Monthly Archives

April 2010

Dagskráin á 1.maí

By Uncategorized

redflagFyrsti maí er alltaf stór dagur hjá Samtökum hernaðarandstæðinga. Hið víðfræga morgunkaffi SHA verður haldið í Friðarhúsi. Húsið verður opnað kl. 11 og er verðið einungis 500 krónur, líkt og verið hefur í rúman aldarfjórðung.

Morgunkaffið stendur fram að kröfugöngu verkalýðsfélaganna, sem leggur af stað frá Hlemmi 13:30.

Um kvöldið verður fjáröflunarmálsverður Friðarhúss í verkalýðsanda. Þórunn Ólafsdóttir úr miðnefnd SHA er yfirkokkur, en matseðillinn verður á mexíkóskum nótum:

* mexíkósk kjúklingasúpa/grænmetissúpa
* brauð
* meðlæti
* kaffi
* heimagert konfekt

Gísli Magnússon trúbador tekur nokkur lög og Ármann Jakobsson íslenskufræðingur flytur hugvekju.

Borðhald hefst kl. 19. Verð kr. 1.500. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Rabbfundur miðvikudag & þéttur 1. maí

By Uncategorized

Fregnir frá hernumdu svæðunum
– rabbfundur SHA um Palestínu og Ísrael

Miðvikudagskvöldið 28. apríl kl. 20 efna Samtök hernaðarandstæðinga til fundar í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.

Gestur fundarins, Sigríður Víðis Jónsdóttir blaðamaður, er vel að sér um samskipti Ísraels og Palestínu og er nýkomin úr ferð um svæðið. Hún mun ræða um upplifun sína af hernáminu, aðskilnaðarmúrnum, landtökubyggðunum og ástandinu í Hebron. Meðal þess sem hún kynnti sér í ferðinni voru verkefni sem Rauði kross Íslands hefur stutt og ísraelsku samtökin Machsom Watch, sem fylgjast með framferði hersins og fræða samlanda sína um stöðu mála.

Allir velkomnir. Heitt á könnunni.

* * *

Samtök hernaðarandstæðinga bjóða að venju upp á þétta dagskrá á 1. maí, sem að þessu sinni ber upp á laugardegi.

Hið víðfræga morgunkaffi SHA verður í Friðarhúsi og hefst kl. 11 og stendur fram að göngu verkalýðsfélaganna. Verðið er það sama og frá myntbreytingu, 500 kr.

Um kvöldið verður svo fjáröflunarmálsverður Friðarhúss með verkalýðsívafi. (Athugið að málsverðurinn er að þessu sinni haldinn á laugardegi en ekki föstudegi.)

Matseldin verður á mexíkóskum nótum og miðnefndarfólk stýrir pottum og pönnum. Boðið verður upp á skemmtiatriði og Ármann Jakobsson flytur hugvekju í tilefni dagsins.

Borðhald hefst að venju kl. 19. Verð 1.500 kr.

Athyglisverð könnun

By Uncategorized

„Margan hefur auður apað“, segir í Sólarljóðunum. Ekki er laust við að þessi spakmæli leiti á hugann við lestur nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið MMR hefur sent frá sér.

Í könnuninni var spurt hvort íslensk stjórnvöld ættu að biðja Íraka opinberlega afsökunar á að hafa stutt hernaðaraðgerðir í Írak. Gleðilegt er að sjá að stór meirihluti þjóðarinnar – um 70% – er þeirrar skoðunar. Ekki er því eftir neinu að bíða fyrir ríkisstjórn Íslands en að senda frá sér yfirlýsingu þessa efnis.

Þessi afdráttarlausa fordæming á stríðinu í Írak kemur í sjálfu sér ekki á óvart og er í samræmi við fyrri kannanir. Hins vegar vekur sundurliðuð tölfræðin nokkra athygli, en hana má lesa hér.

Ef svör fólks eru könnuð kemur í ljós að enginn munur er á afstöðu landsbyggðarfólks og þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Aldur hefur sömuleiðis lítil áhrif á viðhorf fólks í þessu efni. Konur eru að andsnúnari stríðsrekstri en karlar eins og svo oft áður. Ef horft er til tekjudreifingar koma hins vegar sláandi tölur í ljós.

Fólk með heimilistekjur undir 250 þúsund og á tekjubilinu 250-400 þúsund var eindregnast í hernaðarandstöðunni. 78% í báðum hópum vilja að stjórnvöld biðjist afsökunar en 22% svara því neitandi.

Á hinum enda launaskalans er staðan hins vegar önnur. Í hópunum með heimilistekjur á bilinu 600-800 þúsund eða 800 þúsund og hærra, eru einungis 58% hlynnt afsökunarbeiðni en heil 42% eru á móti.

Það er áhugavert rannsóknarefni hvað veldur því að stuðningur við dráp á fátæku fólki er svo miklu meiri meðal hátekjufólks en þeirra efnaminni. Er það ef til vill svo að siðferðisvitund manna brenglist við háar tekjur eða samsamar sá hópur sig frekar með risaveldinu sem varpar sprengjum á stríðshrjáð lönd en þeir sem minna hafa milli handanna? Spyr sá sem ekki veit.

Stefán Pálsson