Monthly Archives

July 2008

Álrisarnir og hergagnaiðnaðurinn – fræðslufundur í Friðarhúsi

By Uncategorized

Samarendra Das er inverskur rithöfundur, kvikmyndagerðamaður og aktívisti, sem berst gegn menningarlegum þjóðarmorðum í þriðja heiminum í tengslum við báxítgröft fyrir álframleiðslu.

Um þessar mundir er þessi kunni aktívisti hér á landi á vegum samtakanna Saving Iceland og stendur fyrir fræðslufundi í Friðarhúsi þriðjudagskvöldið 22. júlí kl. 20.

Efni fundarins er tengsl álrisanna við hergagnaiðnaðinn og stríðsrekstur.

Allir velkomnir!

Samtök hernaðarandstæðinga

Friðflytjendur í Sundahöfn

By Uncategorized

Greinin birtist í Morgunblaðinu, miðvikudaginn 16. júlí.

Góðir gestir sóttu Reykvíkinga heim hinn þriðja júlí síðastliðinn. Þar var á ferðinni japanskt friðarfley sem hafði hér skamma viðdvöl á ferð sinni umhverfis hnöttinn. Sögu þessa merkilega skips má rekja aftur til ársins 1983, þegar hópur japanskra háskólastúdenta skipulagði siglingu til Kóreu. Tilgangurinn var að kynna sér sögu þeirra ofbeldisverka sem japanski herinn bar ábyrgð á þar í landi, en japönsk stjórnvöld hafa með ýmsum hætti reynt að þagga niður alla umræðu um þetta svarta tímabil í sögu þjóðarinnar.
Á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er hefur friðarfleyið og áhöfn þess siglt um heimshöfin og reynt að vekja fólk til umhugsunar um friðar- og afvopnunarmál. Í seinni tíð hefur sérstök áhersla verið lögð á að kynna fyrir þjóðum heims níundu grein japönsku stjórnarskráarinnar, sem felur í sér bann við stríðsrekstri. Er hvatt til þess að önnur ríki leiði slíkt í lög. Óskandi er að Alþingi Íslendinga verði við þessu kalli.

Í vinnu þeirri sem fram fór við endurskoðun stjórnarskrárinnar á síðasta kjörtímabili lögðu Samtök hernaðarandstæðinga raunar til að bætt yrði við ákvæði sem bannaði stjórnvöldum að segja öðrum ríkjum stríð á hendur. Sú tillaga hlaut því miður ekki náð fyrir augum nefndarinnar og lýsti Þorsteinn Pálsson, þáverandi varaformaður stjórnarskráarnefndar, sig sérstaklega andsnúinn henni. Taldi hann slíkt ákvæði binda hendur ríkisstjórnarinnar um of.

Burt með herskipin

Í tengslum við komu friðarfleysins var skipulögð samkoma á Skarfabakka í Sundahöfn í samvinnu við Reykjavíkurborg. Staðsetningin var engin tilviljun, nálægðin við friðarsúlu Yoko Ono varð til þess að hinir erlendu friðflytjendur vildu hvergi annars staðar vera.
Borgarstjórinn í Reykjavík, Ólafur F. Magnússon, flutti ræðu á samkomunni og ræddi um hlutverk Reykjavíkur sem friðarborgar. Var góður rómur gerður að máli hans. Hins vegar varð sumum gestanna illa brugðið þegar þeim var sagt að á ári hverju væri þessi sami staður vettvangur fyrir kurteisisheimsóknir erlendra herskipa og að oftar en ekki væri almenningur hvattur til að skoða skipin og sýna þau börnum sínum.

Viðmælendur mínir áttu bágt með að skilja hvernig stjórnendur borgarinnar teldu það geta farið saman að ræða um friðarborgina Reykjavík, en heimila á sama tíma vígtólasýningar á tröllauknum herskipum steinsnar frá friðarsúlunni víðfrægu.

