Greinasafn fyrir merki: Írak

Stríðinu verður að linna – útifundur á Ingólfstorgi 15. mars

Nokkur hundruð manns komu saman á Ingólfstorgi í dag, 15. mars í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn hernámi Íraks og stríðsrekstri Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra þar. Á fundinum fluttu ávörp Hjalti Hugason prófessor og Steinunn Rögnvaldsdóttir nemi og Hörður Torfason söng.
þessa mynd tók Grímur  Dellsén
Eftir fundinn gengu fundarmenn út í Kirkjustræti fram hjá Alþingishúsinu og eftir Pósthússtræti og Austurstræti að Stjórnarráðinu. Í fararbroddi var borin líkkista með nöfnum fólks sem hefur verið drepið í þessu ófriðarbáli síðustu vikur, lítið en samt svo stórt tákn um þau hundruð þúsunda sem þessi herför hefur kostað. Og á undan og eftir kistunni voru bornir borðar með áletrununum „Stríðinu verður að linna“ og „Ekki meir“.

dsc04530

Ályktun fundarins

 

Útifundur á Ingólfstorgi haldinn 15. mars 2008 fordæmir langdregið hernám Bandaríkjanna og fleiri ríkja í Írak og Afganistan. Einnig varar fundurinn við áformum um innrás í Íran sem nú er undirbúin af miklum ákafa.

Innrásin í Írak fyrir 5 árum var knúin fram af Bandaríkjunum á vísvitandi upplognum forsendum til þess að sölsa undir sig olíuauð Íraks og styrkja stöðu sína á svæðinu. Stríðið sem fylgdi í kjölfarið hefur valdið ómældum skaða á öllum sviðum. Talið er að hundruð þúsunda, jafnvel yfir milljón manna hafi fallið og margfalt fleiri særst. Allir innviðir samfélagsins hafa verið eyðilagðir og þeir sem eftir lifa líða stöðugar hörmungar. Enginn sér fyrir endann á þessu ástandi sem er gegnsýrt af hatri, vonleysi og örvæntingu.

Íslensk stjórnvöld studdu innrásina og bera því ábyrgð á afleiðingum hennar. Það er ekki nóg að harma innrásina og láta stroka sig út af tilteknum lista. Það er ekki hægt að stroka út söguna. Íslensk stjórnvöld verða að snúa við blaðinu af heilum hug, biðja afsökunar á sínum hlut og beita sér með fullri virkni á alþjóðavettvangi fyrir því að allir erlendir herir yfirgefi Írak og Afganistan. Sameinuðu þjóðirnar verða að hafa forystu í friðar- og uppbyggingarstarfi sem byggir á fullveldi ríkjanna á svæðinu og hagsmunum fólksins. Leitast verður við að slíkt ferli breiðist út um öll Mið-Austurlönd svo réttlátur friður getið náð fram að ganga.

Við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld greiði skuld sína við fólkið í Írak og Mið-Austurlöndum með því að berjast fyrir þessum markmiðum.

Ávarp Hjalta Hugasonar

Ágætu friðarsinnar!

Í dag er okkur í fersku minni hvernig heimsbyggðin stóð á öndinni um þetta leyti fyrir fimm árum. Herveldið í vestri og fleiri vígfús ríki þrýtu á alþjóðasamfélagið um sameiginlegar, vopnaðar aðgerðir gegn Írak. Hin yfirlýstu markmið voru færð í fagran búning. Fáum hernaðarandstæðingum dulist þó að undir kraumuðu olíuhagsmunir og stigvaxandi andúð Bush-stjórnarinnar á hinum múslimska heimi.

Hvarvetna lögðu friðarsinnar sig fram um að afstýra innrás. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna synjaði um staðfestingu og framkvæmdastjóri samtakanna, lýsti innrásina brot á alþjóðalögum. Allt um það urðu vonir okkar að engu. 20. mars 2003 létu hin vígfúsu ríki til skarar skríða. Það varð okkur, íslenskum friðarsinnum, sérstak áfall að tveir menn sem nú eru horfnir af vettvangi stjórnmála skráðu nafn lýðveldisins á lista þeirra sem að innrásinni stóðu án samráðs við þing eða þjóð. Það er áhyggjuefni að síðar hafa nýir ráðamenn tekið við sem sumir eru óbundnir af arfleifð fyrri ríkisstjórnar. Þeir hafa þó ekki sé ástæðu til að draga okkur út af lista hinna viljugu og láta svo að hann hafi misst gildi sitt. Eftir stendur að íslenska ríkið hefur ekki tekið afstöðu gegn stríðinu. – Gamla yfirlýsingin sem hljómaði hér fyrir fimm árum og raunar oft síðan „Ekki í okkar nafni“ er því enn í fullu gildi.

Vegna takmarkaðs og yfirborðslegs fréttafluttnings kann stríðið í Írak að hafa hrepp þau örlög að ýmist týnast í ofngótt frétta eða verða að tilbreytingarlausu þrástefi sem ekki nær athygli. Slík viðbrögð ofmettunar eru hættuleg þar sem þau slæva meðvitund og dómgreind. Veist þú t. d. að sú styrjöld sem stendur suður við Persaflóa er þegar orðið eitt mannskæðasta stríð sögunnar. Og enn sér ekki sér fyrir endann á mannfórnum. Enn á ný höfum við orðið vitni að því sem mannkynsfræðarar hafa boðað á öllum tímum að ofbeldi verður ekki stöðvað með ofbeldi, vopn leysa ekki vanda, hernaður er ekki rétt svar við harðstjórn. Fórnarlömb stríðs eru fyrst og fremst óbreyttir borgarar, karlar, konur, og börn sem hvergi koma að átökum en eru svipt framtíð sinni og von. Þeim er samvera okkar í dag helguð.

