Monthly Archives

August 2007

Ætlar utanríkisráðherra bara að halda sama kúrsi?

By Uncategorized

Því ber að fagna að utanríkisráðherra ítrekar í erindi sínu á ráðstefnu í Norræna húsinu 29. ágúst, sem vitnað er til hér neðar á síðunni, það sem sagt er í stjórnarsáttmálanum að samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggis- og varnarmál verður komið á fót. Það er að sjálfsögðu gífurlega mikilvægt þar sem nú eru að ýmsu leyti tímamót. Frá því kalda stríðinu lauk hefur flest staðið í stað hér að öðru leyti en því að Ísland dröslaðist með umræðulítið í þeirri þróun sem Bandaríkin og NATO hafa ákveðið. Herstöðin var áfram en vægi hennar fór minnkandi þótt stjórnvöld neituðu að horfast í augu við það. Gagnrýnislaust fylgdi Ísland NATO í þróun þess og samþykkti innrásirnar í Júgóslavíu og Írak. En nú verður ekki við svo búið lengur – eða hvað? Í því ljósi er fróðlegt að skoða erindi utnaríkisráðherra.

Þetta erindi bendir ekki til að núverandi utanríkisráðherra hyggist í verulegum mæli leita annarra leiða en fyrirrennarar hennar. „Sem fullveðja aðildarríki NATO verður Ísland að axla nýja ábyrgð.“ Íslendingar munu reka ratsjárkerfi sem verður hluti af loftvarnakerfi NATO. En hvað segja Íslendingar um það að loftvarnakerfi NATO byggist að hluta á kjarnorkuvopnum?

„Aukinni ábyrgð okkar innan NATO fylgir einnig þátttaka Íslands í mörgum hinna nýju verkefna NATO svo sem á sviði friðargæslu í löndum og á svæðum utan hefðbundins athafnasvæðis bandalagsins.“ Hér hljótum við að staldra við. Hefur núverandi utanríkisráðherra ekkert við það að athuga hvernig NATO hefur á undanförnum árum ekki aðeins þanist út hvað ný aðildarríki snertir, heldur einnig farið æ meir út fyrir sitt svæði með ýmiskonar starfsemi sem vægast sagt er mjög umdeilanleg. Þar er auðvitað fyrst að nefna loftárásirnar á Júgóslavíu 1999, en síðan starfsemi NATO í Afganistan þar sem það kemur beinlínis í kjölfar innrásar Bandaríkjanna sem hernámslið, þó að það kalli þetta hernám friðargæslu og hafi fengið uppáskrift Sameinuðu þjóðanna. Sú uppáskrift er hins þegar ekki fyrir hendi í Írak þar sem NATO heldur uppi ýmisskonar starfsemi til stuðnings hernámsliði Bandaríkjanna og bandamanna þeirra. („The NATO mission is a distinct mission, under the political control of NATO’s North Atlantic Council. It is co-ordinated with the US-led Multinational Force.“ – www.nato.int/issues/iraq-assistance/index.html). Og hvað skal segja um æ meira samstarf milli NATO og Ísraels?

Utanríkisráðherra talar um að Ísland muni „aldrei taka að sér að gegna hlutverki í sambandi við svokallaðar „harðar” varnir“ heldur „mýkri” varnir (soft defense) „þar sem utanríkisþjónustan gegnir lykilhlutverki og starf okkar á sviði friðargæslu og þróunaraðstoðar eru í öndvegi.“ Það eru auðvitað alltaf einhverjir í einhverskonar „mjúkum“ verkefnum í hernaði, það þarf skrifstofuhald fyrir herinn, ræstingar o.þ.h. Þess vegna er hægt að hafa Íslendinga með í hinum svokölluðu friðargæsluliðum NATO, svo sem í Afganistan, og segjast þá vera í „mjúkum“ verkefnum.

