eftir Sverri Jakobsson

(Dagfari 1. tbl. 26. árg. (2000), bls. 28-39)

Herstöð við háskólann

Ef Bandaríkjamenn hefðu fengið að ráða væri nú herflugvöllur í Skerjafirði. Amerískir stálfuglar myndu á hverjum degi taka á loft við Háskóla Íslands og rjúfa hljóðmúrinn yfir miðborg Reykjavíkur. Og enginn fengi að gert fyrr árið 2044. Í fyrsta lagi.

Hinn 1. október 1945, rúmu ári eftir að Íslendingar fögnuðu stofnun lýðveldis, afhenti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi Ólafi Thors forsætisráðherra kröfu um að fá Keflavíkurflugvöll, Hvalfjörð og Skerjafjörð á leigu sem herbækistöðvar í 99 ár. Eftir fimm vikna umþóttunartíma hafnaði forsætisráðherra þessari beiðni, en áður hafði tólf manna nefnd manna úr öllum þingflokkum fjallað um beiðnina.(1) Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, líkir framkomu bandaríska sendiherrans við „yfirgang landstjóra eða jarls, sem telur sig geta notað öll meðul í því skyni að koma fram vilja stjórnar sinnar og gæta hagsmuna hennar í hálfkúguðu landi.“(2) Þá voru menn viðkvæmir fyrir slíku.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins vildu þá alls ekki semja um herstöðvar til langs tíma og tveir ungir þingmenn flokksins tóku afstöðu gegn slíkum samningi opinberlega í tengslum við hátíðahöld stúdenta 1. desember 1945.(3) Ólafur Thors áleit sjálfur að enginn þingmaður væri hlynntur þessari beiðni, en menn væru ekki sammála hversu langt ætti að ganga til móts við Bandaríkjamenn.(4) Nokkrir stjórnmálamenn munu hins vegar hafa látið líklega við bandaríska sendimenn, og eru þar einkum nefndir til Framsóknarmennirnir Jónas Jónsson frá Hriflu og Vilhjálmur Þór og Alþýðuflokksmaðurinn Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti Íslands.(5) Dagblaðið Vísir í Reykjavík var einnig talið mjög fýsandi því að leigja Bandaríkjunum herbækistöðvar.(6)

Hinn 15. október 1945 hóf nýtt blað göngu sína í Reykjavík, Útsýn. Ábyrgðarmaður þess var Finnbogi Rútur Valdemarsson, fyrrverandi ritstjóri Alþýðublaðsins, en ýmsir kunnir einstaklingar úr Alþýðuflokknum rituðu í blaðið. Það skilgreindi sig sem óháð fréttablað: „Við erum þeirrar skoðunar, að hér á landi, eins og í öllum öðrum löndum, sé rík þörf fyrir óháð blöð. Og það er enginn vafi á því, að í landinu er fjöldi fólks, sem álítur, að þörf sé á slíku málgagni, þ.e. blaði, sem ekki sé undir oki flokkanna. Sem stendur eru öll stærstu blöðin og langflest þeirra, sem láta þjóðmálin til sín taka, hrein flokksblöð og birta aðeins það, sem þóknanlegt er ráðamönnum hinna fjögurra stjórnmálaflokka. En það er meir en lítið vafasamt, að almenningur sé ánægður með þetta ástand málanna.“(7) Helsta mál fyrsta tölubaðs Útsýnar var herstöðvamálið, sem blaðið „skúbbaði“, þar sem flokksblöðin voru öll bundin þagnarskyldu á meðan tekin væri afstaða til málsins. Tók blaðið eindregna afstöðu gegn beiðninni: „Þó að ýmsar raddir hafi komið fram um það, að Íslendingum sé það mikil nauðsyn, að viðskipta- og menningarsambönd þau, sem myndazt hafa við Bandaríkin á stríðsárunum, haldist í framtíðinni, hafa allir, sem látið hafa til sín heyra um það mál – að einum undanteknum – talið sjálfsagt, að það yrði einhuga krafa Íslendinga, að staðið yrði við loforðin í herverndarsamningnum um, að allt herlið Bandamanna yrði á brott úr landinu eins fljótt og auðið yrði eftir ófriðarlokin.“(8) Sá eini sem við er átt er Jónas frá Hriflu. Í leiðara Útsýnar sem ber yfirskriftina „Nei“ er spurt: „Höfum við þá háð sjálfstæðisbaráttu öldum saman til þess að geta sjálfir afsalað okkur sjálfstæðinu, daginn eftir að við fengum það í hendur? Sjálfstæðið er einmitt rétturinn til að ráða óskorað yfir landinu án íhlutunar annarra þjóða. Um leið og við samþykktum hervernd Bandaríkjanna værum við ekki lengur sjálfstæð þjóð, heldur verndarríki, stjórnarfarslega miklu háðari öðru ríki heldur en nokkru sinni Danmörku, áður en sambandsslitin fóru fram.“(9)

Í næsta tölublaði Útsýnar, sem kom út 26. október, er bent á að nú sé „ekkert öryggi að fá með „hervernd“, sem byggist á stórum landherjum, herskipaflotum eða loftflotum“.(10) Ný heimsstyrjöld gæti leitt af sér tortímingu allrar siðmenningarinnar á skömmum tíma. Að biðja um hervernd vegna þess að heimsstyrjöld væri í nánd „væri svipað því að fremja sjálfsmorð af lífhræðslu.“(11) Sjónarhóll Útsýnar var mótaður af hryllingi styrjaldarinnar sem þá var nýlokið. Í blaðinu var fjallað um nýjungar í vísindum og tækni og bent á að „Engilsaxneskir vísindamenn báðum megin Atlantshafs unnu þetta afreksverk, að beizla jörmunorku efniskjarnans, og komu með því skyndilega á kné dýrslega öflugum andstæðingi. Við það komst á alheimsfriður, og hinir samvinnandi vísindamenn fóru hver til síns heima. Hið opinbera kostar ekki lengur hugvitsamlega samvinnu þeirra, né annarra jafngildra stofnana. Og þó hafa fróðustu menn það fyrir satt, að með líku samstarfi mætti koma á kné langtum mannskæðari óvini en Japanar eru, þar sem er krabbamein, einhver mannskæðasti og hryllilegasti óvinur mannlegrar heilbrigði.“(12) Í fyrsta hefti blaðsins koma einnig fram efasemdir um réttmæti þess að beita kjarnorkuvopnum í stríði: „[mörgum] hefur orðið á að spyrja: Var það alveg nauðsynlegt að drepa hálfa milljón manna til þess að sannfæra Japana um mátt atómsprengjunnar?“(13)

