Monthly Archives

December 2008

Útifundur til að mótmæla blóðsúthellingunum á Gaza

By Uncategorized

palestinafrjals 02Útifundur til að mótmæla blóðsúthellingunum á Gaza
á Lækjartorgi, þriðjudag 30. desember kl. 16

Kröfur dagsins eru:
Stöðvið fjöldamorð Ísraelshers á Gaza
Slítum stjórnmálasambandi við Ísrael

Ræðumenn verða:
María S. Gunnarsdóttir, formaður Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna
Ögmundur Jónasson, alþingismaður
Sr. Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur

Fundarstjóri:
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands

Fundurinn er undibúinn af Félaginu Ísland-Palestína með stuðningi fjölmargra félagasamtaka
Fjölmennum!

Látum erindið berast á Facebook: http://www.facebook.com/n/?event.php&eid=41181914711

Ráðherra efast um eldflaugar í A-Evrópu

By Uncategorized

Við sögðum frá því hér á Friðarvefnum 9. desember að utanríkisráðherrar NATO hefðu samþykkt á fundi sínum í Bussel 2.-3. desember að styðja gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna, en slíkur stuðningur var reyndar líka samþykktur á leiðtogafundi NATO í Búkarest apríl 2008, sem forsætis- og utanríkisráðherrar Íslands sátu.

Það er fagnaðarefni að í Fréttablaðinu 29, desember er haft eftir aðstoðarmanni utanríkisráðherra, Kristrúnu Heimisdóttur, að Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem hafi lýst yfir efasemdum um málið:

    „Utanríkisráðherra hefur ekki stutt þetta mál og Ísland var í hópi þeirra ríkja sem lögðu áherslu á að þessir samningar fengu ekki stóran sess í yfirlýsingunni frá Brussel, en rétt er að halda til haga að utanríkisráðherra sótti þann fund ekki.” Ingibjörg Sólrún sat þó fundinn í Búkarest í vor þar sem sams konar yfirlýsing var samþykkt og fulltrúi Íslands skrifaði undir yfirlýsinguna í Brussel.

    „Við höfum skipað okkur í lið með Norðmönnum, Þjóðverjum og fleiri þjóðum sem hafa lýst yfir efasemdum um þessi mál,” segir Kristrún. Hún segir aðferðafræðina sem að baki eldflaugavörnunum býr ekki treysta sameiginlegt öryggi í Evrópu og víðar. „Utanríkisráðherra hefur aldrei skipað sér í flokk þeirra sem vilja magna, í orðum eða verki, kaldastríðsnálgun gagnvart Rússlandi.”

Þessu ber að fagna, þótt ekki verði horft framhjá því að yfirlýsingarnar í Búkarest og Brussel voru sameiginlegar yfirlýsingar allra NATO-ríkjanna. Þótt það sé góðra gjalda vert að þetta sé haft eftir aðstoðarmanni utanríkisráðherra í blaðafrétt, þá þurfum við öllu ákveðnari yfirlýsingu frá utanríkisráðherra.

Snemma í október var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga þriggja þingmanna Vinstri grænni svohljóðandi:

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggjast eindregið gegn áformum Bandaríkjanna og eftir atvikum NATO um að koma upp eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu. Skal þessari afstöðu komið skýrt til skila á vettvangi NATO og annars staðar þar sem við á í alþjóðasamstarfi. Jafnframt ályktar Alþingi að Ísland beiti sér fyrir því með virkum hætti að gildandi samningar um afvopnun eða takmörkun vígbúnaðar verði virtir. Eru þar einkum mikilvægir ABM-samningurinn um takmörkun gagneldflauga og gegn vígbúnaði í geimnum, samningurinn um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu og NPT-samningurinn um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, sér í lagi 6. gr. samningsins sem kveður á um kjarnorkuafvopnun.

