Monthly Archives

August 2016

Ávarp á kertafleytingu í Reykjavík

By Uncategorized

Ljósmynd: Snorri Þór Tryggvason

Hildur Knútsdóttir flutti meðfylgjandi ávarp á kertafleytingunni í Reykjavík 9. ágúst sl.

Dómsdagsklukkan er þrjár mínútur í miðnætti

Klukkuna stillir Vísinda- og öryggisráð tímaritsins Bulletin of the Atomic Scientists ásamt ráðgjafahóHildurKnutspi ritsins. Tímaritið var stofnað árið 1945 af hópi vísindamanna sem tók þátt í Manhattan-verkefninu, sem framleiddi fyrstu kjarnavopnin í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir að vopnin voru notuð gegn fólki í Hiroshima og Nagasaki fyrir sjötíu og einu ári síðan sögðu vísindamennirnir að þeir gætu ekki lengur þvegið hendur sínar af þeim afleiðingum sem af vinnu þeirra hlutust. Svar þeirra var að stofna tímaritið, og berjast gegn notkun kjarnavopna.

Og Dómsdagsklukka þeirra hefur talið niður að stórfelldum, hnattrænum hörmungum síðan árið 1947. Og þá, árið 1947, í upphafi Kalda stríðsins, stóð Dómsdagsklukkan í sjö mínútum í miðnætti. Síðan þá hefur vísirinn tifað, stundum fram og stundum aftur, allt eftir ástandi heimsins hverju sinni og þeim ógnum sem Vísinda- og öryggisráðið telur að okkur stafa. Og eftir því sem heimurinn breytist þá hafa aðrar ógnir en kjarnorkuváin verið teknar með í reikninginn. Núna skoðar ráðið líka ógnir sem stafa af nýjum uppfinningum, orkumálum, svæðisbundnum átökum og síðast, en alls ekki síst, vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum.

Dómsdagsklukkan er þrjár mínútur í miðnætti.

Næst svartnættinu komumst við árið 1953, þegar bæði Bandaríkin og Sovétríkin prófuðu með nokkurra mánaða millibili kjarnavopn. Þá var Dómsdagsklukkan stillt á tvær mínútur í miðnætti. Það er erfitt að trúa því að einungis átta árum eftir hinar hryllilegu árásir sem við minnust hér í kvöld hafi einhverjir í alvörunni hugleitt að nota kjarnavopn gegn fólki.

En það virðist vera Akkilesarhæll mannkynsins að eiga erfitt með að læra af mistökum. Eins og erfðasyndin, sú sem er borin á milli kynslóða, sé sú að við séum dæmd til þess að endurtaka sömu vitleysuna, sömu hörmungarnar, aftur og aftur.

Það er ekki að ástæðulausa að ýmsir fylgjast nú með ugg í brjósti með þeim atburðum sem eiga sér stað í heimsbyggðinni um þessar mundir. Rússland þenur sig. Bretland kýs að hætta í Evrópusambandinu og ógnar þannig brothættri einingu í Evrópu. Stórhættulegur brjálæðingur virðist í alvörunni eiga séns á því að verða kosinn forseti valdamesta ríkis heims í haust. Fjöldi flóttamanna í heiminum hefur aldrei verið meiri og straumurinn fer vaxandi. Konur, karlar og börn flýja loftárásir og stríð og þeir sem drukkna ekki á Miðjarðarhafi er tekið eins og glæpamönnum þegar þeim ætti að vera boðið öruggt skjól.

Og hvarvetna virðist uppgangur hægriöfgaafla aukast. Ísland er þar því miður ekki undanskilið.

Síðastliðinn júnímánuður var sá heitasti síðan mælingar hófust. Hann var fjórtándi mánuðurinn í röð sem slær hitamet. Loftslagsvísindamenn segja að það sé 99% öruggt að árið 2016 verði heitasta ár síðan mælingar hófust. Og árið er rétt hálfnað. Loftslagsvísindamenn eru ekki þekktir fyrir að gaspra eitthvað út í bláinn. Þeim hefur frekar verið legið á hálsi fyrir að vera of varkárir í tali. Og nú tala sumir þeirra um neyðarástand.

Einhverjir sjá allt sem ég taldi upp hérna áðan kannski sem einangruð, óskyld atvik. En ég held að þetta séu bara ólíkar birtingamyndir af sama fyrirbærinu, nokkrir hausar á sama, marghöfða skrímslinu. Við gætum kannski kallað skrímslið heimsvaldastefnu, fasisma, feðraveldi eða kapítalisma. En ég held að þau fyrirbæri séu kannski bara enn aðrir hausar og að skrímslið sjálft sé ennþá stærra.