Annað hefti Tímarits Máls og menningar 1945 var helgað „sjálfstæðismálum Íslendinga“. Þar leiddi Einar Ól. Sveinsson prófessor langan lista rithöfunda, menntamanna og skálda sem rituðu gegn herstöðvabeiðni Bandaríkjanna. Ein stysta greinin var eftir hina rúmlega áttræðu Theodóru Thoroddsen sem líkt beiðninni við tilraunir erlends stórgróðafélags til að kaupa Gullfoss, sem virðist raunar hafa verið mönnum hugstæð í þessu samhengi.(14) Theodóra lauk máli sínu svo: „Öll vitum við, að vopnaðar stórþjóðir geta tekið okkur herskildi hvernær sem þeim býður svo við að horfa, en látum þær gera það á eigin ábyrgð, en ekki með voru samþykki.“(15) Tímarit Máls og menningar hafði orð á sér fyrir pólitíska róttækni, en kunnir menntamenn tóku einnig afstöðu gegn herstöðvabeiðni Bandaríkjastjórnar á öðrum vettvangi, þ.á.m. Ólafur Lárusson, háskólarektor, og Pálmi Hannesson, rektor Menntaskólans í Reykjavík og tengdasonur Theodóru Thoroddsen. Pálmi var í miðstjórn Framsóknarflokksins og hafði setið á þingi fyrir þann flokk.

Útsýn kom seinast út skömmu eftir áramót 1945-1946. Var þar enn vakinn athygli á herstöðvamálinu og því spáð að búast mætti við „að Bandaríkin láti ekki líða á löngu, áður en þau óska á ný eftir að samningar verði teknir upp um það.“(16) Gekk það eftir. Samkvæmt herverndarsáttmálanum frá 1941 var gert ráð fyrir að bandaríski herinn færi frá Íslandi að ófriði loknum. Í ljós kom að Bandaríkjastjórn skyldi hugtakið „ófriðarlok“ öðrum skilningi en við var að búast. Hún taldi sér ekki skylt að færa herlið sitt frá landinu fyrr en gerðir hefðu verið formlegir friðarsamningar við Þýskaland.(17) Aukaþing Sameinuðu þjóðanna sumarið 1946 markaði hins vegar þá stefnu að aðildarríkjum væri ekki skylt að láta land undir herstöðvar á friðartímum. Á alþingi Íslendinga lagði Hannibal Valdimarsson fram þingsályktunartillögu um að innganga Íslands í Sameinuðu þjóðirnar yrði bundin því skilyrði að hér yrðu engar herstöðvar á friðartímum og að Bandaríkjaher hyrfi úr landi. Þetta var ekki samþykkt þar sem það þótti spilla fyrir inntökubeiðninni.(18) Ef þetta hefði náð fram að ganga hefðu þó öryggismál landsins verið í góðum farvegi þar sem Sameinuðu þjóðirnar hefðu þá ábyrgst að hér kæmi aldrei erlendur her á friðartímum.

Eftir að gengið hafði verið frá inngöngu Íslendinga í Sameinuðu þjóðirnar hófust viðræður við Bandaríkjamenn um framtíð herliðs þeirra á Íslandi. Bandaríkjamenn settu fram kröfur um víðtæk hernaðarréttindi í Keflavík, Hvalfirði og Fossvogi. Einnig vildu þeir fá að hafa kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli. Ólafur Thors féllst ekki á þetta en hét Bandaríkjamönnum lendingarréttindum á Keflavík gegn því að Bandaríkjamenn endurbættu Keflavíkuflugvöll. Ólafur taldi nauðsynlegt að gera samning af þessu tagi „til að losna við herlið Bandaríkjanna“.(19) Þetta var undirstaða Keflavíkursamningsins sem borinn var upp á alþingi 20. september 1946 og olli þá stjórnarslitum. Með honum náðu Bandaríkjamenn lágmarkskröfum sínum í viðræðum, en raunar hafði utanríkisráðherra þeirra sagt á fundi í herforingjaráðinu í apríl að ef Íslendingar krefðust þess ættu Bandaríkjamenn ekki annars kost en að draga herlið sitt umsvifalaust frá Íslandi.(20) Keflavíkursamningurinn var því ekki óhjákvæmilegur, heldur fólst í honum meðvituð ákvörðun um að tengja Ísland herstöðvakerfi Bandaríkjanna, enda þótt í honum fælist einnig að Bandaríkjaher fór úr landi um skeið.

