Monthly Archives

September 2008

Málsverður, föstudagskvöld

By Uncategorized

salatFjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 3. október. Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina og leikur haustuppskeran aðalhlutverkið í matnum að þessu sinni:

* Buff Stroganoff

* Rótarávextir í karrí

* Réttirnir verða bornir fram með hrísgrjónum, kartöflum og salati.

* Kaffi og kaka hússins

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur tekur lagið.

Verð kr. 1.500. Borðhald hefst kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Allir velkomnir.

Evrópski samfélagsvettvangurinn í Malmö 17.-21. september

By Uncategorized

esf2008 Dagana 17. til 21. september síðastliðinn var fimmti Evrópski samfélagsvettvangurinn (Europan Social Forum – ESF) haldinn í Malmö í Svíþjóð, en sá fjórði var haldinn í Aþenu í maí 2006. Þar áður var hann í London í október 2004 (sjá frásögn af honum hér) og París 2003, en fyrst var hann haldinn í Flórens árið 2002 (sjá frásögn af honum hér).

Á vefsíðu ESF 2008 er sagt að um 13 þúsund manns hafi sótt samkomur á vettvangnum en um 15 þúsund manns hafi tekið þátt í þriggja tíma göngu um borgina laugardaginn 20. september þar sem haldið var uppi kröfunni um öðruvísi Evrópu og öðruvísi veröld.

esf2008 2

Meðal annarra stóðu friðarhreyfingar fyrir fundum og fyrirlestrum og réðu ráðum sínum um friðarbaráttuna á næstunni og undirbúning að mótmælum gegn NATO næsta vor í tilefni af 60 ára afmæli hernaðarbandalagsins, og verður sagt nánar frá þessum fundum á næstunni.

Þriðjudaginn 7. október munu tveir félagar úr MFÍK, þær Guðríður Sigurbjörnsdóttir og Anna Sigríður Hróðmarsdóttir, segja frá ferð sinni á ESF í Malmö í Friðarhúsinu.

Sjá nánar:

http://www.esf2008.org
http://openesf.net
http://www.wsflibrary.org
http://en.wikipedia.org/wiki/European_Social_Forum
http://www.forumsocialmundial.org.br
http://europeanpeaceaction.org

Málsverðurinn frestast!

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss sem vera átti í dag, föstudag, frestast um viku vegna veikinda.

Ný dagsetning er föstudagskvöldið 3. október.

Beðist er velvirðingar á ónæði sem þessi breyting kann að hafa í för með sér.

Komum taumhaldi á vopnin

By Uncategorized

Amnesty International hefur undanfarin fimm ár staðið að herferðinni „Komum taumhaldi á vopni“ ásamt samtökunum Oxfam og International Action Network on Small Arms (IANSA). Amnesty International sendi félögum sínum nýlega áminningu um þessa herferð:

Vöktum gerð vopnaviðskiptasáttmála
Taktu þátt í að þrýsta á gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasáttmála

Á hverju ári líða milljónir manna fyrir óábyrg vopnasöluviðskipti, um heim allan. Um eitt þúsund einstaklingar láta lífið af vopna völdum á hverjum degi, og enn fleiri særast eða þurfa að þola pyndingar og illa meðferð af hendi vopnaðra aðila. Afleiðingar þessa á innviði samfélagsins eru jafnframt alvarlegar. Í fjölda landa sligast ekki einungis heilbrigðiskerfið undan álaginu heldur jafnframt efnahagurinn, sérstaklega þar sem hann er bágur fyrir. Gegndarlaus verslun með vopn viðheldur víða fátækt og mismunun.

Frá því að herferð Amnesty International, Oxfam og International Action Network on Small Arms (IANSA), Komum böndum á vopnin hófst í október 2003 hafa rúmlega milljón einstaklinga skrifað nafn sitt á undirskriftalista til stuðnings við gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasáttmála.

Sáttmálinn hefur þann tilgang að styrkja eftirlit með vopnaviðskiptum og koma í veg fyrir ólöglega vopnasölu. Nauðsyn á alþjóðlegum vopnaviðskiptasáttmála er brýn, ef koma á í veg fyrir að vopn falli í rangar hendur og stuðli að alvarlegum mannréttindabrotum og brotum á mannúðarlögum.

Samþykkt alþjóðlegs vopnaviðskiptasáttmála mun tryggja að vopn verði ekki seld til landa þar sem mannréttindabrot eru í hámarki og hætta er á vopnuðum átökum.

Í desember 2006 náðist mikilvægur áfangi í herferðinni þegar 153 ríki Sameinuðu þjóðanna greiddu atkvæði með gerð vopnaviðskiptasáttmála. Miklu varðar að halda Sameinuðu þjóðunum við efnið í aðdraganda Allsherjarþingsins í október á þessu ári. Skilaboðin eru þau að heimurinn fylgist með og vaktar vinnu þessara þjóða við gerð sáttmálans.

Þú getur hjálpað með því að styðja herferðina, Komum böndum á vopnin og þrýst á ríki heims að ljúka við gerð vopnaviðskiptasáttmála hið fyrsta.

Sjá nánar á vef AI:
KOMUM TAUMHALDI Á VOPNIN

Málsverðurinn frestast!