Tillagan hefur ekki enn komið til umræðu í þinginu, en vert væri að flýta afgreiðslu hennar þannig að utanríkisráðherra hefði í höndunum ályktun Alþingis. Hún yrði ráðherranum ómetanlegur stuðningur í andstöðunni við gagnflaugaáætlun bandaríkjanna og NATO.

Frétt Fréttablaðsins
Þingsályktunartillagan

Ávarp Birnu Þórðardóttur á Ingólfstorgi í Reykjavík í lok friðargöngu á Þorláksmessu 2008

By Uncategorized

Friðarins fólk!

Stórt orð friður

Fyrir 40 árum – tæpum – hitti ég Mohamed – kannski hét hann ekki Mohamed – skiptir engu.

Mohamed var frá Palestínu – hafði búið í flóttamannabúðum frá 1948 – fimm árum eldri en ég – rekinn í flóttamannabúðir með foreldrum sínum – 48 stundir fengu þau til að komast útfyrir sjálfskipuð landamæri Ísraelsríkis – svonefnds. Ríkis sem stofnað var – til að samviska V-Evrópu fengi frið og gæti losað sig undan gyðingadraugi nasismans.

Samviska ráðamanna Íslands á þeim tíma hreinsaðist einnig, þeir urðu fyrstir til að viðurkenna hið nýja ríki. Enda höfðu þeir neitað að taka við flóttamönnum – gyðingum – hingað til lands – þau sem björguðust undan brottflutningi héðan voru flest hver konur sem giftust heiðarlegum Íslendingum sér til lífsbjargar – að hluta – kannski og vonandi hefur ástin einnig komið til – en ráðslagið var ekki ráðamanna. Þannig að þeir fengu sína samviskuhreinsun.

Já, samviska stríðsgróðamanna fékk frið. Og síðan hefur ófriður ríkt í Mið-Austurlöndum, vegna þess að friður getur ekki byggt á óréttlæti. Friður getur ekki byggt á því að múra Palestínumenn inni í eigin landi.

Við undirbúning þessa ávarps spurði ég vinkonur mínar: Hvað er friður?
Friður er draumur – sagði ein.
Friður fæst verði hætt að framleiða og selja vopn – sagði önnur.

Ráðamenn uppdubbaðra heimsvelda hafa löngum notað aðferðir Rómverja að deila og drottna: Corrumpe et impera! Og hefur gefist vel – þarf skammt að líta til að sjá merkin.

Í Höndum og orðum Sigfúsar Daðasonar segir:

    Fyrrum var sagt: þú skalt sundra og drottna síðan –
    en vér höfum nýtt og ljúfmannlegra boðorð.
    Vort boðorð er stórfenglegt
    einfalt og snjallt
    og tært eins og sjálft dagsljósið.

    Drottnun er ekki samræmanleg vorum hugsjónum:
    undirokaðar þjóðir
    eiga sér öruggan samastað
    í hjarta voru.
    Vér berum friðarorð sundruðum
    og vér flytjum huggun fátækum.

    Vér erum málsvarar frelsis:
    frjálslyndi vort er svo yfirtak víðtækt
    að það krefst frelsis handa kúgaranum
    friðar handa rústunum
    lífsréttar handa dauðanum.

Svo mælti skáldið Sigfús.

Í Írak hafa hersveitir friðarins kastað friðarbombum síðustu árin – með samþykki ríkisstjórnar Íslands – og gildir þá einu hver með ráðherradóminn fer eða hvert kynið er – friðsemd stjórnvalda okkar eru fá takmörk sett – innanlands sem utan.

Flísasprengjur – klasasprengjur – jarðsprengjur – dúndursprengjur – sprengjur – drepa! – drepa allt í friðarins nafni – og gróðans. Það er málið – gróðans, þar sem allt er leyft í frelsisins nafni.

Undarlegt orð friður!

Friður er að segja – ekki þegja!
Friður er að standa upp – ekki lúffa!
Friður felst ekki í því að horfa í gaupnir sér – heldur aðhafast – gera – vera og þora.
Hafast það að, að þola ekki órétt, þola ekki að sumir safni auði með augun rauð – meðan aðra brauðið vantar – þar mun enginn friður ríkja.

