Monthly Archives

July 2007

Hneykslanlegur viðskilnaður Dana við Írak

By Uncategorized

Eftir Jan Öberg framkvæmdastjóra Transnational Foundation for Peace and Future Reasearch, Lundi

31. júlí 2007

1. Það rignir yfir okkur skýrslum um það hörmulega ástand sem íraska þjóðin býr við – í Írak og í vaxandi mæli utan Íraks. Viðskiptabann okkar kostaði um milljón Íraka lífið, stríðið meira en hálfa milljón. Landið er eyðilagt, tvær kynslóðir hafa ekki fengið tækifæri til heilbrigðis, menntunar og annarrar þróunar.

Hvar er það GÓÐA sem átti að leiða af þeim kostnaði sem Danmörk og fleiri hafa lagt í þetta og dagblaðið Politiken spyr lesendur sína um í dag?

2. Hvernig er hægt að draga sig til baka ÁN ÞESS AÐ leiða hugann að því hvort við eigum að hjálpa Írak að koma undir sig fótunum á ný? Hvar er afsökun Danmerkur? Hvað leggjum við fram til enduruppbyggingar, sátta, friðar, til að koma aftur á eðlilegu ástandi? Skaðabætur vegna viðskiptabannsins og stríðsins?

Þetta er forkastanlegt siðferðilega og skammarlegt út frá sjónarhóli skynseminnar – einsog ég sagði í bók minni frá 2004, „Fyrirsjáanlegar hrakfarir. Um ófriðinn við Írak og Danmörku sem hernámsveldi“.

Það er gott að Danmörk skuli draga sig út úr Írak, en varla var hægt að gera það af meira hugsunar- og tillitsleysi!

Meira hér:
http://www.transnational.org/Area_Index_MiddleEast.htm

Hætt við lágflug í tengslum við heræfingar

By Uncategorized

Samkvæmt fréttum Stöðvar tvö nú undir kvöldið hefur verið hætt við að fara fram á heimild til lágflugs í tengslum við fyrirhugaðar heræfingar NATO. „Aðstoðarmaður utanríkisráðherra vill koma því á framfæri að ekki verði farið fram á varaheimild til lágflugs yfir landinu í tengslum við heræfingar á landinu um miðjan ágúst, og að lágflug verði því ekki hluti æfinganna. Samkvæmt heimildum fréttastofu var búið að fara fram á slíka heimild, svo breyting hefur orðið þar á.“ Sjá nánar visir.is.

Utanríkisráðuneytið virðist hafa metið það svo að slík andstaða yrði við lágflug orrustuþotanna að betur væri heima setið. En betur má ef duga skal til að heræfingarnar verði slegnar af. SHA mun halda áfram sem fyrr að andæfa heræfingum hér, bæði þeim sem fyrirhugaðar eru um miðja ágúst sem og þeim sem síðar verða. Skv. áætlunum fastaráðs Atlantshafsbandalagsins um eftirlit bandalagsins með lofthelgi Íslands er gert ráð fyrir heræfingum fjórum sinnum á ári. SHA munu af alefli berjast gegn slíkum æfingum.

Morgunblaðið spyr utanríkisráðherra

By Uncategorized


Það er ekki oft sem Friðarvefurinn eða Samtök hernaðarandstæðinga sjá ástæðu til að taka undir með Morgunblaðinu. En í leiðara blaðsins í dag eru vangaveltur og spurningar sem full ástæða er til að taka undir. Í þeirri von að Morgunblaðið taki það ekki óstinnt upp leyfum við okkur að birta leiðarann hér:

Mánudaginn 30. júlí, 2007 – Ritstjórnargreinar
Nató og Afganistan

Atlantshafsbandalagið er með 35 þúsund hermenn í Afganistan. Sjálfsagt eru flestir þeirra bandarískir þótt önnur aðildarríki bandalagsins komi þar einnig við sögu. Að auki eru Bandaríkjamenn með 8.000 hermenn í landinu til viðbótar undir eigin herstjórn. Samtals eru því Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin með 43 þúsund hermenn í Afganistan.
Reglulega berast fréttir frá Afganistan sem benda til þess að hersveitir Atlantshafsbandalagsins eigi fremur í vök að verjast og lendi í því aftur og aftur að valda dauða almennra borgara í landinu.

Í gær bárust fréttir um að hersveitir bandalagsins væru að breyta um baráttuaðferðir. Ef hætta er á því að almennir borgarar deyi í aðgerðum bandalagsins er frekar beðið með slíkar aðgerðir en að taka þá áhættu að mikið manntjón verði meðal almennra borgara. Þetta er skiljanlegt vegna þess að manntjón meðal borgara í Afganistan dregur úr stuðningi við aðgerðir Atlantshafsbandalagsins.

