Greinasafn fyrir merki: NTP

Ótíðindi frá Kóreuskaga

top korea specialÞað eru ill tíðindi sem berast nú frá Kóreu. Stjórnvöld í Norður-Kóreu sprengdu í nótt kjarnorkusprengju í tilraunaskyni. Er þetta formleg staðfesting á kjarnorkuvopnaeign ráðamanna þar í landi. Tíðindin eru svo sem ekki óvænt, en nokkur misseri eru frá því að stjórnin í Norður-Kóreu sagðist fyrst hafa yfir þessum skelfilegu vopnum að búa.

Langt er síðan friðarsinnar tóku að vara við hættunni á ríki á borð við Norður-Kóreu gætu komið höndum yfir kjarnorkuvopn. Fyrir 20-30 árum hefði slíkt verið óhugsandi, enda krafðist gerð slíkra vopna þá tæknikunnáttu sem ekki var á færi annarra en stórvelda eða vellauðugra ríkja.

Öllum mátti þó vera ljóst að með áframhaldandi þróunarvinnu kjarnorkuvopna, yrði sú tækni sem þarf til að framleiða „einföld“ kjarnorkuvopn bæði auðveldari og ódýrari. Jafnframt var margoft bent á að umfangsmiklar kjarnorkuáætlanir risaveldanna hefðu það í för með sér að sífellt fjölgaði þeim vísindamönnum sem réðu yfir þekkingu á smíði þessara vopna og að með tímanum yrði stöðugt erfiðara með að hafa eftirlit með störfum þeirra fyrir erlendar ríkisstjórnir eða einkaaðila.

Kjarnorkusprenging Norður-Kóreumanna í nótt er því rökrétt afleiðing þeirrar gegndarlausu þróunarvinnu á kjarnorkuvopnum sem átt hefur sér stað á undanliðnum árum og áratugum. Þar er ábyrgð tveggja ríkja mest: Bandaríkjanna og Rússlands.

Sáttmálinn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna var á sínum tíma einn markverðasti afvopnunarsamningur sögunnar. Honum var einmitt ætlað að hindra að ný ríki fengju kjarnorkuopn í hendur. Höfundar sáttmálans gerðu sér fyllilega grein fyrir því að áframhaldandi útbreiðsla væri óhjákvæmileg, ef kjarnorkuveldin ynnu ekki kerfisbundið að minnkun vopnabúra sinna og drægju úr þróunarstarfi. Þann hluta sáttmálans hafa risaveldin hins vegar aldrei séð ástæðu til að virða.

Skömm stjórnarinnar í Norður-Kóreu er mikil. En atburður þessi er sömuleiðis áminning til ríkisstjórna heimsins um að þá aðeins getum við vænst árangurs í baráttunni við kjarnorkuvopn að núverandi kjarnorkuveldi láti af tilraunum sínum og vinni þess í stað að afvopnun.

Stefán Pálsson

Yfirlýsing CND um kjarnorkuáætlun Írana

imagesstopwaroniran vert Bresku friðarsamtökin Campaign for Nuclear Disarmament (CND) sendu frá sér yfirlýsingu 10. apríl síðastliðinn varðandi kjarnorkudeiluna við Íran. Þar hvetja samtökin alþjóðasamfélagið til að beita sér gegn því að Bandaríkin geri innrás í Íran og sér í lagi beina þau orðum sínum til bresku ríkisstjórnarinnar. Það er ástæða til að hvetja ríkisstjórn Íslands til að beita áhrifum sínum. Þau lönd sem fylgdu Bandaríkjunum að málum gagnvart Írak bera nú sérstaka ábyrgð, þar sem ætla má að rödd þeirra geti haft einhver áhrif á Bandaríkin. Í yfirlýsingunni er gerð góð grein fyrir eðli þessa máls og því höfum við þýtt hana og birtum hér að neðan.

Fyrir þremur árum fylgdi Bretland Bandaríkjunum eftir í innrás í Írak á grundvelli ásakana, sem reyndust rangar, um að Írak hefði gjöreyðingarvopn í fórum sínum. Nú horfum við upp á sambærilegar ásakanir á hendur Íran þar sem Bandaríkjastjórn heldur því fram að í kjarnorkuáætlun Írans felist áætlanir um að þróa kjarnorkuvopn. Er einhver grundvöllur fyrir þessum ásökunum eða er verið að spinna upp réttlætingu fyrir ólöglegri árás á Íran?

Ein helsta ásökunin á hendur írönsku stjórninni er að hún brjóti gegn NPT-sáttmálanum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, en Íran á aðild að honum. Þess vegna er mikilvægt að vita hvað nákvæmlega stendur í þessum samningi. Fjórða greinin er lykilatriði, en hún fjallar um réttinn til að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Þar stendur eftirfarandi:

1. Ekkert í þessum samningi skal túlka þannig, að það breyti óhagganlegum rétti allra samningsaðila til þess, án mismununar og í samræmi við fyrstu og aðra grein þessa samnings, að efla rannsóknir, framleiðslu og notkun kjarnorku í friðsamlegum tilgangi.

2. Allir samingsaðilar skuldbinda sig til að auðvelda, og eiga rétt á að taka þátt í, sem allra víðtækustum skiptum á tækjum, efni og vísinda- og tæknilegum upplýsingum fyrir friðsamlega notkun kjarnorku. Samningsaðilar, sem eru í aðstöðu til þess, skulu einnig vinna að því, sér í lagi eða ásamt öðrum ríkjum eða alþjóðastofnunum, að efla frekari þróun kjarnorkunotkunar í friðsamlegum tilgangi, sérstaklega á landsvæðum kjarnavopnalausra ríkja, með réttu tilliti til þarfa þróunarsvæða heimsbyggðarinnar.

Fyrsta og önnur grein samningsins banna flutning kjarnorkuvopna milli kjarnorkuvopnaríkja og kjarnorkuvopnalausra ríkja.

Það er ljóst, að samkvæmt NPT-samningum er Íran leyfilegt að þróa kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Meira en 40 ríki hafa nýtt sér þennan rétt á undanförnum áratugum og mikill meirihluti þeirra á ekki kjarnorkuvopn. Engu að síður er eðlilegt að vera á varðbergi þar sem náin tengsl eru milli ferlisins við framleiðslu kjarnorku í friðsamlegum tilgangi annarsvegar og kjarnorkuvopna hinsvegar, sem sagt auðgun úrans. Þar er samt ekki um að ræða nein sjálfvirk eða bein tengsl af því að það þarf miklu minna af auðguðu úrani til framleiðslu kjarnorku en til framleiðslu kjarnorkuvopna eða 3% á móti 90%.

En vegna þessara nánu tengsla og vegna þess að þróun frá kjarnorkuframleiðslu til framleiðslu kjarnorkuvopna er möguleg, þá kveður NPT-sáttmálinn á um ákveðin öryggisákvæði. Þau er tilgreind í þriðju grein sáttmálans:

1. Sérhvert kjarnavopnalaust ríki, sem er samningsaðili, skuldbindur sig til að fara eftir öryggisákvæðum, sem sett verða fram í samkomulagi, sem samið verður um og gert verður við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina í samræmi við stofnskrá Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og öryggiskerfi stofnunarinnar, til þess eingöngu að sannprófa, hvort það hefur uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi, er miða að því að koma í veg fyrir, að kjarnorku verði veitt frá friðsamlegri notkun til kjarnavopna eða annarra kjarnasprengjutækja. Öryggisreglum þeim, sem krafist er í þessari grein, skal fylgt að því er varðar vinnsluefni eða sérstakt kjarnkleyft efni, hvort heldur er við framleiðslu, umbreytingu eða notkun þess í öllum helztu kjarnorkustöðvum eða þegar það er utan við slíka stöð. Öryggisákvæðin, sem krafizt er í þessari grein, eiga að ná til alls vinnsluefnis eða sérstaks kjarnkleyfs efnis við alla friðsamlega notkun kjarnorku á landssvæði slíks ríkis, í lögsögu þess eða hvar sem er undir stjórn þess.

Þannig kveður þriðja greinin á um að aðildarríkin verði að fallast á öryggisákvæði Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, en samkvæmt þeim má sannreyna að kjarnorkuframleiðsla sé ekki nýtt til þróunar kjarnorkuvopna. Hér er það sem Íran hefur ekki staðið sig og með því gefið ástæðu til gagnrýni og áhyggna. Fyrir 2003 veitti Íran Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni ekki fullan aðgang að öllum þeim stöðum þar sem kjarnorkuframleiðsla eða þróun hennar fór fram eins og kveðið er á um í samningum um öryggisákvæði. Þeir staðir, sem ekki var hægt að gefa skýrslur um, voru Jabr Ibn Hayan rannsóknarstöðin í Teheran, Esfahan eldsneytisauðgunarstöðin, Natanz eldsneytisauðgunarstöðin og Arak Iran tilraunakjarnorkuverið.