Svo talar utanríkisráðherra um hugtök eins og lýðræði, frelsi, jafnrétti og mannréttindi, sem séu hugmyndafræðilegur grunnur lýðveldisins Íslands og þeirra megin-alþjóðastofnanna sem landið á aðild að, svo sem NATO. Við deilum ekki um að þetta eigi við um Norðurlandaráð og Sameinuðu þjóðirnar, en það er meira vafamál hvort þetta eigi við um NATO sem hafði bæði Portúgal og Grikkland innanborðs meðan þar voru blóði drifnar herforingjastjórnir. Nei, ætli það sé ekki frekar frjálst markaðskerfi og jarðvegur fyrir gróðaöfl Vesturlanda sem er grundvölllur NATO? Eða er lýðræði, frelsi, jafnrétti og mannréttindi það sem manni dettur fyrst í hug þegar nú er litið til forysturíkis NATO, Bandaríkjanna?

Loks er rétt að staldra við þetta: „Í nútímanum nær öryggishugtakið til fleiri og flóknari þátta en áður þekktist. Nú fjalla öryggis- og varnarmál ekki eingöngu um hefðbundin stríðsátök heldur viðbrögð við umhverfisvá, mengun, náttúruhamförum, farsóttum og varnir gegn hryðjuverkum.“ Er ekkert við þetta að athuga? Af hverju er öryggishugtakið nú annað en áður, af hverju er farið að flokka viðbrögð við umhverfismál undir öryggis- og varnarmál? Er ekkert athugavert við þessa hervæðingu borgaralegra björgunar-, lögreglu- og strandgæslusveita – og sóttvarnarlækna? Kannski þyrfti að ræða þetta á einhverjum samráðsvettvangi.

Einar Ólafsson

Utanríkisráðherra fjallar um nýtt skeið í öryggis- og varnarmálum

By Uncategorized

Við leyfum okkur að birta hér hluta úr erindi sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hélt á málþinginu „Kapphlaupið á Norðurpólinn“. Um breytingar á stöðu Íslands og norðurlandanna í varnar- og öryggismálum, sem haldið var í Norræna húsinu á vegum Landhelgisgæslunnar og sendiráða Norðurlandanna 29. ágúst. Hér er einungis birtur hluti erindisins en hægt er að nálgast það á vefsíðu utanríkisráðuneytisins bæði á dönsku, eins og það var flutt, og í íslenskri útgáfu. Því er þessi ræðukafli birtur hér að í honum er að ýmsu að hyggja.

„Samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggis- og varnarmál verður komið á fót og nauðsynlegt er líka að stofnuð verði og skilgreind öflug rannsóknastofnun á þessu sviði sem tekur virkan þátt í alþjóðlegu fræðasamstarfi.

Nauðsynlegt er að gera skýran greinarmun á innra öryggi í íslensku samfélagi og ytra þjóðaröryggi og samstarfi Íslands við aðrar þjóðir á því sviði. Og hér þarf gott samstarf ráðuneyta og stofnana við nýjar aðstæður.

Sem fullveðja aðildarríki NATO verður Ísland að axla nýja ábyrgð. Þannig er það mat NATO að loftvarnarkerfið yfir Íslandi sem Bandaríkjamenn hættu að starfrækja í þessum mánuði, sé nauðsynlegt fyrir varnir Íslands og sameiginlegar varnir NATO. Þess vegna munum við starfrækja það áfram og það sætir tíðindum sem nýtt sjálfstætt og mikilsvert framlag Íslands til samstarfs þjóðanna í NATO. Aðlögun kerfisins að samhæfðu loftvarnarkerfi NATO, NATINADS verður orðin að veruleika innan fárra vikna.

Aukinni ábyrgð okkar innan NATO fylgir einnig þátttaka Íslands í mörgum hinna nýju verkefna NATO svo sem á sviði friðargæslu í löndum og á svæðum utan hefðbundins athafnasvæðis bandalagsins. Hafa verður þó í huga að við höfum ekki hermenn til að ganga á milli stríðandi fylkinga en hins vegar margs konar hæft fólk sem kemur til verka þegar byssurnar eru þagnaðar. Íslensk friðargæsla verður því öðru fremur á því sviði sem skilgreint er sem friðaruppbygging.

Ísland mun aldrei taka að sér að gegna hlutverki í sambandi við svokallaðar „harðar” varnir. Ekki stendur þannig til að stofna íslenskt varnarlið, eða her. Það er hvorki nauðsynlegt né æskilegt og í raun í andstöðu við íslenska hefð. Síðustu menn undir vopnum á Íslandi voru afvopnaðir um miðja 16. öld. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að það var forsenda þess að Ísland gerðist stofnaðili að NATO árið 1949 að landið hefði ekki her og hyggðist ekki koma honum upp. Sú forsenda er enn í fullu gildi.