Jafnframt var frá því skýrt að hersveitir bandalagsins mundu nota minni sprengjur en þær hafa gert til þessa. Hins vegar er ljóst að skæruliðar Talibana leggja nú áherzlu á að leynast meðal almennra borgara, m.a. til þess að framkalla sem mest manntjón í röðum þeirra.

Framvinda mála í Afganistan kemur okkur Íslendingum beint við af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi berum við ábyrgð á veru hersveita Atlantshafsbandalagsins í Afganistan vegna þess að við sem eitt af aðildarríkjum bandalagsins tókum þátt í þeirri örlagaríku ákvörðun að senda hersveitir undir merkjum bandalagsins þangað.

Í öðru lagi skiptir þróunin í Afganistan okkur máli vegna þess að Íslendingar eru þar á ferð, ekki til þess að berjast undir fánum bandalagsins en í margvíslegum hliðarstörfum. Ástandið í landinu versnar stöðugt og þar með aukast líkurnar á því að Íslendingarnir snúi ekki allir heim heilu og höldnu.

Margt bendir til þess að Atlantshafsbandalagið eigi eftir að dragast dýpra og dýpra inn í átökin í Afganistan á sama tíma og Bandaríkjamenn ráða augljóslega ekki við ástandið í Írak og vaxandi hætta er á upplausn í Pakistan þar sem fylgismenn bin Laden njóta verndar einhverra aðila í Pakistan.

Hver er afstaða Íslands til þess sem er að gerast í Afganistan? Hver er afstaða ríkisstjórnar Íslands til þess ef fyrirsjáanlegt er að viðvera hersveita Atlantshafsbandalagsins verður lengri en skemmri í landinu? Hefur ríkisstjórnin skoðun á því? Á hún ekki að hafa skoðun á því?

Hvað segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra um það?

Sjá einnig: Ísland með 13 hermenn í Afganistan

Eftirlit NATO – nei takk!

By Uncategorized

Frá því Ísland gerðist aðili að NATO 30. mars 1949 hefur nokkur breyting orðið á stöðu Íslands gagnvart NATO. Eins og Vigfús Geirdal hefur rakið í grein sem má finna annars staðar hér á Friðarvefnum („Hugleiðing um sérstöðu Íslands í Nato og 5. grein Atlantshafssáttmálans“) hafði Ísland í upphafi sérstöðu meðal aðildarríkja NATO sem endurspeglast í orðum Bjarna Benediktssonar þáverandi utanríkisráðherra Íslands í ávarpi sem hann flutti við undirritun Atlatnshafssáttmálans í Washington 4. apríl 1949: „Ísland hefir aldrei farið með hernað gegn nokkru landi, og sem vopnlaust land hvorki getum við nje munum segja nokkurri þjóð stríð á hendur, svo sem við lýstum yfir, er við gerðumst ein af sameinuðu þjóðunum.“

„Nánast eina skuldbinding Íslendinga við Nató“ segir Vigfús í þessari grein „er að leggja til land (sér að kostnaðarlausu) undir hernaðaraðstöðu með svipuðum hætti og gert var í seinni heimstyrjöld“ og „og það mundi algerlega á valdi Íslands sjálfs hvenær sú aðstaða yrði látin í té.“

Árið 1951 gerði íslenska ríksstjórnin samning við Bandaríkin um herstöðvar hér landi. Þær herstöðvar hafa nú verið lagðar niður án þess þó að herstöðvasamningnum hafi verið sagt upp. Ísland lagði sem sagt til land undir hernaðaraðstöðu en að öðru leyti voru Íslendingar nánast óvirkir í hernaðarstarfsemi NATO þar til 1984 að fulltrúi var skipaður í hermálanefnd NATO. Síðan átti Ísland aðild að ákvörðun um hernað NATO í Bosníu 1994 til 1995 og innrásina í Júgóslavíu 1999. Jafnframt hefur Ísland lagt til mannskap í hersveitir NATO í Bosníu, Kósovó, Afganistan og Írak undir yfirskini friðargæslu.

