Monthly Archives

February 2006

Gegn innrás í Íran – stöðvum stríðið áður en það byrjar!

By Uncategorized

iraq your are next Hafin er undirskriftasöfnun og barátta gegn hugsanlegri árás Bandaríkjanna á Íran. Í því skyni hefur verið sett upp vefsíðan StopWarOnIran.org. Hægt er að skrifa undir yfirlýsinguna hér: http://stopwaroniran.org/petition.shtml. Yfirlýsingin er svohljóðandi í íslenskri þýðingu:

Það er okkur mikið áhyggjuefni að á ný virðast vera í uppsiglingu stríðshótanir af hálfu Bandaríkjanna – að þessu sinni gagnvart írönsku þjóðinni.

Fjölmiðlar eru uppfullir af fréttum um meinta kjarnorkuógn af hálfu Írans og væntanlegri nauðsyn þess að Bandaríkin grípi til hernaðaraðgerða. Þessar fréttir minna á sögurnar um „gjöreyðingarvopn“ sem komið var á flot áður en Íraksstríðið hófst.

Í aðdraganda hinnar ólöglegu innrásar í Írak staðhæfði ríksstjórn Bush að Írak réði yfir miklum birgðum gjöreyðingarvopna og gæti gert árás – með kjarnorku-, efna- eða sýklavopnum – á Bandaríkin með 45 mínútna fyrirvara.

Bush Bandaríkjaforseti sagði Bandaríkin verða að gera árás án tafar og „gætu ekki beðið eftir eftir lokasönnuninni – byssureyknum – sem mundi birtast sem sveppaský.“ Við vitum það nú að öll þessi áróðursherferð byggðist á algerum uppspuna sem var settur saman í þeim tilgangi að réttlæta árásarstríð.

Nú sjáum við fréttir sem eru sambærilegar og þjóna þeim tilgangi að réttlæta hernaðaraðgerðir gegn írönsku þjóðinni. Að stefna Íran fyrir Öryggisráðið er forspil að einhliða aðgerðum. Rétt eins og í Íraksmálinu standast fullyrðingar Bandaríkjastjórnar ekki nánari skoðun. Íran hefur undirgengist uppáþrengjandi og niðurlægjandi eftirlit sem er langt umfram það sem Samningurinn um takmörkun kjarnorkuvopna (NPT-samningurinn) krefst. Þetta eftirlit hefur ekki leitt í ljós neinar sannanir um að Íran sé að þróa áætlanir um kjarnorkuvopn.

Það er aðeins ein ríkisstjórn sem hefur beitt kjarnorkuvopnum gegn óbreyttum borgurum og það sama ríki hefur mestar birgðir gjöreyðingavopna í heiminum. Og á þessu augnabliki er þetta ríki að þróa nýja kynslóð kjarnorkuvopna og er ætlunin að beita þeim til árása en ekki bara til varnar. Þetta ríki er að sjálfsögðu Bandaríkin. Ætti ekki öll virkileg umræða um hættuna af kjarnorkuvopnum líka að taka til vopnabirgða Pentagons og sögu árása og íhlutana Bandaríkjanna?

Íran hefur mátt þola mikið af Bandaríkjunum. Við minnum á að Bandaríkin stóðu fyrir því að lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn Dr. M. Mossadegh var steypt á sínum tíma og völdin færð í hendur keisara páfuglskrúnunnar – „tilkomumesta afrek CIA“. Í aldarfjórðung stjórnaði keisarinn Íran með harðri hendi í þágu bandarísku olíufyrirtækjanna áður en alþýða landsins steypti stjórn hans með hræðilegum mannfórnum. Síðastliðin 27 ár hafa refsiaðgerðir Bandaríkjanna staðið í vegi fyrir rétti Írans til þróunar og leitt miklar þjáningar yfir íbúa landsins.