Hlutverk Íslands verður hins vegar þeim mun meira áberandi á grunni „mýkri” varna (soft defense) þar sem utanríkisþjónustan gegnir lykilhlutverki og starf okkar á sviði friðargæslu og þróunaraðstoðar eru í öndvegi.

Einnig ber okkur í starfi á alþjóðavettvangi að standa vörð um ákveðin grunngildi sem eru algild og óháð trúarbrögðum, þjóðerni og efnahag. Hugtök eins og lýðræði, frelsi, jafnrétti og mannréttindi eru ekki orðin tóm. Þau eru undirstaða réttlætis og framfara um veröld alla. Þau eru hugmyndafræðilegur grunnur lýðveldisins Íslands og þeirra megin-alþjóðastofnanna sem landið á aðild að, s.s. Norðurlandaráði, NATO og Sameinuðu þjóðirnar. Þau eru því það leiðarljós sem starf okkar í alþjóðapólitísku samhengi byggir á, þar með talið á sviði öryggis og varnarmála.

Þó Ísland sé hvorki stórt né fjölmennt ríki fríar það okkur ekki ábyrgð til þátttöku í alþjóðapólítísku samstarfi né dregur það úr erindi okkar á leiksvið alþjóðamálanna. Ísland nýtur í dag til fulls ávaxtanna af lýðræðislegu alþjóðlegu samstarfi er byggir á alþjóðalögum.

Okkur ber því siðferðileg skylda til þess að standa vörð um þau gildi, og það sem meira er, tryggja þeim framgang. Við eigum að hafa metnað og þor til þess að láta rödd okkar og sjónarmið heyrast og við eigum að láta gjörðir fylgja orðum í öllu okkar starfi á alþjóðavettvangi. Aukið framlag og þátttaka Íslands á alþjóðavettvangi, þ.m.t. framboð okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna ber þessu rökrétt vitni.

Í nútímanum nær öryggishugtakið til fleiri og flóknari þátta en áður þekktist. Nú fjalla öryggis- og varnarmál ekki eingöngu um hefðbundin stríðsátök heldur viðbrögð við umhverfisvá, mengun, náttúruhamförum, farsóttum og varnir gegn hryðjuverkum. Á Íslandi getum við glaðst yfir því að vera ekki lengur í eldlínu í köldu stríði, en einmitt þess vegna þurfum við að meta sjálfstætt þá ógn sem að okkur kann að steðja og byggja aðgerðir á því mati.“

„Kapphlaupið á Norðurpólinn“

By Uncategorized

Um breytingar á stöðu Íslands og norðurlandanna í varnar- og öryggismálum

Fyrirlestrar í samvinnu við Exercise Northern Challenge for Partnership for Peace

Saga og framtíð. Verður Ísland hlutlaust?
Norrænt sjónarhorn.

Utanríkisráðherra Ingibjörg Solrún Gísladóttir
Professor Guðni Th. Jóhannesson
Royal Danish Navy Commodore Lars Möller Pedersen
Swedish Army LtCol Claes Wolgast

Miðvikudag 29/8 kl. 14.00 – 16.00
Norræna húsið – Glerskáli
Ókeypis aðgangur.

Arr. Norræna húsið, Landhelgisgæslan, Sendiráð Danmerkur, Noregs, Finnlands og Svíþjóðar

Friðarsinninn Milan Rai aftur í fangelsi

By Uncategorized

Naming The Dead cover web2 Vinur okkar, Milan Rai, hefur nú verið fangelsaður í annað sinn á tveimur árum. Milan Rai er breskur friðar- og umhverfissinni, rithöfundur og blaðamaður. Hann heimsótti okkur ásamt eiginkonu sinni, listakonunni Emily Jones, sumarið 2004. Rai flutti erindi um Íraksstríð og saman héldu þau tvö námskeið í borgaralegri óhlýðni. Það er einmitt þessi borgaralega óhlýðni sem hefur nú í annað sinn á tveimur árum kostað hann fangelsisvist. En afbrot hans er kannski ekki verulega alvarleg þegar á allt er litið.

milanrai7 7 Milan Rai var dæmdur ásamt Maya Anne Evans fyrir að skipuleggja mótmælaaðgerðir innan eins kílómetra frá þinginu, en það er bannað að lögum. Þau voru dæmd til sektar sem þau neituðu að greiða og urðu því að sæta fangavist.