Til að binda endi á þjáningar friðsamra borgara í Írak er ófrávíkjanleg krafa að sett verði í gang friðarferli sem nær yfir öll Miðausturlönd og að sannleiks- og sáttastarfi verði komið af stað, þar sem mannréttindabrot verði rannsökuð og upplýst með réttlæti og sættir að leiðarljósi. Slíkt friðarferli verður þó máttlítið verði það aðeins unnið ofan frá af ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum. Þvert á móti verður það að byggjast á samvinnu við almenning í þeim löndum þar sem stríð geysar og að því verða að koma allar þær þjóðir sem aðild eiga að ófriðnum sem gerendur eða þolendur. Auk þessa verður að grípa til ýmissa annarra aðgerða sem Samtök hernaðarandstæðinga hafa beint athygli að og sem við skorum á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir.
— — —

Stríðsherrar vilja bæði skapa og skrifa söguna. Samkvæmt þeirra kokkabókum stóð stríðið í Írak aðeins í 40 daga. Að þeirra mati er samkoma okkar hér því hlægileg tímaskekkja. Þeir hafa enda fyrir löngu beint athyglinni annað meðal annars að Íran. En þeir eru þó ekki herrar sögunnar. Eða hvað? Það er sláandi að hlusta á lýsingar í helstu fjölmiðlum okkar á atburðum í Írak þegar þeir á annað borð gefa þeim gaum. Lýsingarnar eru allar á forsendum innrásaraðilanna. Þegar til átaka kemur er það vegna þess að skæruliðar, hermdarverkamenn, múgur eða skríll lætur til sín taka. Sú staðreynd er fyrir borð borin að Írak er hersetið land,

enn er tekist á um yfirráð í landinu,
enn fara innrásarþjóðirnar með töglin og hagldirnar,
enn dæla ríkisstjórnir þeirra fjármunum í herlið sín
og enn er mannfall mikið á dáða bóga.
Hvað sem sögutúlkun stórveldanna líður er því ljóst að stríðið stendur enn.

Þess vegna tökum við undir með einfaldri en afdráttarlausri kröfu friðarsinna sem hljómar um heim allan um þessa helgi:

Allur heimurinn gegn stríðinu! — Stríðinu verður að linna!

15mars2008c

Ávarp Steinunnar Rögnvaldsdóttur

Góðir fundargestir

Við erum hér stödd til að minnast þess að um fimm ár eru síðan að Bandaríkjamenn réðust inní Írak og hertóku landið. Við erum hér til að setja enn og aftur fram þá kröfu að í landi langt í burtu endi hrikalegt stríð og þegnar landsins fái aftur að lifa mannsæmandi lífi.

„Írak“ – hvað hugsið þið um þegar þið heyrið þetta nafn?

Hvernig er að búa í Írak? Getum við gert okkur það í hugarlund?

Hvernig var að búa í Írak áður en Bandaríkjamenn með stuðningi frá leppríkjum sínum ákváðu að ráðast þangað inn til að finna gereyðingarvopn, fundu engin og breyttu ástæðuni í að þeir væru í stríði gegn hryðjuverkum, fundu engin tengsl Íraka við Al-kaída eða Osama bin laden og breyttu þá ástæðunni í að þeir væru að “frelsa” Íraka, um leið og þeir læstu klónum í olíuna þeirra.

En hvernig var Írak – fyrir „frelsunina“?

Ja, hérna eru nokkur dæmi um hvernig Írak var:

Í Írak voru 18 ríkisreknir háskólar og 10 einkareknir háskólar, auk 28 tækniskóla. Um 50% háskólanema voru konur, og konur voru einnig um 50% á atvinnumarkaði. Konur þurftu ekki að ganga með slæður þó að margar gerðu það, þær gátu farið sinna ferða í gallabuxum og bol, óáreittar.

Írakar bjuggu ekki í tjöldum, heldur í húsum, með vatnslögnum og rafmagni. Tölvur og internetið voru löngu komin í gagnið. Göturnar og svæðin í borgunum höfðu nafn, en svo gleymdust nöfnin og nú er bara sagt: „þarna þar sem stóri gígurinn er, eftir að flugskeytið sprakk þar þú veist“ eða „húsið við hliðina á þessu þarna sem að fjölskyldan var myrt“. Og nöfnin eru uppfærð reglulega þegar að nýjar sprengjur springa og aðrar fjölskyldur eru drepnar.

Í Írak, fyrir stríðið, þá fóru næstum öll börn í skóla. Árið 2006 hafði það hlutfall fallið niður í 30%. Þessi 30% eru nánast bara strákar. Hvorki stúlkur né fullorðnar konur fara einar út nú á dögum, og ef að þær sjást í gallabuxum getur það verið þeirra dauðadómur. Stríðið hefur blásið byr í vængi bókstafstrúarmanna. Áður skipti það ekki aðalmáli hverrar trúar þú varst, þú gast búið þar sem þú vildir, klæðst því sem þú vildir, ferðast þangað sem þú vildir. Nú er stúlkum sem ekki eru tilhlýðilega klæddar rænt og þeim misþyrmt, ferðafrelsi er takmarkað, hvar áttu að búa þegar búið er að sprengja húsið þitt og það eru þjóðernishreinsanir í gangi, það er verið að þurka út minnihlutahópa í Írak. Bókstafstrúarmenn höfðu ekki þau völd sem þeir hafa nú – ekki fyrr en eftir stríðið.

Eftir innrásina í Írak eru hryðjuverkaárásir í heiminum öllum sjö sinnum fleiri heldur en fyrir innrásina.

Lokið augunum

Hvað hugsið þið um þegar ég segi „Írak“?

Hvað sjá Írakar sjálfir á hverjum degi núna eftir „frelsunina“?

Líkkistur, lífvana líkamar, lík finnst hér, lík finnst þar, sprengja springur, konur í svörtu, erlendir hermenn með byssur, margar byssur, byssur alls staðar, skriðdrekar, sprengjur, unglingar með sjálfsmorðssprengjur. Framtíð þjóðarinnar sprengir sig upp í loft á hverjum degi, framtíð þjóðarinnar er sprengd í loft upp af öðrum á hverjum degi, framtíð þjóðarinnar er skotin þegar hún er að leika sér útí garði.

Á hverjum degi koma kisturnar, á hverjum degi finnast fleiri lík, á hverjum degi springa sprengjur, á hverjum degi deyja ástvinir, sorgin og reiðin heltekur feður, mæður, systur, bræður og börn. Alla. Framtíð þjóðarinnar deyr.

