Monthly Archives

December 2006

Landsfundur SHA í Ísafold

By Uncategorized

isafoldLandsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga var haldinn í lok nóvember. Erla Hlynsdóttir, blaðakona á tímaritinu Ísafold, sat fundinn og skrifaði um hann grein sem birtist í janúarhefti tímaritsins. Vert er að vekja athygli á umfjöllun Erlu, sem er að finna á bls. 120-121.

Friðarávarp frá Ísafirði

By Uncategorized

Við lok friðargöngu á Ísafirði á Þorláksmessu flutti Eiríkur Örn Norðdahl skáld og blaðamaður ávarp:

Kæru göngumenn.

mynd eftir barnÉg mun ekki pína ykkur með löngum ræðuhöldum. Í raun er kannski heldur ekki svo margt að segja – í öllu falli hefði maður haldið að þetta segði sig sjálft: Það er ekki fallegt að drepa annað fólk. Það segir kannski eitthvað um samfélagið að á þetta þurfi að minna með reglulegu millibili. Ég veit það ekki. Um víða veröld er fólk drepið, saklausir og sekir, litlir og stórir, af öllum heimsins kynþáttum, og af slíku litrófi ástæðna og afsakana að því verður ekki komið fyrir í stuttum pistli. Því verður ekki komið fyrir í öllum heimsins bókum.

Einna undarlegast þykir mér sjálfum þegar fólk er drepið af bjúrókrötum á kontórum – sem dæmi þegar íslenskir ráðamenn lýstu yfir stuðningi við stríð í Írak. Því þeir einstaklingar eru svo sannarlega samsekir um fjöldamorð, samsekir að stuðla að óeirðum og borgarastyrjöld, samsekir um að hvetja til meiri eymdar í veröldinni. En það er ekki rétt að kenna þeim einum um – auðvitað eru þeir engir stríðsherrar, Halldór og Davíð, þó þeir séu armir þrælar viðhorfa bandarískra stríðsherra. Auk þess er ekki eins og þeir hafi gert valdarán á Íslandi, þeir voru lýðræðislega kosnir til þess að fara með vald hér á landi. Stærstur hluti þjóðarinnar ber ábyrgð á þeim, og þannig er stærstur hluti hinnar íslensku þjóðar einnig samsekur um stríð í Írak – hverju sem tilteknir kjósendur svöruðu í skoðanakönnunum um þetta tiltekna stríð. Þar er hægri höndin einfaldlega að afneita gjörðum þeirrar vinstri.

Við, og þegar ég segi við á ég við okkur öll, frá Keflavík til Katmandú eins og segir í kvæðinu – Við berum ábyrgð á veröldinni sem við búum í. Og sá gerningur að berjast gegn eymd í veröldinni verður að eiga sér stað á öllum sviðum mannlífsins. Það má ekki líða stjórnmálamönnum að skrifa undir dauðadóma, og þá skiptir engu hversu sammála eða ósammála við erum þeim í öðrum málum – skiptir engu hvort við viljum einkavæða eða þjóðnýta, hvort við viljum afnema kvótakerfið eða færa olíubirgðastöðina niður á Mávagarð. Það á ekki að drepa fólk, og ef við viljum raunverulega að því verði hætt verðum við að byrja á því að taka á okkur okkar hluta ábyrgðarinnar og taka svo til í eigin ranni. Við sem höfum kosningarétt getum úthýst stjórnmálamönnum sem taka þátt í fjöldamorðum, og eigum að gera það án þess að hika. Til þess er okkur valdið falið að við beitum því. Það er öllum ljóst að þjóðfélag sem kýs stjórnmálamenn eins og það heldur með íþróttafélögum er ekkert lýðræðisþjóðfélag, nema rétt svo í orði kveðnu.