Milan Rai er forystumaður í friðarsamtökunum Justice Not Vengeance. Hann hefur skrifað nokkrar bækur, Chomsky’s Politics (Verso, 1995), War Plan Iraq (Verso, 2002), Regime Unchanged (Pluto, 2003) and 7/7: The London Bombings, Islam and the Iraq War (Pluto, 2006) og er ritstjóri Peace News.

Emilyjones Eftir fangavistina haustið 2005 skrifaði Maya Anne Evans í samvinnu við Milan Rai bókina Naming The Dead – A Serious Crime.

Vorið 2006 ferðaðist Emily Jones um Íran. Afrakstur þeirrar ferðar voru myndir sem hún gerði og hafa nú birst á bók Drawing Paradise on the ‘Axis of Evil’ ásamt ritgerðum eftir Milan Rai.

Þingmenn deila um varnarmál

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Árna Páls Árnasonar þingmanns Samfylkingarinnar og varaformanns utanríkismálanefndar Alþingis birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst. Fyrir neðan hana má lesa svargrein Árna Þórs Sigurðssonar þingmaður VG af bloggsíðu hans sama dag.



Að styðja Hamas en fordæma Norðmenn
eftir Árna Pál Árnason

Í síðustu viku stóð yfir heræfing hér á landi. Slíkar æfingar eru nauðsynlegar til að æfa viðbúnað við hættuástandi. Í æfingunni nú var áberandi þáttur Norðmanna og Dana. Sá þáttur er bein afleiðing aukins samstarfs okkar við þessa næstu nágranna okkar í öryggis- og varnarmálum, í kjölfar þess að bandarískt varnarlið hvarf frá Keflavík.

Það vakti því nokkra athygli að sjá formann, þingflokksformann og aðra þingmenn Vinstri grænna taka sér mótmælastöðu fyrir utan sendiráð Norðmanna og Dana hér á landi. Systurflokkur VG er í ríkisstjórn í Noregi og hefur því yfir herliði því sem hér var við æfingar að segja. Að sögn formanns Vinstri grænna var ástæða mótmælanna fyrst og fremst andstaða VG gegn ofbeldi.

Er sjálfsvörn sama og árás?
Markmið heræfinganna var að æfa viðbrögð við hættuástandi. Í þetta sinn voru æfð viðbrögð við hryðjuverkum en áður hafa m.a. verið æfð viðbrögð við stórfelldum náttúruhamförum. Það er ekki alveg ljóst í mínum huga hvort óbeit VG á ofbeldi er slík að þeir geti ekki hugsað sér að vopnavaldi sé beitt til að frelsa gísla úr haldi, svo dæmi sé tekið. Má sérsveit lögreglunnar þá ekki beita vopnum til að fást við vopnað fólk? Má lögreglan þá ekki beita valdi til að handjárna menn? Hér voru einungis æfð viðbrögð við hryðjuverkum á borð við lausn á gíslatöku. Af hverju má ekki frelsa gísla með vopnavaldi? Gerir VG engan greinarmun á valdbeitingu opinberra aðila til að halda uppi lögum og reglu og ofbeldisárás? Treystir Steingrímur ekki flokkssystkinum sínum í Noregi til að hafa lýðræðislega stjórn á norskum herafla?

Þessi djúpstæða óbeit VG á ofbeldi vekur ýmsar fleiri spurningar. Forysta VG hafði stór orð í garð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra í sumar, í kjölfar þeirrar ákvörðunar hennar að hitta ekki að máli fulltrúa Hamas í heimsókn sinni til Palestínu. Ástæðan var að heimsókn utanríkisráðherra var farin rétt í kjölfar vopnaðs valdaráns Hamas á Gazasvæðinu og fundur utanríkisráðherra með fulltrúum þeirra á þessum tímapunkti hefði falið í sér óbeina viðurkenningu Íslands á beitingu ofbeldis af þeirra hálfu. Í ljósi þessa getur maður því ekki annað en spurt hvort óbeit Vinstri grænna á ofbeldi sé bara til innanlandsbrúks.