Í ljósi þess að sósíalistar létu Keflavíkursamninginn varða stjórnarslitum er rétt að gaumgæfa nánar afstöðu þeirra til Bandaríkjanna og herliðs þeirra hér. Þegar Bandaríkjaher steig á land á Íslandi 9. júlí 1941 gagnrýndi Brynjólfur Bjarnason samninginn og taldi að Bandaríkin myndu seilast til varanlegra áhrifa á Íslandi í kjölfarið.(21) Reyndist hann spámannlega vaxinn hvað það snerti. Andstaða sósíalista við herstöðvabeiðni Bandaríkjanna kom forystumönnum Sovétríkjanna mjög á óvart og í dagbók leiðtoga Kominterns á þeim tíma kemur fram að utanríkisráðherra Sovétríkjanna hafi hringt í hann 13. júlí 1941 og krafist þess að hann leiðrétti íslensku sósíalistanna tafarlaust. Í nýlegu riti heldur Jón Ólafsson því fram að síðan hafi árásum Þjóðviljans á Bandaríkjamenn lokið eða þær hafi a.m.k. breytt um eðli.(22) Er sú túlkun í anda þess sem sumir sagnfræðingar hafa haldið á lofti, að skýrslur bandarískra sendimanna telji sósíalista vinveitta bandamönnum, m.a. vegna þess að þeir bönnuðu ekki útkomu Þjóðviljans vorið 1942. (23) Í slíkum skýrslum er einungis að finn viðhorf erlendra sendimanna til sósíalista, en minna finnst af ummælum sósíalista sem gætt stutt slíka túlkun. Lítið mark hefur verið tekið á því sem leyniskýrslur af svipuðu tagi segja um afstöðu stjórnmálamanna úr öðrum flokkum.(24) Í óvandaðri fjölmiðlaumræðu er þetta svo látið sanna að sósíalistar hafi einungis verið á móti Bandaríkjunum vegna fyrirskipana frá Moskvu og skipt um línu eftir því hvernig vindar blésu fyrir austan.

Um það má þó efast. Brynjólfur Bjarnason hafði verið einn reyndasti forystumaður íslenskra kommúnista á kreppuárunum og hafði eindregnar skoðanir á alþjóðamálum. (25) Það er því ekki sannfærandi að telja ræðu Brynjólfs á alþingi 1941 til vitnis um „að skilningur hans á atburðunum var enn ófullkominn, hann hafði ekki til fulls gert sér grein fyrir hvílíkum straumhvörfum innrás Hitlers í Sovétríkin hlyti að valda.“(26) Hitt er mun sennilegra, að hann hafi viljað fara sér hægt í því að breyta um afstöðu til Bandaríkjanna. Í ræðu sinni á alþingi 1941 benti hann á „að ekkert er eins hættulegt smáþjóð eins og það að eiga allt sitt undir náð eins herveldis. Það eru endalokin á allri sjálfstæðri utanríkispólitík.“(27) Aðdáun Brynjólfs á Jósef Stalín hafði ekki komið í veg fyrir að hann hafði áður gengið gegn vilja forystumanna Komintern þegar honum sýndist svo. Árið 1937 hafði hann hitt þá í Moskvu og verið ráðlagt að vinna að sameiningu íslenskra kommúnista og Alþýðuflokksins, en þegar hann kom heim urðu Kommúnistar þvert á móti ósveigjanlegri í afstöðu sinni til krata.(28) Í viðræðum við sovéska sendifulltrúa sumarið 1942 ítrekaði Einar Olgeirsson, formaður Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins, áhyggjur sínar af ásælni Bandaríkjamanna á Íslandi. Þær áhyggjur voru ekki í neinu samræmi við stefnu Sovétstjórnarinnar, sem taldi óhjákvæmilegt að Íslandi mundi lenda á bandarísku áhrifasvæði í stríðslok og hafði engin áform um að sporna við bandarískum áhrifum á Íslandi. (29)

Enginn vafi er á afstöðu sósíalista til Bandaríkjanna veturinn 1944–1945, enda þótt Sovétmenn og Bandaríkjamenn væru traustir bandamenn á þeim tíma. Í minnisblöðum Ólafs Thors segir viðræðum hans við Brynjólf Bjarnason í tengslum við herstöðvabeiðni Bandaríkjamanna 1. október 1945: „Ræddi við Brynjólf milli 4. og 5. Hann trúði mér fyrir því, að kommar hefðu farið í stjórn til þess að hindra að þetta kæmi fyrir. Sagðist ekki myndu ganga inn á neitt það spor í málinu, sem gæti leitt til þess, að við sætum fastir.“(30) Þessari stefnu fylgdi Sósíalistaflokkurinn jafnan einarðlega. Svo einarðlega raunar að um mitt ár 1947 lýsti forstöðumaður sovéska sendiráðsins á Íslandi áhyggjum sínum af stefnu Sósíalistaflokksins sem hann taldi of smáborgaralega og þjóðernissinnaða.(31) En stefna sem var of þjóðernissinnuð fyrir smekk Sovétmanna samrýmdist betur skoðunum Finnboga Rúts Valdemarssonar. Hann gekk til liðs við sósíalista fyrir þingkosningarnar 1949 og bauð sig fram gegn Ólafi Thors í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Náði hann kjöri sem uppbótarþingmaður og felldi Natóvininn Guðmund Í. Guðmundsson.

Enda þótt andstaða sósíalista við bandarískar herstöðvar hafi mótast af ýmsum öðrum sjónarmiðum en fylgispekt við Sovétríkin var eigi að síður ljóst að ekki gátu allir herstöðvaandstæðingar átt samleið með sósíalistum á þeim tíma, einfaldlega vegna þess að vel var hægt að vera andsnúinn bandarískri ásælni án þess að aðhyllast sósíalisma eða hafa róttækar skoðanir á þjóðfélagsmálum að öðru leyti. Árið 1946 kom hins vegar í ljós að herstöðvaandstæðingar sem ekki voru sósíalistar áttu sér engan málsvara á alþingi. Úr því var bætt með stofnun Þjóðvarnarfélagsins.

