Greinasafn fyrir merki: hernám

Stríðinu verður að linna – útifundur á Ingólfstorgi 15. mars

Nokkur hundruð manns komu saman á Ingólfstorgi í dag, 15. mars í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn hernámi Íraks og stríðsrekstri Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra þar. Á fundinum fluttu ávörp Hjalti Hugason prófessor og Steinunn Rögnvaldsdóttir nemi og Hörður Torfason söng.
þessa mynd tók Grímur  Dellsén
Eftir fundinn gengu fundarmenn út í Kirkjustræti fram hjá Alþingishúsinu og eftir Pósthússtræti og Austurstræti að Stjórnarráðinu. Í fararbroddi var borin líkkista með nöfnum fólks sem hefur verið drepið í þessu ófriðarbáli síðustu vikur, lítið en samt svo stórt tákn um þau hundruð þúsunda sem þessi herför hefur kostað. Og á undan og eftir kistunni voru bornir borðar með áletrununum „Stríðinu verður að linna“ og „Ekki meir“.

dsc04530

Ályktun fundarins

 

Útifundur á Ingólfstorgi haldinn 15. mars 2008 fordæmir langdregið hernám Bandaríkjanna og fleiri ríkja í Írak og Afganistan. Einnig varar fundurinn við áformum um innrás í Íran sem nú er undirbúin af miklum ákafa.

Innrásin í Írak fyrir 5 árum var knúin fram af Bandaríkjunum á vísvitandi upplognum forsendum til þess að sölsa undir sig olíuauð Íraks og styrkja stöðu sína á svæðinu. Stríðið sem fylgdi í kjölfarið hefur valdið ómældum skaða á öllum sviðum. Talið er að hundruð þúsunda, jafnvel yfir milljón manna hafi fallið og margfalt fleiri særst. Allir innviðir samfélagsins hafa verið eyðilagðir og þeir sem eftir lifa líða stöðugar hörmungar. Enginn sér fyrir endann á þessu ástandi sem er gegnsýrt af hatri, vonleysi og örvæntingu.

Íslensk stjórnvöld studdu innrásina og bera því ábyrgð á afleiðingum hennar. Það er ekki nóg að harma innrásina og láta stroka sig út af tilteknum lista. Það er ekki hægt að stroka út söguna. Íslensk stjórnvöld verða að snúa við blaðinu af heilum hug, biðja afsökunar á sínum hlut og beita sér með fullri virkni á alþjóðavettvangi fyrir því að allir erlendir herir yfirgefi Írak og Afganistan. Sameinuðu þjóðirnar verða að hafa forystu í friðar- og uppbyggingarstarfi sem byggir á fullveldi ríkjanna á svæðinu og hagsmunum fólksins. Leitast verður við að slíkt ferli breiðist út um öll Mið-Austurlönd svo réttlátur friður getið náð fram að ganga.

Við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld greiði skuld sína við fólkið í Írak og Mið-Austurlöndum með því að berjast fyrir þessum markmiðum.

Ávarp Hjalta Hugasonar

Ágætu friðarsinnar!

Í dag er okkur í fersku minni hvernig heimsbyggðin stóð á öndinni um þetta leyti fyrir fimm árum. Herveldið í vestri og fleiri vígfús ríki þrýtu á alþjóðasamfélagið um sameiginlegar, vopnaðar aðgerðir gegn Írak. Hin yfirlýstu markmið voru færð í fagran búning. Fáum hernaðarandstæðingum dulist þó að undir kraumuðu olíuhagsmunir og stigvaxandi andúð Bush-stjórnarinnar á hinum múslimska heimi.

Hvarvetna lögðu friðarsinnar sig fram um að afstýra innrás. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna synjaði um staðfestingu og framkvæmdastjóri samtakanna, lýsti innrásina brot á alþjóðalögum. Allt um það urðu vonir okkar að engu. 20. mars 2003 létu hin vígfúsu ríki til skarar skríða. Það varð okkur, íslenskum friðarsinnum, sérstak áfall að tveir menn sem nú eru horfnir af vettvangi stjórnmála skráðu nafn lýðveldisins á lista þeirra sem að innrásinni stóðu án samráðs við þing eða þjóð. Það er áhyggjuefni að síðar hafa nýir ráðamenn tekið við sem sumir eru óbundnir af arfleifð fyrri ríkisstjórnar. Þeir hafa þó ekki sé ástæðu til að draga okkur út af lista hinna viljugu og láta svo að hann hafi misst gildi sitt. Eftir stendur að íslenska ríkið hefur ekki tekið afstöðu gegn stríðinu. – Gamla yfirlýsingin sem hljómaði hér fyrir fimm árum og raunar oft síðan „Ekki í okkar nafni“ er því enn í fullu gildi.

