Greinasafn fyrir merki: Afganistan

Íslendingar taka beinan þátt í stríðinu í Írak – og leggja til einn hermann

Í Morgunblaðinu 21. mars er frétt þess efnis að Herdís Sigurgrímsdóttir, 26 ára fjölmiðlamaður, sé á leið til starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar í Bagdad. Þar mun hún starfa sem upplýsingafulltrúi NATO og bera titilinn major. Íslendingar hafa lagt til friðargæsluliða í stöðuna frá 2005 eins og lesa má á vef utanríkisráðuneytisins. NATO vinnur að þjálfun yfirmanna í íraska hernum með það að markmiði að heimamenn geti tekið við stjórn öryggismála, segir í frétt Morgunblaðsins.

Blaðið hefur einnig eftir forvera Herdísar í starfinu, Steinari Sveinssyni, að „dagarnir taki á sig ýmsar myndir og í gær hafi hann m.a. flogið með fjölmiðlamönnum og öðrum æðsta manni alþjóðaheraflans í Írak, til herakademíu og liðsforingjaskóla sem er tíu km utan við græna svæðið,“ en gæna svæðið er afgirt svæði Bandaríkjahers þar sem meðal annars er hið risastóra bandaríska sendiráð.

Þetta verkefni NATO er kallað „The NATO Training Mission – Iraq“ (NTM-I) og má fræðast um það á vef NATO. Norður-Atlantshafsráðið, æðsta stjórn NATO, samþykkti verkefnið 17. nóvember 2004. Þetta verkefni var einhliða ákveðið af NATO sem hefur ekkert umboð frá Sameinuðu þjóðunum. Bandalagið, sem eins og allir vita lýtur forystu Bandaríkjanna, tekur að sér það verkefni fyrir hernámsveldið að þjálfa her þeirrar ríkisstjórnar sem starfar undir hernáminu.

Þannig er hið svokallaða friðargæslulið ekkert annað en hluti þess hernámsliðs, sem kallað er alþjóðaheraflinn í tilvitnuninni hér að framan og starfar í Írak undir forystu Bandaríkjanna. Íslendingar taka því beinan þátt í stríði Bandaríkjanna í Írak, ekki aðeins með því að taka þátt í kostnaði við herflutninga til Íraks heldur líka með því að senda þangað íslenskan hermann. 26 ára gömul íslensk stúlka í hlutverki fjölmiðlafulltrúa NATO er alveg jafn mikilvægur liðsmaður í hernámsliðinu í Írak eins og hver annar hermaður.

Sama dag og þessi frétt birtist í Morgunblaðinu var í Fréttablaðinu frétt af tveimur nýjum liðsmönnum íslensku „friðargæslunnar“ í Afganistan. Fréttin hefst á þessum orðum: „Íslenska friðargæslan tekur óðum á sig mýkri ásjónu og í vikunni fóru tvær ungar konur til starfa í Afganistan.“ Með fréttinni er mynd af þessum konum og er önnur í fullum herklæðum. Sú hefur titilinn „fyrsti liðþjálfi – first sergeant“ og verður vopnuð.

Íslenska „friðargæslan“ í Afganistan er líka hluti af verkefni NATO, en þetta kallast „International Security Assistance Force“ (ISAF) (sjá vef NATO). Munurinn á ISAF og NMT-I er að ISAF starfar í umboði Sameinuðu þjóðanna. En þótt tekist hafi að kría út samþykki SÞ breytir það ekki því að NATO er þarna að sjálfsögðu að þjóna hagsmunum forysturíkis síns, Bandaríkjanna.

Sjá einnig nýlegt frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu.

Frá miðnefnd SHA

fredsakademietMiðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga kom saman til fundar s.l. fimmtudag. Rétt er að minna á að öllum félagsmönnum er heimilt að sitja fundi hennar. Á fundinum voru samþykktar þrjár ályktanir eða áskoranir, þar sem hnykkt er á klassískum baráttumálum hreyfingarinnar:

Ályktun 1:

SHA mótmæla öllum viðræðum um varnarsamstarf við Norðmenn og Dani. Að gefnu tilefni gera samtökin einnig kröfu um bann við heræfingum á Íslandi og benda í því sambandi á ósprungnar sprengjur, skothylki í þúsundatali og annað drasl á heræfingasvæðum liðinna áratuga.

Ályktun 2:

SHA gera þá kröfu til ríkisstjórnar Íslands að hún lýsi því yfir að Íslendingar verði teknir af lista þeirra þjóða sem styðja innrás og hernám í Írak og íslenska þjóðin beðin afsökunar á þeim hræðilegu mistökum sem þar voru gerð. Ennfremur að hætt verði þátttöku í hernámi Afganistans og stuðningi við Íraksstríðið hvort sem er með fjárframlögum eða yfirlýsingum. SHA telja það ekki sæma Íslendingum að styðja fjöldamorð og dauðarefsingar eða fantaskap við saklaust fólk eins og í Gvantanamo. Íslendingar eiga ekkert sökótt við fátækt fólk í Asíu eða annarsstaðar í heiminum.