Nú er bandaríski herinn farinn án þess þó að herstöðvasamningnum hafi verið sagt upp. Hvenær verður að gert? En burtséð frá því, þá stöndum við enn á tímamótum: ætla Íslendingar nú að fara að reka hernaðarmaskínu? Hvað með íslenska ratsjárkerfið sem verður samkvæmt ákvörðun Norður-Atlantshafsráðsins sl. fimmtudag tengt við sameiginlegt loftvarnarkerfi NATO, NATINADS (NATO’s Integrated Air Defence)? Á íslenska ratsjárkerfið að verða í framtíðinni hernaðarlegt loftvarnarkerfi? Verður Ísland nú enn virkari þátttakandi í hernaðarstarfi NATO með þessari áætlun sem nú hefur verið ákveðin – eða að hvaða leyti breytist aðkoma Íslands nú að NATO? Erum við nú komin með aðra aðkomu að NATO? Þarf ekki að ræða það? Er yfirleitt þörf á þessu eftirliti sem ákveðið var sl. fimmtudag? Væri kannski nær að leggja áherslu á eitthvað annað, setja peningana í landhelgisgæsluna og björgunarsveitir – er ekki óblíð náttúran meiri ógn við okkur en ímynduð árás utan að? Er besta vörnin kannski í því fólgin að vera utan við þessa hernaðarmaskínu og óháð þeim heimsvaldahagsmunum sem að baki henni liggja? Er ekki bara löngu tímabært að segja skilið við NATO, þetta hernaðarbandalag sem hefur orðið æ árásargjarnara og uppivöðslusamara allar götur frá því kalda stríðinu lauk og hlutverki þess, hversu sáttur sem maður var við það, hefði átt að vera lokið?

Hvað sem öllu þessu líður, þá hefði í það minnsta verið eðlilegt að ræða þessi mál ítarlega á víðtækum og þverpólitískum vettvangi, svo sem þeim samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál sem boðaður var í stjórnarsáttmálanum, áður en við fengum þær fréttir nú um helgina að Norður-Atlantshafsráðið hefði samþykkt áætlun um reglubundið eftirlit með lofthelgi Íslands. Þetta er nefnilega meira en bara tæknileg ákvörðun.

Einar Ólafsson

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla fyrirhuguðum heræfingum

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla fyrirhuguðum heræfingum NATO-ríkjanna Noregs, Danmerkur, Bandaríkjanna, Lettlands og Íslands sem ætlunin er að halda dagana 13. til 16. ágúst næstkomandi. Ekkert réttlætir misnotkun á íslensku landi og íslenskri land- og lofthelgi til æfinga í meðferð drápstóla. Ekkert réttlætir heldur misnotkun á íslensku almannafé – 45 milljónum króna – til að borga undir slíkt.

Ísland, sem menn vilja á tyllidögum kalla herlaust land, ætti að sjá sóma sinn í því að hafna hvers kyns hernaðarbrölti. Því er það grátlegt að Ísland skuli þess í stað ýta undir það með því að bjóða hingað til æfinga herjum erlendra ríkja, þar á meðal Bandaríkjaher sem er blóðugur upp fyrir axlir vegna þátttöku sinnar í hverju siðlausu stríðinu á fætur öðru.

Æfingar af þessum toga eru ekki aðeins aðferð herveldanna til að þjálfa herlið sitt heldur einnig til að staðfesta áhrifasvæði sitt, berast á gagnvart hugsanlegum andstæðingum og jafnvel ögra þeim. Þeim fylgir mengun, ónæði og hætta. Þær staðfesta hlutverk Íslands sem lítils NATO-peðs sem Bandaríkjamenn geta treyst á að styðji allt hernaðarbrölt
sem þeir taka sér fyrir hendur.

Tengsl Alcan við hergagnaframleiðslu og botnlaus sakaskrá Rio Tinto

By Uncategorized

Frá Saving Iceland, 24. 7. 2007

TENGSL ALCAN VIÐ HERGAGNAFRAMLEIÐSLU
Málmur frá Rio Tinto-ALCAN er seldur til margvíslegra nota í stríðsrekstri. ALCAN framleiðir t.d. ál fyrir EADS (European Aerospace and Defense and Space), sem framleiðir herþyrlur, orrustuþoturnar Euorofighter Tycoon, Mirage F1, EF18 Hornet og aðrar þotur. EADS er einnig leiðandi framleiðandi flugskeyta. Samningar milli EADS og ALCAN eru kynntir sem samningar milli Airbus og ALCAN, til þess að hylma yfir aðild ALCAN að stríðsrekstri, en það er þekkt leið álfyrirtækja að fela hergagnaframleiðslu sína undir heitinu eldflaugaframleiðsla. Á sama tíma verður að markaðssetja hergögnin og þess vegna eru myndir af orrustuflugvélum birtar á eldflaugahluta heimasíðu ALCAN.

