Monthly Archives

March 2012

30. mars í Friðarhúsi

By Uncategorized

30. mars er mikilvæg dagsetning í sögu íslenskrar friðarbaráttu, en þann dag var aðild Íslands að Nató samþykkt á Alþingi þrátt fyrir víðtæk mótmæli og kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Að þessu sinni ber 30. mars upp á síðasta föstudag í mánuði, en þá daga hafa fjáröflunarmálsverðir Friðarhúss einatt farið fram. Því verða slegnar tvær flugur í einu höggi n.k. föstudagskvöld með málsverði og dagskrá.

Matseðill:

* Lasagne að hætti Birnu Þórðar – hið besta norðan Bologna – grænmeti
* Heimabakaðar brauðbollur að hætti Jóns & Siggu
* Systu-Pavlova með ávöxtum

Að mat loknum verður sýnd fágæt stuttmynd frá árinu 1999, sem gerir því skil þegar Birna Þórðardóttir hóaði í nokkra félaga sína og efndi til einka-Keflavíkurgöngu, frá Reykjavík til Keflavíkur á 50 ára afmæli Nató-aðildar.

Trúbadorinn Svavar Knútur mætir með gítarinn, tekur lagið og stjórnar fjöldasöng.

Borðhald hefst að vanda kl. 19. Verð kr. 1.500.

Framkvæmdir við Friðarhús – viltu gerast hluthafi?

By Uncategorized

Um þessar mundir er unnið að stórframkvæmdum við húseignina Njálsgötu 87, sem hýsir Friðarhús SHA. Meðal annars verður þak hússins lagfært, unnið í gluggum og byggingin öll steinuð að utan. Þessar endurbætur hafa verið brýnar lengi og fulltrúar Friðarhúss hvatt til þess að ráðist yrði í þær á vettvangi húsfélagsins. Að þeim loknum verður Njálsgata 87 sú bæjarprýði sem maklegt er.

Aðalfundur Friðarhúss SHA ehf var haldinn á dögunum. Þar voru kynntir reikningar sem sýndu afar jákvæða stöðu. Langt er síðan félagið varð skuldlaust við lánastofnanir, en eina skuld þess er við Samtök hernaðarandstæðinga sem greiðist niður jafnt og þétt sem afsláttur á leigu. Stórframkvæmdirnar nú munu þó reyna á fjárhaginn. Því er mikilvægt að fjáröflunarmálsverðir hússins verði vel sóttir á næstunni, sem hingað til. Það er helsta tekjulind félagsins.

Þá er minnt á að enn er hægt að kaupa hlutabréf í Friðarhúsi SHA ehf. Verð hvers hlutar er 15.000 krónur og má ganga frá greiðslu í gegnum netbanka (reikn.nr. 0130-26-002530 kt. 600404-2530, þar sem tekið væri fram í skýringu nafn hluthafa). Eflaust eru einhverjir félagar í SHA sem ekki eru í hópi hinna nærri 300 hluthafa eða aðrir sem gætu hugsað sér að auka við hlutafjáreign sína og skjóta þannig enn styrkari stoðum undir rekstur þessa mikilvæga húsnæðis. Eitt er víst að ekki mun friðarsinna skorta verkefni á næstu misserum.

8. mars

By Uncategorized

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti- Vorið kallar

Iðnó, kl. 17-18:30

Fundarstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir 

Ávörp:

* Claudia Ashonie: Menntun kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og atvinna að námi loknu
* Védís Guðjónsdóttir: Saman eða sundur
* Sigríður Rut Hilmarsdóttir: Vinna með barnalýðræði
* Steinunn Þóra Árnadóttir: Kjósum burt NATÓ!
Soumia Islami: Barátta kvenna í „arabíska vorinu“
* Guðrún Jónsdóttir: „Og þær lifðu hamingjusamar til æviloka.“ – Umfjöllun um vændi og Kristínarhús
* Guðrún Hannesdóttir: Mennska

* Magga Stína syngur við undirleik Kristins Árnasonar

Miðnefnd SHA fundar

By Uncategorized

Fastir miðnefndarfundir Samtaka hernaðarandstæðinga eru fyrsta þriðjudag í mánuði, kl. 19:30 í Friðarhúsi. Minnt er á að miðnefndarfundir eru opnir öllum félagsmönnum í samtökunum.