peacefistEn hatrið og ófriðurinn grasserar víðar en í Írak. Síðastliðið misseri höfum við staðið frammi fyrir því að stjórnmálamenn eru farnir að hrakyrða það fólk sem flust hefur til landsins til að taka þátt í þjóðfélaginu okkar. Ég var staddur í Reykjavík fyrir rúmum mánuði síðan og gekk þar um Hafnarstræti þar sem verið var að opna nýjan veitingastað. Í tveimur gluggum voru merkingar: Maharab New Arab Restaurant Opening Soon. Yfir skiltin höfðu verið spreyjaðir hakakrossar. Kæru göngumenn, ég endurtek: Yfir skiltin höfðu verið spreyjaðir hakakrossar. Stjórnmálamenn þeir sem skrifað hafa greinar og flutt pistla þar sem fáránlegum hugmyndum um að á Íslandi finnist eitthvað sem kallast „innflytjendavandamál“ er gefið hressilega undir fótinn, þar sem erlendir íbúar þessa lands eru uppnefndir og sagðir til vandræða án þess að að fyrir því sé nokkur fótur, telja kannski að þeir beri enga ábyrgð á því þegar innflytjendur eru smánaðir. En við berum öll ábyrgð á þessu þjóðfélagi. Það hvernig við tölum, hvernig við mótum umræðuna, hvernig við sköpum veröldina orð fyrir orð, hefur áhrif á gjörðir okkar og annarra. Sá sem kyndir undir hatri, hvort sem hann hatar sjálfur eða ekki, ber ábyrgð á því ofbeldi og þeirri óáran sem orðum hans fylgir. Hatur á heilum þjóðfélagshópum er algerlega og með öllu óverjandi svíðingsskapur. Það eru engin dæmi um að innflytjendur hafi lagt þjóðfélag í rúst, en um miðja síðustu öld stendur brennandi minnisvarði um það hvað gerist þegar kynþáttafyrirlitningu er leyft að grassera. Þýskaland er enn í sárum eftir þann rumpulýð sem þar óð uppi, er enn í sárum eftir þá kjósendur og þjóðfélagsþegna sem komu mönnum þar til valda og þá sem létu það afskiptalaust. Það er ekki lengur tæk afsökun að segjast ekki hafa vitað – við vitum öll hvaða afleiðingar þetta hefur.

Kæru göngumenn. Um leið og ég vil bera fram þá ósk að minna verði um hatur og fjöldamorð á komandi ári en verið hefur undanfarin ár, áratugi, aldir og árþúsund, vil ég óska ykkur gleðilegra jóla.

Eiríkur Örn Norðdahl

Ávarp við lok friðargöngu á Þorláksmessu

By Uncategorized

pin world peace lgFalasteen Abu Libdeh flutti ávarp á Lækjartorgi við lok friðargöngunnar á Þorláksmessu. Það birtist hér í heild sinni.

Fyrir nokkrum dögum fékk ég boð um að koma hér í dag og tala um frið. Ég þurfti ekki að hugsa mig mikið um áður en ég þáði það boð.

Ekki hvarflaði þó að mér að það að tala um frið gæti orðið snúið viðfangsefni. Við vitum jú öll hvað friður er, eða teljum okkur að minnsta kosti vita það og höfum kannski upplifað það sem við skilgreinum sem frið.

Ég velti því sjálf fyrir mér hvernig ég upplifði þetta hugtak og spurði um leið aðra þess sama. Niðurstaðan er einföld, við upplifum öll frið á okkar hátt og jafnvel á fleiri en eina vegu hvert.

Hinn venjulegi íslendingur á ekki við að hann vilji vera laus við sprengjuregn og lífsháska þegar hann segist vilja ró og frið um jólin. Í hans huga er friður meira fólgin í einhverskonar rólegheitum, þægilegri tónlist, mjúkum sófa, smákökum, farsíma sem stilltur er á silent og fréttastofu sem lætur það vera að segja óþægilegar fréttir í einn dag. Það er sá friður og ró sem við óskum sjálfum okkur þessa dagana. Við viljum einfaldlega hafa það sérstaklega náðugt.