Það er lofsvert framtak hjá Reykjavíkurborg og borgarstjóra að standa að samkomum þar sem vakin er athygli á mikilvægi friðar- og afvopnunarbaráttu. Enn mikilvægara er þó að ráðamenn geri sér grein fyrir því að efndir verða að fylgja orðum í öllu tali um friðarborgina Reykjavík. Kurteisisheimsóknir Nató-skipa hafa engu jákvæðu hlutverki að gegna. Burt með herskipin úr höfnum borgarinnar!

Stefán Pálsson
Höfundur er formaður Samtaka hernaðarandstæðinga

Óttinn er slæmur ráðgjafi – Hugleiðing um sjálfsforræði

By Uncategorized

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu, en er hér óstytt.

Fyrir fjörutíu árum var svokölluð viðreisnarstjórn hér á Íslandi. Gylfi Þ. Gíslason mun hafa verið viðskiptaráðherra. Eftir að hafa heimsótt ráðamenn í V. Þýskalandi, lét hann svo ummælt að eina leiðin til að halda sjálfstæðinu, kynni að vera sú að fórna því. Það er að segja, ganga í Evrópusambandið Núverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. hefur sömu trú. Öll þessi fjörutíu ár hefur þessum stóra sannleik verið haldið að okkur. Nú hefur ráðherrann því líkan grátkór í kringum sig að allir eiga að geta skilið, að nú eru síðustu forvöð ef landið á ekki að farast með manni og mús.
En hver er ógnin?
Jú, krónan ónýt. Enginn vill lána okkur nema með afarkostum.
Það er bara híað á okkur eftir allan oflátungshátt okkar á síðustu árum. O, jamm og jæja. Sumir geta haft gott af að kollsigla sig. En því ekki að vera djörf áfram? Auðvitað náum við samningum um viðskipti okkar við stóra bróður og við önnur ríki, án þess að spyrja hann um leyfi, þó hann vilji gjarnan ráðskast með okkar viðskiptasamninga.
Er ekki E.S.B. málsvari lýðræðis og frelsis? Af hverju erum við ekki löngu búin að tapa sjálfsforræðinu? Það er nú ráðgátan.
Mér finnst ofur eðlilegt að ráðamenn hjá E.S.B. eins og hjá öðrum mannlegum samfélögum, vilji bæta við umdæmi sitt. Sambandið hefur alltaf minnt mig á latan kött sem býður eftir rétta tækifærinu, – að hremma bráð. Raunar hefur mest öll fjölmiðlaflóran rætt um aðild, eins og eitthvað sem hlýtur að koma. Nú sagði þessi prófessor þetta og nú sagði þessi bankastjóri hitt og loksins er stóra stundin upprunnin, skoðanakannanir segja öruggan meiri hluta fyrir aðild. Bara að drífa í að sækja um.
Ekki skal ég véfengja að við Íslendingar kynnum að hafa nokkurn fjárhagslegan ávinning af inngöngu í E.S.B. um eitthvert árabil, en það er bara ekki á nokkurs manns færi að segja til um, hver stendur uppi með ávinninginn eftir 10, 30 eða 60 ár svo nefndar séu einhverjar tölur. Því er það fyrst og fremst trú sem ræður afstöðu manna í þessu máli. Ég er fullur bjartsýni fyrir okkar hönd. Fyrst við höfum slampast til að hafa það öllu betra en félagar okkar, sem búið var að innbyrða í sambandið, og þrátt fyrir mörg asnastrik í stjórn okkar peningamála, gengur þjóðfélagið enn og líklega er gengisskráningin öllu réttari heldur en í fyrra.
Verum minnug þess að það er auðvelt að framselja sjálfstæðið, en þungt mun verða að ná því aftur. Óttinn er ekki góður ráðunautur.