Það er nauðsynlegt að nú láti allir þeir sem eru andvígir nýju stríði í Mið-Austurlöndum í sér heyra. Við krefjumst þess að herferð Bandaríkjanna fyrir refsiaðgerðum, fjandskap og upplognum ásökunum gagnvart írönsku þjóðinni linni. Við lýsum andstöðu okkar við endurnýjaðri aðför Bandaríkjanna að Íran. Það er þörf á aðstoð við að uppfylla grunnþarfir fólks, ekki endalausu stríði til að skapa heimsveldi.

Undir þetta skrifuðu og sendu áfram til frekari undirskrifta eftirtaldir:

Thomas Gumbleton, biskup, erkibiskupsdæmi Detroit, fyrsti forseti Pax Christi
Filipe C Teixeira, biskup
Michael Parenti, rithöfundur
Ramsey Clark, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna
Howard Zinn, rithöfundur og sagnfræðingur
George Galloway, þingmaður, Bretlandi
Tony Benn, þingmaður, Bretlandi
Denis J. Halliday, fyrrum aðstoðarmaður aðalritara Sameinuðu þjóðanna í Írak
Harold Pinter, leikritaskáld, handhafi bókmenntaverðlauna Nóbels 2005
Margarita Papandreou, ekkja Andreas Georgios Papandreou forsætisráðherra Grikklands
Ardeshir Ommani, stofnfélagi í American-Iranian Friendship Committee (AIFC)
Ervand Abrahamian, prófessor í sagnfræði, höfundur Between Two Revolutions
David N. Rahni, íranskur prófessor í New York
David Sole, formaður UAW (United Automobile), Aerospace and Agricultural Implement Workers of America) , Local 2334, Detroit
Steve Gillis, formaður President, USWA (United Steelworkers) Local 8751

Friðarpípa á laugardegi

By Uncategorized

SpurningakeppniFriðarpípan, spurningakeppni SHA, verður haldin í fjórða sinn laugardaginn 18. febrúar í Friðarhúsi og hefst kl. 16.

Þrír spurningahöfundar láta ljós sitt skína að þessu sinni. Það eru þeir Þórður Sveinsson, Árni Hjartarson og Steinþór Helgi Arnsteinsson.

Allir eru velkomnir.

Skopmyndirnar af Múhameð, 2. hluti: Þetta er nú ekki alveg svona einfalt!

By Uncategorized

Jan Ã?berg eftir Jan Øberg

Jan Øberg, framkvæmdastjóri Transnational Foundation for Peace and Future Research (TFF) í Lundi í Svíþjóð, hefur skrifað aðra grein í framhaldi af hugleiðingum sínum um skopmyndir Jótlandspóstsins, sem við birtum hér í íslenskri þýðingu um daginn, og birtist hún á heimasíðu TFF 9. febrúar. Með leyfi höfundarins höfum við líka snarað þessari grein á íslensku. Øberg, sem er danskur, tekur landa sína engum vettlingatökum. Kannski er þetta líka holl lesning fyrir Íslendinga.

Almennt einskorðast umfjöllun fjölmiðla á Vesturlöndum við skopmyndirnar 12 sem birtust í Jótlandspóstinum. Það er hins vegar allt of þröngt sjónarhorn hvort sem er í tíma eða rúmi. Það veldur því líka að reiðin á hinni arabísku „götu“ virðist óskiljanleg og yfirdrifin.

Danska sjónvarpið og aðrir fjölmiðlar hafa nú beint sögunni í ákveðna átt: Danmörk og ríkisstjórnin eru svo til saklaus, við erum misskilin og fórnarlömb illkvittins áróðurs og lyga; viðbrögðin í múslímska heiminum eru ósanngjörn og þeir sem mótmæla eru ómenntaður skríll meðan hófsamir leiðtogar þeirra skilja stöðuna og vilja samvinnu, danskar útflutningsvörur og stöðugleika.