Þjóðvarnarfélag og Þjóðvarnarflokkur

Þjóðvarnarfélagið var stofnað til að vinna gegn Keflavíkursamningnum og „hvers konar ásælni annarra ríkja á land vort eða réttindi sem sjálfstæðrar þjóðar“.(32) Sigurbjörn Einarsson, dósent í guðfræði, var formaður félagsins frá upphafi. Málgagn félagsins, Þjóðvörn, kom út í fyrsta skipti 2. október 1946 og var þar að finna aðvörunarorð þjóðkunnra einstaklinga. Meðal þeirra sem heitt var í hamsi var Einar Ól. Sveinsson prófessor. Hann spáði því að ekki yrði látið staðar numið með Keflavíkursamningnum og er grein hans athyglisverð heimild fyrir því hvernig pólitísk umræða um málið horfði við leikmanni sem ekki var bundinn af flokkslínu: „Ef alþingi samþykkir samningsuppkastið, munu styðjendur uppkastsins setja öll tæki forheimskunarinnar í gang til að innprenta mönnum hve gott og fagurt og indælt það sé, og hve blessunarríkt sé að vera skóþurka hins erlenda herveldis. Kommúnistagrýlan mun verða vakin upp alveg eins og í fyrra, þegar mótstöðumenn herstöðvanna voru óðara stimplaðir kommúnistar. Og aðrar grýlur og á hinn bóginn gyllingar verða vissulega vaktar upp. Ég hef svolítið fylgst með því undanfarin ár, hvernig sum íslenzk blöð hafa staðið á rétti íslenzkra manna gagnvart erlendum ríkjum. Við höfum allir séð það. Ég sé í anda landvörn sumra þeirra, þegar greinir verða með Íslendingum og Bandaríkjamönnum!“(33)

Tímaritið Þjóðvörn kom út nokkrum sinnum í október 1946 en síðan kom einungis út einn fjórblöðungur af því uns stofnun Atlantshafsbandalagsins komst á dagskrá í árslok 1948. Þá hófu þjóðvarnarmenn fundaherferð til að vekja almenning umhugsunar um málið, sem í leiðara Alþýðublaðsins var nefnt „áróður kommúnista og nokkurra fáráðlinga“.(34) Ræða Sigurbjarnar Einarssonar á hátíðahöldunum 1. desember 1948, sem ávann honum einkuninna „hinn smurði Moskvuagent“ í Morgunblaðinu, markar að vissu leyti upphaf fundarhaldanna. Almennur fundur háskólastúdenta 14. desember lýsti yfir fullum stuðningi við málflutning Sigurbjarnar, en frávísunartillaga Vökumanna var felld. Stúdentafélag Reykjavíkur hélt fund í Listamannaskálanum 2. janúar 1949 þar sem samþykkt var tillaga Pálma Hannessonar, Gylfa Þ. Gíslasonar og Kristjáns Eldjárns, síðar forseta Íslands, þar sem fram kom að Ísland gæti ekki tekið þátt í neinu hernaðarstarfi sem hefði í för með sér að hér yrði erlendur her á friðartímum. Um miðjan janúar hélt Þjóðvarnarfélagið tvo fundi í Reykjavík sem voru fjölsóttir, en einnig voru haldnir fundir á Akranesi og í Hafnarfirði. Í grein í Þjóðvörn 27. janúar 1949 bendir Ólafur Halldórsson, þá stud. mag., á nauðsyn þess að stjórnmálamenn kynni sér skoðanir almennings á utanríkismálum, sem alla jafna væru ekki á döfinni fyrir kosningar. „Við erum hrædd um, að fulltrúar þeir, er við höfum kosið í lýðræðislegum kosningum að fara með okkar mál, muni beita ólýðræðislegum aðferðum til þess að bjarga lýðræðinu í heiminum.“(35) Meirihluti Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks í útvarpsráði kom í veg fyrir að sagt yrði frá þessum fundum í útvarpsfréttum enda væru hér á ferðinni „áróðurssamþykktir í utanríkismálum“. Var þó bent á tvískinnung þess að aumkva þjóðir sem byggju austan við járntjald og væri meinað frétta úr vestri, en setja jafnframt bann á fréttaflutning af innlendum atburðum. „[V]íst var það eitthvað annað en slíkt skoðanajárntjald, sem íslenzka þjóðin vænti sér á fyrstu árum lýðveldis, frelsis og sjálfstæðis“ sagði Framsóknarkonan Aðalbjörg Sigurðardóttir í Þjóðvörn um þennan úrskurð. (36) Málflutningur Þjóðvarnarmanna mun hafa haft nokkur áhrif, því að Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur tóku nú að boða að ekki stæði til að hafa erlendar herstöðvar hér á friðartímanum, en því trúðu menn mátulega. (37) Enda reyndist lítið á bak við þau orð.

Ekki dugðu þó nein mótmæli og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var samþykkt á alþingi 30. mars 1949, með 37 atkvæðum gegn 13. Af því spruttu óeirðir og beitti lögreglan táragasi, eins og kunnugt er. Í ræðu við undirskrift Atlantshafssáttmálans gerði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, grein fyrir sérstökum fyrirvara af hálfu Íslendinga, að þeir gætu sem vopnlaus þjóð aldrei sagt annarri þjóð stríð á hendur né háð styrjöld. Ekki er ljóst hvaða gildi sá fyrirvari hafði, en hann var a.m.k. horfinn þegar Íslendingar tóku þátt í árásum Atlantshafsbandalagsins gegn Júgóslavíu á vordögum ársins 1999. Þjóðvarnarmenn drógu hins vegar þá ályktun af orðum utanríkisráðherra að „[a]f öllum þessum forsendum hlýtur hver heilvita maður að draga þá ályktun, að þjóð með slíka sérstöðu á ekkert erindi í varnar- eða hernaðarbandala g “.(38) En þar við sat.