Ný tækifæri – ætlar VG að sitja hjá?
Við viljum flest berjast gegn ofbeldi en við hljótum einnig að áskilja okkur rétt til þess að halda uppi lögum og reglu og verja rétt okkar til stjórnarfarslegs sjálfstæðis og yfirráða yfir íslensku landsvæði. Með brottför varnarliðsins frá Keflavík opnuðust ný tækifæri fyrir okkur sem þjóð til að móta öryggismálastefnu út frá íslenskum hagsmunum í samstarfi við okkar nánustu bandamenn. Í því efni er mikilvægast að við tryggjum að fylgst sé með umferð yfir landinu og að við eigum aðgang að aðstoð frá nánustu bandamönnum okkar til að bregðast við óvæntum aðstæðum á borð við stórfelldar náttúrhamfarir, umhverfisslys eða hryðjuverk. Það er sérstaklega æskilegt að efla samstarf við Norðmenn og Dani í þessum efnum í stað þess að byggja öryggisviðbúnað okkar alfarið á samstarfi við Bandaríkjamenn, sem oft eiga annars konar hagsmuni að verja á alþjóðavísu en við.

Núna gefst einstakt tækifæri til nýsköpunar í stefnumótun um öryggis- og varnarmál. Það er áhyggjuefni ef forysta VG ætlar að dæma sig úr leik í þeirri umræðu og halda sig á gamalkunnum slóðum í heimi mótmælaslagsmála og innantómra orðaleppa. Flokkur sem vill láta taka sig alvarlega verður að vera til viðræðu um öryggis- og varnarmál á vitrænum forsendum. Það hefur systurflokki VG í Noregi tekist ágætlega. Hvað dvelur Steingrím?



Áframhaldandi hernaðarstefna á „vitrænum forsendum“
eftir Árna Þór Sigurðsson

Helsti talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann útskýrir stefnubreytingu flokks síns í utanríkismálum. Þar má skilja, að nú þegar flokkurinn er kominn í ríkisstjórn verði að taka á utanríkis- og varnarmálum á „vitrænum forsendum“.

Og hverjar eru hinar „vitrænu forsendur“? Jú, það er óbreytt hernaðarstefna, áframhaldandi stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásarstríð í Írak, hernaðarbrölt í Afganistan og þannig má vafalaust áfram telja. Hefur hann uppi allmörg orð um það að friðarstefna Vinstri grænna sé ekki háð á „vitrænum forsendum“ – og hvað er þá orðið að málflutningi og baráttu margra góðra hernaðarandstæðinga og friðarsinna sem störfuðu í Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum á sinni tíð? Hvert hafa örlögin leitt það ágæta fólk í sameiningunni við Alþýðuflokkinn?

Blasir ekki við að það er gamla heimsvaldastefnan, hernaðarhyggjan og undirgefni við Bandaríkjastjórn, sem var aðalsmerki Alþýðuflokksins, sem hefur orðið ofan á innan Samfylkingarinnar? Og þá stefnu er talsmaðurinn að verja í Morgunblaðsgreininni. Sú stefna sem flokkurinn fylgir nú, var að vísu ekki svo einbeitt og augljós í aðdraganda kosninga og meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu. Háværar kröfur forystumanna flokksins um uppgjör vegna Írak eru að engu orðnar og hafa dáið drottni sínum.

Það er hins vegar vita gagnslaus málsvörn hjá nafna mínum að ætla að útskýra stefnubreytingu Samfylkingarinnar með því að draga fram Norðmenn og Dani sem skálkaskjól. Það hefur engin stefnubreyting orðið hjá íslenskum stjórnvöldum við ríkisstjórnarskiptin, eins og kjósendum var lofað að yrði ef Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn, og það leyfum við okkur í VG að gagnrýna. Stjórnarflokkur verður að þola það að vera minntur á kosningaloforðin og þegar þau eru að engu höfð er ekki við neinn að sakast nema hann sjálfan. En sannleikanum verður hver sárreiðastur, eins og sést glöggt á málsvörn varaformanns utanríkismálanefndar í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta er herinn sem byssustingjum beinir að…

By Uncategorized

arnithor eftir Árna Þór Sigurðsson alþingismann

Birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst

… börnum og konum og vopnlausum lýð“ segir í þekktu ljóði Kristjáns Guðlaugssonar. Þar yrkir hann um bandaríska herinn á Miðnesheiði, og margir hernaðarandstæðingar hafa í gegnum árin tekið undir og borið fram kröfuna um herlaust land, afvopnun og frið. Sumir þeirra eru nú, illu heilli, í herbúðum stjórnarliða og hljóta að vera hnípnir mjög þegar forysta þeirra býður velkominn hingað heim innrásarherinn frá Írak.