Og CNN segir okkur að ráðherrar og sendiherrar Dana vinni að því nótt sem nýtan dag frá mánudegi til sunnudags að kippa þessu í lag, Georg W. Bush stendur með þeim og þessu lýkur væntanlega innan skamms og þá verður allt aftur „business as usual“.

En það er bara ein spurning sem aldrei er borin fram: Af hverju Danmörk? Hvers vegna núna og hvað skyldu þessi „yfirdrifnu“ viðbrögð múslíma tákna?

Sú var tíðin að litið var á Danmörku, ásamt hinum Norðurlöndunum, sem fyrirmyndarsamfélag: mannúðlegt, opið til hjálpar og móttöku nauðstaddra, samfélag lýðræðis, velferðar og jafnréttis; Norðurlöndin höfðu heilbrigðar efasemdir um réttmæti stríðs og lögðu mikið upp úr alþjóðalögum og Sameinuðu þjóðunum.

Við höfðum „goodwill“ úti í hinum stóra heimi.

Hin umsnúna Danmörk

Með lokum kalda stríðsins og hnignun hinnar sósíaldemókratísku hreyfingar – það má segja að hún hafi sigrað sig í hel – tók við stefna sem byggðist á nýfrjálshyggju, íhlutunarstefnu og þeirri hugmynd að einungis væri um eina leið að ræða.

Fogh Rasmussen forsætisráðherra gekk í fararbroddi með það sem hann kallaði „menningarbaráttu“ til að gera upp við gamlar ríkisstjórnir og aðra, sem þessir nýju leiðtogar kölluðu sósíalíska and-ameríkanska sovétvini, og meint sovétvinsamlegt aukahlutverk Danmerkur í NATO.

Næsta verkefni var að ná tökum á hinum frjálsu rannsóknarstofnunum um alþjóðamál og voru þær, þar á meðal hin virta COPRI, Copenhagen Peace Research Institute, sameinaðar undir einni stjórn. Stjórnarformaður í hinni nýju stofnun, Danish Institute of International Studies (DIIS), er fyrrum utanríkisráðherra, og varnarmálaráðuneytið fjármagnar nú allar rannsóknir varðandi öryggis- og varnarmál.

Þessi nýfrjálshyggjuforysta í Danmörku reyndi að kveða niður alla andstöðu, gerði hinn popúlistíska Danska þjóðarflokk að helstu stoð sinni og hóf að hefna fyrir fortíðina. Það gerði hún með bolsévismann að fyrirmynd (nánari tengslum ríkis og flokks og útpældum áróðri), íhlutunarstefnu með siðmenningartrúboð að leiðarljósi – munið að menningarbylting hafði verið boðuð! – ásamt fúndamentalisma í þeim skilningi að hugmyndum um samkennd innan fjölbreytileikans, frelsi mismunandi skoðana og sígildum hugmyndum um frjálsræði var varpað fyrir borð.

Undir sósíaldemókratískri forystu hafði Danmörk stutt og tekið þátt í sprengjuárásunum á Júgóslavíu. Án minnstu tilraunar til sjálfstæðrar utanríkisstefnu stillti Nyrup Rasmussen sér því næst upp við hlið Bush í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ og eyðileggingu Afganistans. Sannarlega verður ekki allt skrifað á reikning núverandi ríkisstjórnar.

Þegar Sovétríkjunum hafði verið komið fyrir innan hins sögulega sviga var lýst yfir sigri: Nú var ástæðulaust að sýna hófsemd, framundan var bein leið. Hinn forni fjandi lá óvígur, hann hafði haft á röngu að standa þannig að við á Vesturlöndum höfðum samkvæmt skilgreiningu haft rétt fyrir okkur. Vestrið – og þar á meðal litla Danmörk – var orðið einrátt undir forystu Bandaríkjanna. Og hinir skyldu verða eins og við.