Það sem ég hef sagt hér að framan er þó fremur léttvægt í mínum huga. Ef við lítum til þriðja heimsins, þá snúast okkar mál um velsæld eða ofurvelsæld.
En það sem veldur, að okkur ber alveg hiklaust að hafna aðild, er okkar menningarlega sérstaða. Þið munið mörg kalla það þjóðernishroka og draumóra.
Ég kalla það hins vegar kalt raunsæi að segja, að á meðan hagkerfi heimsins eru drifin áfram af hergagnaframleiðslu og sríðsrekstri, er ekki rétt að láta eitt þeirra gleypa sig. Hvernig væri að fá það upplýst hversu mörg % af útfluttningstekjum E.S.B. fáist fyrir hergögn. Þó Bandaríkin séu stórtækari á öllum sviðum, þ.e.a.s. í vopnasölu, stríðsrekstri og hótunum, þá er sauðtryggð V. Evrópumanna við þau, á öllum þessum sviðum, ótrúleg.

Hver sá sem þorir að afneita þátttöku í þeim blekkingaleik að með þessu sé verið að skapa öryggi, á samúð mína óskerta. Ég nefni Stefán Jón Hafstein, sem lét þess getið í fréttapistli frá Afríku, að kostnaður Bandaríkjamanna við stríðið í Írak væri jafnmikill á 10 dögum og öll framlög þeirra til þróunarmála. Stefán Gíslason umhverfisfr. í Borgarnesi telur að útrýming hungurs og smitsjúkdóma í öllum heimi myndi kosta mun minna heldur en framlög til hernaðar eru nú.
Ég nefni líka Jimmy Carter frv. forseta U.S.A. sem segir kjarnorkustefnu síns lands vera stærstu ógnina við heimsfriðinn í dag. Mig minnir að í því ríki séu 32.ooo kjarnaoddar geymdir. Hver spyr um háskann af þeim? Hvað eru þeir margir hjá E.S.B.?
Raunsæi er það eitt, að gera sér grein fyrir, að aðeins ein leið er fær, það er leið gagnkvæmrar virðingar, samninga og afvopnunar.
Við höfum allar forsendur til þess að breyta heiminum ef við berum gæfu til að virkja sérstöðuna. Skref fyrir skref getum við náð árangri ef við bendum grönnum okkar á það, í allri vinsemd, að við getum ekki bundið trúss okkar við félagsskap sem ber ábyrgð á lítt dulbúnum þjóðarmorðum. Ég nefni Palestínu, Írak og Afganistan.
Nú segið þið. Hvað er maðurinn að fara? Það verður að ganga á milli bols og höfuðs á Talibönum. Ég segi: Það eru til vænlegri leiðir til að aflétta ógnarstjórn á einu landssvæði heldur en að ausa yfir það sprengjum. Ég sé engan mun á því athæfi og öðum hryðjuverkum. Sprengja verður ekki himnesk þó hún falli úr lofti yfir þolendur. Í mínum huga eru Talíbanar þjóðflokkar sem búnir eru að verjast innrásum mestu hervelda heimsins í nærri 30 ár. fyrst Rússum síðan vesturlandabúum. En hver er sök þeirra? Trúir því einhver að þeir hafi stjórnað árasunum 11. sept 2001

Hvað er E.S.B.? Það er samtryggingarklúbbur fremur ríkra þjóða. Flestar áttu þær nýlendur í þriðja heiminum. þau lönd teljast flest sjálfstæð ríki nú, en voru raunar skilin eftir í upplausn efnahagslega og stjórnmálalega og er nú neitað um verslunarfrelsi af fyrum herraþjóðum sínum.
Hvaða hlutverk dreymir okkur að Ísland sækist eftir meðal þjóða?
Vegna tilurðar og sögu höfum við einstaka möguleika á að gera raunverulegt gagn í samfélagi þjóðanna. við eigum ekki að skerða þá möguleika með því að ganga neinni ríkjasamsteypu á hönd, þó reikna megi sér fáeinar krónur í hagnað um stundar sakir.
Okkar styrkur liggur í því að: 1) vera staðsett á krossgötum.
2) hafa vinsamleg samskipti við öll stórveldi heimsins. 3) hafa verið nýlenda. 4) að hafa leyst okkar sjálfstæðismál með rökum en ekki vopnum. 5) hafa lýst því yfir að við munum aldrei hervæðast.
Hitt er auðvitað afar dapurlegt, þegar við óvænt losnuðum við erlenda hersetu í landinu, skyldi við hafa svo hugsjónalausa ríkisstjórn að hún flækti okkur í marga nýja samninga við hernaðaryfirvöld austan Atlandshafsins án þess að losa okkur undan þeirri kvöð sem gamli herverndarsamningurinn frá ´51 lagði okkur á herðar, þ.e. að taka við bandarískum her hvenær sem stjórnendum í U.S.A. telja sér hagkvæmt.