EADS fullyrðir á heimasíðu sinni að vörur fyrirtækisins séu seldar til landa þar sem „sala á hátækni flughernaðartólum fer fram á ábyrgan hátt“. Fyrirtækið byggi á „áratuga reynslu í herflugvélaiðnaði“. En er fyrirtæki trúverðugt sem er svo siðblint að það birtir á sömu heimasíðu myndir frá Þýskalandi á tímum nasismans, þar sem bæði fyrri heimastyrjöldin og flugvélar nasista eru lofaðar hástöfum?

RIO TINTO-ALCAN: ÁL TIL ÍRAKS
ALCAN sér Boeing fyrir „úrvals, afkastamiklum álafurðum“. Boeing framleiðir herþyrlurnar Apache og Chinook sem eru notaðar í Írak, en einnig minna þekktar vörur t.d. „Small Diameter Bomb“ og „Joint Direct Attack Munition“. Einnig eru samningar milli Alcan og Dassault, fransks hergagnaframleiðanda, sem framleiðir margskonar orrustuflugvélar úr áli. Þar að auki hefur ALCAN lagt sig sérstaklega fram við að kynna fyrirtækið fyrir sjóhernaðarstofnunum.

RIO TINTO-ALCAN: PLÖN FYRIR AFRÍKU
Rio Tinto-ALCAN hefur skrifað undir samning við Ríkisstjórn Kamerún um að stækka Alucam álverið um 150.000 tonn á ári, auk þess að reisa nýtt 150.000 tonna álver. Lom Pangar stíflan, sem er við það að verða reist, mun sjá um orkuframleiðslu fyrir álverin. Alcan er með mörg önnur verkefni á teikniborðinu í Afríku – „Greenfield“ verkefnið þeirra inniheldur Kamerún, Ghana, Guinea, Madagascar og Suður-Afríku. „Greenfield“ stendur fyrir það þegar ósnert náttúra er eyðilögð fyrir námugröft, grunngerð, álbræðslur og stíflur.

AÐSKILNAÐARSTEFNAN Í SUÐUR AFRÍKU, ESKOM OG LANDSVIRKJUN
ALCAN var virkur þáttakandi hinni illræmdu aðskilnaðarstefnu í Suður Afríku á árunum 1949-1986. Nú vill fyrirtækið snúa aftur og reisa álver á nærri því skattfrjálsu svæði, „Coega Development Zone“, nálægt Port Elizabeth. Álverið verður keyrt áfram á kolum og kjarnorku frá Eskom, en fyrirtækið er eitt stærsta raforkufyrirtæki í heiminum. „30% fátækra samfélaga í Suður Afríku hafa ekki aðgang að rafmagni, en samt sem áður er til nóg rafmagn til að reka álver“ segir Lerato Maragele, aðgerðasinni frá Suður Afríku sem heimsótti Ísland á vegum Saving Iceland .

Elkom er „systurfyrirtæki“ Landsvirkjunnar, en Landsvirkjun stefnir á að taka þátt í álversframkvæmdunum í Suður Afríku og færa svo út kvíarnar í Afríku. Því er líklegt að Landsvirkjun muni reyna að selja sérfræðikunnáttu sína til ýmisa verkefna tengdum vatnsafls
raforkuframleiðslu Eskom í Mósambík, Úganda og Kongó. Einnig er líklegt að fyrirtækið muni reyna að vinna að gerð stíflu í Kongó ánni, en hún verður tvisvar sinnum stærri en Three Gorges stíflan í Kína, og mun leggja regnskóga Mið Afríku í rúst.

BOTNLAUS SAKASKRÁ RIO TINTO
Við getum auðveldlega sýnt fram á að ALCAN tekur virkan þátt í hergagnaframleiðslu og stefnir á innrás í Afríku, jafnt sem á Íslandi. Núna hefur fyrirtækið verið keypt af Rio Tinto, sem er stærsta einkarekna námufyrirtæki í heiminum, og hefur „lengi verið gagnrýnt fyrir gróf mannréttindabrot sem ná aftur til þáttöku þeirra í aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku.“

Nokkur dæmi um mannréttindabrot Rio Tinto.
Rio Tinto hefur vitandi neytt starfsmenn sína til að starfa í banvænum gullnámum sínum í Brasilíu, og njósnað um og rekið meðlimi verkalýðsfélaga. Einnig eru dæmi um að fátækir heimamenn í leit að gulli í námum Rio Tinto hafi verið skotnir af öryggisvörðum Rio Tinto .