Og hér – hér norður undir baugi heimskauts – hafa gengið og ganga lausir varúlfar og varmenni – hér ríkir enginn friður.

Sátt getur aldrei orðið um það að fólk sé borið út af heimilum sínum, vegna ráðslags stjórnmálamanna og þeirra legáta – allra síst á tímum er aðrir hafa svo stórt um sig að halda má að ístrum og undirhökum sé safnað til að fylla upp í plássið!

Friður felst ekki í undirgefni – heldur virðingu gagnkvæmri okkar á milli – manneskjanna.
Friður getur ekki byggt á hroka – hrokinn sem upphafning eigin sjálfs er ekki góður grunnur að byggja á.
Friður á ekki rætur í forsetaembætti sem talar ofan frá og samsamar sig þotuliði heimsins.
Stjórnvöld sem valdið hafa ófriði geta ekki leitt til friðar.

„O, ætli rauðsmýringum verði skotaskuld úr því að tapa því sem þér fá léð, bara ef þeir sjá sér hag í því,“ skrifaði Halldór Kiljan Laxness fyrir ríflega sjötíu árum.

Nei – Rauðsmýringum varð engin skotaskuld úr því – ekki fremur en lukkuriddurum dagsins sem hefur tekist svo dáindis vel að græða á því að tapa öllu sem þeir fengu léð af okkur – múgamönnum. Og meðan lukkuriddarar ganga lausir verður enginn friðurinn – meðan stjórnvöld styðjast við og styðja lukkuriddara – verður enginn friður.

    „rennur blóð eftir slóð
    og dilla ég þér jóð,“

segir um Gunnvöru er samning gerði við Kólumkilla á sínum tíma – enn er verið að gera samninga við Kólumkilla – en það er okkar að rifta þeim – hvort heldur um er að ræða samninga um beina og óbeina þátttöku í hernaði gegn öðrum – eða okkur sjálfum – eða landinu sem við byggjum og eigum að gæta fyrir afkomendur okkar

    „Sjálfgerðir fjötrar
    eru traustastir fjötra,“

segir skáldið Sigfús í Höndum og orðum – minnumst þess – rjúfum hina sjálfgerðu fjötra – sem og aðra! Fjötralaus erum við alls megnug til að ná friði – við þurfum ekki sprengjur – í mesta lagi einn skó – eða jafnvel tvo – sem við getum gripið til – í ítrustu neyð!

Birna Þórðardóttir
framkvæmdastjóri Menningarfylgdar Birnu ehf.
Veffang: www.birna.is
Netfang: birna@birna.is

Ávarp flutt af Bjarna E. Guðleifssyni á Ráðhústorginu á Akureyri í lok friðargöngu á Þorláksmessu 2008

By Uncategorized

Góðir tilheyrendur.

Stundum er hugtökum best lýst með andstæðum eða andheitum sínum. Andstæða ljóss er myrkur, andstæða hita er kuldi og andstæða friðar er stríð eða styrjöld. Friður er því ástand laust við átök og honum verður kannski best lýst með andstæðunni ófriði eða styrjöld. Hér mun ég tala um þrenns konar frið; heimsfrið, frið á milli manna og í þriðja lagi innri frið einstaklingsins, sálarfrið.