Því það er einmitt það sem er að gerast. Hingað í heræfingarleiðangur, svokallaðan Norðurvíking, er boðið þeim sama her og stendur í ólögmætum stríðsrekstri í Írak og sem kostað hefur borgarastyrjöld og ómældan fjölda fórnarlamba, ekki síst meðal óbreyttra borgara. Sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum harmaði af stórlyndi sínu stríðsreksturinn í Írak, rétt eins og einhverjir væru bættir með því. En forysta íslenskra jafnaðarmanna auðmýkti sjálfa sig með því að setjast í ríkisstjórn án þess að krefjast þess að stjórnvöld bæðust afsökunar á athæfi sínu og skilmálalausum stuðningi við ólögmætar aðgerðir Bandaríkjastjórnar og fleiri ríkja í Írak. Voru stóryrðin og svardagarnir fyrir kosningar þá eingöngu sjónhverfingar til þess eins að ganga í augun á kjósendum? Sjaldan hefur eins lítið lagst fyrir nokkurn kappa og forystu Samfylkingarinnar þar sem hún reynir nú að fóta sig á svelli utanríkis- og varnarmála.

En ríkisstjórn Íslands telur rétt að halda áfram á sömu braut hernaðarstefnu eins og flestar fyrri ríkisstjórnir, enda stýrir Sjálfstæðisflokkurinn för einn ganginn enn. Sem fyrr velur samstarfsflokkur hans að beygja sig í duftið og fylgja leiðsögn hægri aflanna, hernaðarhyggju og undirlægjuháttar gagnvart Bandaríkjunum. Verður það ef til vill erindi okkar í Miðausturlöndum og í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar býður velkominn þann sama her og réðst með ólögmætum hætti inn í Írak, þann sama her og „beinir byssustingjum að börnum og konum og vopnlausum lýð“ í þeirri barnslegu trú að slíkur her geti reynst þjóðinni vörn á válegri tíð. Væri ef til vill ráð að spyrja almenning í Írak um varnarmátt þeirra vígtóla sem orðið hafa þúsundum að fjörtjóni þar og svo miklu víðar.

Þegar bandaríski herinn hvarf af landi brott bárum við mörg í brjósti þá von að orð Jakobínu skáldkonu Sigurðardóttur yrðu að áhrínsorðum og að börn okkar gætu „án kinnroða nefnt okkar kynslóð og kletta og heiðar og sand“. En þvert á móti veldur framganga íslenskra ráðamanna nú því að þau verða hugstæðari orðin Jakobínu úr sama ljóði: „En smánin í blóði mér brennur. Þú veist hvað sá heitir sem bregst sínu landi og þjóð.“ Vonandi sér stjórnarforystan að sér áður en svo illa er komið.

Nató-fenið í Afganistan

By Uncategorized

steingrsigfusson eftir Steingrím J. Sigfússon

Birtist í Fréttablaðinu 7. ágúst 2007

Nató-leiðangurinn í Afganistan, undir forystu Bandaríkjanna og á þeirra forsendum, er þegar orðinn að u.þ.b. eins fullkominni martröð og hugsast getur. Frá fyrstu tíð höfðu margir efasemdir um að Bandaríkin og Vesturlönd myndu ríða feitari hesti frá leiðangri sínum þangað en Rússar gerðu á sinni tíð. Burtséð frá afar hæpnu réttmæti þess að hefja loftárásirnar á Afganistan á sínum tíma í kjölfar atburðanna 11. september 2001 spurðu margir hvort yfirhöfuð væri raunsætt að ætla að aðferðafræði haukanna í Bandaríkjunum myndi skila árangri og hverjar fórnirnar yrðu. En það var hafist handa og sprengjum var látið rigna úr háloftunum yfir þetta vanþróaða land, Afganistan, vikum saman.