Vegna takmarkaðs og yfirborðslegs fréttafluttnings kann stríðið í Írak að hafa hrepp þau örlög að ýmist týnast í ofngótt frétta eða verða að tilbreytingarlausu þrástefi sem ekki nær athygli. Slík viðbrögð ofmettunar eru hættuleg þar sem þau slæva meðvitund og dómgreind. Veist þú t. d. að sú styrjöld sem stendur suður við Persaflóa er þegar orðið eitt mannskæðasta stríð sögunnar. Og enn sér ekki sér fyrir endann á mannfórnum. Enn á ný höfum við orðið vitni að því sem mannkynsfræðarar hafa boðað á öllum tímum að ofbeldi verður ekki stöðvað með ofbeldi, vopn leysa ekki vanda, hernaður er ekki rétt svar við harðstjórn. Fórnarlömb stríðs eru fyrst og fremst óbreyttir borgarar, karlar, konur, og börn sem hvergi koma að átökum en eru svipt framtíð sinni og von. Þeim er samvera okkar í dag helguð.

Til að binda endi á þjáningar friðsamra borgara í Írak er ófrávíkjanleg krafa að sett verði í gang friðarferli sem nær yfir öll Miðausturlönd og að sannleiks- og sáttastarfi verði komið af stað, þar sem mannréttindabrot verði rannsökuð og upplýst með réttlæti og sættir að leiðarljósi. Slíkt friðarferli verður þó máttlítið verði það aðeins unnið ofan frá af ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum. Þvert á móti verður það að byggjast á samvinnu við almenning í þeim löndum þar sem stríð geysar og að því verða að koma allar þær þjóðir sem aðild eiga að ófriðnum sem gerendur eða þolendur. Auk þessa verður að grípa til ýmissa annarra aðgerða sem Samtök hernaðarandstæðinga hafa beint athygli að og sem við skorum á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir.
— — —

Stríðsherrar vilja bæði skapa og skrifa söguna. Samkvæmt þeirra kokkabókum stóð stríðið í Írak aðeins í 40 daga. Að þeirra mati er samkoma okkar hér því hlægileg tímaskekkja. Þeir hafa enda fyrir löngu beint athyglinni annað meðal annars að Íran. En þeir eru þó ekki herrar sögunnar. Eða hvað? Það er sláandi að hlusta á lýsingar í helstu fjölmiðlum okkar á atburðum í Írak þegar þeir á annað borð gefa þeim gaum. Lýsingarnar eru allar á forsendum innrásaraðilanna. Þegar til átaka kemur er það vegna þess að skæruliðar, hermdarverkamenn, múgur eða skríll lætur til sín taka. Sú staðreynd er fyrir borð borin að Írak er hersetið land,

enn er tekist á um yfirráð í landinu,
enn fara innrásarþjóðirnar með töglin og hagldirnar,
enn dæla ríkisstjórnir þeirra fjármunum í herlið sín
og enn er mannfall mikið á dáða bóga.
Hvað sem sögutúlkun stórveldanna líður er því ljóst að stríðið stendur enn.

Þess vegna tökum við undir með einfaldri en afdráttarlausri kröfu friðarsinna sem hljómar um heim allan um þessa helgi:

Allur heimurinn gegn stríðinu! — Stríðinu verður að linna!

15mars2008c

Ávarp Steinunnar Rögnvaldsdóttur

Góðir fundargestir

Við erum hér stödd til að minnast þess að um fimm ár eru síðan að Bandaríkjamenn réðust inní Írak og hertóku landið. Við erum hér til að setja enn og aftur fram þá kröfu að í landi langt í burtu endi hrikalegt stríð og þegnar landsins fái aftur að lifa mannsæmandi lífi.

„Írak“ – hvað hugsið þið um þegar þið heyrið þetta nafn?

Hvernig er að búa í Írak? Getum við gert okkur það í hugarlund?

Hvernig var að búa í Írak áður en Bandaríkjamenn með stuðningi frá leppríkjum sínum ákváðu að ráðast þangað inn til að finna gereyðingarvopn, fundu engin og breyttu ástæðuni í að þeir væru í stríði gegn hryðjuverkum, fundu engin tengsl Íraka við Al-kaída eða Osama bin laden og breyttu þá ástæðunni í að þeir væru að “frelsa” Íraka, um leið og þeir læstu klónum í olíuna þeirra.