I
Fyrst er það heimsfriðurinn. Við höfum heyrt um tvær heimsstyrjaldir á nýliðinni öld og mörg okkar muna síðan eftir staðbundnum styrjöldum, Kóreu, Vietnam, Rúanda, Bosníu og enn geysa stríð í Palestínu, Írak og Afghanistan og í þessum þremur löndum eru innrásarherir sem ættu að hverfa heim. Það er skelfilegt að hugsa til allra þeirra milljóna manna og kvenna sem hafa látið lífið í þessum átökum, ég vil segja: að ástæðulausu. Einstaklingar með vonir og þrár eins og við, einstaklingar sem áttu bara eitt jarðlíf og það varð stutt og styrjöldinni að bráð. Og margir þeirra sem látast í átökum eru saklausir borgarar sem höfðu ekkert með átökin að gera. Enn fremur eru óteljandi þau mannslíf sem tapast í hungursneyðum sem eru afleiðingar átaka og nægir að nefna Darfúr í Súdan sem nýlegt dæmi. Oft er það gleymt um hvað menn byrjuðu að berjast, var það land, auðlind, fjármagn, trú, völd, andúð, kynþáttur eða menning? Allt eru þetta algjör aukaatriði og menn og þjóðfélagshópar eiga að geta lifað í sátt og samlyndi og leyst sín mál í góðu. Það er ekkert mál svo erfitt að það réttlæti manndráp. Eftir hverja styrjöldina á fætur annarri þá segja menn: „Aldrei aftur“, en samt gerist það aftur og aftur að hernaðarátök breiðast út. Við skulum leggja okkar af mörkum til að hjálpa stríðshrjáðu fólki og umfram allt að leggja okkar lóð á vogarskálar til að hindra styrjaldir, eða öllu heldur til að tryggja heimsfrið. Þrátt fyrir ýmis friðarráð og friðarverðlaun Nóbels og friðarsúlu á Íslandi þá hefur það ekki tekist. Við hneigjumst til að telja það hlutverk Sameinuðu þjóðanna að koma á friði og við bara hlustum á fréttirnar af voðaverkunum. En við eigum líka á þessu sviði verk að vinna á heimsvísu. Með þátttöku í friðargöngu sem þessari höfum við sýnt vilja í verki, samstöðu með þeim sem vilja koma á friði í heiminum.

Nú er hugtakið hryðjuverk og hryðjuverkamaður í tísku. Gengur það jafnvel svo langt að við umhverfisverndarsinnar erum einu nafni kallaðir hryðjuverkamenn vegna þess að við höfum aðra sýn á framtíð landsins en stórvirkjanir og byggingu álvera. Og hryðjuverkalögum er óspart beitt svo sem við fengum að reyna frá Bretum í kreppunni. Mér hefur reyndar löngum þótt hryðjuverkalög afar hæpin og ganga allt of langt til dæmis ef menn eru settir í fangelsi vegna þess að þeir hafa bara hugsað sér að gera eitthvað. Og þessum mönnum er svo haldið föngnum langa hríð án dóms og laga. Ég óttast reyndar að svonefnd barátta gegn hryðjuverkum kunni að vekja upp fleiri nýja hryðjuverkamenn en hún eyðir.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi varar okkur við kjarnorkusprengjum og segir:

    Við refsum bjálfum, sem ræna og fremja svik,
    og rónum, sem neyta víns og gerast trylltir.
    En foringjar þjóða, sem framleiða geislaryk
    og fylla loftið eitri – þeir eru hylltir.

Ísland stendur ekki í neinum hernaðarátökum núna og ég var afar ánægður með það hvernig lokun herstöðvarinnar á Miðnesheiði reyndist ekki vera sú ógnun sem spáð var, heldur tækifæri, sem menn eru núna að nýta í þágu menntunar.

Þetta var svolítið um heimsfriðinn. Kannski lýsti ég honum of mikið með andheiti sínu, styrjöldunum. Drápin og eyðileggingin í styrjöldunum er geigvænleg, og Halldór Laxness segir í ljóði sem hann nefnir Stríðið:

    Spurt hef ég tíu milljón manns
    sé myrtir í gamni utanlands:

og svo segir hann:

    Afturámóti var annað stríð
    undir grjótkletti forðum tíð,
    það var allt útaf einni jurt
    sem óx í skjóli og var slitin burt.

