Monthly Archives

August 2010

Vel heppnuð kertafleyting á Akureyri

By Uncategorized

Um 150 manns sóttu kertafleytingu til minningar fórnarlamba kjarnavopnaárásanna á Hiroshimo og Nagasaki. Þátttakan fór fram úr björtustu vonum enda mikil fjölgun frá fyrri árum. Fyrir vikið fengu færri kerti en vildu. Þrátt fyrir það var góður andi í hópnum og athöfnin var sérlega falleg á þessu hlýja síðsumarskvöldi. Ræðumaður að þessu sinni var Björn Þorláksson, bæjarlistamaður Akureyrar, en ræða hans er birt hér að neðan.

* * *

Góðir friðarsinnar!

Móðir Theresa orðaði það þannig að fólk sem vildi breyta veröldinni ætti fremur að ganga fyrir friði en berjast gegn stríði. Í kvöld komum við saman í þágu friðar og fleytum kertum. Hugleiðum, spyrjum og reynum að setja samhengi. Sjálfur þakka ég tækifærið að fá næstu mínútur að hugsa upphátt sem friðarsinni og sem bæjarlistamaður Akureyrar. Mér hefur lengi fundist list án afstöðu lítils virði.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég leggst í pælingar um kjarnorkusprengjurnar yfir Hiroshima og Nagasaki. Veturinn 1983 var ég átján ára gamall og eins og ungmenna er háttur efaðist ég þá ekki um að tiltölulega einföld svör fyndust við öllum spurningum alheims. Það væri hægt að svara þeim langflestum játandi eða neitandi. Án mikillar fyrirhafnar. Þar af leiðandi hrósaði ég happi þegar Bragi Guðmundsson sögukennari útbýtti mér ritgerðarefni sem virtist einfalt að svara.

Efnið var spurningin: Var réttlætanlegt að varpa kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki? Í stað þess þó að skrifa bara: Nei, Kanar voru, eru og verða fífl þegar kemur að stríði og virðingu fyrir öðrum þjóðum, eins og kom upp í hugann, lagði hinn 18 vetra vinstrisinnaði MA-nemi það á sig að leggjast í dálitla heimildavinnu og leita rökstuddra svara við spurningunni.

En þegar skrúfað var frá heimildaflóðinu bar svo við að fræðingarnir töldu það flókna spurningu, hvort réttlætanlegt hefði verið að varpa kjarnorkusprengju á Hiroshima og Nagasaki, það væri ekki nokkur leið að svara slíkri spurningu með jái eða nei-i. Ein heimildin sagði að auðvitað væri aldrei hægt að réttlæta slíkt hryllingsverk, ég var sammála því. Önnur sagði að út frá sjónarhóli siðfræðinnar yrði dráp á manni aldrei réttlætt, hvorki í stríði né á friðartímum, sammála því líka. En svo voru aðrar heimildir sem hermdu að heill mannkyns hefði verið undir, að stríðið hefði getað dregist á langinn árum saman ef sprengjurnar hefðu ekki verið notaðar, að stundum þyrfti að fórna 5000 mönnum til að bjarga 10.000.

Þetta virtist flóknara mál en ég lagði upp með í upphafi en samt sannfærðist ég ekki um að svo væri þá og ég er enn ekki sannfærður, er ég þá kannski átján ára í þroskanum enn? Erum við sem hér höfum safnast saman kannski öll átján ára í þroska, erum við hópur af fullorðnum börnum á öllum aldri?

Nei. Góðir félagar. Nú eru liðin 65 ár síðan kjarnorkusprengju var beitt á saklausa borgara í Japan í þágu hernaðar. Ein rökin fyrir sprengjunum voru að afleiðingar sprenginganna myndu leiða til ógnarjafnvægis sem aftur myndi tryggja frið um aldur og ævi. En það reyndust ónýt rök. Það ríkir enginn friður hér á jörðu. Það ríkir ekki heldur réttlæti hér á jörðu.

Gæðum lífsins er misskipt, milljónir manna svelta, þeir sem bjuggu til atómbombuna, hinn vestræni heimur, hefur fyrst og fremst áhyggjur af eigin hagkerfi, og eitt af því sem smyr áfram hagvaxtarvélarnar er framleiðsla hergagna. Fleiri eru furðurnar. en ættum við Íslendingar nokkuð að velta þeim fyrir okkur?

Við höfum reynt að gera okkur gildandi á alþjóðavettvangi, við eyddum næstum milljarði í umsókn um að komast í öryggisráð sameinuðu þjóðanna og við reyndum nýverið að leggja vitsmuni okkar til efnahagsmála alheimsins. Við einkavæddum ríkisbankana okkar, fórum í útrás, keyptum dót og veisluföng af útlendingum. Að vísu út á krít og þegar okkur tókst ekki að borga skuldirnar eignuðumst við í fyrsta skipti alvöru óvildarmenn hjá stórþjóðum.