Rio Tinto hefur haft aðild að málaliðahneykslum. Ríkisstjórn Papúa Nýju Guineu réði í samstarfi við ALCAN, fyrirtækið Sandline International, sem er einkarekinn, óháður málaliðaher, til að berjast gegn íbúum eyjunnar Bougainville. Herinn er mest megnis skipaður fyrrum breskum og suður afrískum sérsveitarmönnum, en herinn hafði aðild að borgarastyrjöldunum í Angóla og Sierra Leone. Íbúar Bougainville höfðu lokað námu vegna hrikalegra umhverfisskemmda og hafa nú farið í mál gegn Rio Tinto fyrir skemmdirnar og stríðsglæpina sem málaliðaherinn fyrirtækisins framdi. Í ágúst 2006 hafnaði áfrýjunnardómstóll Bandaríkjanna beiðni Rio Tinto um að málinu yrði vísað frá.

————————————————————————–


– S. Das & F. Padel, “Double Death – Aluminium’s Links with Genocide”, Economic and Political Weekly, Des. 2005, sjá einnig á http://www.savingiceland.org/doubledeath
– Chandra Siddan, “Blood and Bauxite”, Montreal Mirror, Nov 20-26, 2003, Vol. 19 No. 23.
– “Smelter Expansion on Landfill?”, Iceland Review, June 20th 2007.
– RUV News, 26-02-2007, http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item145391/. Athugið að RUV hafa ruglað saman Alcoa og Alcan.
– EADS vefsíða, http://www.eads.com/1024/en/businet/defence/mas/combat_aircraft/combat_aircraft.html
– EADS auglýsingamynd, “A Brief Glance at EADS”, http://www.eads.com/xml/content/OF00000000400004/1/10/41434101.mov
– AFX News, 13 júní, 2007, http://www.abcmoney.co.uk/news/13200786914.htm
– Alcan Press Release, “Company To Provide Critical Aluminum Materials For Full Range Of Aircraft Including A380”, 13. Júní, 2007, http://www.decisionplus.com/fr/fintools/stock_news.asp?Market=TSE&Symbol=AL&NewsID=20070613/021501
http://www.alcanaerospace.com/Aerospace/aerospace.nsf/html/FWFGHOME?Open&LG=1, dd. 22-7-2007.
– EADS auglýsingamynd, “90 years of aircraft history in Augsburg”, http://www.eads.com/1024/en/businet/defence/mas/mas.html and http://www.eads.com/xml/content/OF00000000400004/0/64/41488640.asx
– US Geological Survey, “Minerals Yearbook 2005,” September 2006, p. 5.2.
– Boeing Website Image Gallery of Small Diameter Bomb: http://www.boeing.com/companyoffices/gallery/images/missiles/sdb/sdb.html
– Boeing Image Gallery: http://www.boeing.com/companyoffices/gallery/images/missiles/sdb/sdb.html
– Alcan Press Release, “Alcan Contributes to Success of Eighth Ariane 5 ECA Launch,” Dec 13th, 2006.
http://www.dassault-aviation.com/
– “Pacific 2004, International Naval and Maritime Exposition for the Southern Pacific,” Aerospace Maritime and Defence Conference, http://www.ideea.com/pacific2004/embassy/smithbriefing.pdf
– US Geological Survey, “Minerals Yearbook 2005,” September 2006, p. 5.5.
– Alcan Press Release, “Alcan to Explore Development of Bauxite Mine and Alumina Refinery in Madagascar,” September 11th 2006.
– Alcan’t website, http://www.alcant.co.za/history.html
– Grapevine, Issue 10, July 13, 2007. Viðtal einnig á http://www.savingiceland.org/node/870
– RUV News, 26-02-2007, http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item145391/. Note that RUV has Alcoa and Alcan confused.
– International Rivers Network & EarthLife Africa, “Eskom’s Expanding Empire The Social and Ecological Footprint of Africa’s Largest Power Utility,” June 2003, http://www.irn.org/programs/safrica/index.php?id=030601eskomfactsheet.html
– Asia-Pacific Human Rights Network, “Rio Tinto’s Record and the Global Compact,” July 13th 2001, http://www.corpwatch.org/article.php?id=623.
– SBS Australia’s television program Dateline in a report on Rio Tinto, August 2000.
– Wikipedia Germany (22-7-2007), http://de.wikipedia.org/wiki/Sandline-Affäre
– Contract between PNG Government and Sandline: http://coombs.anu.edu.au/SpecialProj/PNG/htmls/Sandline.html.
– Sarei v Rio Tinto, 456 F.3d 1069 (9th Cir. 2006), USA

Umhverfi / Vopnaiðnaður / Mótmæli

By Uncategorized

Fréttatilkynning 22. júlí, 2007

SAVING ICELAND:

REYKJAVÍKURBORG, HÆTTIÐ AÐ STYÐJA VOPNAIÐNAÐINN OG STÓRIÐJU.