Þarna hugsar ljóðmælandinn til dóttur sinnar, hennar Ástu Sóllilju, sem hann sinnti ekki sem skyldi og missti því frá sér, og hann segir í framhaldinu:

    því hvað er auður og afl og hús
    ef engin jurt vex í þinni krús.

II
Já við skulum hlúa að börnunum okkar og náunga okkar hver sem hann er. Út frá þessum orðum Halldórs Laxness skulum við í annan stað aðeins fjalla um frið milli manna, einstaklinga. Undir það heyrir til dæmis heimilisfriðurinn, sem við skulum leggja áherslu á að rækta. Að vísu ríkir kreppa hér á landi og menn eru reiðir og mótmæla og gera kröfur á strjórnvöld um ábyrgð og breytingu. Það er eðlileg og réttmæt krafa og kannski verður þessi nýja staða þjóðarbúsins til þess að þjappa okkur saman, þannig að við gerum okkur grein fyrir því að „auður og afl og krús“ er einskis virði „ef engin jurt vex í þinni krús“, það er ef við hlúum ekki að börnunum og náunganum. Við skulum stunda frið við alla menn þannig að lífsganga okkar verði samfelld gleði- og friðarganga. Það er ekkert ömurlegra en að vera í eilífu stríði við náungann og þá um leið við allt umhverfi sitt.

III
Og að lokum og í þriðja lagi nokkur orð um sálarfriðinn. Oft er sagt að við eigum að vera sátt við Guð og menn. Við höfum þegar rætt um nauðsyn þess að eignast frið við menn. Við getum auðveldlega eignast frið við Guð, sálarfrið, með því að snúa okkur til Guðs og biðjast fyrirgefningar á syndum okkar. Og aldrei verður boðskapurinn um frið augljósari en á jólunum. Þá minnumst við fæðingar frelsarans, hans sem frelsar okkur frá syndinni og englarnir á Betlehemsvöllum sögðu: „Friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.“ Síðar sagði frelsarinn, sem einnig var nefndur friðarhöfðingi: „Minn frið gef ég yður“ og gerir skýran greinarmun á friði milli manna og sálarfriðnum.

Við skulum leitast við að stuðla að heimsfriði og friði manna á milli og taka með fögnuði á móti boðskap jólanna um frelsarann sem veitir frið þannig að hjá okkur ríki einnig friður Guðs, sálarfriður. Þá erum við sátt við Guð og menn.

Ég þakka ykkur fyrir samveruna þessa stund og óska ykkur öllum gleðilegra jóla.

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Uncategorized

fridarmerkidÍslenskir hernaðarandstæðingar standa fyrir friðargöngum á Þorláksmessu líkt og undanfarin ár.

Í Reykjavík verður gengið niður Laugaveginn. Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðargangan á Þorláksmessu er nú orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Gangan í ár er sú tuttugasta og níunda röðinni. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi í upphafi göngunnar.

Í lok göngu verður efnt til fundar á Ingólfstorgi þar sem Birna Þórðardóttir framkvændastjóri Menningarfylgdar Birnu flytur ávarp en fundarstjóri er Lárus Páll Birgisson sjúkraliði. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar.

* * *

Á Akureyri verður blysför í þágu friðar. Gengið verður frá Samkomuhúsinu í Hafnarstræti kl. 20.00 og út á Ráðhústorg.

Gefum almennum orðum um frið innihald. Sýnum andstöðu við stríð og yfirgang. Hernaðarleg útrás og yfirgangur vestrænna stórvelda í Austurlöndum nær er í engu skertur – né heldur stuðningur Íslands við hann.

Sýnum hug okkar um stríðið og friðinn.
Kjörorð okkar eru:
– Frið í Írak og Afganistan!
– Burt með árásar og hernámsöflin!
– Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!

Ávarp flytur Bjarni E. Guðleifsson náttúrufræðingur.
Kórsöngur og almennur söngur. Kerti verða seld í upphafi göngunnar.
Frumkvæði: Samtök hernaðarandstæðinga.