Nú munu margir lesendur segja sem svo, að ég sé að blanda saman óskylum málum. Þeim sömu vil ég benda á grein í Mbl. 5. júlí s.l. ,,Öryggi í hnattvæddum heimi” eftir Einar Benediktss. og Jónas Haralds, þar sem þeir leggja áherslu á að innganga E.S.B. sé einmitt nauðsyn vegna varna Íslands.
Ég lýk þessari samantekt með tilvitnun í klettafjallabóndann:

Heimsborgari er ógeðs yfirklór.
Alþjóðrækni er hverjum manni of stór,
út úr seiling okkar stuttu höndum.
En sá sem mennir mannafæstu þjóð,
menning heimsins þokar fram á slóð
sparar hræ og hrösun stærri löndum.

Þetta orti Stephan G. sennilega eftir að hafa horft uppá, að ungum mönnum væri smalað í Kanadíska herinn, til að berjast fyrir breska heimsveldið fyrir tæpum 100 árum. Þar sem þeir stráféllu í tilgangslausu sríði.
Er hann leit yfir heim og himin virðist hann eygja þann möguleika að frumkvæði hinnar mannfæstu þjóðar, Íslendinga, kunni að bjarga stórveldunum af braut sjálfseyðingarinnar.

Sævar Sigbjarnarson

Samkomulag um gagnflaugastöð undirritað í Prag

By Uncategorized

petice top en


    Undirskriftasöfnun gegn gagnflaugastöð í Tékklandi

    Lauslega þýðing yfirlýsingarinnar sem skrifað er undir:

    „Ég mótmæli uppsetningu bandarískrar herstöðvar í Tékklandi, sem er hluti af gagnflaugakerfi þeirra (National Missile Defense – NMD). Þessar fyrirætlanir ýta undir spennu á alþjóðvettvangi, stuðla að nýju vígbúnaðarkapphlaupi og eru fyrsta skrefið í hervæðingu geimsins og yfirráðum þar. Þar eð tveir þriðju hlutar íbúa Tékklands eru andvígir þessum fyrirætlunum tel ég sanngjarnt að tékkneska þjóðin fái að taka ákvörðun um svo mikilvægt mál með þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Von var á Condoleezu Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna í dag, 8. júlí, til Prag til að undirrita samkomulag um radarstöð í Tékklandi, sem á að þjóna gagnflaugakerfi Bandaríkjanna. Mikil andstaða hefur verið í Tékklandi gegn þessum fyrirætlunum. Samkvæmt skoðanakonnunum eru um 70% þjóðarinnar andvíg þeim, sveitastjórnir í nágrenni við fyrirhugaða radarstöð hafa mótmælt, öflug samtök hafa orðið til og víða um heim hefur verið efnt til ýmiskonar aðgerða til stuðnings andófinu í Tékklandi. Í dag verður efnt til mótmælafundar í Prag. Og andófinu verður væntanlega haldið áfram þótt samkomulagið verði undirritað í dag. (sjá Reuters 8. júlí)