Írak var ekki fullkomið land. En það var mörgum sinnum skárra fyrir innrásina heldur en eftir hana. Í síðustu viku voru 384 óbreyttir borgarar drepnir, eða lík þeirra komu í leitirnar. Og það eru fimm ár síðan að innrásin hófst. Þetta er vikan í Írak. Þetta er lífið í Írak. Þetta er það sem við viljum burt.

Og við erum hér til að láta þá kröfu hljóma – stríðinu verður að linna! Það eru milljónir manna um heim allan að segja það sama á fundum sem þessum í dag og í næstu viku. Og lengur. Krafan verður alltaf að hljóma, jafn lengi og þörf krefur. Við verðum alltaf að standa upp og mótmæla drápum og ofbeldi á saklausum borgurum og þrýsta á ráðamenn að beita sér fyrir friði, ekki taka þátt í stríði! Við verðum að gera þetta, ekki bara fyrir þau, heldur líka okkur. Því ef við getum ekki einu sinni staðið upp og sagt nei við fjöldamorðum á saklausum börnum, ef við sjáum ekki tilganginn með því að mótmæla grimmdarverkum…

Hvað erum við þá orðin?

15mars2008d 01

——–
Sjá myndir [1]

15. mars: Stríðinu verður að linna

15mars2008a

Útifundur á Ingólfstorgi kl. 13

laugardaginn 15. mars

Dagskrá

Ávörp:
Hjalti Hugason prófessor
Steinunn Rögnvaldsdóttir nemi

Tónlistarflutningur:
Hörður Torfason

Allt frá því að Bandaríkin stóðu fyrir innrásinni í Írak 20. mars 2003 hafa verið árlegar mótmælaaðgerðir víða um heim upp úr miðjum mars, en veturinn 2002 til 2003 voru einhverja mestu og víðtækustu mótmælaaðgerðir sögunnar, og meðal annars voru nánast stöðugar mótmælaaðgerðir vikum saman í Reykjavík.

Enn er stríðinu í Írak mótmælt dagana 15.-24. mars.

Í kjölfar ráðstefnu, sem haldin var í Lundúnum 1. desember, var hvatt til aðgerða um allan heim dagana 15. til 22. mars. Í framhaldi af því var sett upp vefsíðan http://theworldagainstwar.org. Þar má finna upplýsingar um fyrirhugaðar aðgerðir í mörgum löndum.

Í Bandaríkjunum hafa verið aðgerðir í undirbúningi um allt landið, og standa samtökin United for Peace and Justice (www.unitedforpeace.org) fyrir mörgum þeirra, en fjölmörg samtök koma að aðgerðum víða um landið. Þessar aðgerðir verða flestar miðvikudaginn 19. mars. Í sambandi við þær hefur verið sett upp vefsíðan www.5yearstoomany.org. Þar hafa verið skráðar aðgerðir á 475 stöðum víðs vegar um Bandaríkin, en aðaláherslan er lögð á stóran fund í Washington. Samtökin A.N.S.W.E.R. (www.internationalanswer.org) hafa skipulagt aðgerðir víða um landið þann 15. mars, en taka höndum saman við önnur samtök um stórfundinn í Washington 19. mars. Þá má einnig benda á vefsíðuna www.resistinmarch.org með upplýsingum um aðgerðir í mörgum löndum.

Í Bretlandi verða aðgerðir 15. mars og verður megin áherslan lögð á Lundúnir og Glasgow (www.stopwar.org.uk).

Flestar aðgerðirnar verða 15. mars, en sums staðar veðra þær 16. mars eða í vikunni og um helgina á eftir. Hér verða talin um nokkur lönd sem við höfum haft fregnir frá og vefsíður með nánari upplýsingum

15. mars:

Noregur:Oslo, Bergen og Kristianssand,
www.ingenkrig.no,
www.hentsoldatenehjem.org/aktiviteter

Danmörk: Kaupmannahöfn, Árósum, Óðinsvéum, Álaborg og Rönne,
www.nejtilkrig.dk.

Svíþjóð í mörgum borgum og bæjum,
www.motkrig.org.

Finnland: Helsinki

Spánn í mörgum borgum,
www.aturemlaguerra.org,
www.forosocialsevilla.org,
www.herriak.org/ki.

Ítalía: Róm,
www.peaceandjustice.it.

Írland: Dublin,
www.antiwarireland.org.

Norður-Írland: Belfast, www.bawm.org.

Austurríki: Vín,
www.linkswende.org.

Pólland: Varsjá,
www.isw.w.pl.

Tékkland: Prag 15. mars og víða um landið alla vikuna á undan,
www.nezakladnam.cz.

Tyrkland, víða um landið.

Kanada í mörgum borgum,
www.ecawar.org,
www.acp-cpa.ca/en,
www.mcpj.org,
www.echecalaguerre.org,
www.nowar-paix.ca,
www.nowar.ca,
http://canadiansagainstwar.org,
www.stopwar.ca,
www.windsorpeace.org,
einnig í 19. mars í Vancouver

Nýja Sjáland

Í vikunni á eftir verða aðgerðir meðal annars í þessum löndum:

Belgía: 16. mars verður friðarganga 27 km frá Leuwen til Brussel,
www.geenoorlog.be,
www.cnapd.be,
22. mars verður svokallað NATO Game Over við höfuðstöðvar NATO í Brussel,
www.bombspotting.org,
www.vredesactie.be.

Ástralía: Sydney, 16. mars,
www.stopwarcoalition.org.

Kórea: Seoul, 16. mars,
www.antiwar.or.kr.

Puerto Rico, 18. mars,
madrescontralaguerra.blogspot.com.

Frakkland: París, 19. mars,
www.aawfrance.org,
Toulouse, 22. mars,
www.laguerretue.org.

Þýskaland í fjölmörgum borgum 21.-24. mars,
www.friedenskooperative.de/om2008.htm.

Grikkland, 22. mars: Samfylking gegn stríði í samstarfi við fjölmörg önnur samtök, þ.á.m. ýmis helstu verkalýðsfélög landsins,
www.stop-the-war.gr

Japan, 22. mars í a.m.k. þremur borgum

Mun Ísland halda áfram þátttöku í starfsemi NATO í Írak?

natoterror Á fundi Alþingis 4. júní beindi þingmaður VG, Katrín Jakobsdóttir, þeirri fyrirspurn til utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hvort þær heimildir, sem fyrri ríkisstjórn veitti til að bandarísk stjórnvöld mættu nýta íslenska lögsögu, lofthelgi og flugvelli til flutninga vegna innrásarstríðsins í Írak, hefðu verið teknar aftur eða til stæði að afturkalla þær.