* * *

Friðarganga á Ísafirði verður með hefðbundnu sniði og hefst klukkan 18 á Þorláksmessu. Gengið verður frá Ísafjarðarkirkju niður á Silfurtorg. Ræðumenn dagsins verða Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða og Matthildur Helgadóttir og Jónudóttir. Að auki verður tónlistar- og ljóðaflutningur.

Fjárlagafrumvarpið: 1,6 milljarður í hernaðarmál

By Uncategorized

Samkvæmt fjárlögum 2009 er gert ráð fyrir að tæplega einn og hálfur milljarður fari í kostnað við Varnarmálastofnun, nánar tiltekið 1409,4 milljónir króna.

Frumvarp til varnarmálalaga, sem fól í sér að Varnarmálastofnun yrði komið á fót, var lagt fram á Alþingi 15. janúar 2008 og samþykkt 29. apríl. Liðurinn „Varnarmálastofnun“ var því ekki í fjárlögum 2008, en þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna reksturs Varnarmálastofnunar yrðu 1.356 milljónir króna á árinu 2008. Í athugasemdum við fjárlagafrumvarpið 2009 er þessi tala 1.356,1 milljónir króna og skiptist í tvo liði, „varnarmál“ og „Ratsjárstofnun“.

Útgjöld til Varnarmálastofnunar hækka því milli ára um 53,3 milljónir eða 3,9%. Í frumvarpinu er þetta reyndar sagt vera 58,5 milljóna króna lækkun að raungildi frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar launa- og verðlagshækkanir til næsta árs.

Í þessum tölum er ekki talið framlag Íslands til NATO. Undir liðnum „alþjóðastofnanir“ er Atlanthafsbandalagið með 70,8 milljónir króna en var á árinu 2008 65,2 milljónir króna. Hækkunin nemur 5,6 milljónum króna eða 8,9%

Enn er ótalinn kostnaður vegna fastanefndar Íslands hjá NATO, en hann er samkvæmt frumvarpinu 123,9 milljónir króna en var á árinu 2008 94 milljónir. Hækkunin er 29,9 milljónir eða 31,8%.

Útgjöld ársins 2008 urðu reyndar talsvert meiri því að í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2007 var gert ráð fyrir 832 milljónum sem bættust við þau útgjöld sem fjárlagafrumvarpið 2008 gerði ráð fyrir. Þetta voru útgjöld vegna heræfinga, öryggissvæðisins við Keflavíkurflugvöll, loftflutninga fyrir NATO, ársþings þingmannanefndar NATO og aukakostnaðar vegna Ratsjárstofnunar.

Ef við tökum saman tölurnar úr fjárlögunum fyrir 2008 og 2009 lítur dæmið svona út:

Fjárlög 2009:
• Varnarmálastofnun: 1.409,4 milljónir króna
• NATO: 70,8 milljónir króna
• Fastanefnd Íslands hjá NATO: 123,9 milljónir króna
Samtals: 1604,1 milljónir króna

Fjárlög 2008:
• Varnarmálastofnun: 1.356,1 milljónir króna
• NATO: 65,2 milljónir króna
• Fastanefnd Íslands hjá NATO: 94 milljónir króna
Samtals: 1515,3 milljónir króna

Hækkun milli ára: 88,8 milljónir króna eða 5,9%

Aðild Íslands að NATO er algerlega gagnslaus og auðvitað verri en það því að NATO er beinlínis skaðlegt. Framlögin til NATO og fastanefndarinnar, samtals 194,7 milljónir króna, mætti því spara algerlega. Starfsemi Varnarmálstofnunar snýst að verulegu leyti um verkefni Íslands vegna aðildarinnar að NATO, en útgjöld vegna Ratsjárstofnunar eru einnig innan ramma hennar. Það er spurning að hve miklu leyti starfsemi Ratsjárstofnunar er nauðsynleg, en eitthvað mætti þó trúlega draga úr útgjöldum vegna hennar ef þessi tenging við hernaðarlega starfsemi yrði rofin. Útgjöld vegna Ratsjárstofnunar samkvæmt fjárlögum 2008 voru 822,3 milljónir króna en í frumvarpinu fyrir 2009 kemur engin sundurliðun fram. Ef við reiknum með svipuðum útgjöldum 2009, þá er annar kostnaður við Varnarmálstofnun 587,1 milljónir króna, sem er þarflaus. Samtals mætti því allavega spara að minnsta kosti 781,8 milljónir króna og sennilega miklu meira.