En á sama tíma og tékkneskir ráðamenn halda sínu striki þvert gegn vilja meirihluta þjóðarinnar hafa málin snúist í Póllandi, þar sem hin nýja ríkisstjórn Donalds Tusk er ekki jafn leiðitöm Bandaríkjunum og fyrri stjórn var. Að vísu hefur hún snúist ekki alfarið gegn þeim áformum sem þar voru um að setja upp herstöð sem á að verða önnur aðalstoð gagnflaugakerfisins í austanverðri Evrópu, en setti þó þau skilyrði að fá umtalsverðan styrk frá Bandaríkjunum til að byggja upp loftvarnir sínar. Samningaviðræður milli ríkjanna fóru út um þúfur síðastliðinn föstudag þar sem Bandaríkjamönnum þóttu kröfur Pólverja óhóflega miklar. Þó má búast við að viðræður verði teknar upp aftur, en Bandaríkin hafa litið til Litháens sem varaskeifu ef allt um þrýtur. Í Póllandi hefur líka verið allmikil andstaða gegn þessum fyrirætlunum, þótt hún jafnist ekki á við andstöðuna í Tékklandi. (Sjá Reuters 4. júlí 2008)

Forsætis – og utanríkisráðherrar Íslands hafa í raun lagt blessun sína yfir þessa gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna með þátttöku sinni á leiðtogafundi Bandaríkjanna í Búkarest í vor og þegjandi samþykki við yfirlýsingu fundarins. SHA sendu ríkisstjórninni nokkrar spurningar vegna þessarar yfirlýsingar, m.a. vegna þessa máls, en hafa engin svör fengið:

    4. Eldflaugavarnir. Í 37. lið yfirlýsingarinnar segir að sá gagnflaugabúnaður, sem Bandaríkin hyggjast koma sér upp, sé mikilvægt framlag til verndar bandalagsríkjunum. Í skoðun sé hvernig tengja megi þessar eldflaugavarnir Bandaríkjanna núverandi viðleitni NATO til eldflaugavarna og tryggja að þær verði hluti af framtíðarskipulagi NATO á þessu sviði. Fastaráði NATO (Council in Permanent Session) er falið að þróa slíkt skipulag þannig að það nái til alls þess svæðis bandalagsins, sem ekki verður dekkað af eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna, og skal leiðtogafundurinnn 2009 taka nánari ákvörðun um þá þróun. Bandaríkin sögðu árið 2002 einhliða upp ABM-sáttmálanum, sem á sínum tíma var talinn mikilvægt skref í átt til kjarnorkuafvopnunar. SHA spyrja því hvort það sé vilji íslensku ríkisstjórnarinnar að NATO taki þátt í þessari viðleitni Bandaríkjanna til að grafa undan frekari árangri á sviði kjarnorkuafvopnunar. SHA vísa jafnframt til mikillar andstöðu bæði í Póllandi og Tékklandi, þar sem áætlað er að koma upp aðstöðu vegna þessa gagnflaugabúnaðar Bandaríkjanna.“

Sjá nánar:

Samtök herstöðvaandstæðinga í Tékklandi – Iniciativa NE základnám
Gegn ofbeldi – Nenásilí
Evrópa til friðar – Europe for Peace

Umfjöllun á Friðavefnum um þetta mál:

Rússar og NATO í nýtt kalt stríð?
Alþjóðleg ráðstefna í Prag gegn hervæðingu Evrópu
Evrópa án kjarnavopna
Mikil andstaða í Tékklandi gegn fyrirhugaðri gagnflaugastöð
Undirskriftasöfnun gegn bandarískum herstöðvum í Tékklandi

30. mars 1949

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Jóns Böðvarssonar og Þorvarðar Helgasonar birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2008. Við leyfum okkur að endurbirta þessa grein hér á Friðarvefnum, sem og athugasemd Sveins Snorrasonar sem birtist einnig í Morgunbalðinu 1. júlí.

Fáeinir menn sem tilheyrðu ekki mótmælendahópnum 30. mars 1949 gerðu sér það til gamans að kasta eggjum og moldarkögglum að unga fólkinu á gangstéttinni, en ekki að Alþingishúsinu, og því miður fylgdu nokkrir smásteinar sem engum skaða ollu, en líklega er rétt að einn þeirra hafi brotið rúðu í húsinu.
Þessi nánast kyrri hópur var til lítilla vandræða – og hefði áreiðanlega leyst upp ef lögregla hefði tilkynnt niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og þar með gerðan hlut sem ekki þýddi lengur að mótmæla á þessum vettvangi. Að vísu voru sögð einhver orð í hátalara en þau voru óskýr, heyrðust illa og höfðu engin áhrif.

