Monthly Archives

April 2014

1. maí kaffi SHA 2014

By Uncategorized

Morgunkaffi SHA á 1. maí er víðfræg samkoma og í hugum margra ómissandi hluti af baráttudegi verkalýðsins. Húsið opnar kl. 11, en ganga verkalýðsfélaganna fer af stað kl. 13:30.

Allir velkomnir í 1. maí-kaffið í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.

Verð kr. 500

Fjáröflunarmálsverður aprílmánaðar

By Uncategorized

Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi er kokkur aprílmánaðar í málsverðinum föstudagskvöldið 25. apríl. Matseðillinn er ekki af verri endanum:

  • Ofnbakaður þorskur í grænmetis – karrýsósu
  • Hrísgjón, salat og brauð
  • Fyrir þá sem ekki borða dýrindis fisk verður grænmetisréttur í karrý
  • Aðalbláberjaterta í eftirrétt

Tónlistarmaðurinn Gímaldin tekur lagið að borðhaldi loknu. Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2000. Allir velkomnir.

Er femínismi heimsvaldastefna? : lesendabréf til Knúz.is

By Uncategorized

Hinn 11. apríl sendum við bréfið hér að neðan til ritstjórnar Knuz.is og báðum um að það yrði birt á vefsíðunni. Ritstjórnin sá sér ekki fært að birta bréfið eins og það er. Því birtum við það hér, enda teljum við að bréfið eigi erindi við lesendur Fridur.is.

Föstudaginn 4. apríl birtist á Facebook-vegg Knuz.is tengill á pistil úr málgagninu Foreign Policy. Greinin bar fyrirsögnina „The Men-Only Club“ (Karlaklúbburinn), og í undirfyrirsögn var spurt: „Why, after 65 years, can’t NATO find a woman to head the alliance?“ (Hvers vegna getur NATO, eftir 65 ár, ekki fundið konu til að stýra bandalaginu?) Með deilingunni á pistlinum birti Knuz.is texta sem gaf til kynna að tekið væri undir með málflutningi höfundar hans, að það væri sigur fyrir kvennabaráttuna ef kona yrði framkvæmdastjóri NATO.

Read More

Ályktun um NATÓ

By Uncategorized

Ályktun þessi var samþykkt á landsfundi SHA laugardaginn 15. mars:

Áætlað er að á þessu ári yfirgefi vestrænir hermenn Afganistan eftir þrettán ára dvöl. Í fyrstu átti stríð Bandaríkjamanna og bandalagsþjóða þeirra í þessu fátæka landi að taka skjótt af og ljúka með frægum sigri. Veruleikinn blasir nú við. Eftir öll þessi ár, með tilheyrandi útgjöldum og hörmungum fyrir íbúa landsins, er vart hægt að kalla útkomu Nató-ríkja annað en fullkominn ósigur.

Hernaður Nató-þjóða í Afganistan felur í sér siðferðislegt gjaldþrot. Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar hafa verið þverbrotnir og grundvallarlögum á borð við Genfarsáttmálann varpað fyrir róða. Vélmennahernaður svokallaðra dróna hefur kostað ótal mannslíf og enn í dag má finna fanga í Guantanamo-búðunum sem þar hafa mátt dúsa án dóms og laga svo árum skipti.

Framferði Nató í Afganistan helst í hendur við sívaxandi árásareðli þess á liðnum árum. Bandalagið keppist við að leita sér nýrra verkefna til að réttlæta tilveru sína og hefur í því skyni drepið niður fæti í fjarlægum löndum. Færa má rök fyrir því að Nató sé í dag ein helst ógnin við frið og öryggi í veröldinni. Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga áréttar að löngu tímabært sé að Ísland segi skilið við bandalag þetta.