BORÐI Á RÁÐHÚSI REYKJAVÍKUR MEÐ ÁLETRUNINNI „VOPNAVEITA REYKJAVIKUR?“

REYKJAVIK – Síðdegis í dag hefur fólk frá Saving Iceland klifrað utan á Ráðhús Reykjavíkur og hengt þar upp borða með áletruninni „Vopnaveita Reykjavíkur?“ Fólkið hefur einnig dreift tímariti Saving Iceland og upplýsingum um mannréttindabrot stóriðjufyrirtækja, brask þeirra í vopnaiðnaðinum og ábyrgð á gróðurhúsalofttegundum.

„Þegar þetta er skrifað er Orkuveita Reykjavíkur, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, að vinna að stækkun Hellisheiðarvirkjunar. Fyrirhugað er að selja orku frá virkjuninni til Century-RUSAL og ALCAN-Rio Tinto til að knýja stækkanir á þeim álverum sem þegar eru til staðar í Hvalfirði og Hafnarfirði og fyrir nýjum álverum við Keflavík og Þorlákshöfn. 30% framleidds áls nýtist við vopnaframleiðslu,“ segir Jaap Krater frá Saving Iceland.

Fleiri virkjanir

Alcoa vill reisa nýja álbræðslu við Húsavík, Century-Rusal við Helguvík, Alcan-Rio Tinto og Norsk Hydro við Þorlákshöfn og Alcan-Rio Tinto enn í Hafnarfirði, jafnvel þó að stækkuninni hafi verið hafnað í kosningu. Fari þessi plön eins og fyrirtækin vilja mun þurfa að virkja allar jökulár landsins til að næg orka sé til staðar. Það myndi eyðileggja hina einstöku náttúru Íslands. Landsvirkjun mun í vetur hefja vinnu við að reisa þrjár stíflur í Þjórsá til að skapa orku fyrir álhringana.

Stækkun álvers Alcan-Rio Tinto í Hafnarfirði var hafnað með íbúakosningu og aðrar fyrirhugaðar byggingar á álbræðslum á suðvesturhorninu eru óákveðnar. Sitjandi ríkisstjórn segist vera andstæð frekari álbræðslum en enn er unnið að stækkun á Hellisheiði fyrir 23 milljarða króna. Íslensku þjóðinni verður þröngvað til að borga brúsann. Þegar stækkuninni er lokið verður Ísland neytt til að reisa fleiri álbræðslur því raforkuna verður að selja til að fá höfuðstólinn til baka. Í millitíðinni borga gróðurhúsbændur tvöfalt meira en t. d. Century fyrir rafmagn.

Fyrirtækin sem hagnast á þessu eru kunn að mannréttindabrotum og umhverfisglæpum.

CENTURY-RUSAL Century er hluti af Glencore samsteypunni sem er þekkt fyrir skuggaleg viðskipti við S-Afríku á tíma „apartheid“ stefnunnar, kommúnista Rússland, Íran klerkastjórnarinnar og Írak undir stjórn Saddam Hussein. Glencore er runnið saman við RUSAL og myndaði þannig stærsta álfyrirtæki í heimi. RUSAL er það fyrirtæki sem sér rússneska hernum hvað mest fyrir áli og kemur þannig beint að hinu gleymda stríði í Tsjetsjeníu þar sem a.m.k. 35.000 almennir borgarar hafa verið drepnir með sprengjum og flugskeytum úr áli. Glencore átti líka hlut í nýlegu fjöldamorði Wayuu indíana og bænda í Kólumbíu til að stækka námur sínar.

ALCAN-RIO TINTO Alcan er nú hluti af Rio Tinto. Alcan hefur sjálft séð breska og evrópska vopnaiðnaðinum fyrir áli. Fyrirtækið hefur skelfilega sögu um umhverfisspjöll og er að reisa álbræðslu í S-Afríku sem knúin eru með kjarnorkuverum og kolaverum. Rio Tinto er eitt af viðbjóðslegustu fyrirtækjum í heimi, þekkt fyrir að leigja málaliða eins og Sandhill og „Executive Outcomes“ sem hafa slátrað frumbyggjum sem barist hafa gegn námavinnslu, t.d. í Bougainville (nærri Papúa Nýju Gíneu).

ALCOA Alcoa er stærsti söluaðili áls til Bandaríkjahers og framleiðir beint skriðdreka, flugvélar og flugskeyti sem notuð er í stríðinu í Írak. Alcoa er að byggja nýjar álbræðslur m.a. í Brasilíu og Trinidad. Fyrirtækið vill reisa a.m.k. sjö nýjar virkjanir á Amazonsvæðinu og þar með drekkja stórum hlutum af regnskóginum.