Næst gerðist að dyr Alþingishússins opnuðust og út braust „hvítliðið“, öskrandi og veifandi kylfum. Grunlaust fólkið var fyrst felmtri slegið en snerist svo til varnar sem best það gat, bæði mótmælendur og stuðningsmenn samþykktarinnar, sem fjölmennir voru í hópnum, því þetta var aðför, fólki fannst sér misboðið.

Eftir útrásina, árásina úr Alþingishúsinu, kom svo táragassprengja lögreglu, þá sveið í augu undan gasinu og smám saman leystist allt upp og Austurvöllur varð nær mannlaus eftir að flestir forðuðu sér.

Þegar horft var til baka yfir atburðarásina kom í ljós mynstur, kerfi.

Augsýnilega var stefnt að árekstri, óeirðum. Við fréttum seinna að forystumaður sósíalistaflokksins hefði kvöldið áður sett af stað upphringingar til flokksfólks og beðið það að hafa hægt um sig á morgun því í uppsiglingu væri ögrun (provocation). Hann þekkti slíkt frá námsárunum í Þýskalandi eftir fyrra stríð. Það var augljóslega „system i galskabet“ – sem til allrar hamingju virkaði illa.

Á næsta ári verða 60 ár liðin frá þessum atburði. Hvernig væri ef ungir sagnfræðingar legðu nú saman og greindu ástæður, atburðarás og ekki síst dómana. Fyrir hvað voru menn dæmdir o.s.frv. Einhverjir „hvítliðanna“ lifa enn, við munum eftir tveimur skólabræðrum okkar úr MR. En áreiðanlega eru þeir fleiri sem enn anda – og gætu leyst gátuna um þjálfun „hvítliðanna“ eins og við kölluðum þá.

JÓN BÖÐVARSSON,
Lundarbrekku 8, Kópavogi.

ÞORVARÐUR HELGASON,
Safamýri 67, Reykjavík.

30. mars 1949

Blessaðir friðarboðarnir, Jón Böðvarsson og Þorvarður Helgason, rita í Morgunblaðinu í gær (26. júní sl. með samnefndri fyrirsögn) saman hrifnæma hugvekju um saklausan leik, fáeinna manna, „sem ekki tilheyrðu mótmælendahópnum 30. mars 1949, er þeir gerðu sér það til gamans að kasta eggjum og moldarkögglum að unga fólkinu á gangstéttinni, en ekki að Alþingishúsinu, og því miður fylgdu nokkrir smásteinar, sem engum skaða ollu, en líklega er rétt, að einn þeirra hafi brotið rúðu í húsinu.

Þessi nánast kyrri hópur var til lítilla vandræða- og hefði áreiðanlega leyst upp ef lögregla hefði kynnt niðurstöðu atkvæða-greiðslunnar og þar með gerðan hlut, sem ekki þýddi lengur að mótmæla á þessum vettvangi.“

Getur það verið að þeir félagar fari hér með rétt mál, að lýsingar þeirra á atburðarás standist, að þeir hafi verið í aðstöðu til að greina að þá fáeinu gamansömu eggjamenn frá hinum raunverulega mótmælendahópi 30. mars 1949, og hafi þess vegna getað dregið þá ályktun að þessi raunverulegi mótmælendahópur hefði bara farið heim, ef hann hefði fengið fréttir af atkvæðagreiðslunni!? Hvorum hópnum skyldu þeir Jón Bö og Holli, eins og þeir voru þá kallaðir, hafa tilheyrt, gamansömu eggjakösturunum eða þeim raunverulegu mótmælendum? Spyr sá, er ekki veit. Ég hlýt að setja stórt spurningarmerki við atvikalýsingu þeirra.