Svar utanríkisráðherra var svohljóðandi: „Eftir því sem mér er best kunnugt voru þessar heimildir veittar þegar Íslendingar studdu innrásina í Írak og voru þá í gildi um ákveðinn tíma en slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur. Það eru auðvitað breyttar aðstæður líka í Keflavík eftir að herinn hvarf af landi brott og nú mun það vera til sérstakrar skoðunar hvernig slíkum heimildum verði háttað í framtíðinni.“ (Tilvitnun eftir bráðabirgðaútgáfu á vef Alþingis).

„Slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur,“ segir utanríkisráðherra. Þessi yfirlýsing er þýðingarmikil þótt ekki komi fram fram hvenær þær voru felldar úr gildi.

Í framhaldi af þessari yfirlýsingu utanríkisráðherra og yfirlýsingu ráðherrans frá 31. maí um að ríkisstjórn Íslands styðji ekki lengur stríðsreksturinn í Írak væri fróðlegt að fá svör við því hvað sé átt við með því að ríkisstjórnin vilji „leggja lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi,“ eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Eins og kunnugt er hefur NATO verið með starfsemi í Írak, þótt ekki sé um formlega „friðargæslu að ræða“ eins og í Afganistan. Íslendingar hafa tekið þátt í þessari starfsemi, m.a með því að leggja til starfsmenn. Augljóslega er starfsemi NATO ekki óháð hagsmunum Bandaríkjanna þar sem Bandaríkin eru ótvírætt forysturíki í NATO. Því hlýtur það að vera rökrétt framhald af þeirri ákvörðun að hætta að styðja stríðsreksturinn í Írak, að Ísland hætti þátttöku í starfsemi NATO í Írak og beini kröftum sínum að öðrum vettvangi, vettvangi sem er óháður Bandaríkjunum.

Einar Ólafsson

Um starfsemi NATO í Írak, sjá:
„NATO’s assistance to Iraq“ á vef NATO.

„Íslendingar taka beinan þátt í stríðinu í Írak – og leggja til einn hermann“ á Friðarvefnum 21. mars 2007.

Styður ríkisstjórnin stríðsreksturinn í Írak?

Eftirfarandi grein Einars Ólafssonar birtist í Morgunblaðinu 3. júní 2007. Rétt er að geta þess að utanríkisráðherra lýsti því yfir á Alþingi 31. maí að umrætt orðalag í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þýddi að ríkisstjórnin styður ekki stríðsreksturinn i Írak. „Listi hinna viljugu ríkja“ með nafni Íslands heyrir því sögunni til og Bandaríkin geta ekki lengur litið á Ísland sem stuðningsríki í herferðinni í Írak. Þar sem Ísland hefur verið á þessum lista í fjögur ár án athugasemda íslenskra stjórnvalda hlýtur það að vera eðlilegt að ríkisstjórn Bandaríkjanna verði nú tilkynnt þessi stefnubreyting með formlegum hætti. Höfundur þessarar greinar mun sjá til þess að hún verði kynnt á vettvangi hinnar alþjóðlegu andófshreyfingar gegn innrásinni og stríðsrekstrinum í Írak.

Í stefnuyfirlýsingu hinnar nýju ríkisstjórnar segir svo: „Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak og vill leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi.“ Minna og óljósara gat það nú varla verið og má segja að þetta segi svo sem ekki neitt.

Flokksformennirnir tveir kusu að réttlæta hið óljósa orðalag með því að horft væri til framtíðar og fortíðin ætti ekki að þvælast fyrir. Nú er það svo, að sá fortíðargjörningur fyrri ríkisstjórnar að styðja innrásina í Írak er ekki bara fortíð, honum er ekki lokið. „Listi hinna viljugu ríkja“ er enn á heimasíðu Hvíta húsins, „coalition“ eru þessi 49 ríki kölluð þar, „bandalag, sem hefur hafið hernaðaraðgerðir til að afvopna Írak af gjöreyðingarvopnum þess“. Samkvæmt skilningi Bandaríkjastjórnar, sem íslensk stjórnvöld hafa ekki mótmælt, stóð Ísland að þessum hernaðaraðgerðum með Bandaríkjunum. Og þessar hernaðaraðgerðir standa enn. Þannig styður hin nýja ríkisstjórn Íslands stríðsreksturinn í Írak þótt hún harmi hann. Í því er engin mótsögn fólgin, því stundum þarf fleira að gera en gott þykir, og maður getur harmað verk sín þótt hann standi við þau. Það getur vel verið að Bush harmi þennan stríðsrekstur líka, þetta er auðvitað bölvað vesen.

Ég er ekki fyrst og fremst að biðja um uppgjör við fortíðina. Ég er bara að biðja um það að Ísland láti af stuðningi sínum við stríðsreksturinn í Írak. Auðvitað væri ekki verra ef Geir H. Haarde bæðist afsökunar á að hafa stutt innrásina í upphafi. En ég spyr Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur: „Hversu lengi ætlar þú að vera utanríkisráðherra í ríkisstjórn sem styður stríðsreksturinn í Írak?“

Ég spyr af því að þetta er stórmál. Þessi stríðsrekstur hefur kostað meira en 100 þúsund mannslíf, enn fleiri særða og örkumlaða á sál og líkama, efnahagur og innviðir Íraks eru í rúst, tugir þúsunda á flótta. Þessi stríðsrekstur er líka hluti af glæpsamlegri og siðlausri heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, hann er ólöglegur að alþjóðalögum, hann tengist stríðsglæpum og ýmsum mannréttindabrotum, svo sem Guantánamo-fangabúðunum.

Úr ræðu utanríkisráðherra á Alþingi 31. maí 2007 (Textinn er tekinn af vef Alþingis og er birtur hér með þeim fyrirvara að hann er enn óyfirlesinn þar. Leturbreytingin er ekki í frumtextanum.).