Frekari upplýsingar:
http://www.savingiceland.org. Sími: Jaap Krater, 8430619

Nánari upplýsingar um efni fréttatilkynningarnar:
http://www.savingiceland.org/node/857
http://www.savingiceland.org/hengill
http://www.savingiceland.org/node/841

Stendur Ísland utan valdablokka – hvað með NATO?

By Uncategorized

Í Morgunblaðinu í dag, 19. júlí, er haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra, sem er stödd í Ísrael – eða líklega Palestínu þegar þetta er skrifað, að nú sé að opnast glufa til samninga milli Ísraels og Palestínu og mikill vilji sé til þess að finna aðila sem geti haft milligöngu. Blaðið hefur eftir ráðherranum: „Ég hef heyrt í dag hjá fulltrúum þeirra sem sitja á ísraelska þinginu að þeir telja að Ísland geti haft hlutverki að gegna ef að við raunverulega viljum og setjum okkur inn í mál og sýnum áhuga. Og þá ekki síst vegna þess – sem er náttúrlega kannski dálítið merkilegt – að við stöndum utan við allar stórar valdablokkir.“

Já. Þetta er óneitanlega merkilegt, að við stöndum utan við allar stórar valdablokkir. Nú veit ég ekki hvort þetta er meining utanríkisráðherra Íslands eða hvort hún er bara að vitna til orða ísraelskra ráðamanna. En óneitanlega er Ísland aðili að Atlantshafsbandalaginu, NATO, hernaðarbandalagi ríkja í Evrópu og Norður-Ameríku undir forystu Bandaríkjanna. Á árum kaldastríðins voru tvær meginvaldablokkir í heiminum sem kristölluðust í NATO og Varsjárbandalaginu. NATO hefur haldið áfram að vera valdablokk þótt hin blokkin hafi breyst og veikst. En það er til marks um að þessar blokkir eru enn til að milli Bandaríkjanna og NATO annars vegar og Rússlands hins vegar hefur verið vaxandi spenna á undanförnum misserum. Valdablokkin Bandaríkin/NATO hefur allt frá lokum kalda stríðsins verið í átökum við ríki sem ekki hafa viljað gangast undir forræði eða inn á hugmyndafræði hennar. NATO gerði innrás í Júgóslavíu árið 1999 og Bandaríkin réðust inn í Írak árið 1991 og aftur árið 2003 og inn í Afganistan árið 2001. NATO hefur verið með herlið og starfsemi bæði í Írak, Afganistan og Júgóslavíu. Vissulega voru mikilvæg NATO-ríki eins og Þýskaland og Frakkland andvíg innrásinni í Írak 2003 en Ísland studdi hana og tók sér þannig stöðu með valdbokkinni innan valdablokkarinnar, Bandaríkjunum og Bretlandi. NATO byggist á ákveðnum hugmyndafræðilegum grundvelli, hugmyndafræði sem hefur verið tekist á um og er enn tekist á um. Það er líka rétt að hafa í huga að NATO hefur á undanförnum árum verið að taka upp æ meiri samskipti við Ísrael (sjá nánar).

Ísland er vissulega fámennasta ríkið í NATO og hefur þá sérstöðu að hafa engan her þótt bandarískar herstöðvar hafi verið hér til skamms tíma. Þessi sérstaða hefur skapað Íslandi meiri hlutleysis- og friðarímynd en við eigum skilið. Og það er kannski ekki óeðlilegt að ráðamenn í Ísrael kjósi að horfa framhjá því að hinn nýi bandamaður, NATO, sé valdablokk, eða að náið samband Íslands og helsta stuðningsríkis Ísraels, Bandaríkjanna, skipi Íslandi í einhverja valdablokk. Það er hins vegar ekki víst að allir í hinum arabíska heimi líti jafn létt framhjá því. Þar vita kannski sumir að Ísland og Ísrael eru í raun í sömu valdablokkinni. Það er því óskandi að utanríkisráðherra Íslands detti ekki ofan í einhverja óskhyggju um að Ísland geti verið í senn aðili að NATO og utan allra valdablokka.

Ef Íslendingar segðu sig úr NATO og hættu hverskyns þátttöku í hernaðarbrölti, þá væri eðlilegt að litið yrði til þess að Ísland hefði hlutverki að gegna við lausn alþjóðlegra deilumála. Það væri óskandi að utanríkisráðherra Íslands sæi það ljós. Það er kannski borin von að slíkt skref verði stigð af stjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að, en horfum til þess að önnur stjórn taki við og stigi skrefið. Ef núverandi utanríkisráðherra lætur ekki blekkja sig með fagurgala, þá gæti hún jafnvel verið utanríkisráðherra í ríkisstjórn sem tæki slíkt heillaskref.

