblaðinu 2. nóvember. Fleiri greinar um atvinnustarfsemi á Suðurnesjum og nýtingu mannvirkja eftir brottför hersins má finna á vefsíðunni https://fridur.is/herinnognato/brottfor.

Með brottför hersins af Miðnesheiði hafa opnast möguleikar sem gætu orðið þjóðinni farsælli en álver í hverjum firði, virkjun fallvatna og jarðvarma.

Flestir virðast sammála um að það væri fjarstæða að setja blokkaríbúðir á heiðinni á frjálsan markað. Um það er ekki efast hér. En hvað þá? Sjálfsagt er að hefjast handa og virkja hugmyndaflug landsmanna, koma á samkeppni um raunhæfar og rökstuddar hugmyndir um hyggilega nýtingu mannvirkja sem standa auð og ónotuð.

Ég legg til að athugað verði hvort hyggilegt og gerlegt sé að koma á fót fjölþjóðlegri rannsóknarstöð um jarðfræði, hafstrauma og sjávarlíffræði, sem jafnframt gæti nýst til eftirlits á, í og yfir hafinu umhverfis landið. Þegar munu vera til vísar að slíkum stöðvum hérlendis en orðið ,,vísir” hefur í sér fólgið fyrirheit um eitthvað meira og stærra.

1. Þessi fyrrum herstöð liggur á flekamótum jarðskorpunnar sem eru sérstök að því leyti að þau eru sýnileg berum augum og skera landið úr suð-vestri til norð-austurs. Við getum svo að segja horft á landið gliðna og mælt gliðnunina á ári hverju með einföldu málbandi. Að auki er Reykjanesið gullnáma í jarðsögulegu samhengi. Þarna mætti m.a hugsa sér að jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna yrði með aðalstöðvar.

2. Fáir efast orðið um samhengi mengunar og loftslagsbreytinga þótt ,,sannanir séu ekki á borðinu. Í umræðu um gróðurhúsaáhrif hefur verið brugðið upp skelfilegri framtíðarmynd um hugsanlega breytingu á ferð hafstrauma. Hér vantar þó frekari rannsóknir. Sennilega eru óvíða jafn ákjósanlegar aðstæður til slíkra rannsókna eins og hér í miðju Atlantshafi með Golfstraum á eina hönd og Pólstraum á hina.

3. Þrátt fyrir að nýting Íslendinga á fiskimiðum og sjávarfangi umhverfis landið sé jafngömul dvöl þjóðarinnar hér, hafa rannsóknir á lífríki sjávar ekki verið í samræmi við mikilvægi þessa atvinnuvegar fyrir afkomu þjóðarinnar. Sennilega er það vegna þess að lengst af hafa veiðar og nytjar verið sjálfbærar. Líkt og iðnvæðingin í Evrópu hefur eyðilagt fornminjar hraðar og meir á einni öld en áður hafði gerst á 1000 árum er ekki ólíklegt að vélvæðing fiskveiða hafi haft svipuð áhrif undir yfirborði sjávar. Þar vantar þó rannsóknir öndvert við það sem gert hefur verið ofan yfirborðs. Athuganir við strendur nálægra ríkja hafa varpað ljósi á skelfilega eyðileggingu þar sem t.d. litríkum kórallabreiðum hefur verið breytt í gráar eyðimerkur og þaraskógum í eitthvað sem helst líkist íslenskum kartöflugörðum í nóvember.

Ég er einn þeirra Íslendinga, sennilega langflestra, sem átti draum um herlaust land. Lengst af var draumurinn nánast jafn óraunhæf framtíðarsýn og draumur pólskra verkamanna fyrir 30 árum um nýtt samfélag, ámóta sennilegur og að Sovétríkin myndu liðast í sundur undan eigin þunga,- að þúsundáraríkið næði ekki sjötugsaldri. Hér eins og þar er þó ekki nóg að eiga draum, það sem máli skiptir er hvað gerist þegar við vöknum.

Kannski getum við gert upp sakirnar

By Uncategorized

Ragnar Ã?skarsson Eftirfarandi grein Ragnars Óskarssonar birtist í Morgunpósti VG 31. október.

Líklega munum við flest eftir því þegar þeir fóstbræður Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson ákváðu upp á eigin spýtur að styðja innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Allt það mál varð sem kunnugt er Íslendingum til hneisu og skammar á alþjóðlegum vettvangi og sýndi þjóðum heimsins að á Íslandi ríkir ekki það lýðræði og enn síður það þingræði sem fólki í okkar heimshluta telur svo sjálfsagt. Þeir fóstbræðurnir brugðust illa við eðlilegri gagnrýni á ákvörðuninni, neituðu að Alþingi tæki málið til umræðu og afgreiðslu, og svöruðu fullum hálsi að forsendur innrásarinnar væru svo pottþéttar að nauðsynlegt hefði verið að styðja hana. Fyrir vikið fengum við Íslendingar hina vafasömu nafnbót hinna viljugu. Stjórnarliðar á Alþingi létu sig hafa það að trúa leiðtogum sínum í blindni og brugðust þannig þingræðisskyldunni. Í öllum umræðum sem síðan hafa farið fram um málið hafa stjórnarliðar tuggið aftur og aftur sömu tugguna um að stórtæk gereyðingarvopn Íraka hafi réttlætt innrásina og Íslendingar hefðu því sem þjóð átt að styðja hana. Eftirminnilegt er þegar Halldór Ásgrímsson kom fram í sjónvarpi og lýsti því fjálglega yfir að íselenskir hermenn hefðu fyrstir viljugra hermanna fundið sannanirnar um gereyðingarvopnin. Menn stóðu um tíma á öndinni vegna hetjudáðarinnar en síðan kom í ljós að hinir íslensku hermenn höfðu engin gereyðingarvopn fundið og eingin hafa þau vopnin reyndar fundist enn. Ráðherrann varð sér enn einu sinni eftirminnilega til skammar en hélt samt áfram með hinum viljugu þingmönnum og ráðherraliðinu að tönnlast á gereyðingarvopnunum.

Nú hefur verið upplýst að Írakar hafi aldrei átt gereyðingarvopn þau sem voru forsendur innrásarinnar. Og hvað gera ráðamenn á Íslandi þá? Lýsa þeir því þá ekki yfir að þeir séu ekki lengur stuðningsmenn hernaðarbröltsins í Írak þar sem forsendur þess reyndust rangar? Nei, ekki aldeilis. Þótt nýir menn séu sestir í stóla Davíðs og Halldórs segja þeir einfaldlega að miðað við forsendur þær sem lágu fyrir þegar innrásin var gerð hafi hún verið óhjákvæmilegt svar hins frjálsa heims. Þótt nú hafi hið rétta komið í ljós sé ekki ástæða til að hætta stuðningi við stríðið. Hér hefur ríkisstjórn Íslands enn og aftur orðið sér til skammar. Úreltar og rangar forsendur skulu áfram stjórna gerðum hennar. Og stjórnarþingmennirnir þægu hafa orðið sér til enn meiri skammar því þeir fylgja foringjum sínum áfram í blindni.

Það er í raun dapurlegt að stjórnarþingmenn skuli ekki búa yfir meiri dug og þori en raun ber vitni um. Þeirra hlutskipti er því sorglegt en kannski ekki síðu aumkunarvert.

Síðan er það önnur saga en þó vissulega skyld að flestir þessara stjórnarþingmanna biðja um atkvæði kjósenda í vor. Kannski getur almenningur á Íslandi þá gert upp sakirnar við þá.