„Eitt þeirra mála sem reynst hefur þjóðinni þungbært á síðustu árum er afstaðan til Íraksstríðsins. Við þekkjum öll sögu þess máls. Það var fyrri ríkisstjórn Íslands sem tók þá umdeildu ákvörðun að styðja innrásina í Írak, m.a. í andstöðu við minn flokk. Þeim stuðningi fylgir siðferðileg ábyrgð sem við sem þjóð verðum að horfast í augu við og axla. Ákvörðunin um innrásina í Írak var tekin á röngum forsendum og stuðningur stjórnvalda á Íslandi var það einnig. Að mínum dómi átti hann aldrei að koma til greina. Ný ríkisstjórn lýsir því yfir að hún harmar þennan stríðsrekstur. Hún styður hann því ekki. Þetta er mikilvæg yfirlýsing um nýja stefnumótun um utanríkisstefnu þar sem friðsamleg lausn deilumála og virðing fyrir alþjóðalögum og mannréttindum verða leiðarljós stjórnvalda á alþjóðavettvangi. Ég hygg að þjóðarsátt sé um það að Íslendingar eigi um ókomna tíð að ganga fram í samfélagi þjóða sem friðflytjandi. Þjóð menningarsamskipta, viðskipta og útrásar, stolt af landi okkar og þjóð en jafnframt meðvituð um nauðsyn vits þess sem víða ratar eins og segir í Hávamálum. Ný ríkisstjórn lýsir því yfir að í framtíðinni munu allar meiri háttar ákvarðanir á sviði utanríkismála verða teknar í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.“

„Lista hinna viljugu ríkja“ má sjá á vefsíðu Hvíta hússins.

Undirskriftasöfnun til að enda martröðina

Eftir innrás Bandaríkjanna og fleiri ríkja í Írak 2003 var settur upp dómstóll í anda Russell-dómstólsins sem heimspekingurinn Bertrand Russell hafði frumkvæði að árið 1967 til að rannsaka stríðsglæpi Bandaríkjanna í Víetnam. Í kringum Íraks-dómstólinn voru mynduð samtök með aðsetur í Brussel og kölluð BRussell dómstóllinn (Sjá nánar BRussells Tribunal).

BRussell-dómstóllinn hefur hafið söfnun undirskrifta undir áskorun til bandarískra og breskra stjórnvalda. Í áskoruninni er bent á það hörmungarástand sem ríkir í Írak og að innrásin hafi brotið í bága við alþjóðalög og nauðsynlegt sé að það sé rannsakað. Settar eru fram tvær kröfur:

Semjið við andstöðuna!
Refsið fyrir glæpina!

Fyrst til að skrifa undir áskorunina voru Denis Halliday og Hans von Sponeck fyrrum aðstoðarmenn framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna í Írak og Margarita Papandreou fyrrum forsetafrú í Grikklandi.

Nánari upplýsingar og form til að setja sig á undirskirftalistann er hér.

Íslendingar taka beinan þátt í stríðinu í Írak – og leggja til einn hermann

Í Morgunblaðinu 21. mars er frétt þess efnis að Herdís Sigurgrímsdóttir, 26 ára fjölmiðlamaður, sé á leið til starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar í Bagdad. Þar mun hún starfa sem upplýsingafulltrúi NATO og bera titilinn major. Íslendingar hafa lagt til friðargæsluliða í stöðuna frá 2005 eins og lesa má á vef utanríkisráðuneytisins. NATO vinnur að þjálfun yfirmanna í íraska hernum með það að markmiði að heimamenn geti tekið við stjórn öryggismála, segir í frétt Morgunblaðsins.

Blaðið hefur einnig eftir forvera Herdísar í starfinu, Steinari Sveinssyni, að „dagarnir taki á sig ýmsar myndir og í gær hafi hann m.a. flogið með fjölmiðlamönnum og öðrum æðsta manni alþjóðaheraflans í Írak, til herakademíu og liðsforingjaskóla sem er tíu km utan við græna svæðið,“ en gæna svæðið er afgirt svæði Bandaríkjahers þar sem meðal annars er hið risastóra bandaríska sendiráð.

Þetta verkefni NATO er kallað „The NATO Training Mission – Iraq“ (NTM-I) og má fræðast um það á vef NATO. Norður-Atlantshafsráðið, æðsta stjórn NATO, samþykkti verkefnið 17. nóvember 2004. Þetta verkefni var einhliða ákveðið af NATO sem hefur ekkert umboð frá Sameinuðu þjóðunum. Bandalagið, sem eins og allir vita lýtur forystu Bandaríkjanna, tekur að sér það verkefni fyrir hernámsveldið að þjálfa her þeirrar ríkisstjórnar sem starfar undir hernáminu.

Þannig er hið svokallaða friðargæslulið ekkert annað en hluti þess hernámsliðs, sem kallað er alþjóðaheraflinn í tilvitnuninni hér að framan og starfar í Írak undir forystu Bandaríkjanna. Íslendingar taka því beinan þátt í stríði Bandaríkjanna í Írak, ekki aðeins með því að taka þátt í kostnaði við herflutninga til Íraks heldur líka með því að senda þangað íslenskan hermann. 26 ára gömul íslensk stúlka í hlutverki fjölmiðlafulltrúa NATO er alveg jafn mikilvægur liðsmaður í hernámsliðinu í Írak eins og hver annar hermaður.

Sama dag og þessi frétt birtist í Morgunblaðinu var í Fréttablaðinu frétt af tveimur nýjum liðsmönnum íslensku „friðargæslunnar“ í Afganistan. Fréttin hefst á þessum orðum: „Íslenska friðargæslan tekur óðum á sig mýkri ásjónu og í vikunni fóru tvær ungar konur til starfa í Afganistan.“ Með fréttinni er mynd af þessum konum og er önnur í fullum herklæðum. Sú hefur titilinn „fyrsti liðþjálfi – first sergeant“ og verður vopnuð.

Íslenska „friðargæslan“ í Afganistan er líka hluti af verkefni NATO, en þetta kallast „International Security Assistance Force“ (ISAF) (sjá vef NATO). Munurinn á ISAF og NMT-I er að ISAF starfar í umboði Sameinuðu þjóðanna. En þótt tekist hafi að kría út samþykki SÞ breytir það ekki því að NATO er þarna að sjálfsögðu að þjóna hagsmunum forysturíkis síns, Bandaríkjanna.