Þær ásaknanir, sem nú eru bornar á hendur írönsku stjórninni, eru byggðar á þessum gömlu syndum og þótt hún hafi síðan gefið eftir hefur málið verið blásið enn frekar upp. En eru þau hörðu viðbrögð, sem sýnd eru núna, í einhverju samræmi við stöðuna eða réttlætanleg af henni?

Satt að segja hafa allar ofangreindar kjarnorkustöðvar verið settar undir öryggisákvæði Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar eins og stofnunin hefur greint frá. Íran hefur líka samþykkt viðbótarreglur (Additional Protocols), en mörg ríki, sem eru með kjarnorkuframleiðslu, hafa ekki gert það. Þessar reglur veita meiri aðgang til eftirlits en öryggisreglurnar gera. Á undanförnum þremur árum hafa verið gerðar mjög miklar athuganir á kjarnorkustöðvum Írans og auk þess hefur Íran veitt aðgang að ýmsum hernaðarlegum stöðum og samt hefur ekkert fundist sem gefur tilefni til að ætla að Íran sé nú eða hafi verið með áætlanir um að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Tregða íranskra stjórnvalda við að gefa upplýsingar um gerðir sínar fyrir 2003 hefur auðvitað veikt stöðu Írans og gefið tilefni til gagnrýni, og ekki hafa ógeðfelldar yfirlýsingar Ahmadinejads forseta nýlega um Ísraelsríki bætt úr skák. Kjarnorkuvopnaeign Ísraels, í trássi við margar ályktanir Sameinuðu þjóðanna um kjarnorkuvopnalaus Miðausturlönd, veldur tvímælalaust aukinni spennu á svæðinu, en öfgafullar yfirlýsingar forsetans hafa aukið enn á vandann. Þar að auki ber það vott um mikla hræsni að bandarísk stjórnvöld líta fram hjá kjarnorkuvopnaeign Ísraels meðan þau beina spjótum sínum að Íran. Þessi tvískinnungur ýtir undir ótta um að Bandaríkin séu að spinna upp falskar ástæður til að skipta um stjórn í Íran í því skyni að ná tökum á hinum ríku orkulindum landsins.

Í því skyni að endurheimta traust varðandi áætlanir sínar samþykkti Íran í nóvember 2004 – í viðræðum við Bretland, Frakkland og Þýskaland, ESB-löndin þrjú – að fresta tímabundið áætlunum sínum um auðgun úrans. Meðan á þessum fresti stæði var ætlunin að ESB-löndin þrjú kæmu með áætlanir um efnahagslega hvatningu og öryggistryggingar sem Íran fengi fyrir að láta vera að auðga sitt eigið úran. Málið er að Bandaríkin hafa gengið hart fram í, að Íran fái ekki fullt vald yfir öllu ferlinu í kjarnorkuframleiðslu sinni vegna möguleikans á að þróa það yfir í framleiðslu kjarnorkuvopna, og að auðgun úransins fari fram annarsstaðar. Á þessum loforðum urðu engar efndir og þar með hefur Íran hætt við að slá áætlunum sínum á frest og fullyrðir enn á ný, í samræmi við alþjóðalög og samninga, að ríkið hafi fullan rétt til að ráða yfir öllu ferlinu í kjarnorkuframleiðslu sinni, og að það muni fara eftir öryggisákvæðum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Rússland hefur átt í viðræðum við Íran um þann möguleika að Rússland taki að sér að sjá um auðgun úrans fyrir Íran að mestu leyti meðan Íran héldi eftir litlum hluta þessarar starfsemi. Svo virðist sem samkomulag þessa efnis hafi verið nánast í höfn milli þessara tveggja ríkja en Bandaríkin gátu jafnvel ekki sætt sig við auðgun úrans í litlum mæli og þar með var tilgangslaust að halda þessum viðræðum áfram. Afstaða Bandaríkjanna virðist vera að ekki eigi að „umbuna“ írönskum stjórnvöldum fyrir hversu ósamvinnuþýð þau hafa verið á liðnum árum með minnsta möguleika á að auðga úran.

En samtímis því sem Bandaríkin taka afstöðu gagnvart Íran, sem virðist útiloka alla möguleika á samkomulagi, og viðurkenna ekki þá staðreynd að Íran hefur gengið lengra en formlega er krafist varðandi vopnaeftirlit, hefur forseti Bandaríkjanna gert mjög svo umdeilanlegan samning við Indland varðandi kjarnorkumál. Indland, sem hóf framleiðslu á kjarnorkuvopnum seint á tíunda áratug síðustu aldar, hefur ekki undirritað NPT-samninginn og er þess vegna ekki háð samningum um öryggisákvæði. Samingurinn tryggir samvinnu við Bandaríkin um framleiðslu kjarnorku í friðsamlegum tilgangi en Indland heldur réttinum til að neita eftirlitsmönnum Bandaríkjanna um aðgang að kjarnakljúfum sínum sem geta framleitt úran fyrir kjarnorkusprengjur. Hér er aftur um að ræða tvískinnung hjá Bandaríkjunum sem hefur valdið miklum áhyggjum víða um heim en tilgangurinn er vaflaust að treysta böndin við hernaðarlega bandamenn í Asíu.

Staðreyndin er að allt efni til kjarnorkuvinnslu í Íran, sem gerð hefur verið grein fyrir, hefur verið kannað og það hefur ekki verið þróað til framleiðslu kjarnorkuvopna. Sem stendur eru engar vísbendingar um að Íran sé með efni eða starfsemi til kjarnorkuframleiðslu sem ekki hefur verið gerð grein fyrir. Fyrri rannsóknir Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar hjá kjarnorkuvopnalausum ríkjum, sem hafa vald yfir öllum þáttum kjarnorkuframleiðslu, hafa tekið allt að sex árum, þannig að það væri við hæfi að gefa tíma til vopnaleitar og samninga í stað þessa óvenjulega þrýstings og flýtis sem settur er gagnvart Íran, og sér í lagi þegar það er almennt viðurkennt að Íran á enn mörg ár í að geta framleitt kjarnorkuvopn, jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að að því sé stefnt. Það er ekki auðvelt að horfa framhjá samsvöruninni við aðdraganda Íraksstíðsins þar sem vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðana fóru fram á meiri tíma til kannana en Bandaríkin höfnuðu því og kusu þess í stað að hraða ólöglegu stríði sem var réttlætt með innistæðulausum ásökunum. Heimurinn hefur undanfarin þrjú ár horft upp á hræðilegar afleiðingar þess stríðs. Alþjóðasamfélagið verður nú að vinna einarðlega að því að koma í veg fyrir árás á Íran og ríkisstjórn Bretlands verður að nýta sérstakt samband sitt við bandarísk stjórnvöld í því skyni. Ef þetta tekst ekki verða afleiðingarnar skelfilegar fyrir Miðausturlönd og alla heimsbyggðina.

Bandaríkin og NATO brjóta gegn NPT-sáttmálanum

Kjarnorkuvpon í Evrópu Í febrúar 2005 kom út á vegum Natural Resources Defense Council (NRDC) ritið U.S. Nuclear Weapons in Europe. A review of post-Cold War policy, force levels, and war planning. Á vefnum nukestrat.com tekur höfundur ritsins, Hans M. Kristensen, saman helstu niðurstöður þess:

Bandaríkin hafa nú 480 kjarnorkusprengjur í átta herstöðvum í sex Evrópulöndum: Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Tyrklandi og Bretlandi. Þessar 480 sprengjur eru restin af gífurlegu kjarnorkuvopnabúri í Evrópu á kaldastríðsárunum sem náði hámarki árið 1970 en 1973 höfðu Bandaríkin 7300 kjarnorkusprengjur í Evrópu. Sovétríkin voru þá með kjarnorkuvopn í Austur-Evrópu, en þau hafa öll verið fjarlægð. Um 1985 fór verulega að draga úr þessum kjarnorkuvígbúnaði og 1991 ákváðu Bandaríkin með samþykki NATO að fjarlægja kjarnorkuvopnin að mestu, en 480 sprengjur voru sem sagt skildar eftir.

Núna eru Bandaríkin eina kjarnorkuveldið sem hefur kjarnorkuvopn í öðrum löndum. Ætlunin er að beita þessum 480 kjarnorkusprengjum í samræmi við kjarnorkuvopnaáætlanir NATO gegn skotmörkum í Rússlandi eða Mið-Austurlöndum.