Veit ekki vegna þess, að einmitt á þeim tíma, sem þeir félagar, Jón og Þorvarður, lýsa gamansama eggja- moldarköggla- og grjótkastinu að unga fólkinu á gangstéttinni sem líklega leiddi til rúðubrots í húsinu, var ég sem þingritari ásamt Ólafi Jónssyni, frá Austvaðsholti, að rita fundargerð um eina dagskrármálið, atkvæðagreiðsluna. Skrifborð okkar þingritaranna var þá staðsett beint framan við forsetastól og þingskrifara, þar sem ræðupúlt þingmanna er staðsett í dag.

Hitt veit ég, að áður en atkvæðagreiðslu og þingfundi var lokið, barst stærðar hraunhnullungur með miklu brothljóði gegnum rúðu að baki forsetastóls, flaug yfir stól forseta, en Guðs mildi að hann hæfði ekki forseta í höfuðið, en lenti síðan með miklu brauki á borðinu milli okkar Ólafs og þaðan út á gólf. Ég er ansi hræddur um að sá okkar sem fengið hefði hraunhnullunginn í hausinn hefði ekki þurft að kemba hærurnar.

Hraunhnullungurinn var ekki ætlaður ungu fólki á gangstétt. Skeytinu var beint að Alþingi og bersýnilega ætlað að trufla störf þingsins með svipuðum hætti og reynt hafði verð kvöldið og nóttina áður.

Sjálfsagt eiga sagnfræðingar framtíðarinnar eftir að fjalla heilmikið um 30. mars 1949. Þá verður þess þó að vænta að vandað verði til öflunar heimilda um þá atburði sem þar urðu, aðdraganda og ástæður þeirra, svo að afkomendur okkar fái sem skýrasta og raunsannasta mynd af því, sem þá gerðist, orsakir þess og afleiðingar.

SVEINN SNORRASON,

Faxatún 1 Garðabæ.

Af vörnum landsins

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Rúnars Sveinbjörnssonar birtist í vefritinu Ögmundur.is 16. júní 2008

Nú er búið að stofna varnarmálaráðuneyti. Hver óvinurinn er gegnir öðru máli. Nefndir hafa verið til sögunar Rússar, Talibanar, hryðjuverkamenn og ef til vill fleiri.

Í dag er Ísland þátttakandi í árásarstríði í Afganistan og í hópi hinna viljugu í hernámi Íraks. Með vitlausri utanríkisstefnu er vissulega hægt að eignast óvini en þó er ég nokkuð viss að það muni þá helst bitna á fyrirtækjum, sendiráðum og Íslendingum erlendis. Ekki hef ég heyrt að milljarðarnir eigi að fara í annað en eltingarleik við fornar rússneskar flugvélar og er þetta brölt kallað loftrýmisgæsla eða einhvað enn vitlausara.

Í sömu viku og varnarmálaráðuneytið er opnað ríður jarðskjálfti yfir Suðurland. Í viðtali við Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðing kemur fram að hugsanlega hefði verið hægt að sjá fyrir um jarðskjálftann nokkrum stundum fyrr ef veðurstofan hefði fengið fé til að klára uppbyggingu hugbúnaðar sem les fljótt og rétt úr þeim upplýsingum sem fram komu í aðdraganda skjálftans, út frá þeim rannsóknum og gagnasöfnum sem til eru.

Í mínum huga er það óvéfengjanlegt að helsti óvinur Íslendinga eru náttúruöflin: jarðskjálftar, eldgos, snjóflóð, sjávarflóð, ofsaveður og fleira. Varnir Íslands eru fólgnar í að verja okkur fyrir náttúruöflunum, að svo miklu leyti sem það er hægt. Hver mínúta getur verið dýrmæt og bjargað mannslífum.

Það er dapurlegt að heyra af óánægju og uppsögnum hjá stofnun eins og Veðurstofunni, vegna sparnaðar og rangra stjórnunarhátta, þegar hægt er að eyða óendanlega miklu í hégóma og hernaðarbrölt. Ísland á að vera í forystu í náttúruvísindum og væri það veglegt framlag til friðar og mannúðarmála. Þar eiga milljarðarnir heima.

Ísland úr Nató.
Leggjum varnarmálaráðuneytið niður þegar í stað og verjum sameiginlegum fjármunum okkar í þágu friðar og framfara.