Monthly Archives

November 2008

Glæsileg menningardagskrá

By Uncategorized

sk  ldÞað verður boðið upp á vandaða menningardagskrá á fjáröflunarmálsverði og fullveldishátíð SHA n.k. föstudag (sjá frétt hér að neðan).

* Hörður Torfason mætir og les úr nýútkominni ævisögu sinni, sem rithöfundurinn Ævar Örn Jósepsson hefur skráð. Hörður hefur sem kunnugt er staðið í ströngu undanfarnar vikur sem skipuleggjandi fjöldafunda og -mótmæla.

* Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir mun kynna nýjustu skáldsögu sína.

* Hjálmar Sveinsson mun ræða og sýna heimsmynd listamannsins og herstöðvaandstæðingsins Gylfa Gíslasonar, en Hjálmar hefur nýverið gefið út bók um líf og störf Gylfa.

Þetta má enginn láta fram hjá sér fara!

Fullveldisfögnuður SHA, 28. nóv.

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudaginn 28. nóvember n.k. Matseðillinn verður venju fremur glæsilegur, enda um hálfgert jólahlaðborð SHA að ræða.

Guðrún Bóasdóttir (Systa) eldar. Matseðillinn er á þessa leið:

* Heimalöguð sænsk jólaskinka með karöflusalti, gulrótar appelsínusalati og sinnepssósu

* Heimagerð lifrakæfa (verður borin fram heit) og heimagert rúgbrauð

* Reykt nautatunga með piparrótarrjóma

* Karrýsíld

* Tómatsalsasíld

* Fyrir þá sem ekki borða kjöt verður hnetusteik á boðstólum

* Kaffi og smákökur

Borðhald hefst kl. 19:00 en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Verð kr. 1.500.

Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtidagskrá, sem kynnt verður síðar.

Frumvarp um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

By Uncategorized

Í dag, 17. nóvember, var í níunda sinn lagt fram á Alþingi frumvarp um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum. Síðast var frumvarpið lagt fram í lok febrúar í fyrra en kom ekki til umræðu. Þá voru flutningsmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum. Svo er einnig nú og er frumvarpið reyndar lagt fram óbreytt frá því í fyrra. Flutningsmenn eru Steingrímur J. Sigfússon, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ellert B. Schram, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Kristinn H. Gunnarsson, og Katrín Jakobsdóttir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Á því hálfa ári sem er frá framlagningu frumvarpsins hefur það helst borið til tíðinda að fleiri kalla nú á friðlýsingu Norðurpólsins fyrir kjarnorkuvopnum. Til marks um það eru yfirlýsingar hinna kanadísku Pugwash-samtaka friðarsinnaðra vísindamanna og hvatning japanska friðarfrömuðarins Daisaku Ikeda, en bæði Pugwash og Ikeda eru handhafar friðarverðlauna Nóbels. Verði af friðlýsingunni eykur það enn á mikilvægi þess að Ísland geri slíkt hið saman, enda færðust flutningaleiðir kjarnorkuvopna þá í einhverjum tilvikum nær landinu en ella.“

Sjá frumvarpið hér: www.althingi.is/altext/136/s/0163.html

Á landsráðstefnu SHA, sem haldin var síðastliðinn laugardag, 15. nóvember, var samþykkt ályktun þar sem lýst var stuðningi við þetta frumvarp og þingmenn hvattir til að samþykkja það. Það ætti ekki að þurfa að eyða löngum tíma í svo sjálfsagt og margflutt mál, þannig að við hljótum að vona að þingið taki það til afgreiðslu sem fyrst. Sjá nánar Ályktun um kjarnorkuvopnafriðlýsingu landsins.

Sjá nánar um hugmyndina um kjarnorkuvopnalaust norðurskaut:

„Let’s keep the Arctic free of nukes,“ International Herald Tribune, 21. mars 2008
Dr. Adele Buckley, „Establishing a nuclear weapon free zone in the Arctic,“ Thinkers Lodge, Pugwash, NS, Canada, July 11, 2008 (pdf-skjal)
„Canadian Pugwash Call for an Arctic Nuclear-Weapon Free Zone,“
24 August 2007 (pdf-skjal)

Sjá einnig „NPT-samningurinn og kjarnorkuafvopnun“

Ný miðnefnd SHA

By Uncategorized

Nú miðnefnd SHA var kjörinn á landsráðstefnu þann 15. nóvember. Hana skipa:

Aðalmenn:
Auður Lilja Erlingsdóttir
Elías Jón Guðjónsson
Elín Sigurðardóttir
Magnús Björn Ólafsson
Sigurður Flosason
Stefán Pálsson (formaður)
Þorvaldur Þorvaldsson
Þórður Sveinsson
Þórunn Ólafsdóttir

Varamenn:
Haukur Þorgeirsson
Kolbeinn Hólmar Stefánsson
Þórhildur Halla Jónsdóttir

Rétt er að taka fram að hefð er fyrir því innan SHA að gera ekki greinarmun á aðal- og varamönnum. Þá hefur ritstjóri Friðarvefsins, Einar Ólafsson, verið ígildi þrettánda miðnefndarmannsins og setið alla fundi.

Ályktanir landsráðstefnu SHA – III

By Uncategorized

Ályktun um kjarnorkuvopnafriðlýsingu landsins:

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa fullum stuðningi við frumvarp sem þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum öðrum en Sjálfstæðisflokknum hafa lagt fram um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum. SHA höfðu á sínum tíma forgöngu um að fá sveitarstjórnir til að lýsa yfir stofnun kjarnorkuvopnalausra svæða og hafa nú langflest sveitarfélög landsins gert slíkar samþykktir. Landsfundur SHA hvetur kjörna fulltrúa á Alþingi til að fylgja fordæmi kollega sinna af sveitastjórnarstiginu og samþykkja tafarlaust þetta brýna mál.

Jafnframt hvetja SHA íslensk stjórnvöld til að tala máli kjarnorkuafvopnunar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Alltof oft hefur það gerst á liðnum árum að Ísland hafi setið hjá eða greitt atkvæði gegn tillögum af þessu tagi á allsherjarþingi SÞ. Oftar en ekki hafa íslendingar þá verið að fylgja fordæmi annarra Nató-þjóða, en kjarnorkuvopnastefnan er sem kunnugt er einn af hornsteinum bandalagsins.