Í skýrslunni kemur fram hversu margar bandarískar kjarnorkusprengjur eru eyrnarmerktar kjanorkuvopnalausum NATO-löndum til notkunar. Á stríðstímum yrðu allt að 180 af þessum 480 sprengjum afhentar Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi og Tyrklandi til notkunar fyrir flugheri þessara landa. Ekkert annað kjarnorkuveldi eða hernaðarbandalag hefur kjarnorkuvopn eyrnamerkt kjarnorkuvopnalausum löndum.

Þó að Bandaríkin hafi full yfirráð yfir þessum sprengjum á friðartímum, þá er þessi staða kjarnorkuvopnalausu NATO-ríkjanna sem hálfgildings kjarnorkuríki brot á NPT-samningnum um að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna. Bandaríkin og NATO halda því fram að svo sé ekki af því að Bandaríkin hafi yfirráð yfir vopnunum. En kjarnorkuvopnalausu ríkin eru engan veginn óvirk hvað þetta varðar á friðartímum þar sem herflugmenn þeirra æfa kjarnorkuárásir og flugvélar eru tilbúnar til að taka við kjarnorkuvopnum ef nauðsyn krefur. Og með því að veita kjarnorkuvopnalausum ríkjum þann búnað sem þarf til að beita kjarnorkuvopnum ef þess verður þörf eru Bandaríkin og Evrópa að brjóta gegn þeim viðmiðum sem þau sjálf hafa sett um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna í deilum sínum við ríki eins og Íran og Norður-Kóreu.

Þá kemur fram í skýrslunni að Bandaríkin hafa verið að endurbæta svokallaðar B61 kjarnorkusprengjur í Evrópu á síðastliðnum 5 árum.

Árið 1994 gerði Bandaríkjaher ráðstafanir til hægt yrði að beita kjarnorkuvopnum í Evrópu utan ábyrgðarsvæðis Evrópuherstjórnar Bandaríkjahers (EUCOM), sem þýðir að ábyrgðin flyst yfir til CENTCOM, en undir það heyra Mið-Austurlönd, Austur-Afríka og Mið-Asía, þar á meðal Íran og Sýrland. Ekki er ljóst hvort þjóðþing NATO-ríkjanna vissu af þessum ráðstöfunum til að beina kjarnorkuvopnum í Evrópu að og hugsanlega skjóta á Mið-Austurlönd.

Niðurstaða skýrslunnar er að þessi kjarnorkuvopnastefna Bandaríkjanna og NATO feli í sér brot á NPT-sáttmálanum, geri andóf Bandaríkjanna og Evrópu gegn hugsanlegum tilraunum kjarnorkuvopnalausra ríkja til að koma sér upp kjarnorkuvopnum ótrúverðugt og hamli frekari kjarnorkuafvopnun.

Einar Ólafsson

Baráttan gegn kjarnorkuvopnum og ábyrgð Bandaríkjanna

20.5.2005

Þegar þetta er skrifað stendur yfir í New York ráðstefna um endurskoðun samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, NPT-samningsins.

Þessi samningur hefur verið mjög mikilvægur. Þegar hann var undirritaður fyrir 35 árum var viðurkennt að fimm lönd ættu kjarnorkuvopn, Bandaríkin, Sovétríkin (nú Rússland), Bretland, Frakkland og Kína. Nokkur lönd voru að koma sér upp kjarnorkuvopnum eða höfðu áform um það, Indland, Pakistan, Ísrael, Suður-Afríka og Brasilía. Þrjú fyrstnefndu ríkin eru einu ríkin sem enn standa utan samningsins auk Norður-Kóreu sem sagði sig frá honum árið 2003. Suður-Afríka og Brasilía gerðust síðar aðilar að samningnum og lögðu áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum á hilluna, eru meira að segja nú í hópi sjö ríkja (NAC-ríkjanna, New Agenda Coalition) sem hafa forgöngu um að þrýsta á um að markmiði samningsins verði náð og þá ekki aðeins að hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna heldur einnig að þeim verði útrýmt í samræmi við 6. grein samningsins. Hin ríkin eru Egyptaland, Írland, Mexíkó, Nýja Sjáland og Svíþjóð.

En þrátt fyrir þessi sinnaskipti Suður-Afríku og Brasilíu vekur það ugg að eitt ríki, Norður-Kórea, hefur sagt sig frá samningnum og lýsti því yfir í febrúar síðastliðnum að það hefði komið sér upp kjarnorkuvopnum meðan grunur leikur á að annað ríki, Íran, sé að einnig koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Um leið og við hljótum að fordæma alla viðleitni einstakra ríkja til að ganga gegn anda og tilgangi NPT-samningsins með því að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum er líka mikilvægt að líta ekki framhjá ábyrgð kjarnorkuvoparíkjanna, einkum þess ríkis sem hæst hefur í fordæmingu sinni á athæfi Norður-Kóreu og Írans, Bandaríkjanna.

Það má líta á NPT-samninginn að nokkru leyti sem samkomulag milli kjarnorkuvopnaríkjanna og hinna kjarnorkuvopnalausu. Annars vegar skuldbinda kjarnorkuvopnalausu ríkin sig til að koma sér ekki upp kjarnorkuvopnum en hins vegar skuldbinda kjarnorkuvopnaríkin sig, með tilvísun til 6. greinarinar, til að vinna að algerri útrýmingu kjarnorkuvopna. Öll kjarnorkuvopnalausu ríkin sem gerðust aðilar að samningnum hafa staðið við sínar skuldbindingar nema Norður-Kórea og hugsanlega Íran.

Kjarnorkuvopnaríkin hafa hins vegar komið sér hjá því að uppfylla sínar skuldbindingar. Vissulega voru miklar samningaviðræður í gangi áratugum saman og samningar undirritaðir. Enn er þó langt í land að kjarnorkuvopnum verði útrýmt. Í ársbyrjun 2005 áttu Bandaríkin tæplega 6 þúsund kjarnorkusprengjuodda og hafði þeim fækkað úr 10.500 árið 1990. Rússar áttu þá tæplega 5 þúsund sprengjuodda en rúmlega 10 þúsund árið 1990. Kjarnorkuvopnaeign annarra ríkja er miklu minni. En þó að kjarnorkusprengjum hafi fækkað um nær helming á síðustu 15 árum breytir það í sjálfu sér ekki miklu hvort þær eru 10 þúsund eða 20 þúsund, þær eru hvort eð er nógu margar til að leggja alla þessa jörð í eyði.

Á endurskoðunarráðstefnunni 1995 lýstu kjarnorkuvopnaríkin því yfir að þau mundu aldrei beita kjarnorkuvopnum gegn kjarnorkuvopnalausu ríki og staðfestu skuldbindingar sínar um að stefna að afvopnun. Á ráðstefnunni árið 2000 var samþykkt áætlun um kjarnorkuafvopnun í 13 liðum. Á þeim fimm árum sem síðan eru liðin hefur lítið gerst í þeim efnum, reyndar frekar gengið til baka. Að vísu var SORT-samningurinn milli Bandaríkjanna og Rússlands undirritaður árið 2002, en hann er bara orðin tóm. Samkvæmt honum átti hvort ríki um sig að fækka kjarnaoddum sínum um milli 1700 og 2200 á næstu tíu árum, en bara með því að taka þá til hliðar og eftir 2012 gildir samningurinn ekki lengur, þannig að þá verður hægt að setja vopnin aftur í skotstöðu. START II samningurinn frá 1993 hefur ekki tekið gildi og mun sennilega aldrei gera það því að hinn einskisnýti SORT-samningur kemur í raun í stað hans og einnig hins fyrirhugaða START III samnings sem átti að ná lengra. Þá hafa Bandaríkin og Kína auk níu annarra ríkja þverskallast við að fullgilda samninginn um allsherjarbann við tilraunir með kjarnorkuvopn (CTBT-samninginn) sem gerður var árið 1996. Hin ríkin eru Egyptaland, Indland, Indónesía, Íran, Ísrael, Kólumbía, Norður-Kórea, Pakistan og Víetnam. Bandaríkin sögðu ABM-samningnum um bann við gagneldflaugum upp árið 2001.

Kínverjar hafa verið frekar jákvæðir gagnvart kjarnorkuafvopnun og standa við yfirlýsingu sína um að beita ekki kjarnorkuvopnum af fyrra bragði. Samt vinna kínversk stjórnvöld að því að þróa áfram kjarnorkuvopn sín og hafa ekki staðfest CTBT-samninginn þrátt fyrir loforð um að gera það. Frakkar og Bretar eru líka að þróa sín vopn og hafa komið sér upp tækni til prófa kjarnorkuvopn án tilraunasprenginga og komast þannig framhjá CTBT-samningnum sem þeir hafa staðfest. Þá hafa Bretar haft samvinnu við Bandaríkjamenn um þróun nýrra kjarnorkuvopna og tekið þátt í svokölluðum „subcritcal“ tilraunum með kjarnorkuvopn, það er sprengingum án fulls styrks, og árið 2004 kom breska stjórnin í veg fyrir umræður í þinginu um endurnýjun samstarfssamnings við Bandaríkin. Rússnesk stjórnvöld hafa aukið útgjöld sín til kjarnorkuvopna og er álitið að það sé svar þeirra við uppsögn Bandaríkjastjórnar á ABM-samningnum. Þá hafa þeir einnig stundað „subcritical“ tilraunir sem eru í raun brot á CTBT-samningnum.