Sjá einnig nýlegt frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu.

Velheppnaður fundur í Reykjavík gegn Íraksstríðinu – aðgerðir um allan heim

Baráttufundur gegn Íraksstríðinu í Austurbæ að kvöldi 19. mars tókst með ágætum. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Helgi Hjörvar fluttu kröftug ávörp, Bragi Ólafsson rithöfundur las kafla úr nýjustu skáldsögu sinni, Sendiherranum, með áhrifamiklum inngangsorðum og Ólöf Arnalds og Wilhelm Anton Jónsson heilluðu fundarmenn með tónlist sinni. Samkomunni lauk með tilþrifamikilli endurkomu XXX Rottweilerhunda sem hafa bersýnilega engu gleymt og gáfu ekkert eftir. Kynnirinn Davíð Þór Jónsson hélt svo utan um samkomuna traustum höndum. Að fundinum stóðu Samtök hernaðarandstæðinga, MFÍK, Þjóðarhreyfingin – með lýðræði, Ung vinstri græn og Ungir Jafnaðarmenn.

17mar07n Víða um heim hafa verið öflugar mótmælaaðgerðir gegn stríðinu á undanförnum dögum. Í Washington létu menn kalsaveður og slyddu laugardaginn 17. mars ekkert á sig fá en marséruðu tugþúsundum saman að Pentagon. Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælaaðgerðum í Los Angeles og San Francisco auk tugþúsunda manna á meira en 1000 stöðum víðsvegar um Bandaríkin. (Sjá A.N.S.W.E.R., March On Pentagon og United for Peace and Justice).

Í Danmörku voru útifundir í Kaupmannahöfn, Árósum, Óðinsvéum og Rönne (sjá Nej til krig), í Stokkhólmi mættu 2-3000 manns á útifund en einnig voru aðgerðir í Gautaborg, Málmey, Uppsölum og fjölda smærri bæja (sjá Mot krig). Á Írlandi voru mótmæli gegn stríðinu og bandarísku herstöðinni á Shannon-flugvelli (Irish Anti War Movement) og í Belgíu stóðu nokkur samtök að aðgerðum á sunnudaginn (Stop USA, Coordination Nationale d’Action pour la Paix et la Démocratie, Mother Earth). Á Ítalíu voru fjölmennar aðgerðir (Confedarazione Cobas) og í Aþenu tóku um 6000 manns þátt í útifundi sem samtök gegn stríði stóðu fyrir. Tugir þúsunda tóku þátt í aðgerðum í Madrid (sjá frétt) og fundir voru einnig í fjölmörgum öðrum borgum á Spáni. Á ótal öðrum stöðum voru mótmælaaðgerðir, Ungverjalandi, Ástralíu, Tyrklandi, Kýpur, Suður Kóreu, Chile og Írak svo fátt eitt sé talið.

Í London stóð Stop the War Coaliton fyrir almannaþingi þriðjudaginn 20. mars þar sem stríðið og þátttaka Breta í því var rædd (sjá Socialist Worker).

Rétt er að geta þess að 27. janúar voru fjölmennar mótmælaaðgerðir í Washington gegn stríðinu og sömuleiðis í London 24. febrúar.

Sjá einnig Myndir utan úr heimi.

Ríkisstjórnarflokkarnir studdu innrásina í Írak

eftir Magnús Má Guðmundsson formann Ungra jafnaðarmanna

Magnús Már Guðmundsson, form. Ungra jafnaðarmanna Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars og á vef Ungra jafnaðarmanna, Politik.is, 19. mars.

Um miðjan febrúar árið 2003 vildi Tony Blair að vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna fengu lengri tíma til að sinna starfi sínu í Írak. Nokkrum dögum síðar sagði Hans Blix, yfirmaður vopnaeftirlitsnefndar SÞ, að Írakar sýndu raunveruleg merki um samvinnu. Í framhaldinu fór hann fram á að vopnaeftirlitsmenn fengu nokkra mánuði til viðbótar við störf sín í landinu. Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra sagði á Alþingi 3. mars að hann undirstrikaði nauðsyn þess að ályktanir SÞ héldu annars væri hætta á að öryggishlutverk samtakanna yrði dregið niður og að lokum myndu SÞ verða fyrir álitshnekkjum.

Skömmu fyrir innrásina
Á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 7. mars sagði Mohamed El Baradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, að engar vísbendingar hefðu komið fram um að Írakar hefðu endurnýjað kjarnorkuvopnaáætlun sína. Stuttu síðar sagði hann stofnuna þurfa ,,tvo til þrjá mánuði til viðbótar til þess að geta slegið því föstu að Írakar vinni ekki, og hafi ekki unnið, að þróun kjarnorkuvopna.”

George Bush, Tony Blair og José María Aznar, þáverandi forsætisráðherra Spánar, hittust og funduðu á Azoreyjum 17. mars. Þar gaf Bandaríkjaforseti SÞ sólarhringsfrest til að ákveða hvort samtökin styddu stríð gegn Írak undir forystu Bandaríkjanna. Skömmu síðar sagðist Davíð Oddsson styðja yfirlýsinguna.

Stuðningur Íslands við stríðið var ákveðin af tveimur mönnum sem sýndi og sýnir ótrúlega vanvirðingu þeirra manna gagnvart lýðræði í landinu og um leið sinni eigin þjóð. Þetta var gert án þess að utanríkismálanefnd Alþingis kæmi saman, en nefndin á að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um ,,meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál, jafnt á þingtíma sem í þinghléum.” Ef stuðningur við stríð er ekki meiri háttar utanríkismál – hvað er þá meiri háttar utanríkismál?

Skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma þann 20. mars hófst stríð í Írak.