Fjárlagafrumvarp 2009, 1. umræða. Sundurliðun
Fjárlagafrumvarp 2009. Seinni hluti: Lagagreinar og athugasemdir
Fjárlagafrumvarp 2008, 1. umræða. Sundurliðun
Fjárlög 2009 á vef Alþingis – ferill málsins, skjöl ug umræður
Vefur Varnarmálastofnunar: verkefni

– eó

Bulletin á netinu

By Uncategorized

BulletinBulletin of the Atomic Scientists er líklega kunnasta og virtasta tímarit heims á sviði afvopnunarmála. Frá því að útgáfa þess hófst árið 1945, hefur blaðið verið í fararbroddi þeirra sem bent hafa á ógnir kjarnorkuvígbúnaðar, auk þess að fjalla um hernaðarmál almennt.

Fræg er “dómsdagsklukkan” svokallaða, sem verið hefur í haus blaðsins frá árinu 1947. Hún sýnir klukku sem vantar fáeinar mínútur í miðnætti. Hópur sérfræðinga á vegum blaðsins metur reglulega stöðu heimsmála og hverjar líkurnar séu á beitingu kjarnorkuvopna og “stillir klukkuna” með tilliti til þess.

Nú hefur verið lokið við að skanna inn fjölda árganga af þessu merka blaði inn á Google-tímaritavefinn. Nánar tiltekið má þar lesa öll eintök frá árinu 1945-1998. Sjálfsagt er að hvetja hernaðarandstæðinga sem og annað áhugafólk um alþjóðamál til að nýta sér þessa góðu þjónustu.

Utanríkisráðherra undirritar samning um bann við klasasprengjum og fagnar gagnflaugakerfi Bandaríkjanna

By Uncategorized

Utanríkisráðherra Íslands var á annasömu ferðalagi í byrjun desember. Dagana 4. til 5. desember sat hún ráðherrafund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Helsinki.

Þar flutti hún ávarp og komst meðal annars svo að orði: „Ég vona að okkur sé öllum ljóst að virkilegu samevrópsku öryggi verður ekki náð með því einfaldlega að tryggja að við séum betur vopnuð. Það er reyndar sérstaklega aðkallandi að standa vörð um grundvallarsamninginn um vopnaeftirlit í Evrópu, CFE-samninginn (Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu/Treaty on Conventional Armed Forces in Europe).“

Sjá nánar:
Utanríkisráðuneytið: Utanríkisráðherra ávarpar ráðherrafund ÖSE

Samningur um bann við klasasprengjum

Miðvikudaginn 3. desember kom utanríkisráðherrann við í Osló og undirritaði þar alþjóðlegan samning um bann við klasasprengjum. Samningurinn bannar þróun, framleiðslu, notkun, birgðasöfnun og afhendingu klasasprengja.

Alls voru það fulltrúar 110 ríkja sem undirrituðu samninginn í Osló á miðvikudag og fimmtudag, en búist er við að allmörg ríki til viðbótar undirriti hann á næstunni. Það veldur hins vegar áhyggjum að nokkur mikilvæg ríki hafa ekki sýnt vilja til að undirrita hann, þar á meðal Bandaríkin, Rússland, Kína, Indland, Pakistan og nokkur Miðausturlönd. En til þess var tekið að Afganistan sá sig um hönd á síðustu stundu og undirritaði samninginn í blóra við vilja Bandaríkjanna að sögn New York Times, sem segir þetta til merkis um viðleitni afgönsku ríkisstjórnarinnar til að sýna sjálfstæði gagnvart Bandaríkjunum.