Verst er þó hegðun bandarískra stjórnvalda. Eftir að riftun þeirra á ABM-samningnum tók gildi árið 2002 hafa þau unnið að því að koma sér upp gagneldflaugabúnaði. Þó að Bandaríkin hafi ekki stundað fullkomnar tilraunasprengingar að undanförnu hefur samt verið unnið að endurbótum á tækni til tilraunasprenginga. Þá er einnig útrunnið bann sem þingið setti á sínum tíma við þróun smásprengja og nú eru uppi áætlanir um að þróa slík vopn. Þrátt fyrir margítrekuð loforð um að beita ekki kjarnorkuvopnum gegn kjarnorkuvopnalausum ríkjum hafa Bandaríkin gert áætlanir um notkun kjarnorkuvopna gegn fjórum eða jafnvel fimm kjarnorkuvopnalausum ríkjum: Írak (sú áætlun hefur væntanlega verið lögð til hliðar núna), Íran, Norður-Kóreu, Sýrlandi og Lýbíu. Þá gáfu bandarísk stjórnvöld út tilskipun árið 2004 (National Security Directive 17) þar sem beinlínis gert ráð fyrir beitingu kjarnorkuvopna af fyrra bragði, en slík yfirlýsing hefur ekki fyrr verið gefin.

Þótt við tölum venjulega um kjarnorkuvopnaríkin fimm, Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland og Kína, auk hinna sem ekki eiga aðild að NPT-samningnum, Indland, Pakistan, Ísrael og Norður-Kóreu, þá eru kjarnorkuvopn reyndar staðsett víðar. Gegnum NATO eru Bandaríkin nú með 480 kjarnorkuvopn í sex Evrópu-löndum, Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi Tyrklandi og Bretlandi. Þessum vopnum er sennilega beint að Rússlandi, Íran og Sýrlandi.

Það er auðvitað óþolandi að fimm ríki skuli telja sig hafa einkarétt á kjarnorkuvopnum og standi ekki við samkomulag um að afsala sér þessum vopnum gegn því að önnur ríki komi sér ekki upp slíkum vopnum. Þrjú ríki hafa ekki gerst aðilar að NPT-samnngnum og eitt til viðbótar sagt sig frá honum af því að þau vilja áskilja sér rétt til að eiga líka kjarnorkuvopn. En það er athyglisvert að tvö þessara ríkja, Indland og Pakistan, hafa greitt atkvæði með árlegri tillögu Malasíu í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem gengur út á að hnykkja á áliti Alþjóðadómstólsins frá 1996 um að beiting jafnt sem hótun um beitingu kjarnorkuvopna sé ólögleg og kjarnorkuvopnaríkin séu skuldbundin samkvæmt NPT-samningnum að eyða öllum kjarnorkuvopnum sínum. Ennfremur greiddi Pakistan atkvæði með tillögu NAC-ríkjanna í allsherjarþinginu síðastliðið haust þar sem skorað er á öll ríki að standa við skuldbindingar sínar um að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna og útrýma þeim. Það er því ástæða til að ætla að þessi tvö ríki yrðu tilleiðanleg til að taka þátt í kjarnorkuafvopnun ef raunverulega yrði farið að vinna að því. Kína og Íran greiddu líka atkvæði með tillögunni. Þessi ályktun er reyndar mjög hógvær og gengur bara út á að ríki heimsins standi við það sem þau hafa skuldbundið sig til. Fimm ríki greiddu atkvæði gegn þessari tillögu: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ísrael og Lettland. Meðal 25 ríkja sem sátu hjá voru Rússland, Indland, Norður-Kórea og Ísland. Ísland hefur líka ýmist setið hjá eða greitt atkvæði gegn tillögu Malasíu. Utanríkisráðuneytið skuldar þjóðinni skýringu á þessari afstöðu.

Kjarnorkuvopnavæðing Norður-Kóreu og kannski líka Írans verður skiljanlegri ef við lítum til þess að þessum tveim ríkjum hefur verið ógnað af Bandaríkjunum. Bandaríkin stóðu fyrir loftárásum á Júgóslavíu árið 1999 og gerðu innrás í Írak árið 2003. Það er kannski ekki skrítið að önnur ríki sem sitja undir hótunum Bandaríkjastjórnar reyni að koma sé upp þeim einu vörnum sem duga, kjarnorkuvopnum. Í umræðum á Alþingi í mars árið 2000 um tillögu um kjarnorkuvopnalaust Ísland komst Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, svo að orði: „Það er rétt að Atlantshafsbandalagið hefur komið sér upp kjarnavopnum og það er stór þáttur í varnarmætti þess sem kölluð hefur verið fælingarstefna, enda liggur alveg ljóst fyrir að menn munu hika við að ráðast á þjóðir þess bandalags.“ Má vera að ráðamenn í Norður-Kóreu og kannski líka Írans hugsi á svipuðum nótum. Það nætti því ætla að með því að láta af hótunum í garð þessara ríkja og hefja samninga um algera kjarnorkuafvopnun gætu Bandaríkin stuðlað að því að Norður-Kórea eyddi sínum kjarnorkuvopnum og Íran léti af áformum sínum ef um þau er að ræða. Þá væri einungis eitt ríki eftir, Ísrael, og miðað við hversu háð það er Bandaríkjunum er líklegt að það yrði líka með.

Þegar á allt er litið er það líklega fyrst og fremst undir Bandaríkjunum komið hvort raunverulega verði farið að stefna að útrýmingu kjarnorkuvopna. En þá er líka mikilvægt að bandamenn Bandaríkjanna, svo sem Ísland, hætti að spila með þeim. Reyndar er það lágmark að vera ekki í hernaðarbandalagi með stórveldi sem á kjarnorkuvopn. Það sést reyndar best á því að tillögum um kjarnorkuvopnalaust Ísland hefur verið svarað með því að það samræmist ekki aðild okkar að NATO: „Ég vil jafnframt ítreka að Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu og hefur þar ákveðnar skuldbindingar. Samþykkt þessa frv. samrýmist ekki þeim skuldbindingum eins og áður hefur komið fram við umræðu um málið og ég vil lýsa yfir áframhaldandi andstöðu minni við þetta frv.“ (Halldór Ásgrímsson í umræðum um tillögu um um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja á Alþingi 16. mars 2000).

Að nokkru byggt á Back to Basics: Reviving Nuclear Disarmament in the Non-Proliferation Regime eftir David Krieger og Carah Ong fyrir Nuclear Age Peace Foundation.

Einar Ólafsson

NPT-samningurinn og kjarnorkuafvopnun

Samningurinn um að hefta útbreiðslu kjarnavopna eða á ensku Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons, var gerður 1. júlí 1968 en tók gildi 5. mars 1970. Oft er samningurinn stuttnefndur á ensku Non-Proliferation Treaty eða NPT-samningurinn.

Ísland er meðal stofnaðila að samningnum (1) en aðeins þrjú ríki hafa ekki fullgilt hann: Indland, Ísrael, Pakistan. Kúba fullgilti hann árið 2002 og Austur-Tímor 2003 og þar með eru aðildarríkin orðin 189.

Helstu atriði NPT-samningsins

Í inngangi samningsins lýsa samningsaðilar yfir „þeirri ætlun sinni að stöðva kjarnavopnakapphlaupið eins fljótt og auðið er og gera raunhæfar ráðstafanir í þá veru að eyða kjarnavopnum“. Í 1. og 2. grein samningsins skuldbinda kjarnorkuvopnaríkin sig til að afhenda ekki öðrum aðila kjarnorkuvopn né aðstoða við framleiðslu þeirra en kjarnorkuvopnalausu ríkin skuldbinda sig til að framleiða ekki né útvega sér kjarnorkuvopn. Í 3. grein er Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni falið eftirlit með þessu. Einnig skuldbinda samningsaðilar sig til að láta ekki neinu kjarnorkuvopnalausu ríki í té til friðsamlegrar notkunar efni eða tæki sem geta nýst til framleiðslu kjarnorkuvopna nema það komi undir öryggisákvæði þessarar greinar.