Og sumum okkar til furðu sýndu skoðanakannanir að þægilegur meirihluti samsinnti þessu. Hann sneri baki við umheiminum og horfði til nýrra neyslutækifæra sem spruttu upp úr einstæðum hagvexti. Allt gekk svo vel hér í Danaveldi.

Danmörk í stríði á fleiri en einn hátt

Það var ríkisstjórn Fogh Rasmussens sem leiddi Danmörku út í þær siðferðilegu og pólitísku ófarir sem kallast Íraksstríðið. Stærsta fyrirtæki Danmerkur, A.P. Møller-Mærsk, er kirfilega flækt í starfsemi tengda stríðsrekstri, ekki síst Íraksstríðinu. Danmörku hefur nú verið launað ríkulega með samningum sem dönsk tæknifyrirtæki hafa fengið við uppbyggingu eldflaugavarna. Rumsfeld varnarmálaráðherra hefur veitt hinum danska starfsbróður sínum heiðursmerki. Og stuttu eftir innrásina í Írak var danski forsætisráðherrann gerður að heiðursdoktor í Bandaríkjunum.

Í augum margra úti í heimi er Danmörk einum of tryggur handlangari fyrir Washington, sem því miður er það sem mest er hatað í hinum múslímska heimi, ef ekki í öllum heiminum. Vinur óvinar míns er líka óvinur minn…

Og svo er það tilhneiging Danmerkur til útlendingahaturs almennt og múslímahaturs sérstaklega; hið síðarnefnda getur verið samsett úr ýsmum þáttum, svo sem að fordæma íslam og sögu þess sem eitthvað öfgafullt eða frumstætt, að horfa framhjá hinum hófsamari meirihluta múslíma, að líta á íslam sem alvarlegt vandamál og að múslímar eigi sök á öllum deilum sem þeir eru flæktir í, heimta að múslímar breyti trú sinni og samfélagi, líta svo á að hin kristnu Vesturlönd hafi sérstakan rétt til að þröngva umbótum upp á samfélög múslíma og kynda undir stríði gegn hinum múslímska heimi.

Ummæli danskra stjórnmálamanna um „hina aðkomnu“ og hluti af danskri löggjöf hefur vakið alþjóðlega athygli – og ekki beint jákvæða. Að hluta liggur þetta múslímahatur að baki því hvernig Danmörk og önnur vestræn ríki koma fram við til dæmis Palestínumenn og Íraka. Það hefði klárlega verið litið á það sem Gyðingahatur ef eitthvað í þá veru ætti sér stað gagnvart Gyðingum.

Það er óþarfi að fara hér að frekar í saumana á þessari óskemmtilegu hlið dansks samfélags nútímans. Á síðustu áratugum hefur verið um að ræða meðvitaða pólitíska heimspeki sem Danski þjóðarflokkurinn hefur verið í forsvari fyrir og hefur hlotið töluverðan hljómgrunn í þjóðarsálinni. Ekki er ólíklegt að þetta stafi að talsverðu leyti af sívaxandi tækifærum til efnislegrar neyslu um leið og snúið er baki við umheiminum og sósíaldemókratar hafa sett sjálfa sig til hliðar.

Þannig að á tímum hnattvæðingar fór heimsmynd Dana að einkennast af nesjamennsku. Þeir urðu sjálfumglaðir og sjálfbyrgingslegir. Miðað við fyrri tíma er ótrúlega lítil umræða um mikilvæg málefni eins og fátækt í heiminum eða þúsaldarmarkmiðin. Ekkert af því sem hér hefur verið nefnt af danskri utanríkisstefnu, og þá meðal annars sú staðreynd að Danmörk á í styrjöld, hefur valdið nokkru sem minnir á þær umræður sem fara fram í Bandaríkjunum, Bretlandi eða á Ítalíu,