SÞ og alþjóðasamfélaginu sýnd vanvirðing
Ísland var og er á lista sem gengur þvert gegn samþykktum alþjóðasamfélagsins, heimilaði aðgerðir sem ekki voru studdar af Sameinuðu þjóðunum og tóku ekki mið af upplýsingum manna eins og Hans Blix og Mohamed El Baradei. Hvað sem fólki finnst um SÞ og það hversu svifaþung samtökin geta verið þá geta þjóðir, líkt og þjóðirnar á lista hinna viljugu gerðu, ekki hegðað sér á þennan hátt. Það er óábyrgt. Með þessum gjörningi sýndu Íslendingar í samvinnu við félaga okkar á listanum Sameinuðu þjóðunum og alþjóðasamfélaginu í heild sinni gífurlega vanvirðingu og um leið drógu við úr áhrifamætti SÞ.

Hroki Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna
Kofi Annan, þáverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fullyrti um miðjan september 2004 að árásarstríðið í Írak hefði ekki verið í samræmi við stofnsáttmála SÞ og væri í því ljósi ólöglegt. Ákvörðun sem þessa væri ekki hægt að taka fram hjá öryggisráði SÞ. Í framhaldinu sagðist Halldór Ásgrímsson ekki hafa skipt um skoðun hvað varðaði lögmæti innrásarinnar í Írak þrátt fyrir yfirlýsingu aðalritara SÞ. Halldór sagði að fólk ætti ekki að vera að ,,dvelja svona mikið við fortíðana eins og er verið að gera” og sagði hann jafnframt að það ætti frekar að horfa til framtíðar. Varðandi gjöreyðingarvopnin sagðist Halldór hafa orðið ,,a.m.k. fyrir miklum vonbrigðum” með að upplýsingar sem hann hafði haft undir höndum hafi ekki verið réttar.

Í byrjun árs 2005 kom í ljós í könnun sem Gallup framkvæmdi að 84% Íslendinga voru á móti því að við séum á lista hinna viljugu þjóða. Davíð Oddsson skildi ekkert í því að Gallup skyldi spyrja ,,svona” og taka þátt í ,,uppþoti stjórnarandstöðunnar”. Þáverandi formaður utanríkismálanefndar Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, reyndi að gera lítið úr lista hinna vilju og sagði listann ekki skipta máli. Siv Friðleifsdóttir reyndi einnig að draga úr mikilvægi lista hinna viljugu og sagði aukinheldur að nú væri aðeins uppbyggingin eftir og að ,,fólk [virtist] ekki átta sig á því.” Uppbyggingin eftir. Er það raunin? Hvernig er ástandið í Írak í dag? Ekkert lát virðist vera á óöldinni í Írak og sífellt fleirum verður ljóst hvaða hörmungar stríðið hefur kallað yfir írösku þjóðina. Samt sem áður stendur Sjálfstæðisflokkurinn fast á því að stuðningur við innrásina hafi verið réttur. Afstaða Framsóknarflokksins er óljós en Jón Sigurðsson formaður flokksins hefur farið ófáa hringi í málinu eftir að hann kom fram á sjónarsviðið sem handvalinn eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar sl. sumar.

Hinir staðföstu stríðsandstæðingar
Um þessar mundir eru liðin fjögur ár frá því að innrás Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra í Írak hófst með formlegum stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar. Mánudagskvöldið 19. mars kl. 20 munu hinir staðföstu stríðsandstæðingar efna til baráttusamkomu í Austurbæ þar sem allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þar verður innrásinni mótmælt og þess krafist að íslensk stjórnvöld axli ábyrgð vegna hins svívirðilega stuðnings við hið ólöglega árásarstríð. Ungir jafnaðarmenn tilheyra hinum staðföstu stríðsandstæðingum.

Gegn stríðinu í Írak: Munið fundinn í Austurbæ mánudaginn 19. mars kl. 20

notowar Sjá dagskrá

Næstkomandi þriðjudag, 20. maí, verða liðin fjögur ár frá innrásinni í Írak, innrás Bandaríkjanna, Bretlands og fleiri ríkja með fulltingi lufsulegra þýja, svokallaðra viljugra eða staðfasta ríkja, eins og íslensku ríkisstjórnarinnar undir forystu Davíð Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar – og megi skömm þeirra lengi uppi vera. Nú, fjórum árum seinna, líður varla sá dagur að ekki berist fréttir af því að tugir óbreyttra borgara falli eða örkumlist – þessar fréttir eru farnar að líða hjá skynfærum hins almenna borgara rétt eins og fréttirnar af Nasdaq-vístölunni. Það verður ekki framhjá því litið að íslenska ríkisstjórnin er samábyrg vegna dauða og örkumla hundruð þúsunda almennra borgara í Írak auk hermanna frá ýmsum löndum.

Þessi innrás hófst þrátt fyrir mestu mótmælaaðgerðir sögunnar. Kannski má segja að mótmælaaðgerðir vegna Víetnamstríðsins hafi verið meiri, en aldrei hafa verið jafn víðtækar og fjölmennar mótmælaaðgerðir á jafnstuttum tíma og voru veturinn 2002 til 2003. Ekki tókst þó að koma í veg fyrir innrásina. Verkinu er því ekki lokið. Rétt eins og mótmæli á Vesturlöndum áttu sinn þátt í að binda endi á Víetnamstríðið getum við hugsanlega lagt okkar að mörkum til að stytta þann hörmungartíma sem rann upp í Írak með innrásinni 20. mars 2003 – og var raunar hafinn miklu fyrr með viðskiptabanninu í kjölfar fyrra Persaflóastríðsins.

Sem betur fer er hreyfingin, sem varð til gegn þessu stríði, enn í fullu fjöri. Víða um heim eru ýmiskonar aðgerðir nú þessa dagana. Hér skulu nefndar aðgerðir í Bandaríkjunum og nokkrum Evrópulöndum:

Bandaríkin: Mótmælafundur við Pentagon í Washington laugardaginn 17. mars. Sjá A.N.S.W.E.R. Á heimasíðu United for Peace and Justice er listi yfir fyrirhugaðar aðgerðir á meira þúsund stöðum í Bandaríkjunum.

England: Á Englandi hefur að undanförnu farið saman barátta gegn endurnýjun Trident-kjarnorkusprengjuflauganna, gegn Írakstríðinu og þátttöku Breta í því og gegn áformum Bandaríkjamanna um innrás í Íran.
Miðvikudaginn 14. mars voru mótmæli gegn endurnýjun Trident-flauganna.
Þriðjudaginn 20. mars verður svokallað almannaþing í London til að ræða Írak, fyrirhugaða innrás í Íran og utanríkisstefnu Bretlands eftir Blair. Sjá Stop the War Coalition og Campaign for Nuclear Disarmament.