6. grein samningsins þykir mörgum mjög mikilvæg. Skv. henni skuldbinda samningsaðilar sig „til þess að halda áfram í góðri trú samningum um raunhæfar ráðstafanir varðandi stöðvun kjarnorkuvopnakapphlaupsins innan skamms tíma og eyðingu kjarnavopna og um samning um almenna og algjöra afvopnun undir ströngu og raunhæfu, alþjóðlegu eftirliti.“

Í 7. grein er þess sérstaklega getið að ekkert í samningnum raski rétti hvaða ríkjahóps sem er til að gera samninga um kjarnorkuvopnalaus svæði.

Í 8. grein er ákveðið að fimm árum eftir gildistöku samningsins skuli haldin ráðstefna til að endurskoða framkvæmd hans en síðan geti meirihluti samningsaðila fengið ráðstefnur kallaðar saman á fimm ára fresti til endurskoðunar hans. Í 10. grein er kveðið á um að 25 árum eftir gildistöku samningsins skuli kalla saman ráðstefnu til að ákveða hvort samningurinn eigi að vera áfram í gildi.

Þau ríki sem eru skilgreind og viðurkennd sem kjarnorkuvopnaríki (stundum nefnd P-5 ríkin) í samningnum eru: Bretland,  Bandaríkin, Rússland (áður Sovétríkin), Frakkland og Kína. Bretland, Bandaríkin og Rússland voru stofnaðilar en Frakkland og Kína fullgiltu samninginn ekki fyrr en 1992. A.m.k. þrjú önnur ríki eiga kjarnorkuvopn (stundum nefnd D-3 ríkin), Indland, Pakistan og Ísrael. Ekkert þeirra á aðild að samningnum. Nokkur önnur ríki hafa á undanförnum árum verið talin eiga kjarnorkuvopn eða vera að koma sér þeim upp: Írak, Íran, Norður-Kórea, Líbýa og Sýrland (2). Þau hafa öll fullgilt samninginn. Þá voru Suður-Afríka og Brasilía einnig farin að vinna að því að koma sé upp kjarnorkuvopnum á sínum tíma en voru þá ekki orðin aðilar að samningnum.

Sú gagnrýni hefur komið fram að hugtakið kjarnorkuvopn er hvergi skilgreint í samningnum en stórveldin urðu ásátt um að hann tæki ekki til burðartækja fyrir kjarnorkuvopn. Þessi skilningur var nauðsynlegur til að samningurinn gengi ekki í berhögg við ýmsa samninga og skuldbindingar ríkja innan NATO og eflaust einnig Varsjárbandalagsins. Þannig getur samningurinn t.d. ekki hindrað staðsetningu bandarískra kjarnorkuvopna í Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi og Belgíu, svo nokkur NATO-ríki séu nefnd, á meðan þessi vopn eru undir bandarískri stjórn (3).

Það er mikilvægt að átta sig á að samningurinn byggist í grundvallaratriðum á samkomulagi milli tveggja ríkjahópa: kjarnorkuvopnalausu ríkin samþykktu að koma sé ekki upp kjarnorkuvopnum gegn því að kjarnorkuvopnaríkin bindu enda á kjarnorkuvopnakapphlaupið innan skamms tíma og tækju síðan til við algjöra afvopnum.

NPT-samningurinn 1970-1990

Ráðstefnur til endurskoðunar samningsins hafa verið haldan á fimm ára fresti frá gildistöku hans. Þegar fyrsta ráðstefnan var haldin árið 1975 höfðu 91 ríki fullgilt samninginn. Á ráðstefnunni lýstu mörg ríkjanna, sem ekki áttu kjarnorkuvopn og stóðu utan við vestur- og austurblokkir kalda stríðsins, óánægju sinni með það sem þau kölluðu einhliða túlkun samningsins og fólst í að megináhersla var lögð á skyldur þeirra en síður litið til réttinda þeirra (í samningnum eru ákvæði um jafnrétti til friðsamlegar nýtingar kjarnorku) eða skyldna kjarnorkuvopnaríkjanna. Sérstaklega var litið til þess hvort kjarnorkuvopnaríkin hefðu staðið við skuldbindingar sínar gagnvart 6. greininni. Bandaríkin og Sovétríkin töldu hins vegar að með samningsviðræðunum sem kallað voru SALT I væru þau að uppfylla þessar skuldbindingar. Þrátt fyrir ágreining lauk ráðstefnunni með lokayfirlýsingu þar sem m.a. komu fram áhyggjur vegna vígbúnaðarkapphlaupsins þrátt fyrir ákveðna áfanga í viðræðum um takmörkun kjarnorkuvopna á undanförnum árum og aðildarríkin, sérstaklega kjarnorkuvopnaríkin, voru hvött til að vinna enn frekar að því að koma 6. greininni í framkvæmd.

Þegar önnur ráðstefnan var haldin árið 1980 hafði aðildarríkjunum fjölgað í 112. Umræðurnar voru að miklu leyti á svipuðum nótum og árið 1975. En nú tókst ekki að ná samkomulagi um lokayfirlýsingu og stafaði það einkum af ágreiningi varðandi 6. greinina. Kjarnorkuvopnalausu ríkin kröfðust fullgildingar SALT II samingsins sem leiðtogar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna undirrituðu árið 1979 en Bandaríkin heyktust á að fullgilda eftir innrás Sovétríkjanna í Afganistan. Einnig gagnrýndu mörg hlutlaus ríki aðstoð og samvinnu kjarnorkuvopnaríkjanna við ríki sem ekki áttu aðild að samningnum og töldu að með því ynnu þau gegn markmiðum samningsins. Þá var einnig til umræðu hvernig mætti tryggja öryggi kjarnorkuvopnalausu ríkjanna, einkum hinna hlutlausu, en þau töldu þörf á því þar sem þeim væri meinað að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Við þriðju ráðstefnuna 1985 hafði aðildaríkjunum enn fjölgað í 131. Sum ríki í Afríku og Mið-Austurlöndum lýstu þá áhyggjum yfir því að Ísrael og Suður-Afríka væru að koma sér upp kjarnorkuvopnum, en hvorugt ríkið var þá aðili að samningnum. Eins og á fyrri ráðstefnunum tveimur snerust umræðurnar mest um 6. greinina og hversu lítt miðað í átt til afvopnunar. Í því sambandi lýstu margir vonbrigðum sínum yfir því að þríhliða viðræður Sovétríkjanna, Bretlands og Bandaríkjanna um bann við tilraunir með kjarnorkuvopn sem hófust árið 1977 höfðu ekki haldið áfram eftir 1980. Þrátt fyrir ágreining tókst að setja saman lokayfirlýsingu þar sem kom fram mikill stuðningur við samninginn. Á þessari ráðstefnu lýstu margir yfir stuðningi við möguleika á kjarnorkuvopnalausum svæðum sem getið er um í 7. grein samningsins og fögnuðu Rarotonga-samningnum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Suður-Kyrrahafinu sem var lokið í ágúst 1985 og tók gildi árið eftir.

Við fjórðu ráðstefnuna árið 1990 voru aðildarríkin orðin 140. Ennþá stóðu þó tvo af hinum viðurkenndu kjarnorkuvopnaríkjum (P-5 ríkjum), Kína og Frakkland, utan samningsins. Þau gerðust ekki aðilar að honum fyrr en 1992 en höfðu þó áheyrnarfulltrúa á ráðstefnunni 1990. Á ráðstefnunni var upp ágreiningur um ýmislegt, svo sem um friðsamlega notkun kjarnorku, öryggisákvæði sem fjallað er um í 3. grein samningsins og tryggingu fyrir öryggi kjarnorkuvopnalausu ríkjanna. Þótt ekki hefði komið til neinna brota á fyrstu tveimur greinum samningsins voru nú uppi áhyggjur um að útbreiðsla tæknilegrar þekkingar gæti leitt til „láréttrar“ útbreiðslu kjarnorkuvopna. Varðandi 6. greinina, sem kveður á um afvopnun, þótti nokkuð hafa þokast áfram við að hægja á vígbúnaðarkapphlaupinu á undanförnum árum, en þó höfðu mörg ríki, einkum utan Vesturlanda, áhyggjur af að þróun nýrra vopna á vegum kjarnorkuvopnaríkjanna gæti leitt til „lóðréttrar“ útbreiðslu kjarnorkuvopna. En aðalágreiningurinn varðaði framkvæmd 6. greinarinnar, sérstaklega varðandi allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn, en um það atriði hafði líka verið ágreiningur árið 1985. Enginn ágreiningur var þó um að takmarkið væri slíkt allsherjarbann, spurningin var bara hvernig og hvenær. Á þessari ráðstefnu var rætt um hlutverk Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Almennt var álitið að öryggisákvæði hennar hefðu skipt miklu máli og ástæða væri til að styrkja þau enn frekar. Hins vegar kvörtuðu mörg kjarnorkuvopnalaus ríki, einkum þróunarríki, yfir því að þeim væri gert erfitt fyrir að koma sér upp kjarnorkutækni til friðsamlegrar notkunar. Þá kom líka enn upp og enn sterkar en fyrr umræðan um tryggingu fyrir öryggi kjarnorkuvopnalausu ríkjanna. Þá var einnig áberandi stuðningur við kjarnorkuvopnalaus svæði. Þótt ekki tækist að koma saman lokaályktun, ekki síst vegna ágreinings um 6. greinina, var almennt álitið að ráðstefnan hefði verið árangursrík og meginniðurstaðan væri eindreginn stuðningur við samninginn.