Eftir atburðina 30. mars hélt Morgunblaðið áfram skítkasti í garð Sigurbjarnar Einarsson sem hefði verið „viljalaust verkfæri í höndum kommúnista, allt frá því, er þeir sendu hann út af örkinni 1. des.“ Sigurbjörn var hins vegar hvergi að baki dottinn og svaraði fullum hálsi: „Eru, þrátt fyrir allt, fúleggin á gluggum og veggjum Alþingishússins ekki tiltölulega saklaus á móti andremmunni úr vitum þeirra manna, sem dag út og dag inn hvæsa ódauni mannskemmda og lýðspjalla út úr rithreiðrum sínum?“(39) Enn var hugur í Þjóðvarnarmönnum og var félagið var gert að landsmálafélagi 3. maí 1949. Var formaður sem fyrr Sigurbjörn Einarsson en aðrir í stjórn voru Jónas Haralz hagfræðingur, Bergur Sigurbjörnsson viðskiptafræðingur, Eiríkur Pálsson lögfræðingur, Hallgrímur Jónasson kennari, Klemens Tryggvason hagfræðingur og Sigríður Eiríksdóttir hjúkrunarkona. Í ávarpi frá stjórn félagsins var varað við þeim hætum sem steðjuðu að sjálfstæði og lýðræði á Íslandi: „Þeir menn, er náð hafa tökum á stjórnmálaflokkunum, eignum þeirra og blaðakosti, hafa fengið valdaaðstöðu, sem torvelt er að hnekkja, þó að menn þessir hafi ekki meiri hluta flokksmanna að baki sér, hvað þá meiri hluta þeirra, sem léð hafa þeim atkvæði í kosningum, að ekki sé minnzt á meiri hluta þjóðarinnar allrar. Með umráðum sínum yfir blöðunum og útvarpinu hafa þessir menn einstaka áróðursaðstöðu og beita jöfnum höndum blekkingum, beinum ósannindum eða þögninni, eftir því, sem henta þyir hverju sinni.“(40) Til að sporna við þessu hugðist félagið beita sér í auknum mæli á sviði innanlandsmála. „Það verður að beita sér fyrir því, að þjóðin fái hæfa fulltrúa, sem ekki bregðast skyldum við hana né hennar helgustu mál. Ef til vill verður Þjóðvarnarfélagið áður en varir harðsnúinn flokkur. Þjóðinni er nú meiri þörf víðsýnna umbótamanna en nokkru sinni fyrr.“(41)

Þjóðvarnarfélagið varð þó aldrei slíkt framboðsafl. Fyrir kosningarnar 1949 ákvað félagið að bjóða ekki fram. Sú ástæða sem gefin var fyrir því var einkum sú að „í innanlandsmálum hefur Þjóðvarnarhreyfingunni ekki unnizt tími til að marka stefnu á sama veg og í utanríkismálum og ekki náð að kynna sjónarmið sín.“(42) Í kosningunum 1949 voru hins vegar í framboði fimm menn sem höfðu starfað fyrir félagið, Finnbogi Rútur Valdemarsson fyrir Sósíalistaflokkinn, Hannibal Valdimarsson fyrir Alþýðuflokkinn og Framsóknarmennirnir Sigurvin Einarsson, Lúðvík Kristjánsson og Stefán Jónsson.(43) Þeir bræður náðu báðir kosningu en enginn Framsóknarmannanna. Þeir Sigurvin og Stefán fóru hins vegar báðir á þing síðar, Sigurvin fyrir Framsóknarflokkinn en Stefán fyrir Alþýðubandalagið. Eftir þingkosningarnar hafði félagið sig lítið í frammi og gaf aðeins út tvö tölublöð af Þjóðvörn árin 1950 og 1951.

Finnbogi Rútur Valdemarsson varð fulltrúi Sósíalistaflokksins í utanríkismálanefnd alþingis. Hann hafði vakandi auga með tilraunum hinna sjálfskipuðu „lýðræðisflokka“ með að koma í veg fyrir lýðræðislega umræðu um utanríkismál. Í júní 1950 skrifaði hann utanríkisráðherra vegna sögusagna um að áætlanir um hernaðarlegan viðbúnað á Íslandi væru í gangi og taldi hann að utanríkismálanefnd ætti að fylgjast með slíkri áætlanagerð. Utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, hafði slík tilmæli að engu og var aldrei haft neitt samráð við „kommúnista“. Finnbogi Rútur hefur verið kallaður „[e]inn virkasti andstæðingur bandarískrar hersetu á Íslandi“ og á hann þá einkunn skilda.(44) En Bjarni Benediktsson hafði ekki í hyggju að láta almenna umræðu í samfélaginu ráða einhverju um stefnubreytingu í öryggismálum þjóðarinnar.

Hinn 7. maí 1951 kom bandarískt herlið til Keflavíkurflugvallar samkvæmt samningi við ríkisstjórn Íslands sem ekki var lagður fyrir alþingi fyrr en 11. desember s.á. Samkvæmt 21. grein stjórnarskrárinnar getur forseti Íslands enga samninga gert við önnur ríki „ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“ Samkvæmt þingsköpum bar stjórninni einnig skylda til að kveðja utanríkismálanefnd alþingis saman. Einhverjum kynni að finnast að þegar um mikilvægustu örlagamál íslensku þjóðarinnar væri að tefla væri sérlega mikilvægt að málsmeðferð fylgdi leikreglum lýðræðis. En einmitt í slíkum málum hefur íslenskum stjórnmálamönnum, einkum þeim sem iðnastir hafa verið að kenna sig við lýðræði, þótt svo mikið liggja við að tilgangurinn helgi meðulin. Erfitt er að fá vísbendingar um viðhorf almennings til samningsins, því að eftir þeim var aldrei leitað. Upplýsingastofnun Bandaríkjanna gerði hins vegar skoðanakönnun um viðhorf Íslendinga til varnarsamningsins sumarið 1955 og voru þá 28% þjóðarinnar hlynnt honum en 48% andvíg, eða 64% þeirra sem tóku afstöðu eða veittu ekki „skilyrt svar“.(45) Ef satt er, sem Ólafur Thors ritaði bróður sínum 1958, að á flokksfundi hjá Sjálfstæðisflokknum hefði einhver hrópað „burt með helvítis Ameríkananna“, áttu þau sjónarmið hljómgrunn víða. (46)