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss sem vera átti á morgun, föstudag, frestast um viku vegna veikinda.

Ný dagsetning er föstudagskvöldið 3. október.

Beðist er velvirðingar á ónæði sem þessi breyting kann að hafa í för með sér.

Fyrsti málsverður haustsins

By Uncategorized

Hinir feykivinsælu fjáröflunarmálsverðir Friðarhúss hefjast á ný n.k. föstudagskvöld, 26. september.

Systa sér um eldamennskuna, en matseðillinn er enn um sinn hulinn dularhjúp. Hann verður þó í anda haustsins.

Borðhald hefst kl. 19:00, en húsið verður opnað hálftíma fyrr.

Það er engin verðbólga í Friðarhúsi og maturinn sem fyrr á litlar 1.500 krónur.

Gagnflaugakerfið og „virka utanríkisstefnan“

By Uncategorized

eftir Finn Dellsén

Eftirfarandi grein birtist í vefritinu ogmundur.is 12. september

Ein glórulausasta hervæðingarárátta síðustu ára er gagneldflaugavarnarkerfið – stjörnustríðsáætlunin svokallaða – sem Bandaríkjamenn eru nú óða önn að koma upp í Austur-Evrópu. Eins og gefur að skilja brýtur það gegn ABM-samningnum svokallaða um takmörkun gagneldflauga og gegn vígbúnaði í geimnum, sem Bandaríkjamenn eru aðilar að, auk þess sem það er í andstöðu við Samninginn um takmörkun kjarnorkuvopna (NPT), enda leiðir eldflaugavarnarkerfið fyrirsjáanlega til þess að aðrar þjóðir sjá sig knúnar til að auka kjarnorkuvígbúnað sinn á móti.

Eini ljósi punkturinn í uppbyggingu kerfisins er sennilega að hingað til hefur kerfið reynst algjörlega gagnslaust, þrátt fyrir stanslausar tilraunir í meira en 25 ár sem kostað hafa á bilinu 107 og 150 milljarða bandaríkjadala (það er u.þ.b. tvöföld landsframleiðsla Íslands í fyrra). Ef hervæðing væri rökleg og byggðist á raunverulegum ógnum en ekki móðursýki og hagsmunum vopnaframleiðenda, þá hefði kerfið því engin áhrif á vígvæðingu annarra ríkja. Það er því miður ekki tilfellið; Rússar svöruðu þessum áformum til dæmis nýlega með því að draga sig út úr Samningnum um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu og auka viðbúnað sinn.

Norðmenn hafa lagst gegn kerfinu á vettvangi NATO, enda er kveðið á um það í stjórnarsáttmála norsku rauðgrænu ríkisstjórnarinnar. Margir vonuðust til að íslensk stjórnvöld gerðu hið sama eða tækju í það minnsta undir með Norðmönnum. En í Kastljósþætti mánudaginn 25. ágúst var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, spurð um gagneldflaugakerfið og aðkomu NATO. Ingibjörg kannaðist ekki við að málið hefði verið rætt á vettvangi NATO og gaf í skyn að hún kæmi ekki til með að styðja slíkt kerfi ef það kæmi til umræðu innan hernaðarbandalagsins.

Þetta kom mörgum í opna skjöldu því þarna talaði sami utanríkisráðherra og fór í vor á fund NATO í Búkarest – fljúgandi í einkaþotu eins og frægt er orðið – þar sem ein af helstu niðurstöðunum var einmitt að bandalagið tók undir nauðsyn þess að koma gagneldflaugakerfinu á. Orðrétt segir í ályktun fundarins: „We […] recognise the substantial contribution to the protection of Allies from long-range ballistic missiles to be provided by the planned deployment of European-based United States missile defence assets.“ Þetta var ein allra umdeildasta og umræddasta niðurstaða fundarins og afar ólíklegt, svo ekki sé meira sagt, að utanríkisráðherra með allt sitt fylgdarlið úr einkaþotunni hafi ekki tekið eftir því sem meðaljóninn heima í stofu gat vitað með því að lesa dagblöð og hlusta á fréttir.

Tvær meginskýringar koma þá til greina:

(1) Utanríkisráðherra sat ekki fundinn (og fór þá væntanlega sem túristi til Rúmeníu – ekki amalegt að gera það í einkaþotu).

(2) Gagneldflaugamálið er enn eitt dæmið um tvískinnunginn í utanríkisstefnu íslensku ríkisstjórnarinnar, sem snýst um að taka aldrei sjálfstæða afstöðu á alþjóðlegum vettvangi en gorta sig svo heima fyrir af „virkri utanríkisstefnu“ eins og það heitir nú á nýmáli utanríkisráðherra.

Aths. ritstjóra Friðarvefsins: Þess má geta í framhaldi af þessari grein Finns Dellsén að 14. apríl 2008, í kjölfar Búkarestfundarins, sendu SHA utanríkisráðherra, forsætisráðherra og formanni og varaformanni utanríkismálanefndar bréf með fyrirspurnum um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar varðandi ýmis atriði í yfirlýsingu fundarins, þar á meðal það sem hér er gert að umræðu. Bréfið er að finna hér.

Sjá einnig grein hér á Friðarvefnum 26. ágúst, „Misminni utanríkisráðherra“