Einar Ólafsson

Ótrúleg bráðabirgðalög

By Uncategorized

Eftirfarandi grein birtist á vefritinu ogmundur.is 14. júlí.

Eina skynsamlega skýringin sem ég hef heyrt á því að ríkisstjórnin skuli hafa sett bráðabirgðalög um notkun raflagna og raffanga til að þurfa ekki að breyta rafmagnskerfinu í herstöðinni fyrrverandi í Keflavík, er sú að enn blundi í brjósti ríkisstjórnarinnar sú von að Kaninn snúi aftur! Það var með ólíkindum að lesa um það í fréttum að ríkistjórnin sjái tilefni til að setja bráðabirgðalög, svo Íslendingar geti búið í óíbúðarhæfu húsnæði. Raflagnir standast ekki íslenskar eða evrópskar kröfur. Rökin eru: ,,Það er viðamikið verkefni og mun hafa mikinn kostnað í för með sér.” Eitt slys gerir þennan sparnað að engu.

Hætturnar er m.a. eftirfarandi:

  • Öll raftæki á Íslandi eru fyrir 230V 50rið. Kanar eru með 110V 60rið. Í lagi er að setja 220V glóperu í 110V. Hún logar bara að hálfu.
  • Öll önnur tæki er stórvarasöm, það eru tæki með spennum, straumfestum (balestum floursent) og straumfestarnar brenna.
  • Mótórar munu brenna þar sem þeir taka of mikinn straum. Segulviðnám minnkar við minni spennu.
  • Engir lekaliðar eru í þessum húsum að því að mér skilst og vörin stærri vegna lægri spennu gætu verið 20A í stað 10A.
  • Setja þarf spenna við öll tæki sem fólk kemur með sér. Lítill vandi er að ofhlaða slík tæki. Kann fólk eða börn að lesa á spenna og raftæki?
  • Börn sem koma í heimsókn með raftæki sín, verða þau upplýst um hætturnar?
  • Frá mínum sjónarhóli er þetta jafnvitlaust og leyfa vinstri umferð í Keflavík, ef þangað flyttu 300 Bretar.

    Að breyta 300 íbúðum í íbúðarhæft húsnæði er að mínu mati ekki viðamikið verkefni eða kostnaðarsamt. Vissulega verkefni en kostar ekki meira en mánaðarlaun nokkurra bankastjóra. Röskir rafiðnaðarmenn myndu rusla þessu upp á nokkrum mánuðum.

    Að lokum ef ríkistjórnin sér ástæðu til að setja bráðabirgðalög af svo litlu tilefni, á hverju getum við þá átt von?

    Rúnar Sveinbjörnsson, rafvirki

    p.s.
    Úr Stjórnarskrá Íslands:

      1. gr. Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög [er Alþingi er ekki að störfum].1) Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð [fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný].1)

    Telst þetta brýn nauðsyn? Ég segi nei. En hvernig lög geta riðið í bág við stjórnarskrána er mér hulin ráðgátav. Þetta bendir þó til þess að ríkistjórnin hafi ekki lesið lögin því þannig er þetta á vef Alþingis.

    rs

    Baldvin Halldórsson kvaddur

    By Uncategorized

    Baldvin Halld  rsson Baldvin Halldórsson er látinn. Við minnumst Baldvins sem eins merkasta leikara og leikstjóra hér á landi á síðustu öld. En einnig minnumst við hans sem einarðs herstöðvaandstæðings sem lét aldrei deigan síga, ómyrkur í máli þegar talið barst að herstöðvamálinu eða fólskuverkum hernaðar- og heimsvaldasinna. Hann kunni að kveða sterkt að en þó þannig að mark yrði á tekið. Hann var upplýstur maður og unni landinu og íslenskri menningu og íslenskum bókmenntum, en hann var líka alþýðumaður og maður réttlætis án landamæra.

    Iðulega mætti Baldvin Halldórsson á samkomur herstöðvandstæðinga og mótmælafundi gegn herstöðvum og hernaðarlegu ofbeldi. Alltaf var hann boðinn og búinn, hvort sem var til að vera kynnir á samkomum eða lesa upp – og enginn las upp af meiri alvöru, meiri þrótti eða hugsjón en Baldvin Halldórsson. Og gegnum þessa alvöru skein gamansemi og hlýja.

    Herstöðvaandstæðingar minnast Baldvins Halldórssonar með virðingu og þakklæti. Samtök hernaðarandstæðinga senda fjölskyldu hans og öðrum vinum og vandamönnum samúðarkveðjur.