Er lærdómurinn kannski sá að við ættum bara að hugsa um okkur sjálf, eða leyfa fáum að hugsa fyrir okkur? Ættum við þegnarnir nokkur sjálfir að kjósa um esb-samninginn eða svoleiðis, á Ísland ekki bara að halda áfram að hegða sér eins og bólugrafinn unglingur á nammidegi þegar kemur að stríði og friði, flóknu málunum, mun hvort eð er nokkurt ríki í kringum okkur nokkru sinni gera tilkall til að við verðum nokkru sinni stór eða nógu stór til að þurfa sjálf að taka stórar ákvarðanir?

Ójá, góðir friðarsinnar, ójá, loks er komið að því, sú stund er liðin að önnur ríki vaggi okkur í svefn á kvöldin, Davíð er farinn, Bush er farinn, herinn er farinn, GOTT – þótt fyrr hefði verið, en þegar Bandaríkin hafa ekki lengur hagsmuni af því að geyma hér mannafla og aðstöðu, þýðir það þá líka að Ísland hættir að fá fyrirgreiðslu hjá stóra bróður. Meðal annars þess vegna hefur „vinum“ okkar innan gæsalappa fækkað. Þess vegna þurfum við sjálf að borga Icesave, þess vegna eru sumar þjóðir verri við okkur en við bjuggumst við, en það er hreint engin ástæða til að sýta það, þvert á móti, vegna brottfarar Bandaríkjarhers neyðumst til að taka þroskastökk sem þjóð, axla ábyrgð, ekki bara innávið heldur út á við líka.

Það er ágætt að hugleiða það í stóru samhengi þegar fólk minnist loka seinni heimsstyrjaldarinnar í hverju lífsgæði felast. Getum við lifað sátt í hjarta okkar við lífsgæði sem fást án ábyrgðar? Var ábyrgt að sprengja kjarnorkusprengju yfir höfðum saklausra borgara? Helgar tilgangurinn meðalið? Ég segi nei.

Sumir í þessum bæ, sumir í hinu bjarta norðri eins og einn biðlaunabæjarstjórinn kallaði oft Akureyri á tyllidögum, sumir komast upp með að taka ekki stærri ákvörðun í viku hverri en þá að velja á milli hnetu- og nammibarsins þegar 50% afsláttur býðst á hvoru tveggja á laugardögum. Ég er sjálfur stundum í þeirri stöðu. Ég á stundum í mestu vandræðum með að velja á hvorn barinn ég eigi að fara, ég á líka stundum í vandræðum með að velja hvort ég ætli að drekka latteið mitt í glasi eða bolla niður á Bláu könnu og ef ég ætla að splæsa á mig tertusneið með fyllist ég valkvíða og veit ekkert í minn haus.

Er ekki nóg að eiga í vanda með slíkar ákvarðanir, erum við ekki með fólk í vinnu í utanríkisráðuneytinu til að sjá um stóru málin, heimsmálin, til að sjá um leiðindin, allt sem er stærra en nammið, hneturnar, kaffið og terturnar? Er það jafnvel hræsni og sýndarmennska að við útnárafólkið hér fyrir norðan þykjumst þess umkomin að fjasa um fjarlæga heimshluta, hið stóra samhengi hlutanna, ættum við ekki fremur að auðvelda okkur staðbundna hamingjuleit með því að reyna að gleyma þeirri staðreynd að stór hluti mannkyns býr við dauðans dyr vegna styrjalda og annarra ógna, að konur eru kúgaðar, umskornar og eyðilagðar á hverjum degi, að litarháttur skiptir máli, að trúarbrögð sundra þjóðum og þjóðabandalögum, ekki síður en þau sameina þær, þetta er allt svo langt frá okkur, blessunarlega, kemur þetta okkur nokkuð við, hugsa sumir, er ekki nóg að sitja uppi með helvítis Icesave og Ólaf Ragnar á Bessastöðum, Sigurð Kára í þinginu og það lið allt, hvers vegna enn einn ganginn Hiroshima og Nagasaki? Húsameistari ríkisins, ekki meir, ekki meir, sagði Steinn Steinarr. Er ekki nóg komið af mótmælum og leiðindum. Erum við friðarsinnarnir að bera í bakkafullan lækinn með samkomu okkar í kvöld?

Ég held að svarið sé nei, ég held að við séum ekki bera í bakkafullan lækinn, við höfum vaðið áfram í græðgi og gáleysi, heimurinn hefur nóg til að fullnægja þörfum mannanna en ekki græðgi þeirra, sagði Mahatma Gandhi og meðal annars þess vegna komum við hér saman. Hvað eru stríð annað en valdatafl, hvað var Hiroshima annað en ógnarsýning, var Hiroshima-sprengjunni varpað vegna forvitni vísindanna eða réttlættu þeir sem vörpuðu sprengjunni hryllinginn með því að fórnarlömbin voru af öðrum kynþætti?