En við notum líka hugtakið friður á annan hátt. Við tölum um frið í heiminum og við notum hátíðarnar sérstaklega í þeim tilgangi að sýna að við viljum frið um alla jörð. Við göngum saman hér í dag og sýnum sjálfum okkur og öðrum að við látum okkur hagsmuni annarra varða. Við komum saman til að minna hvort annað á að það eru ekki allir sem búa við sömu aðstæður og við. En um leið og við gerum það þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að það eru ekki allir sem búa við þau forréttindi að hugsa um frið á sama hátt og við.

picasso grossFyrir þeim sem búa við þær aðstæður að geta ekki brauðfætt sig og sína með góðu móti, fyrir þann sem býr við lélegan húsakost og litla sem enga heilbrigðisþjónustu, fyrir þann sem á sér litla sem enga möguleika á að afla sér menntunar, fyrir þann sem sér ekki neina möguleika á að fá atvinnu við hæfi, – er friður í besta falli hjóm eitt í samanburði við veruleikann. Fyrir hann hefur friður allt aðra merkingu.

Þannig markar staða okkar í efnahagslegu og menningarlegu tilliti að einhverju leyti afstöðu okkar til friðarhugtaksins og gildi þess.

Barn í stríðshrjáðu landi óskar sér þess að fá að standa í sporum þess sem hefur efni á að segjast óska sér friðar, þ.e. að vera í þeim sporum að eiga allt og vanhaga ekki um neitt.

Til þess að geta átt von á að það muni ríkja friður á jörð þurfum við að læra að þekkja hvort annað og mismunandi aðstæður. Við sem búum við þau forréttindi að hafa svigrúm til að setja frið í forgang, verðum að taka forystuna og gera hinum kleyft að gera það sama.

Þegar fréttir birtast af mannfalli í mið-austurlöndum, þegar fréttir berast af því að börn og ungmenni hafi verið myrt, þegar fréttir berast um að þúsundir barna deyji á hverjum degi úr hungri, þá er það ekki vegna þess að við séum tilfinningalaus að við fellum ekki tár. Það er vegna þess að við finnum ekki fyrir raunverulegum tengslum við efni fréttarinnar, fólkið sem rætt er um. Við finnum ekki fyrir þeim samhljóm sem er grundvallarforsenda þess að við getum fundið til með hvort öðru.

Við verðum að huga að því sem skapar frið, í stað þess að horfa á frið sem eitthvað sjálfstætt fyrirbrigði sem hægt er að koma á með því að tala um það á hátíðísdögum. Við verðum að læra að þekkja hvort annað og skilja að við erum öll eins, með nákvæmlega sömu væntingar til lífsins, hvort sem við fæðumst í Írak eða Íslandi, Ameríku eða Afríku. Við verðum að einblína á þá það sem tengir okkur, það sem við eigum öll sameiginlegt og finna til raunverulegrar samkenndar.

Við verðum að hætta að einblína á það sem skilur fólk í sundur og reyna að hugsa um það sem sameinar okkur öll. Okkur kann kannski að þykja það lítið samhengi hlutana í dag en á endanum er það einmitt það sem skiptir öllu. Það er það sem tengir okkur og veldur því að við finnum til með hvoru öðru, veldur því að fréttir af hörmulegum atburðum snerta strengi í huga okkar og kallar fram samhug og samkennd.