Endurskoðunarráðstefnan 1995

Samningurinn kvað á um að eftir 25 ár skyldi tekin ákvörðun um hvort hann ætti að vera áfram í gildi um óákveðinn tíma eða framlengdur um ákveðinn tíma. Nú höfðu bæst við 38 aðildarrríki, þar á meðal Frakkland og Kína, og þá voru þau orðin 178. Þetta var fyrsta ráðstefnan eftir að Sovétríkin liðu undir lok og jafnframt voru nú öll hin viðurkenndu kjanorkuvopnaríki (P-5 ríkin) orðin aðilar.

Eins og við mátti búast var ágreiningur fyrst og fremst um framkvæmd afvopnunarákvæðisins í 6. grein og öryggisákvæðin og ákvæðin um friðsamlega notkun kjarnorku í 3. og 4. grein. Varðandi framkvæmd 6. greinarinnar voru  kjarnorkuvopnalausu ríkin almennt sammála um að kjarnorkuvopnaríkin þyrftu að sýna meiri vilja til að ná takmarkinu um kjarnorkuafvopnun. Áhersla var lögð á að viðræðum um um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn (CTBT-samningurinn) lyki ekki seinna en 1996, eins og raunar varð, að sem fyrst yrðu hafnar og til lykta leiddar viðræður um kjarnkleyf efni og að kjarnorkuvopnaríkin skuldbindu sig til að til að ganga lengra í fækkun kjarnorkuvopna en kveðið var á um í START II samningnum sem var undirritaður 1993 en hefur raunar enn ekki tekið gildi.

Kjarnorkuvopnaríkin héldu því fram að vígbúnaðarkapphlaupinu væri lokið og vísuðu til fækkunar vopna í kjölfar START-samninga Bandaríkjanna og Rússlands og að sömu tilhneigingar gætti hjá Bretlandi og Frakklandi. En þrátt fyrir þetta var það álit margra annarra ríkja að í raun héldi kjarnorkuvopnakapphlaupið áfram ef litið væri til tæknilegrar þróunar kjarnorkuvopna að undanförnu. Meirihluti kjarnorkuvopnalausu ríkjanna, sérstaklega þau hlutlausu, kröfðust þess að viðræðum um útrýmingu hverskyns kjarnorkuvopna yrði hraðað.

Það var mikið til einhugur um að myndun kjarnorkuvopnalausra svæða stuðlaði að friði og öryggi bæði svæðisbundið og alþjóðlega og væru skref  í áttina að kjarnorkuvopnalausum heimi. Samningar um Afríku og Suðaustur-Asíu voru þá í deiglunni og því var fagnað og einnig var áhugi á myndun kjarnorkuvopnalauss svæðis í Mið-Austurlöndum. Hins vegar náðist ekki samkomulag um tillögu Hvíta-Rússlands um kjarnorkuvopnalaust svæði í Mið-Evrópu.

Fram að þessu hafði aldrei verið upp ágreiningur um fyrstu tvær greinar samningsins en nú héldu hlutlausu ríkin því fram með stuðningi nokkurra annarra að sum kjornorkuvopnaríkin hefðu farið út fyrir bókstaf og anda 1. greinarinnar með flutningi kjarnokuvopna sín á milli og með samvinnu við hópa kjarnorkuvopnalausra ríkja vegna svæðisbundinna ráðstafana. Hins vegar var ekki um nein brot að ræða gagnvart 2. greininni nema af hálfu Íraks en hins vegar voru uppi áhyggjur um framkvæmd samkomulags um öryggisákvæði milli Norður-Kóreu og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Þá lýstu mörg ríki, einkum í Mið-Austurlöndum, yfir áhyggjum vegna kjarnorkuvopnaþróunar Ísraels og þær áhyggjur voru teknar upp í ályktun ráðstefnunnar um Mið-Austurlönd.

Þar sem ráðstefnunni bar skylda til að afgreiða spurninguna um hvort samningurinn ætti að gilda áfram um óákveðinn tíma eða tímabundið gafst ekki tími til að afgreiða ýmis mál sem ágreiningur var um og þess vegna afgreiddi hún enga lokaályktun.

Þó að meirihluti aðildarríkjanna væri fylgjandi því að samningurinn gilti áfram ótímabundið var enginn einhugur um það. En í ljósi þess að meirihlutinn var því fylgjandi tók ráðstefnan ákvörðun um það að samningurinn skyldi gilda áfram ótímabundið. Tvær aðrar ákvarðandi mynduðu líka forsendu fyrir þessari ákvörðun.

Fyrsta ákvörðunin var um að efla undirbúningsvinnuna að endurskoðun samingsins samkvæmt ákvæðum 8. greinarinnar um endurskoðunarráðstefnu á fimm ára fresti. Ákveðið var að halda árlega undirbúningsfundi fyrir ráðstefnuna árið 2000 frá árinu 1997 og nánari útlistun um hvernig vinnunni skyldi hagað.

Önnur ákvörðunin var um grundvallaratriði og markmið varðandi hindrun útbreiðslu kjarnorkuvopna og afvopnun. Lögð var áhersla á að öll ríki gerðust aðilar að samningnum og þau ríki sem á vantaði hvött til þess. Í öðru lagi var lögð áhersla á að samningurinn gengdi hlutverki sínu að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna. Í þriðja lagi var hnykkt á nauðsyn afvopnunar. „Í þessu skyni staðfesta kjarnorkuvopnaríkin skuldbindingu sína samkvæmt 6. grein um að halda áfram í góðri trú samningum um raunhæfar ráðstafanir varðandi eyðingu kjarnorkuvopna.“ Til þess að tryggja framkvæmd 6. greinarinnar var sagt nauðsynlegt að ljúka samningum um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn eigi síðar en árið 1996, að taka upp samningaviðræður um bann við framleiðslu kjarnkleyfra efna sem hægt yrði að nota í kjarnorkuvopn og að kjarnorkuvopnaríkin færu gagngert að fækka kjarnorkuvopnum með það að markmiði að útrýma þeim. Í fjórða lagi var lögð áhersla á mikilvægi kjarnorkuvopnalausra svæða, einkum þar sem spenna ríkti og voru Mið-Austurlönd sérstaklega nefnd. Látin var í ljós ósk um að fleiri kjarnorkuvopnalaus svæði væru orðin að veruleika þegar næsta endurskoðunarráðstefna hæfist árið 2000. Í fimmta lagi var lögð áhersla á að öryggi kjarnorkuvopnalausu ríkjanna yrði tryggt varðandi notkun eða hótun um notkun kjarnorkuvopna og var vísað til nýlegrar ályktunar allsherjarþings SÞ númer 984 frá 11. apríl 1995. Í sjötta og sjöunda lagi voru atriði varðandi styrkingu Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og friðsamlega nýtingu kjarnorku.

Þá var einnig var samþykkt ályktun um Mið-Austurlönd.

CTBT-samningurinn

Það gekk eftir að samningur náðist um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn, CTBT-samningurinn, í september 1996. Nú hafa 175 ríki undirritað hann og 120 fullgilt hann. En samningurinn tekur ekki gildi fyrr en 44 ríki sem tilgreind eru í viðauka við hann hafa fullgilt hann, en það eru þau ríki sem hafa yfir að ráða kjarnorkuvopnum eða kjarnaofnum. Enn hafa aðeins 33 af þessum ríkjum fullgilt hann en þessi eru eftir: Indland, Pakistan og Norður-Kórea, sem hafa enn ekki undirritað hann, og Bandaríkin, Kína, Kólumbía, Egyptaland, Indónesía, Íran, Ísrael og Víetnam, sem hafa undirritað hann en ekki fullgilt. Alþjóðaráðstefnur hafa verið haldnar til að þrýsta á um fulla gildistöku samningsins. Fastaráð samningsins í Vínarborg telur að forsenda þess að samningurinn taki gildi sé að Bandaríkin fullgildi hann. Þau voru meðal fyrstu ríkja til að undirrita hann og Bill Clinton lagði áherslu á fullgildingu hans en öldungadeildin hafnaði því og ekki jukust vonir um það með valdatöku Bush (4).