Danskt efnahagslíf gengur vel samkvæmt öllum mælikvörðum. Menn hafa efni á að verðlauna sjálfa sig enn frekar. Fyrir flesta Dani er neysluhyggjan mikilvægasta eða einasta hyggjan. Þegar Danir og stjórnmálamenn þeirra hugsa og tala um heiminn er það Evrópusambandið eða 8% mannkyns sem markar sjóndeildarhringinn. Líkt og í Bandaríkjunum er allt utan Evrópusambandsins svolítið óáþreifanlegt, framandi og reyndar stórhættulegt. Orðið samstaða – sem felur líka í sér mannlegan áhuga á hinum 92% mannkynsins – er að mestu horfið úr hinu pólitíska tungumáli. Hinn frægi danski eiginleiki að hafa það notalegt, „hygge sig“, hefur umbreyst í það að láta sér á sama standa eða finnast restin af veröldinni ekki koma sér við.

Saklausir og undrandi skeggræða Danir nú „hvers vegna þeir hata okkur svona?“ Á undanförnum dögum hafa þeir náð ansi langt í að taka á sig hlutverk fórnarlambsins. Hins vegar er ekkert um það rætt hvað hefur gerst í Danmörku og hvað aðrir meini kannski um landið.

Upplýsingar berast á leifturhraða kringum jörðina. Úti í heimi hafa menn tekið eftir því að fyrirmyndarsamfélagið Danmörk er ekki lengur til. Sumir sjá Danmörku sem lítið skúrkaríki sem töltir eftir aðalskúrknum.

Svo að Danmörk hefur nú – tvímælalaust – „bad will“ úti í heimi.

Danmörk á enn val

Til að draga þetta saman þá eiga þessar skopmyndir af Múhameð sem sagt heima í víðara samhengi í tíma og rúmi. Líklega voru þær bara hinn frægi dropi í yfirfullan bikar.

Ef maður tekur þetta víðara samhengi með í reikninginn, þá verður Danmörk, bæði ríkisstjórnin og þjóðin, að taka sig á og spyrja: Hvað er það sem við virðumst hafa gert svo rangt í augum margra á síðustu 10-15 árum? Heiðarleg umræða gæti hugsanlega lagt til einhverja nýja þekkingu og skapað möguleika á að koma fram við umheiminn af meiri sáttfýsi og minni menningarblindu.

En ef maður heldur áfram bæði í stjórnmálum og fjölmiðlum að stara úr sér augun á þessar teikningar og láta samhengið lönd og leið, þá munu viðbrögð Dana áfram einkennast af sjálfsvorkunn. Sem „fórnarlömb“ munu þeir sökkva dýpra í menningarlegt tilfinningaleysi og stofnanagerðan skort á sjálfsgagnrýni og samlíðan. Og það mun hafa í för með sér meiri áreksta innan Danmerkur og milli Danmerkur og hins múslímska heims.

Þar til nú hefur danska ríkisstjórnin og fjölmiðlarnir – jú, sem betur fer eru undantekningar – valið hina einföldu leið sjálfsvorkunnar þar sem skopmyndirnar eru teknar úr samhengi sínu: hugsið ykkur að þetta snarbilaða fólk skuli fyllast svona móðursýki út af nokkrum ómerkilehgum teikningum!

Þetta lofar ekki góðu. Það opnar engar leiðir til lausnar, sátta eða þeirrar samkenndar sem nauðsynleg er til að veröld okkar hrynji ekki. Hvort sem það er ætlunin eða ekki, þá mun þessi afstaða skapa enn meiri og endutekna reiði meðal meðborga okkar úti í heimi.

Er von í þessu myrkri? Já, meðal annars vegna þess að þrátt fyrir allt fara nú fram meiri umræður meðal Dana en fyrr. Og það hafa verið settar upp þrjár vefsíður þar sem látin eru í ljós önnur viðhorf en þau sem ríkistjórnin hefur í frammi og fólk er hvatt til að skapa sameiginlega framtíð með gagnkvæmri virðingu. Ég vona innilega að milljónir múslíma muni uppgötva þær og taka upp samræður við þessa jákvæðu Dani.