Íslendingar eins og aðrir verða því að opna huga sinn gagnvart fólki sem hefur ekki sama uppruna, leggja sig fram um að þekkja og skilja. Það er eitthvað sem við getum öll gert og eigum ef til vill að hafa hugfast í þerri umræðu sem nú er í þjóðfélaginu og snýr að nýjum íbúum þessa lands. Notum tækifærið til að læra að þekkja umheiminn í gegnum nýtt fólk og tökum á nýjum tímum sem tækifærum í stað þess að hrópa endalaust að upp sé komið vandamál.

palestine children playingÉg flutti sjálf til Íslands þegar ég var að nálgast fullorðinsárin en áður var ég ein af krökkunum sem þið heyrið um í fréttunum á nánast hverjum degi, ein af þessum Palestínsku börnum sem kasta grjóti að Ísraelskum hermönnum. Í dag á ég átta ára dóttur og nú þegar ég hugsa til baka til þess tíma þegar ég var sjálf átta ára, þá átta ég mig á að ég bý ekki aðeins öðru landi, held ég bý ég við allt annan veruleika. Ég man sjálf eftir því þegar ég var átta ára og stríðið byrjaði að nýju í mínu heimalandi, landinu sem ég kallaði alltaf Palestínu – en aðrir vildu kalla eitthvað annað.

Ég man eftir föstudeginum þegar ég fór í fyrsta sinn með frænda mínum til bænahússins þar sem búið var að skipuleggja mótmæli að aflokinni bænastund. Ég man eftir þeim ótta sem greip um sig í huga mínum þegar Ísraelskir hermenn dreifðu táragasi um svæðið og hófu að skjóta á allt sem hreyfðist með hörðum gúmmíkúlum. Ég man eftir því að hafa falið mig undir stóru tré og grátið – ein og búin að týna stóra frænda mínum. Ég komst heim til mín að lokum og viku síðar var ég staðráðin í því að fara aftur. Ég hafði sigrast á óttanum og fannst ég jafnvel hafa gert töluvert gagn. Ég var ekki lengur litla stelpan sem pissaði úr sig af hræðslu af ótta við hermennina, ég var orðin ein af hópnum, þeim sem börðust fyrir sjálfstæði Palestínumanna.

Ég hafði alist upp við sögur forfeðra minna af þeim hörmungum sem þeir máttu þola í kjölfar stofnunar Ísraelsríkis, það er minn bakgrunnur, mínar rætur. Með það í huga er ekki óskiljanlegt að átta ára barn finni sér tilgang í því að kasta grjóti að brynvörðum hermönnum.

Í Evrópu hefur ríkt friður í rúma hálfa öld – við eigum að vera þakklát fyrir það en á sama tíma þá megum við ekki gleyma því hvað gjald var greitt fyrir þann frið og hverjir það eru sem greiða.

Falasteen Abu Libdeh

Samtök hernaðarandstæðinga, andheimsvaldasinnuð friðarsamtök

By Uncategorized

fridarhnefi2 Í frétt hér á Friðarvefnum 4. desember um aðalfund Norðurlandsdeildar SHA, sem var haldinn 30. nóvember, var þess getið að á fundinum hefði komið fram óánægja með hið nýja nafn samtakanna, Samtök hernaðarandstæðinga, sem mönnum þótti bera í sér pasifíska afstöðu, og jafnframt var þess getið að leiðari síðasta Dagfara hafi verið skrifaður undir sömu merkjum.

Nú er kannski rétt að staldra við orðið „pasifískur“. Með því er væntanlega átt við þá afstöðu að leggja allan hernað og valdbeitingu að jöfnu án tillits til ástæðna þess sem valdinu beitir. Öll áhersla sé þá lögð á að andæfa hernaðinum en litið framhjá orsökunum eða í það minnsta hinum pólitísku orsökum. Þannig sé valdbeiting hinna kúguðu gegn kúgurum sínum lögð að jöfnu við valdbeitingu kúgarans.

Leiðari Dagfara
Þegar ég lít til leiðarans sem ritstjórar síðasta Dagfara skrifuðu, þá get ég tekið undir ýmislegt í honum, en ekki allt. Þar er meðal annars varað við að menn festist í gömlum aðstæðum, svo sem kalda stríðinu og tvíhyggju þess, sem afvegaleiði umræðuna um veruleika nútímans.