En hvernig var Írak – fyrir „frelsunina“?

Ja, hérna eru nokkur dæmi um hvernig Írak var:

Í Írak voru 18 ríkisreknir háskólar og 10 einkareknir háskólar, auk 28 tækniskóla. Um 50% háskólanema voru konur, og konur voru einnig um 50% á atvinnumarkaði. Konur þurftu ekki að ganga með slæður þó að margar gerðu það, þær gátu farið sinna ferða í gallabuxum og bol, óáreittar.

Írakar bjuggu ekki í tjöldum, heldur í húsum, með vatnslögnum og rafmagni. Tölvur og internetið voru löngu komin í gagnið. Göturnar og svæðin í borgunum höfðu nafn, en svo gleymdust nöfnin og nú er bara sagt: „þarna þar sem stóri gígurinn er, eftir að flugskeytið sprakk þar þú veist“ eða „húsið við hliðina á þessu þarna sem að fjölskyldan var myrt“. Og nöfnin eru uppfærð reglulega þegar að nýjar sprengjur springa og aðrar fjölskyldur eru drepnar.

Í Írak, fyrir stríðið, þá fóru næstum öll börn í skóla. Árið 2006 hafði það hlutfall fallið niður í 30%. Þessi 30% eru nánast bara strákar. Hvorki stúlkur né fullorðnar konur fara einar út nú á dögum, og ef að þær sjást í gallabuxum getur það verið þeirra dauðadómur. Stríðið hefur blásið byr í vængi bókstafstrúarmanna. Áður skipti það ekki aðalmáli hverrar trúar þú varst, þú gast búið þar sem þú vildir, klæðst því sem þú vildir, ferðast þangað sem þú vildir. Nú er stúlkum sem ekki eru tilhlýðilega klæddar rænt og þeim misþyrmt, ferðafrelsi er takmarkað, hvar áttu að búa þegar búið er að sprengja húsið þitt og það eru þjóðernishreinsanir í gangi, það er verið að þurka út minnihlutahópa í Írak. Bókstafstrúarmenn höfðu ekki þau völd sem þeir hafa nú – ekki fyrr en eftir stríðið.

Eftir innrásina í Írak eru hryðjuverkaárásir í heiminum öllum sjö sinnum fleiri heldur en fyrir innrásina.

Lokið augunum

Hvað hugsið þið um þegar ég segi „Írak“?

Hvað sjá Írakar sjálfir á hverjum degi núna eftir „frelsunina“?

Líkkistur, lífvana líkamar, lík finnst hér, lík finnst þar, sprengja springur, konur í svörtu, erlendir hermenn með byssur, margar byssur, byssur alls staðar, skriðdrekar, sprengjur, unglingar með sjálfsmorðssprengjur. Framtíð þjóðarinnar sprengir sig upp í loft á hverjum degi, framtíð þjóðarinnar er sprengd í loft upp af öðrum á hverjum degi, framtíð þjóðarinnar er skotin þegar hún er að leika sér útí garði.

Á hverjum degi koma kisturnar, á hverjum degi finnast fleiri lík, á hverjum degi springa sprengjur, á hverjum degi deyja ástvinir, sorgin og reiðin heltekur feður, mæður, systur, bræður og börn. Alla. Framtíð þjóðarinnar deyr.

Írak var ekki fullkomið land. En það var mörgum sinnum skárra fyrir innrásina heldur en eftir hana. Í síðustu viku voru 384 óbreyttir borgarar drepnir, eða lík þeirra komu í leitirnar. Og það eru fimm ár síðan að innrásin hófst. Þetta er vikan í Írak. Þetta er lífið í Írak. Þetta er það sem við viljum burt.

Og við erum hér til að láta þá kröfu hljóma – stríðinu verður að linna! Það eru milljónir manna um heim allan að segja það sama á fundum sem þessum í dag og í næstu viku. Og lengur. Krafan verður alltaf að hljóma, jafn lengi og þörf krefur. Við verðum alltaf að standa upp og mótmæla drápum og ofbeldi á saklausum borgurum og þrýsta á ráðamenn að beita sér fyrir friði, ekki taka þátt í stríði! Við verðum að gera þetta, ekki bara fyrir þau, heldur líka okkur. Því ef við getum ekki einu sinni staðið upp og sagt nei við fjöldamorðum á saklausum börnum, ef við sjáum ekki tilganginn með því að mótmæla grimmdarverkum…

Hvað erum við þá orðin?

15mars2008d 01

——–
Sjá myndir [1]