Við höfum stundað það lengi að flokka veröldina eftir útliti fólks og nærveru, í Pétursborg þurfti fólkið að leggja sér mannakjöt til matar í umsátrinu langa í seinni heimsstyrjöldinni, mannátskerfið gekk út á að flytja mannakjötið milli borgarhluta áður en það var étið, þannig voru líkurnar lágmarkaðar á að fólk þyrfti að éta ættingja sína, það er eðlilegt og mannlegt að við viljum síst éta ættingja okkar, jafnvel undir ómennskum kringumstæðum, en það breytir ekki því að krafan, okkar allra vegna, hlýtur að vera að við elskum alla bræður okkar og systur, alls staðar í veröldinni, sýnum þeim hvorki fals né fálæti, lítum á jörðina í heild sem bakland okkar allra, vegna þess að sá sem gefur aldrei neitt, eignast ekki heldur neitt sem skiptir máli.

Hugsum út fyrir túnfótinn og tökum því sem er framandi fagnandi fremur en að óttast það. Það þýðir ekki að við ætlum ekki að hafa áfram gaman af venjubundnum ríg eins og milli íþróttaliða sem aðgreina sig út frá ólíkri búsetu. Hvað væri Akureyri án rígsins milli þorparanna, eyrarpúkanna, innbæinganna og brekkusniglanna ? Er ekki gaman að Oddi Helga Halldórssyni, föður meirihlutans, þegar hann segist ekki geta dregið kátur lífsandann sunnan við Glerá, svo mikill þorpari sé hann? Er ekki gaman að rimmunni milli innfæddra og aðkomumanna hér í höfuðstað Norðurlands? En þegar allt kemur til alls eigum við bara eftir að prófa eitt úrræði, þegar allt annað hefur brugðist, við höfum talað um það, við höfum skrifað um það, en við eigum enn eftir að praktísera það, við eigum eftir að sameinast bæði í orði og verki undir einum friðarhatti og hér fyrir norðan hentar kvöldið í kvöld sem ágætis byrjun.

Við spyrjum: Hvers vegna drepum við hvert annað? Við spyrjum: Vegur þar þyngra græðgin, valdafíknin, eða óttinn við hið óþekkta? Ég veit það ekki, ég er ekki lengur átján ára, ég hef í sumum málum sæst á þá niðurstöðu að tvær hliðar séu á flestum hlutun, en við sem hér erum finnum þó væntanlega bara eina hlið á ofbeldi, okkur finnst, hugsa ég, að ofbeldi sé aldrei réttlætanlegt, okkur finnst að dauðarefsing sé aldrei réttlætanleg.

Okkur finnst að í hvert skipti sem við geispum meðan fréttamiðlar flytja okkur hryllingssögur af misrétti, ofbeldi, kúgun, þrælkun, stríði, hungri og hörmungum annars staðar í heiminum, okkur finnst að í hvert skipti sem við bara geispum yfir því öllu, leitandi að peningum fyrir nammi- eða hnetubarinn í Strax-búðinni, okkur finnst að í þeim geispa gervöllum missi veröldin þá von að verða griðastaður allra. Okkur finnst, að í hvert skipti sem við hegðum okkur eins og steingervingar gagnvart því fólki sem ekki er af sama sauðarhúsi og við sjálf, að þá bregðumst við skyldum okkar. Ég held að hjörtu okkar allra séu þannig innréttuð. Við bara lítum allt of oft framhjá því.

Kæru vinir. Kannski skiljum við það núna þegar axlir okkar þyngjast undan vaxandi skuldabyrði Hrunsins, að það getur ekki gengið endalaust að sitja hjá og treysta öðrum fyrir vegferðinni. Og er þá ekki heillaráð að nýta vitundarvakningu Hrunsins, er ekki heillaráð að taka skref númer tvö, aðeins stærra skref, láta áhyggjur okkar og reiði ekki bara snúast um hvort við höfum efni á glænýju fellihýsi, heldur líka hvort við ættum ekki að verja svolitlum tíma í að fylgjast með lífi og heilsu meðbræðra okkar, nær og fjær, austurlenskra, amerískra, suðrænna, norrænna, vestrænna, austrænna, evrópskra, afrískra, hvítra, svartra, samkynhneigðra, gagnkynhneigðra, fólks í öllum regnbogans litum.

Göngum í kvöld fyrir friðsamlegri fjölbreytni, umburðarlyndi og virðingum fyrir skoðunum og aðgerðum annarra, svo fremi sem þær hafi ekki nauðung eða ofbeldi í för með sér. Sá sem gefur aldrei öðlast aldrei neitt sem máli skiptir. Sá sem gefur ekki er alltaf einn. Atómsprengjurnar fyrir austan eru ein svívirðilegasta birtingarmynd ofbeldis og ein mesta allsherjar lítilsvirðing gagnvart mannslífum sem dæmi eru um. Höldum áfram að gefa hvort öðru ástæðu til að slíkt endurteki sig aldrei. Takk fyrir og góða nótt.

Kertafleyting á Reykjavíkurtjörn, 9. ágúst

By Uncategorized

Samstarfshópur friðarhreyfinga stendur að venju fyrir kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn mánudagaskvöldið 9. ágúst kl. 22:30 í minningur fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki. Þar verður lögð áhersla á kröfuna um frið án kjarnorkuvopna.

Á sama tíma verður kertafleyting á Seyðisfirði.

Norðlenskir friðarsinnar munu svo fleyta kertum á Akureyri fimmtudagskvöldið 12. ágúst n.k.