„Mannkynssagan er ekki föst stærð heldur margbreytilegt, pólitískt afl,“ segir í leiðaranum og eru orð að sönnu. Í þessu margbreytilega afli er samhengi og þannig var kalda stríðið til dæmis ekki afmarkað fyrirbæri, hvorki í samtímanum né hinu sögulega samhengi. Kalda stríðið fólst ekki bara í andstæðunum Bandaríkin (eða vesturlönd) andspænis Sovétríkjunum (eða kommúnísku ríkjunum). Umhverfi þess var kapítalismi andspænis sósíalisma, borgarstétt andspænis verkalýðsstétt, arðræningjar andspænis hinum arðrændu, vestrænir heimsvaldasinnar og heimsvaldaríki ásamt harðstjórum og einræðisherrum í þróunarlöndum studdum af Bandaríkjunum andspænis fátækri alþýðu og þjóðfrelsishreyfingum þróunarlandanna, sem stundum nutu stuðnings Sovétríkjanna eða Kína.

imperialism Heimsvaldastefna er mikilvægt hugtak þótt orðið sé ekki mikið notað nú vegna vaxandi feimni á undanförnum tveimur áratugum eða svo við beinskeytta orðanotkun í samfélagslegri umræðu. Heimsvaldastefna er sú tilhneiging ríkja, stundum í bland við önnur samfélagsleg og efnahagsleg öfl, svo sem stórfyrirtæki, að seilast til áhrifa utan landamæra sinna í hagnaðarskyni. Heimsvaldastefna hefur birst í ýmsum myndum frá heimsveldum fornaldarinnar og nýlendustefnunni til heimsvaldastefnu Bandaríkjanna á síðustu öld og allt til yfirgangstefnu þeirra í Mið-Austurlöndum nú og hinnar kapítalísku hnattvæðingar nútímans. Heimvaldastefna felur alltaf í sér kúgun og arðrán.

Á árum kalda stríðsins, meðan stórveldin hlóðu upp kjarnorkuvopnum sínum, geisuðu fjölmörg heit stríð þar sem vopnum var beitt og blóð rann. Þessi stríð voru yfirleitt nátengd kalda stríðinu. Mest þeirra var Víetnamstríðið, þar sem Bandaríkjamenn börðust árum saman við her Norður Víetnam og þjóðfrelsishreyfinguna í Suður Víetnam. Það voru frelsisstríðið og byltingin á Kúbu, uppreisn alþýðu í Mið-Ameríku sem og í nýlendum Portúgala í Afríku, það var stríð Pinochets og arðránsstéttar Chile gegn alþýðu Chile eftir valdaránið þar, svo fátt eitt sé nefnt. Í öllum þessum stríðum komu Bandaríkin við sögu, einnig í nýlendum Portúgal, sem, vel að merkja, var í NATO á þessum tíma þegar landið var fasískt nýlenduveldi. Á tímum kalda stríðsins var andstæðan ekki bara Bandaríkin andspænis Sovétríkjunum heldur Bandaríkin og yfirstétt heimins andspænis Sovétríkjunum og alþýðu heimsins. Þannig var það, þrátt fyrir kúgunina í Sovétríkjunum og öðrum kommúnískum ríkjum. Eftir lok kalda stríðsins er meginandstæðan áfram Bandaríkin og yfirstétt heimsins andspænis alþýðu heimsins. Árið 1989 fól vissulega í sér tímamót en það var bara einn þáttur sem rofnaði í samtvinnuðum þræði sögunnar og allir eru þættir sögunnar meira og minna samgrónir þannig að enginn þáttur rofnar algerlega á einni nóttu.