Forsoning nu (Reconciliation now)
Another Denmark

Og hér má finna yfirlýsingu frá arabískum og múslímskum ungmennum sem vilja leggja sitt að mörkum til friðar og skilnings:

We are sorry, Norway and Denmark

“Gekk ég yfir sjó og land…” – Frásagnir frá Bamako og Caracas

By Uncategorized

427175377EUHtYW phFyrr á þessu ári var alþjóðlega samfélagsþingið – World Social Forum – haldið í Bamako í Malí og Caracas í Venesúela. Þótt um langan veg væri að fara sóttu nokkrir Íslendingar þessi þing, ásamt fjölda fólks úr frjálsum félagasamtökum víðs vegar úr heiminum.

Fimmtudagskvöldið 16. febrúar efna Samtök herstöðvaandstæðinga til fundar þar sem þrír ferðalangar segja frá ferðum sínum á samfélagsþingin í Venesúela og Malí. Þau eru:

* Halla Gunnarsdóttir, blaðamaður
* Alistair Ingi Gretarsson, nemi í alþjóðasamskiptum
* Viðar Þorsteinsson, heimspekingur

Fundarstjóri verður Einar Ólafsson, ritstjóri Friðarvefsins.

Fundurinn hefst. kl. 20 í Friðarhúsi.

Allir velkomnir.

18. mars: Aðgerðir gegn Íraksstríðinu undirbúnar um allan heim

By Uncategorized

Bring the Troops Home Now Stöðugt berast fréttir af undirbúningi aðgerða gegn Íraksstríðinu víðs vegar um heim 18.-19. mars. Á vefsíðu The Troops Out Now Coalition (TONC) í Bandaríkjunum má finna lista yfir fyrirhugaðar aðgerðir í 21 fylki í Bandaríkjunum og 17 öðrum löndum (sjá hér). Á vefsíðu United for Peace and Justice í Bandaríkjunum er listi yfir 60 staði í Bandaríkjunum þar sem aðgerðir hafa verið auglýstar, sjá hér. Eflaust er þetta einungis brot af öllum þeim aðgerðum sem eru í undirbúningi, enda eru enn 5 vikur til stefnu og stöðugt bætast við nýir staðir.

Alþjóðlegu samfélagsþingin (World Social Forum), sem er nýlega lokið í Bamako í Malí og Caracas í Venesúela, hafa hvatt til aðgerða þessa daga um allan heim og sömuleiðis hefur undirbúningsfundur fyrir Evrópska samfélagsþingið (European Social Forum), sem verður í Aþenu 4.-7. maí næstkomandi, hvatt til aðgerða hvarvetna í Evrópu. Þessar ályktanir má nálgast á ofangreindri vefsíðu The Troops Out Now Coalition.

Eins og fram hefur komið eru Samtök herstöðvaandstæðinga að undirbúa aðgerðir í Reykjavík 18. mars. Við hvetjum friðarsinna og andstæðinga Íraksstríðsins til að fylgjast með undirbúningnum og taka þátt í honum. Þeir sem vilja fá boð um undirbúningsfundi geta haft samband við formann SHA, Stefán Pálsson, í síma 551-2592 eða 617-6790 eða gegnum netfangið stefan.palsson@or.is.

Aðalfundur MFÍK 2006

By Uncategorized

MFIK Frá MFÍK

Aðalfundur MFÍK 2006 verður haldinn miðvikudaginn 15. febrúar kl. 20 í Friðarhúsinu, Njálsgötu 87 (á horni Snorrabrautar).

Dagskrá:

• skýrsla formanns,
• ársreikningar lagðir fram,
• tillögur að lagabreytingum,
• stjórnarkjör,
• önnur mál.

Fjölmennum og tökum með okkur gesti.