Sjá nánar:
Utanríkisráðuneytið
New York Times
BBC
Cluster Munition Coalition

Utanríkisráðherrar NATO styðja gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna

Dagana 2. til 3. desember var haldinn í Brussel utanríkisráðherrafundur NATO. Ályktun fundarins (final communiqué) var afgreidd fyrri daginn. Þar var farið yfir ýmis málefni, einkum varðandi áframhaldandi stækkun og þróun NATO.

Í 32. lið ályktunarinnar er fjallað um gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna:

„Útbreiðsla langdrægra eldflauga (ballistic missiles) er vaxandi ógn við herafla bandalagsins, yfirráðasvæði þess og íbúa. Eldflaugavarnir eru hluti víðtækari viðbragða gagnvart þessari ógn. Þess vegna fögnum við því mikilvæga framlagi til verndar bandalagsríkjunum gegn langdrægum eldflaugum sem felst í fyrirhuguðum gagnflaugastöðvum Bandaríkjanna í Evrópu. Að fyrirlagi Búkarest-fundarins erum við að kanna leiðir til að tengja þessa getu við núverandi átak NATO til eldflaugavarna sem leið til að tryggja að hægt verði að samþætta hana eldflaugavörnum sem í framtíðinni munu ná til NATO í heild.“ Fjallað er nánar um þetta, samningum við Tékkland og Pólland um aðstöðu vegna gagnflaugakerfis Bandaríkjanna er fagnað og boðað að þessar áætlanir verði þróaðar áfram, fjallað um þær nánar á fundi varnarmálaráðherra NATO í Kraká í febrúar og skýrsla síðan lögð fyrir leiðtogafund bandalagsins á 60 ára afmæli þess í byrjun apríl 2009.

Ekki er neina frétt að finna um þetta á vef utanríkisráðuneytisins né neinum íslensku fjölmiðli, en í frétt frá Associated Press 3. desember er sagt að allir utanríkisráðherrar NATO hafi undirritað yfirlýsingu um stuðning við þróun gagnflaugastöðva í Póllandi og Tékklandi.

Þess má geta að leiðtogafundur NATO í Búkarest í byrjun apríl 2008, sem utanríkisráðherra og forsætisráðherra sátu, lýsti líka samstöðu við gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna, þótt utanríkisráðherra myndi það ekki nokkrum mánuðum seinna.

Árið 2002 sögðu Bandaríkin einhliða upp ABM-samningnum frá 1972 um takmörkun gagnflaugakerfa vegna áforma sinna um að setja upp gagnflaugakerfi. Ásamt öðrum þáttum, svo sem útþenslu NATO til austurs, er uppsögn Bandaríkjanna á ABM-samningnum og uppsetning gagnflaugakerfisins af mörgum talin mikilvæg ástæða þess að Rússar sögðu sig frá CFE-samingnum umhefðbundin vopn í Evrópu árið 2007.

Það má því svo sannarlega taka undir áður tilvitnuð orð utanríkisráðherra á ÖSE-fundinum í Helsinki. Hitt er verra ef samhengið rofnar á ferðalagi milli þriggja evrópskra borga á þremur dögum – nema við lítum svo á að með yfirlýsingunni í Helsinki hafi yfirlýsingin í Brussel orðið úrelt. Gagnlegt væri að fá álit utanríkisráðherra á því.

Sjá nánar:
Meeting of NATO Foreign Ministers 2.-3. Dec. 2008. Final communiqué
NATO backs US missile shield over Russian protest – Associated Press
Misminni utanríkisráðherra
Gagnflaugakerfið og „virka utanríkisstefnan“
Bandarísk eldflaugastöð í Póllandi
Samkomulag um gagnflaugastöð undirritað í Prag

Tilvitnanir lauslega þýddar úr ensku af -eó