Seinasta tölublað Þjóðvarnar kom út 10. maí 1951. Það var helgað nýgerðum varnarsamningi, en blaðið hafði þá ekki komið út um hríð. En þjóðvarnarstefnan hafði ekki sungið sitt síðasta. Íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn ályktuðu gegn hersetunni á fundi 16. maí 1951 en þeirri ályktun var stungið undir stól af blöðum „lýðræðisflokkanna“. Morgunblaðið minntist þó á hana í forystugrein með þeim orðum að nokkrir „glórulausir kommúnistar“ hefðu staðið að henni. Af því tilefni sendu stúdentar frá sér bæklinginn „Hafnarstúdentar og hersetan“ sem Stefán Karlsson, síðar forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, mun hafa samið. Var þar m.a. bent á „í hvern voða er stefnt, ef íslenzka þjóðin á nú aftur að venjast því að fá alldrjúgan hlut af gjaldeyristekjum sínum frá útlendu setuliði, og atvinnuleysisvandamálið verður leyst með setuliðsvinnu.“(47)

Því skeytingarleysi sem Hafnarstúdentar töldu ríkja gagnvart hersetunni á Íslandi var nú senn lokið. Í september 1952 hófu Bergur Sigurbjörnsson og Valdimar Jóhannsson útgáfu blaðsins Frjáls þjóð í september 1952. Bergur hafði þá verið rekinn úr Framsóknarflokknum „með fullkomlega nazistískum aðferðum“ (eins og honum sagðist sjálfum frá) fyrir að mótmæla herstöðvasamningnum. (48) Markmið blaðsins voru að berjast gegn hersetu á Íslandi, fyrir lýðræði og „frjálslegri sósíaldemókratískri stefnu í efnahagsmálum“. Frá upphafi ritaði Gils Guðmundsson í blaðið, en hann var þá orðinn þjóðkunnur fyrir hinar vinsælu bækur um Öldina okkar sem félagi hans í Þjóðvarnarflokknum, Valdimar Jóhannsson, gaf út. Gils ritaði þætti úr Íslandssögunni í Frjálsa þjóð, sem voru í anda þeirrar ritraðar.

Þjóðvarnarflokkurinn var stofnaður í Reykjavík 15. mars 1953. Helstu stefnumál flokksins voru hin sömu og Frjálsrar þjóðar, en einnig lagði flokkurinn áherslu á baráttu gegn sukki, spillingu og óstjórn opinberra stofnana. Var það gamalt baráttumál Valdimars Jóhannssonar frá því að hann ritstýrði Þjóðólfi, málgagni Flokks þjóðveldismanna árið 1942. Sá flokkur var andvígur „flokksræði“ en vildi auka vald landshluta og einfalda stjórnkerfi ríkisins.

Kjarni Þjóðvarnarflokksins hafði starfað áður í Þjóðvarnarfélaginu, en eitthvað bar á því að sósíalistar gengju til liðs við flokkinn. Við þessu brugðust sósíalistar með því að stofna Andspyrnuhreyfingu gegn her í landi , því að ekki vildu þeir glata frumkvæði í hernámsandstöðu. Þau samtökin störfuðu fram yfir kosningar 1953. Eigi að síður töpuðu sósíalistar fylgi í þeim kosningum en flokkurinn hafði aldrei orðið fyrir slíku áður. Þjóðvarnarflokkurinn fékk hins vegar 6% atkvæða á landsvísu og tvo þingmenn kjörna, Gils Guðmundsson og Berg Sigurbjörnsson.

Í nýlegu riti bendir Valur Ingimundarson að áhrif hersins á íslenskt atvinnulíf hafi að hluta til verið neikvæð. Hann tók vinnuafl frá öðrum atvinnugreinum og jók eftirspurn eftir gjaldeyri til innflutnings. „Smám saman þurrkaði það út hin hagstæðu áhrif dollarateknanna af varnarliðinu á greiðslujöfnuðinn við útlönd.“(49) Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks beitti sér hins vegar fyrir því að gjaldeyristekjurnar af hernum kæmust í réttar hendur. Árið 1954 fékk fyrirtækið Íslenskir aðalverktakar einokun á framkvæmdum fyrir herinn. Það fyrirtæki var að hálfu í eigu Sameinaðra verktaka, sem stjórnað var af kunnum sjálfstæðismönnum, en frá 1960 var sonur forsætisráðherra, Thor Ó. Thors, einn forstjóra fyrirtækisins. (50) Framsóknarmenn fengu líka sitt því að Reginn, fyrirtæki í eigu Sambandsins, átti 25% í aðalverktökum, en ríkið átti 25%. „Var það álit manna að þar yrði að koma til einn aðili af íslenskri hálfu, til þess meðal annars að fyrirbyggja óeðlilega og hvimleiða innbyrðis keppni Íslendinga um framkvæmdirnar“, segir í nýlegu riti um einn af foringjum Framsóknarflokksins.(51) Undanfarin ár hefur staðið yfir frjó og forvitnileg umræða um erlendan fjárstuðning við Alþýðuflokk og Sósíalistaflokk. Eftir því sem best er vitað eru þær fjárhæðir sem vinstrimenn fengu frá erlendum systurflokkum einungis örlítið brot af því sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fengu vegna einokunaraðstöðu á framkvæmdum fyrir Bandaríkjaher á Íslandi. Mætti þó ætla að þær fjárhæðir hafi skipt verulegu máli fyrir afstöðu manna til herstöðvarinnar.