Áskorun:

SHA skora á Alþingi og ríkisstjórn að segja upp herverndarsamningnum við Bandaríkin frá 1951, enda þjónar hann engum skynsamlegum tilgangi og hefur aldrei gert. Ennfremur að Ísland segi sig úr NATO og verði þannig ekki lengur aðili að vígbúnaðar- og kjarnorkuvopnabandalagi sem stendur fyrir árásum og hernámi í fjarlægum löndum.

Halldór Ásgrímsson, Írak, Diego Garcia og Keflavík

Írak

Í Speglinum, fréttaskýringaþætti Ríkisútvarpsins, í dag 15. ágúst, var viðtal við Halldór Ásgrímsson. Hann var spurður um afstöðuna til Íraksstríðsins og sagði að rétt hafi verið að styðja innrásina á sínum tíma. „Hinsvegar fengum við rangar upplýsingar, það liggur fyrir, þannig að það má vel vera að við hefðum tekið aðra ákvörðun ef við hefðum haft þær upplýsingar […] En eitt veit ég, að Saddam Hussein var nú ekkert mjög heppilegur foringi á sviði lýðræðis og mannréttinda.“

Það er vissulega umhugsunarvert, ef Halldór Ásgrímsson telur að íslenska ríkisstjórnin hafi verið blekkt til að styðja innrás í annað land, að hann skuli fara frá án þess að gefa aðra yfirlýsingu en lauslegt svar við spurningu blaðamanna, og reyna svo samt að réttlæta stríðsþátttökuna með tilvísun til að Saddam Hussein hafi verið „ekkert mjög heppilegur foringi á sviði lýðræðis og mannréttinda.“

En það er líka rétt að halda því til haga að veturinn 2002 til 2003 lá það fyrir að þær upplýsingar sem Halldór Ásgrímsson er væntanlega að tala um, upplýsingar um gereyðingarvopn í eigu Íraka, voru mjög hæpnar og vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna óskuðu eftir að fá heldur meiri tíma til að fá málin á hreint. En í ljósi þeirra upplýsinga, sem fyrir lágu, var mjög ólíklegt að greyðingarvopn fyndust í Írak, öfugt við það sem Bandaríkjastjórn hélt fram. Þær upplýsingar lágu fyrir, utanríkisráðuneyti Íslands átti að hafa aðgang að þeim og reyndar gat hver sæmilega netfær maður sem var læs á ensku fundið þær á netinu. Og þá færni þurfti ekki einu sinni því að á þetta var bent í fjölmörgum greinum hér á landi, bæði í dagblöðum og á netmiðlum.

Sem dæmi má nefna að hér á Friðavefnum birtist 29. janúar 2003 greinin „Írak: Nokkar staðreyndir og upplýsingar“. Þar segir m.a.:

„Í viðtalinu við CNN 17. júlí 2002 sagði Scott Ritter [fyrrum vopnaeftirlitsmaður] að 90-95% af verkefnum vopnaeftirlitssveitanna hafi verið lokið þegar þær voru kallaðar heim í desember 1998 og öllum vopnum og verksmiðjum sem þá hefðu fundist hefði verið eytt. Rolf Ekeus tók í sama streng án þess þó að nefna neinar tölur í fyrirlestri sem hann hélt við Washington Institute for Near East Policy 12. nóvember 2002. Hann taldi líka að hinar nýju vopnaeftirlitssveitir, sem tóku til starfa í nóvember 2002, mundu finna öll þau vopn sem til væri í Írak.“

„Þegar þetta er skrifað um miðjan janúar 2003 hafa hinar nýju vopnaeftirlitssveitir fengið að starfa óáreittar og ekki fundið nein vopn sem falla undir bann Sameinuðu þjóðanna. Það er því ekkert sem bendir til að Íraksstjórn hafi brotið það.“

Diego Garcia

Í þessum sama Spegli var einnig sagt frá herstöð Bandaríkjamanna á eynni Diego Garcia í Indlandshafi og grimmdarlegum brottflutningi íbúanna þaðan fyrir rúmum þremur áratugum. Enn er þetta fólk í útlegð og krefst þess að fá að snúa heim. En herstöðin á Diego García er Bandaríkjunum mjög mikilvæg og gegndi lykilhlutverki við innrásirnar í Afganistan og Írak og mun einnig gera það ef til þess kemur að ráðist verði inn í Íran. Hér á Friðarvefnum er grein um þessa herstöð: „Herstöðin á Diego Garcia og mannréttindabrot Breta“.

Keflavík

Það er rétt að hafa það í huga að herstöðin á Keflavíkurflugvelli er hluti af sama hernaðarkerfi og herstöðin á Diego Garcia – og Guantánamo, svo að fleira sé nefnt.

Í ofangreindu viðtali gerði Halldór Ásgrímsson mikið úr vináttu Íslendinga og Breta og Bandaríkjamanna. Vissulega höfum við ekkert upp á þessar þjóðir að klaga frekar en aðrar þjóðir, en seint verður sagt að ríkisstjórnir og hernaðaryfirvöld þessara landa sé félegur félagsskapur. Og aumlegur er hlutur íslensku ríkisstjórnarinnar að væla um vernd hjá stríðsglæpamönnum sem blekktu hana til stuðnings við ólögmætt innrásarstríð.

Einar Ólafsson