Rétt er að geta þess að 27. janúar voru gífurlega fjölmennar mótmælaaðgerðir í Washington gegn stríðinu, talið er að allt að hálf milljón manns hafi tekið þátt í þeim og 24. febrúar tóku allt að 100 þúsund manns þátt í mótmælaðgerðum í London.

gegnstridi danm 20070317 Danmörk laugardaginn 17. mars:
útifundir í Álaborg, Árósum, Óðinsvéum, Kaupmannahöfn og Rönne.
Allir danskir hermenn heim, nú!
Sjá Nej til krig.

gegnstridi sverige 20070317 Svíþjóð laugardaginn 17. mars:
útifundir í Stokkhólmi, Gautaborg, Málmey og víðar.
Bandaríkin út úr Írak.
Nätverket Mot Krig.

Sjá myndir hér og hér.

gegnstridi irland 20070324 Írland laugardaginn 24. mars: Írland láti af stuðningi við stríðið, bandaríski herinn burt frá Shannon-flugvelli! Irish Anti War Movement

gegnstridi belgia 20070318 Belgía sunnudaginn 18. mars. Útifundur í Brussel. Stop USA, Coordination Nationale d’Action pour la Paix et la Démocratie, Mother Earth.

Grikkland laugardaginn 17. mars: 17 Μάρτη, Πανελλαδικό Αντιπολεμικό Συλλαλητήριο, Αθήνα, Πλ. Συντάγματος 2:00 μμ. www.stop-the-war.gr

Ítalía laugardaginn 17. mars: útifundur í Róm. Þar er lögð áhersla á að Ítalir dragi herlið sitt til baka frá Afganistan, en það hefur verið deilumál þar að undanförnu. 17 MARZO A ROMA P.za della Repubblica ore 15 MANIFESTAZIONE NAZIONALE per il ritiro delle truppe dall’Afghanistan e da tutti i fronti di guerra. Confedarazione Cobas

Eina leiðin til friðar er að Bandaríkin hverfi frá Írak

eftir Einar Ólafsson

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2007

Eina hugsanlega leiðin til að binda enda á sívaxandi ofbeldi í Írak er að bandaríski herinn hverfi á braut ásamt herliðum annarra svokallaðra viljugra ríkja. Jafnframt verða bandarísk fyrirtæki að draga starfsemi sína úr landinu, fyrirtæki eins og Halliburton, Bechtel og olíufyrirtækin sem nú eru að leggja undir sig olíuvinnslu í landinu.

Meginástæða ofbeldisins er innrás og hernám Bandaríkjanna. Það er sama hversu mikið herlið Bandaríkjamenn senda til Írak, þau hryðjuverk sem þar eru framin dag hvern verða ekki stöðvuð með hervaldi því að hryðjuverkin eru vopn hins valdalausa gegn hervaldinu. Þótt ekki sé rétt að kenna villimannsleg hryðjuverk, sem valda fyrst og fremst limlestingum og dauða almennings, við frelsisbaráttu er það samt vafalaust að innrás og hernám Bandaríkjanna í Írak er orsök þessa ástands.

Engin von er þó til að ofbeldinu linni sjálfkrafa þótt Bandaríkjamenn hverfi á braut ásamt þýjum sínum. Átökin eru orðin miklu flóknari en svo. En þá fyrst, þegar Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hverfa á brott, verður hægt að byrja að vinna að friði. Þá verða Bandaríkjamenn að halda sig til hlés en láta önnur ríki, ríkjasambönd eða yfirþjóðleg samtök og stofnanir, sem á engan hátt komu að innrásinni, svo sem Sameinuðu þjóðirnar (en ekki NATO sem er undir forystu Bandaríkjanna), gangast fyrir friðarumleitunum í Írak og að þeim verða allir innlendir aðilar að koma.

Nú er ekki líklegt að Bandaríkjamenn muni fallast á þetta, af því að það er ekki meginmarkmið þeirra að koma á friði, lýðræði og stöðugleika í Írak. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir þeim er að ná ítökum í landinu meðal annars til að ná yfiráðum yfir olíuframleiðslunni. Þó að mikilvægt sé fyrir þá að koma á friði er þeim meira virði að halda ítökum sínum.

Alþjóðasamfélagið svokallaða verður því að þrýsta á Bandaríkin að hverfa frá Írak. Og þar gegna hin svokölluðu viljugu ríki mikilvægu hlutverki. Meðal þeirra er Ísland. Íslenska ríkisstjórnin getur alls ekki sagt að hún hafi haft rangar upplýsingar þegar hún ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrásina. Ef svo var, þá var utanríkisráðuneytið engan veginn starfi sínu vaxið. Mjög trúverðugar upplýsingar lágu fyrir um að sáralitlar líkur væru á að gjöreyðingavopn væru til í Írak og vopnaeftirlitsmenn báðu um aðeins lengri frest til að sannreyna það sem lá næstum ljóst fyrir. Aðrar ástæður, sem tíundaðar hafa verið, eru jafnfráleitar. Jafnframt lágu fyrir skýrslur frá ýmsum viðurkenndum aðilum um hugsanlegar afleiðingar innrásar þar sem spáð var miklum hörmungum. Það eina sem íslensk stjórnvöld geta gert núna er að skammast sín og lýsa því yfir að þessi stuðningur hafi verið mistök. Jafnframt verða þau að horfast í augu við ábyrgð sína á þeim hörmungum sem dunið hafa yfir írösku þjóðina frá því að innrásin hófst (látum viðskiptabannið og allt sem því fylgdi liggja milli hluta að sinni). Síðan ætti ríkisstjórnin að hafa frumkvæði að því að fá önnur „viljug ríki“ til að gera hið sama og snúa sér svo sameiginlega til bandarískra stjórnvalda og krefjast þess að þau hverfi frá Írak, bæði með her og bisness, svo hægt verði að fara að vinna að friði. Loks ber Íslendingum að opna landið fyrir íröskum flóttamönnum, því að hverjir eiga að gera að ef ekki þeir sem bera ábyrgð á ástandinu?