Frá Þjóðvarnarflokki til Alþýðubandalags

Í næstu kosningum var ekki byr í seglum Þjóðvarnarflokksins. Vorið 1956 fluttu Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur þingsályktunartillögu um endurskoðun á grundvelli uppsagnarákvæðis varnarsamningsins. Var hún samþykkt 28. mars 1956 með atkvæðum þingmanna þessara flokka, svo og Þjóðvarnarflokks og Sósíalistaflokks. Má því segja að flokkarnir hafi gengið til kosninga á grundvelli þessarar stefnu, auk þess sem að hluti Alþýðuflokksmanna hóf kosningasamvinnu við sósíalista undir merkjum Alþýðubandalags. Við öll þessi pólitísku stórtíðindi dró úr stuðningi við Þjóðvarnarflokkinn, sem fékk einungis 4,5% í alþingskosningum 24. júní. Valdimar Jóhannsson túlkaði þessi kosningaúrslit svo: „Fjölmargir kjósendur, sem greiddu Þjóðvarnarflokknum atkvæði í kosningunum 1953, hafa nú í þessum kosningum horfið aftur til sinna gömlu flokka í trausti þess, að þeir muni rata réttan veg hér eftir. Vonandi verður þessum kjósendum að trú sinni.“(52)

Þrátt fyrir að góðan kosningasigur reyndust Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur deigir í framkvæmd eigin þingsályktunar og Alþýðubandalagið lét það ekki varða stjórnarslitum. En Þjóðvarnarflokkurinn náði ekki að færa sér vanefndirnar í nyt. Árið 1959 voru tvær þingkosningar þar sem kjördæmamálið var mál málanna. Þjóðvarnarflokkurinn varð utangátta með sín stefnumál og gekk illa í þessum kosningum, fékk 2,5% í fyrri kosningunum en 3,4% í þeim síðari.

Við þessar aðstæður var starfsemi Þjóðvarnarflokksins furðu lífleg, þrátt fyrir allt. Þjóðvarnarmenn lýstu yfir fullum stuðningi við fyrstu Keflavíkurgönguna 19. júní 1960. (53) Flokkurinn tók einnig þátt í stofnun Samtaka hernámsandstæðinga á Þingvöllum 10. september 1960 og tók Gils Guðmundsson þar sæti í landsnefnd við hlið sósíalista á borð við Magnús Kjartansson og Jónas Árnason. (54) Ólíkir hópar herstöðvaandstæðinga náðu hér þverpólitískri samstöðu.

Í áramótaávarpi í Frjálsri Þjóð 1963 heldur Bergur Sigurbjörnsson því fram „að í kosningum þeim, sem í hönd fara, gilda ekki sömu lögmál og að undanförnu. Í þessum kosningum má það ekki vera höfuðatriði, hver af núverandi stjórnarandstöðuflokkum fær þingsætinu meira eða minna, heldur hitt að sameiginlega komi þeir öflugri út úr kosningunum en núverandi stjórnarflokkar.“(55) Samfylking var í uppsiglingu og 20. apríl 1963 birti Frjáls Þjóð stríðsfyrirsögn um „kosningasamstarf Þjóðvarnarflokks og Alþýðubandalags“. Raunar var samið um að kunnir þjóðvarnarmenn tækju sæti á framboðslistum sem þó „skuli aðeins bera nafn Alþýðubandalagsins“. Þjóðvarnarmenn ályktuðu í því sambandi að flokkurinn eða þjóðvarnarmenn sem næðu kjöri á þing væru „ekki málefnalega bundnir af samþykktum stofnana Alþýðubandalagsins, sem ekki leiðir beint af hinni sameiginlegu kosningastefnuskrá“.(56) Eigi að síður var ekki ríkjandi mikil tortryggni gagnvart hinum nýjum samstarfsaðilum og Frjáls þjóð birti framboðslista Alþýðubandalagsins án þess að draga menn í dilka eftir því hvort þeir komu úr Þjóðvarnarflokknum eða ekki.(57) Bergur Sigurbjörnsson taldi „að samkomulag það um kosningasamvinnu, sem Þjóðvarnarflokkurinn hefur nú gert við Alþýðubandalagið, hafi í ýmsum mjög mikilvægum efnum orðið mun hagstæðara Þjóðvarnarmönnum en menn gerðu almennt ráð fyrir.“(58) Ekki voru allir þjóðvarnarmenn sammála því og nokkrir þeirra gengu nú til fylgis við Framsóknarflokkinn, t.d. Jafet Sigurðsson og Magnús Bjarnfreðsson. Frjáls þjóð kom út áfram, allt til 1968, en þá var Alþýðubandalagið gert að formlegum stjórnmálaflokki. Héldu þá sumir Þjóðvarnarmenn áfram starfi þar, en aðrir gengu til liðs við nýja stjórnmálahreyfingu, sem síðar fékk heitið Samtök frjálslyndra og vinstri manna.

Finnbogi Rútur Valdemarsson hætti á þingi árið 1963, eftir 14 ára þingsetu fyrir Sósíalistaflokkinn og Alþýðubandalagið. Gils Guðmundsson tók sæti hans í Reykjaneskjördæmi og var kjörinn á þing. Bergur Sigurbjörnsson náði hins vegar ekki kosningu úr 4. sæti Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Ungur maður sem verið hafði ritstjóri Frjálsrar þjóðar, Ragnar Arnalds, var kosinn á þing fyrir Alþýðubandalagið í Norðurlandi vestra. Gils sat á alþingi fyrir Alþýðubandalagið til 1979, en Ragnar til 1999. Lauk nú sögu Þjóðvarnarflokksins sem sjálfstætt stjórnmálaafls, en þjóðvarnarmenn fengu tækifæri til að hafa pólitísk áhrif með vistinni í Alþýðubandalaginu. Hvernig þeim tókst til þar er önnur saga og öllu lengri en svo að henni verði gerð skil hér.

(1) Kristinn E. Andrésson, „Minnisblöð um leynifundi þingmanna um herstöðvamálið“,Tímarit Máls og menningar, 38 (1977), bls. 3–17.

(2) Matthías Johannessen, Ólafur Thors. Ævi og störf, 2 bindi, Reykjavík, 1981, II, bls. 9.