Það hefur verið bent á ýmis líkindi í samtímanum, bæði í atburðum og orðræðu, sem minna óþægilega á upphaf seinni heimsstyrjaldar. Og maður spyr sig hvort við séum, í alvörunni, næstum því komin með fingurinn á hnappinn, í þann mund að endurtaka sömu mistökin aftur.

Dómsdagsklukkan er þrjár mínútur í miðnætti.

Hún hefur staðið í þremur mínútum síðan árið 2015, en þá var hún færð úr fimm mínútum í. Ástæðurnar fyrir því að vísarnir voru hreyfðir voru:

  • skortur á viðbrögðum heimsins til að sporna gegn loftslagsbreytingum
  • fjöldi kjarnorkuvopna á heimsvísu
  • möguleikinn á því að kjarnavopn yrðu notuð í átökum
  • og skortur á öryggi í kjarnorkuverum.

Og í ár, hinn 26. janúar 2016, tilkynnti tímaritið Bulletin of the Atomic Scientists að vísarnir stæðu í stað á milli ára. Í tilkynningunni, sem tímaritið sendi frá sér, stóð: „Við, meðlimir í Vísinda- og öryggisráði […] viljum vera alveg skýr varðandi þá ákvörðun okkar að færa ekki vísana árið 2016: Sú ákvörðun er ekki góðar fréttir, heldur tjáning á ótta okkar vegna þess að leiðtogum heimsins hefur enn og aftur mistekist að beina kröftum sínum og athygli að því að minnka þá gríðarlegu ógn sem okkur stafar af kjarnavopnum og loftslagsbreytingum. Þegar við köllum þessar ógnir tilvistarlegar, þá er það vegna þess að við meinum það bókstaflega. Þær ógna tilvist samfélaga og ættu þar af leiðandi að vera algjört forgangsatriði leiðtoga sem láta sér annt um þegna sína og lönd.“

Dómsdagsklukkan er þrjár mínútur í miðnætti.

Skyldi hún einhverntímann slá tólf? Og hvað gerist þá?

Samkvæmt rannsókn sem ég las nýlega er meðal Bandaríkjamaður fimm sinnum líklegri til þess að deyja í atburði þar sem stór hluti mannkyns þurrkast út en að deyja í bílslysi. Við allar rannsóknir ber auðvitað að setja fyrirvara. En samt. Fimm sinnum líklegri. Við tölum mikið um umferðaröryggi. Hér er Umferðarstofa og Samgöngustofa og umferðarlögregla. Við sektum fyrir umferðarlagabrot. Það eru hraðamyndavélar við vegi. Við kennum börnum umferðarreglurnar og vörum þau við hættum sem stafa af bílum.

En tölum við nógu mikið um tilvistaröryggi? Tölum við nógu mikið um hættuna sem samfélagi okkur stafar af kjarnavopnum? Tölum við nógu mikið um þær ógnir sem breytt loftslag jarðar hefur í för með sér? Afhverju er ekki loftslagsráðuneyti á Íslandi? Hvers vegna er ekki loftslagsráðherra? Hvar er loftslagseftirlitið? Afhverju standa íslensk stjórnvöld að olíuleit á Íslandsmiðum, og grafa þannig undan öllum alþjóðlegum samningum um loftslagsmál? Afhverju er Ísland í hernaðarbandalagi? Hvers vegna hefur það ekki verið gert upp að íslenska ríkið hafi stutt innrásir? Afhverju tökum við ekki á móti fleiri flóttamönnum? Og afhverju eru íslensk orkufyrirtæki að selja græn vottorð til erlendra kjarnorkuvera? Samkvæmt upprunavottorðum er hlutfall kjarnorku í rafmagnsframleiðslu hér á landi 23%. Og hlutfall jarðefnaeldsneytis er 32%.

Dómsdagsklukkan er þrjár mínútur í miðnætti.

Hvað gerist ef hún slær tólf?

Það er svo skrýtið að mannkynið býr yfir tækninni til að rústa öllu lífi á jörðinni, en við virðumst ekki búa yfir orðunum til að tala um það.

En samt eru orðin það eina sem við höfum.

Við, sem höfum ekki aðgang að stjórnborðinu með öllum tökkunum, hvað getum við annað gert en að tala? Við getum starað á klukkuna í þögulli skelfingu og horft á vísana tifa í átt að eilífðinni.

Eða við getum látið í okkur heyra.

Við getum krafist aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Við getum krafist heims án kjarnavopna. Við getum gert það sem við erum samankomin hérna í kvöld til að gera: Haldið á lofti minningu þeirra rúmlega 200.000 sálna sem létust í kjölfar árásanna fyrir sjötíu og einu ári og tryggt að það verði aldrei aftur Hiroshima og aldrei aftur Nagasaki.