Álit Alþjóðadómstólsins frá 1996 og tillögur Malasíu á allsherjarþingum SÞ um eftirfylgni þess

8. júlí 1996 sendi Alþjóðadómstóllinn frá sér ráðgefandi álit um lögmæti þess að hóta beitingu kjarnorkuvopna eða beita þeim. Alþjóðdómstóllinn sendi þetta álit frá sér að beiðni Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna en dómstóllinn starfar á vegum þeirra. Þessi beiðni var samþykkt með ályktun númer 49/75 K 15. des. 1994, en hún var lögð fyrir þingið af hálfu aðildarríkja Samtaka hlutlausra ríka. Spurning var á þessa leið: „Er hótun um beitingu eða beiting kjarnorkuvopna undir nokkrum kringumstæðum leyfileg samkvæmt alþjóðalögum?“ Tillagan var samþykkt með 78 atkvæðum, á móti voru 43 ríki, þ.á.m. Ísland, 38 sátu hjá. Meðal þeirra sem voru á móti og sátu hjá voru flest eða öll NATO-ríkin og mörg fyrrum austantjaldsríki (5). Meginniðurstaða dómstólins var að hvorki beiting kjarnorkuvopna né hótun um að beita þeim stæðist alþjóðalög. Þessi niðurstaða var rækilega rökstudd, einkum út frá sérstöðu þessara vopna, gífurlegum eyðingarmætti og afdrifaríkum afleiðingu ef þeim yrði beitt. Því væri notkun þeirra ólögleg og þar með væri líka ólöglegt að hóta því að beita þeim. Með þessu hafði dómstóllin svarað því sem allsherjarþingið lagði fyrir hann en að eigin frumkvæði kvað hann líka upp úr með það að skuldbindingin í 6. grein NPT-samningsins um eyðingu kjarnorkuvopna þýddi einfaldlega að öllum ríkjum sem ættu kjarnorkuvopn bæri skylda til að eyða þeim. Þetta hefði verið samþykkt af nær öllum ríkjum heims og sú samþykkt gilti líka fyrir þau þrjú ríki sem ekki hafa fullgilt sáttmálann (6).

Kjarnorkuvopnaríkin hafa reynt að beita rökum til að fara að fara kringum dóminn en meirihluti ríkja heims hefur ekki fallist á þau rök. Malasía lagði ályktunartillögu fyrir allsherjarþingið (nr. 51/45 M 10. des. 1996) haustið 1996 með tilvísun m.a. til 6. greinar NPT-samningsins og til dómsins, um að öll ríki uppfylli skyldu sína varðandi kjarnorkuafvopnun með því að hefja strax á næsta ári samningaviðræður með það fyrir augum að „ná sem fyrst samkomulagi um bann við þróun, framleiðslu, prófun, staðsetningu, birgðasöfnun, flutningi, hótun eða notkun kjarnorkuvopna og um undirbúning eyðingu þeirra“, og var hún samþykkt í desember það ár með atkvæðum 115 ríkja. 22 ríki greiddu atkvæði gegn henni en 32, þ.á.m. Ísland, sátu hjá. Þessi tillaga hefur síðan verið lögð fram á flestum þingum og hafa atkvæði fallað á svipaðan hátt og hefur Ísland ýmist verið á móti eða setið hjá. Meðal þeirra ríkja sem hafa verið á móti eða setið hjá eru flest eða öll NATO-ríkin og mörg fyrrum austantjaldsríki og öll kjarnorkuvopnaríkin nema Indland og Pakistan sem hafa greitt atkvæði með þessum tillögum. Rétt er að geta þess að allsherjarþingið hefur tekið fyrir á undanförnum árum margar aðrar ályktunartillögur sem snúast á einhvern hátt um kjarnorkuafvopnun og verður það ekki rakið nánar hér (7).

Kjarnorkuvopnalaus svæði

Eins og fram hefur komið er vikið að möguleikum á kjarnorkulausum svæðum í NPT-samningnum og endurskoðunarráðstefnurnar hafa hvatt til myndunar slíkra svæða. Rarotonga-samningurinn um kjarnorkuvopnalaust svæði á Suður-Kyrrahafinu var gerður árið 1985 og tók gildi árið eftir. Áður hafði hafði verið samið um kjarnorkuvopnalaust svæði á Suðurskautslandinu árið 1959 með gildistöku 1961, bann við tilraunum með kjarnorkuvopn í hiningeimnum árið 1963, bann við staðsetningu kjarnorkuvopna á hafsbotni 1969 og Tlatelolco-samningurinn um kjarnorkuvopnalaust svæði í Rómönsku Ameríku og Karíbahafinu var gerður árið 1967 en tók gildi 1968. Síðan hafa bæst við Bangkok-samningurinn um Suðaustur-Asíu 1995 með gildistíma frá 1996 og Pelindaba-samningurinn 1996, en hann hefur ekki enn komið til framkvæmda (8). Þannig hafa nú verið gerðir samningar um að mestallt suðurhvel jarðar sé kjarnorkuvopnalaust svæði. Áhugi hefur verið fyrir myndun kjarnorkuvopnalauss svæðis í Mið-Austurlöndum en hugmyndir um kjarnorkuvopnalausa Mið-Evrópu hafa ekki náð fram að ganga. Lagðar hafa verið fyrir allsherjarþingið tillögur um kjarnorkuvopnalaus svæði í Mið-Asíu. Einnig hafa verið uppi hugmyndir um  kjarnorkuvopnalaus svæði í Suður-Asíu og Norðaustur-Asíu sem tæki til Japans, Norður- og Suður-Kóreu, Tævan og hluta Kína, Mongólíu og Rússlands. Þess hugmyndir eru þó vonlitlar nú í ljósi afstöðu Norðu-Kóreu og Bandaríkjanna sem þyrftu væntanlega að vera aðilar að slíku samkomulagi. Þá hafa líka hafa verið uppi hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norður-Atlantshafi og Norðurlöndum og kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og grannsvæðum Norðurlanda er á stefnuskrá hóps vinstrisósíalista og umhverfissinna í Norðurlandaráði. Einnig hafa einstök lönd eins og Mongólía og Austurríki lýst yfir kjarnorkuvopnaleysi og ríki innan kjarnorkulausra svæða, Filippseyjar og Nýja Sjáland, hafa sett lög sem ganga lengra en hinar svæðisbundnu yfirlýsingar. Á Alþingi Íslendinga hafa nokkrum sinnum verið lögð fram frumvörp um kjarnorkuvopnalaust Ísland en verið hafnað með tilvísun til skuldbindinga Íslands gangvart NATO. Loks er þess að geta að fjölmörg sveitarfélög víða um heim hafa samþykkt yfirlýsingar um að viðkomandi sveitarfélög séu kjarnorkuvopnalaus svæði. Í árslok 2002 höfðu 92 af 105 sveitarfélögum sem þá voru á Íslandi samþykkt friðlýsingu fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum (9).

Endurskoðunarráðstefnan 2000

Í samræmi við ákvarðanir ráðstefnunnar 1995 var sett upp undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnuna 2000 sem koma saman árlega síðustu þrjú árin fyrir ráðstefnuna. Á fundum hennar var fyrst og fremst rætt um algildi samningsins, þ.e. að öll ríki heims ættu að eiga aðild að honum, bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, kjarnorkuafvopnun, viðræður um bann við framleiðslu kjarnkleyfra efna fyrir kjarnorkuvopn, öryggistryggingu fyrir aðildarríki NPT-samningsins, myndun kjarnorkuvopnalausra svæða, friðsamlega notkun kjarnorku og ályktunina um Mið-Austurlönd sem var samykkt á ráðstefnunni 1995. Á fundum nefndarinnar var áberandi ágreiningur milli kjarnorkuvopnaríkjanna og aðildarríkja Samtaka hlutlausra ríkja (Non-Aligned Movement – NAM) einkum um framkvæmd 6. greinarinnar. Varðandi kjarnkleyf efni var sett upp nefnd á Afvopnunarráðstefnunni í Genf (10) en henni hefur ekki tekist að komast að niðurstöðu.

Þegar kom að ráðstefnunni 2000 áttu aðeins fjögur ríki eftir að fullgilda samninginn, Indland, Ísrael, Pakistan og Kúba. Þrátt fyrir margvíslegan ágreining á ráðstefnunni tókst henni að koma sér saman um lokaskjal, en það hafði ekki tekist síðan 1985 (11). Merkasta framlag hennar þykir þó vera samþykkt hennar um 13 skref til algerrar afvopnunar (12). Meðal þeirra má nefna:

  • Tafarlaus undirritun og fullgilding CTBT-samningsins um algert bann við tilraunum með kjarnorkuvopn og engar tilraunir fram að þeim tíma sem hann tekur gildi.
  • Afvopnunarráðstefnan í Vín ljúki sem fyrst samningum um bann við framleiðslu kjarnkleyfra efna fyrir kjarnorkuvopn.
  • START II samningurinn komi þegar í stað til framkvæmda, START III samningnum verði lokið eins fljótt og auðið er og ABM samningnum verði haldið við og hann styrktur.