(3) Matthías Johannessen, Ólafur Thors, II, bls. 22.

(4) Matthías Johannessen, Ólafur Thors, II, bls. 36–37.

(5) Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins. Samskipti Íslands og Bandaríkjanna 1945–1960, Reykjavík, 1996, bls. 46–48.

(6) Útsýn. Óháð fréttablað, 1. ár. 3. tbl. (10. nóvember 1945), bls. 3.

(7) Útsýn. Óháð fréttablað, 1. ár. 1. tbl. (15. október 1945), bls. 10.

(8) Útsýn. Óháð fréttablað, 1. ár. 1. tbl., bls. 4.

(9) Útsýn. Óháð fréttablað, 1. ár. 1. tbl., bls. 11.

(10) Útsýn. Óháð fréttablað, 1. ár. 2. tbl. (26. október 1945), bls. 4.

(11) Útsýn. Óháð fréttablað, 1. ár. 2. tbl., bls. 7.

(12) Útsýn. Óháð fréttablað, 1. ár. 1. tbl., bls. 13.

(13) Útsýn. Óháð fréttablað, 1. ár. 1. tbl., bls. 7.

(14) Grein Aðalbjargar Sigurðardóttur í tímaritið var tileinkuð Sigríði í Brattholti, Tímarit Máls og menningar, 6 (1945), bls. 144–45.

(15) Theodóra Thoroddsen, „Ekki með voru samþykki“,Tímarit Máls og menningar, 6 (1945), bls. 155.

(16) Útsýn. Óháð fréttablað, 2. ár. 1. tbl., bls. 1.

(17) Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, bls. 62.

(18) Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, bls. 67.

(19) Matthías Johannessen, Ólafur Thors, II, bls. 43.

(20) Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, bls. 62, 68.

(21) Brynjólfur Bjarnason, Með storminn í fangið I. Greinar og ræður 1937–1952, Reykjavík, 1973, bls. 94–99.

(22) Jón Ólafsson, Kæru félagar. Íslenskir sósíalistar og Sovétríkin 1920–1960, Reykjavík, 1999, bls. 124–26.

(23) Þór Whitehead, „ Hvað sögðu Bandaríkjamenn um íslenzk stjórnmál?“, Eimreiðin, 79, 1973, 6-29 (bls 15-22), Sbr. Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, bls. 23.

(24) Matthías Johannessen, Ólafur Thors, II, bls. 9, 25. Þór Whitehead, „ Hvað sögðu Bandaríkjamenn um íslenzk stjórnmál?“, bls 9–11.

(25) Brynjólfur Bjarnason, Með storminn í fangið I, bls. 68–74, 90–91.

(26) Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 125.

(27) Brynjólfur Bjarnason, Með storminn í fangið I, bls. 98.

(28) Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 96.

(29) Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 129–31, 133–34.

(30) Matthías Johannessen, Ólafur Thors, I, bls. 429.

(31) Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 156–60.

(32) Þjóðvörn, 1. árg. 3 tbl. (21. október 1946), bls. 1.

(33) Þjóðvörn, 1. árg. 1 tbl. (2. október 1946), bls. 7.

(34) Alþýðublaðið, 15. janúar 1949.

(35) Þjóðvörn, 1. tbl. (27. janúar 1949), bls. 6.

(36) Þjóðvörn, 1. tbl. (27. janúar 1949), bls. 5. Sbr. Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, bls. 125.

(37) Þjóðvörn, 6. tbl. (14. mars 1949).

(38) Þjóðvörn, 11. tbl. (11. apríl 1949), bls. 2.

(39) Þjóðvörn, 13. tbl. (2, maí 1949), bls. 3.

(40) Þjóðvörn, 14. tbl. (9. maí 1949), bls. 1.

(41) Þjóðvörn, 14. tbl. (9. maí 1949), bls. 2.

(42) Þjóðvörn, 25. tbl. (19. september 1949), bls. 2.

(43) Þjóðvörn, 26. tbl. (26. september 1949), bls. 3–4.

(44) Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, bls. 198, 228.

(45) Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, bls. 294–95.

(46) Matthías Johannessen, Ólafur Thors, II, bls. 282.

(47) Stefán Karlsson, Hafnarstúdentar og hersetan, Reykjavík, 1951, bls. 12.

(48) Frjáls þjóð, 2. árg. 22. tbl. (10. júní 1953), bls. 4.

(49) Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, bls. 283.

(50) Í ævisögu Ólafs Thors afgreiðir Matthías Johannessen stofnun Íslenskra aðalverktaka svo: „[V]ar sú breyting helzt gerð á herverndarsamningnum frá 1951, að bandaríska verktakafélagið hætti störfum á Keflavíkurflugvelli, en íslenzkir verktakar tóku við“ (Ólafur Thors, II, bls. 245).

(51) Vilhjálmur Hjálmarsson, Eysteinn í baráttu og starfi. Ævisaga Eysteins Jónssonar fyrrum ráðherra og formanns Framsóknarflokksins, II, Reykjavík, 1984, 304–5.

(52) Frjáls þjóð, 5. árg. 30. tbl. (30. júní 1956), bls. 4.

(53) Frjáls þjóð, 9. árg. 24. tbl. (18. júní 1960), bls. 4.

(54) Frjáls þjóð, 9. árg. 36. tbl. (17. september 1960), bls. 4.

(55) Frjáls þjóð, 12. árg. 2. tbl. (12. janúar 1963), bls. 5.

(56) Frjáls þjóð, 12. árg. 14. tbl. (20. apríl 1963), bls. 1.

(57) Frjáls þjóð, 12. árg. 15. tbl. (27. apríl 1963), bls. 6, 8; 12. árg. 16. tbl. (4. maí 1963), bls. 8.

(58) Frjáls þjóð, 12. árg. 17. tbl. (11. maí 1963), bls. 5.