Mótspyrna brotin á bak aftur í helstu borgum og samvinnuþýðri ríkisstjórn komið á laggirnar. Það reyndist auðveldara að heyja stríðið en eiga við eftirleikinn.

Tilgangslaust blóðbað
Samkvæmt hinum nýju formúlum Bandaríkjamanna höfðu þeir forgöngu um stríðið, sáu að mestu um sprengingarnar og ræstu síðan Nató út til að að hreinsa upp eftir sig. Nú brjótast Nató-ríkin um á hæl og hnakka, fórna lífi hermanna sinna í meira og minna tilgangslausri baráttu, ungt fólk fellur nær daglega sem óvelkomnir gestir í framandi landi. 420 Bandaríkjamenn, 68 Bretar, 66 Kanadamenn, 25 þjóðverjar, 21 Spánverji o.s.frv. eru fallnir frá því stjórn talibana var komið frá 2001. Og það sem verra er: Mannfall óbreyttra borgara sökum aðgerða Nató-herjanna er stórfellt. Deilt er um hversu mörg þúsund eða jafnvel tugir þúsunda óbreyttra borgara hafi fallið frá því átökin hófust en hafið er yfir vafa að í ýmsum aðgerðanna hafa allt eins margir eða fleiri óbreyttir borgarar fallið en raunverulegir liðsmenn talibana eða annarra andófsafla gegn hinni erlendu hersetu. Undangengið eitt og hálft ár er talið að 6.500 manns a.m.k. hafi fallið og ekki er fjarri lagi að álykta að fullur helmingur hafi verið óbreyttir borgarar.

Þverrandi stuðningur
Þetta stríð eru Vesturlönd að heyja meira og minna í óþökk og í andstöðu við íbúa viðkomandi svæða og ráðandi öfl þar. Yfirleitt hefur sýnt sig að slík barátta er vonlaus. Sjálfum erkifjendunum, talibönum, vex fiskur um hrygg og ópíumframleiðsla í skjóli uppreisnar- og stríðsherra og héraðshöfðingja hefur náð fyrri hæðum og rúmlega það.

Þó svo eigi að heita að ríkisstjórn Karzai ráði Kabúl, nærliggjandi svæðum og að einhverju leyti ferðinni í stærstu borgum er þó enginn afgangur af því. Þegar út í héröðin kemur og einkum landamærasvæðin milli Afganistan og Pakistan er hið gagnstæða upp á teningnum. Flótti virðist vera við það að bresta á í Nató-liðinu og þverrandi stuðningur heima fyrir við áframhaldandi þátttöku í aðgerðunum verður æ meira áberandi í umræðum um málið, t.d. í nágrannalöndunum Noregi og Danmörku.

Staða Íslands verði endurmetin
Ófarirnar í Afganistan eru stærsta og alvarlegasta dæmið um afleiðingar hinnar nýju stefnu þegar Nató var breytt úr svæðisbundnu varnarbandalagi í alheimshernaðarbandalag og aðila sem skyldi láta til sín taka í fjarlægum heimsálfum, skv. forskrift Bandaríkjamanna, hinnar árásargjörnu aðferðafræði, hugmyndanna um fyrirbyggjandi styrjaldir og allt það. Er þetta nýja Nató virkilega sá félagsskapur sem við eigum heima í í ljósi atburðanna í Írak, Afganistan og víðar? Væri ekki hyggilegast fyrir okkur að staldra við og byrja á því, þó ekki væri annað, að kalla alla Íslendinga heim frá Afganistan, a.m.k. alla þá sem eru þar á forsendum eða í tengslum við Nató? Af nógu er að taka á vettvangi borgaralegrar, friðsamlegrar þróunarsamvinnu og hjálparstarfs, bæði þar og annars staðar, þó svo við látum öðrum eftir að standa í slíku á hernaðarforsendum. Minna má á, í þessu sambandi, þær breytingar sem Alþingi sameinaðist um að gera á frumvarpi til laga um íslensku friðargæsluna. Þar var tekinn af allur vafi um að sú starfsemi skuli skilgreind sem borgaraleg og vera á slíkum forsendum.

Höfundur er formaður Vinstri grænna og situr í utanríkismálanefnd.