En skref númer 6 er það sem mesta athygli hefur vakið og
oftast er vitnað til:

  • Kjarnorkuvopnaríkin taki þegar til við eyðingu kjarnorkuvopna sinna (13).

Endurskoðunarráðstefnan 2005: horfur ekki góðar

Síðasta endurskoðunarráðstefna var haldin 2. til 27. maí 2005. Í sem stystu máli má segja að hún hafi borið heldur lítinn árangur, en annars vísast til tveggja greina sem birtust á Friðarvefnum 20. maí 2005, „Baráttan gegn kjarnorkuvopnum og ábyrgð Bandaríkjanna“, og 3. júní 2005, „Kjarnorkuvopnalaus Evrópa?“ (14). En þegar þetta er skrifað er staðan varðandi kjarnorkuafvopnun ekki sérlega góð. Að margra mati hefur þróunin ekki gengið eins og skyldi. Bretland, Frakkland og Rússland hafa staðfest CTBT-samninginn en ekki Kína og Bandaríkin. Kínversk stjórnvöld hafa þó nýverið lýst yfir stuðningi sínum við hann en bandarísk stjórnvöld hafa hins vegar lýst því yfir að þau styðji hann ekki. Þótt öll kjarnorkuvopnaríkin, sem eiga aðild að NPT-samningnum, hafi staðið við loforð sín um að stunda ekki tilraunasprengingar hafa þau þróað aðrar aðferðir til að prófa kjarnorkusprengjur og alla vega Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Rússland hafa stundað slíkar prófanir og unnið að þróun nýrra kjarnorkuvopna. Varðandi fækkun kjarnorkuvopna og skref í átt til eyðingar þeirra hefur þróunin orðið hægari á undanförnum árum og jafnvel öfug í sumum atriðum. Að vísu var undirritaður samningur í Moskvu í mars 2003 milli Bandaríkjanna og Rússlands um að hvort ríki um sig fækki kjarnaoddum sínum í 1700 til 2200 á næstu tíu árum. En bæði Bandaríkin og Rússland vinna að þróun nýrra tegunda kjarnorkuvopna, bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að kjarnorkuafvopnun komi ekki til í náinni framtíð, Frakkar hafa ekki gert neitt varðandi fækkun kjarnorkuvopna síðan á árunum 1996-1998 og eru að þróa ný vopn og talið er að Kína hafa bæði aukið og endurbætt kjarnorkuvopnabirgðir sínar. Í desember 2001 sögðu bandarísk stjórnvöld upp ABM-samningnum og tók uppsögnin gildi 13. júní 2002 og START II samningurinn sem var undirritaður árið 1993 hefur enn ekki gengið í gildi.

27. desember 2005

Einar Ólafsson

(1) Auglýsing þar um er dagsett 23. okt. 1969 og birtist ásamt samningstextanum í C-deild Stjórnartíðinda 1969. Þar er samningurinn kallaður Samningurinn um að dreifa ekki kjarnavopnum. Enskan texta þessa samnings og annarra samninga á þessu sviði er hægt að nálgast t.d. á vefslóðinni http://disarmament.un.org:8080/TreatyStatus.nsf. Um forsögu og upphaf samningsins er fjallað í 4. riti Öryggismálanenfdar eftir Albert Jónsson og Þórð Ingva Guðmundsson, Samningar um afvopnum og takmörkun vígbúnaðar, 1985, s. 45-48. Í þessu riti er einnig fjallað um aðra samninga um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar til ársins 1985, bæði tvíhliða samninga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og fjölþjóðasamninga.

(2) The Acronym Institute for Disarmament Diplomacy hefur tekið saman upplýsingar um þetta á vefsíðunni http://www.acronym.org.uk/wmd/index.htm.

(3) Albert Jónsson og Þórður Ingvi Guðmundsson, Samningar um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, 1985, s. 47.

(4) Um CTBT-samninginn, sjá http://www.reachingcriticalwill.org/legal/ctbt/ctbtindex.html, http://www.acronym.org.uk/ctbt/ og vefsíðu undirbúningsnefndar CTBT-stofnunarinnar (CTBTO) í Vín, http://www.ctbto.org. 

(5) Þessi ályktun er aðgengileg í gagnasafni SÞ, http://www.un.org/documents/resga.htm, en einnig á vef
Malaysian Institute for Nuclear Technology Research (MINT)http://www.mint.gov.my/policy/nuc_disarm/unga49_75K.htm (Ath. þessi síða fannst við vinnslu þessarar greinar snemma sumars 2005 en kom ekki upp þegar gengið var frá henni í lok des. 2005. Sama er að segja um vefslóðir sem vísað er til í nmgr. 7). 

(6) Um dóminn, sjá http://www.lcnp.org/wcourt/adlegalintro.htm, sjá líka umfjöllun Elíasar Davíðssonar: http://www.aldeilis.net/islfrid/kjarnorku1.html og http://www.aldeilis.net/islfrid/kjarnorku2.html.
Útdráttur dómstólsins sjálfs: http://www.icj-cij.org/icjwww/idecisions/isummaries/iunanaummary960708.htm.
Dómurinn í heild: http://www.icj-cij.org/icjwww/icases/iunan/iunan_judgment_advisory%20opinion_19960708/iunan_judgment_toc.htm

(7) Umræddar ályktanir má flestar finna á vef  Malaysian Institute for Nuclear Technology Research (MINT)
http://www.mint.gov.my/policy/nuc_disarm/unga51_45M.htm
http://www.mint.gov.my/policy/nuc_disarm/unga52_38O.htm
http://www.mint.gov.my/policy/nuc_disarm/unga53_77W.htm
http://www.mint.gov.my/policy/nuc_disarm/unga54_54Q.htm
http://www.mint.gov.my/policy/nuc_disarm/unga55_33X.htm
http://www.mint.gov.my/policy/nuc_disarm/unga56_24S.htm
sbr. líka http://disarmament2.un.org/vote.nsf

(8) Um kjarnorkuvopnalaus svæði, sjá http://www.nuclearfiles.org/menu/library/treaties/index.htm
og http://www.tni.org/nukes-docs/nwfz.htm.
Frumvarp um kjarnorkuvopnalaust Nýja-Sjáland, Tlatelolco-samningurinn og samanburður á Rarotonga-samningnum og Tlatelolco-samningnum eru birt á íslensku sem fylgiskjöl með frumvarpi um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum á þinginu 1999-2000, http://www.althingi.is/altext/125/s/0655.html.
Umræður, tillögur og samningar um kjarnorkuvopnalausa svæði með sérstakri áherslu á umræður um slíkt svæði á Norðurlöndum fram til 1982 er til umfjöllunar í 3. riti Öryggismálanefndar eftir Þórð Ingva Guðmundsson, Kjarnorkuvopnalaus svæði. Tillögur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og umræður á Norðulöndum. 1982

(9) http://fridur.is/listi.asp?nr=208.

(10) Confernece on Disarmament (D-CD), sem sett var á fót á vegum SÞ 1979, hefur ásamt allsherjarþinginu verið aðalvettvangur umræðna um afvopnunarmál og vígbúnðareftirlit en hefur verið meira og minna óstarfhæf vegna ágreinings síðan 1996.

(11) http://www.reachingcriticalwill.org/legal/npt/2000FD.pdf.

(12) http://www.reachingcriticalwill.org/legal/npt/13point.html.

(13) Um endurskoðunarráðstefnuna 2000, sjá: http://disarmament2.un.org/wmd/npt/nptrevhome.html og ítarlega skýrslu í tímariti The Acronym Intistute, Disarmament Diplomacy, no. 46, maí 2000: Rebecca Johnson, „The 2000 NPT Review Conference: A Delicate, Hard-Won Compromise“, http://www.acronym.org.uk/46npt.htm.
Um hvort skrefin þrettán hafi verið stigin: NGO Shadow Report on Nuclear Disarmament: Accountability is Democracy Transparency is Security. Nuclear Weapon States’ Compliance with the 13 Steps http://www.reachingcriticalwill.org/legal/npt/shadowreport/13steps.pdf (Ath. þessi síða fannst við vinnslu þessarar greinar snemma sumars 2005 en kom ekki upp þegar gengið var frá henni í lok des. 2005)

(14) Um endurskoðunarráðstefnuna 2005, sjá: http://www.acronym.org.uk/npt/index.htm
og http://www.reachingcriticalwill.org/legal/npt/nptindex1.html#docs.