Hættum að syngja Nallann?
Lokaorð Dagfara-leiðarans eru þessi: „Gefum Che Guevara-bolina til Hjálpræðishersins. Málum yfir hamarinn og sigðina. Hættum að syngja Nallann. Elskum friðinn.“

internationale Hernaður og styrjaldir stafa oftar en ekki af yfirráðastefnu, heimsvaldahagsmunumog arðránshagsmunum. Heimsveldum hefur lostið saman, heimsveldi hafa undirokað aðrar þjóðir og arðránsstétt, oft með fulltingi heimsveldis, hefur kúgað og arðænt alþýðu eigin lands. Af því hafa sprottið uppreisnir, blóðug átök, hernaður. Því hefur oft farið saman friðarbarátta og andheimsvaldasinnuð barátta sem felur í sér stuðning við hina kúguðu og hefur því tengst bæði verkalýðsbaráttu í þróuðum löndum og uppreisn alþýðu og þjóðfrelsishreyfinga í þróunarlöndum. Þannig hafa menn í senn barist fyrir friði og stutt vopnaða uppreisn kúgaðrar alþýðu. Af því að frelsi og jafnrétti er forsenda friðar.

che Myndir af Che Guevara, hamar og sigð og Internasjónalinn eru tákn fyrir verkalýðsbaráttuna og uppreisn alþýðunnar. Og þeirri baráttu, þeirri réttmætu uppreisn, er alls ekki lokið þótt kalda stríðinu sé lokið og kommúnísku ríkin flest liðin undir lok. Það er líka óbreytt, að arðráns- og heimsvaldastefna er helsta orsök hernaðar og styrjalda.

hamarogsigd Táknum verkalýðsbaráttu og uppreisnar alþýðu hefur oft verið misbeitt af örgustu kúgurum, einkum hamrinum og sigðinni, sem upphaflega táknuðu bandalag verkamanna og smábænda, bandalag sem enn er í fullu gildi á heimsvísu andspænis hnattvæðingu kapítalismans, heimsvaldastefnu nútímans. Enn hefur Che skírskotun til kúgaðrar alþýðu víða um heim, ekki síst í Rómönsku Ameríku, og enn er Nallinn sunginn 1. maí og við fleiri tilefni á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar og verkalýðsflokka. Internasjónalinn er söngur verkalýðshreyfingarinnar og þegar við syngjum hann í morgunkaffi SHA 1. maí erum við að lýsa yfir samstöðu með verkalýðsstéttinni á baráttudegi hennar. Með því leggjum við áherslu á að friðarbarátta og kjara- og frelsisbarátta alþýðu fara saman. Í þessum táknum felst sú samfella sögunnar, sögu stéttabaráttu, sögu frelsisbaráttu og þar með sögu friðarbaráttu, sem við megum ekki gleyma. Ef við gleymum henni, ef við horfum framhjá kúguninni, arðráninu og heimsvaldastefnunni sem helstu orsökum ófriðar, og ef við viðurkennum ekki rétt hinna kúguðu til uppreisnar þannig að þeir geti lifað frjálsu og friðsömu lífi, þá verður friðarbarátta okkar bitlaus. Þá er það innantómt tal að segjast elska friðinn.

Gagnrýni norðlendinga
Í fréttinni af aðalfundi Norðurlandsdeildarinnar segir: „Óánægja kom fram með nafnið Samtök hernaðarandstæðinga sem mönnum þykir bera í sér pasifíska afstöðu. Leiðari síðasta Dagfara er skrifaður undir sömu merkjum. Mælist þetta illa fyrir þegar framganga heimsvaldastefnunnar nú um stundir er eins og raun ber vitni sem gefur ástæðu til að skerpa frekar pólitískan (ekki flokkspólitískan) prófíl baráttunnar gegn yfirgangs- og hernaðaröflum okkar daga.“

Svo virðist vera að ástæða nafnbreytingarinnar hafi ekki komist nógu vel til skila. Ástæðan var einfaldlega sú að herstöðvar eru ekki lengur neinar á Íslandi sem standa undir nafni. Að vísu er hernaðarlegt svæði undir yfirráðum Bandaríkjanna kringum radarstöðina við Grindavík og allstórt svæði á Miðnesheiði er skilgreint sem hernaðarlegt svæði, eins og Stefán Pálsson, formaður SHA, lýsti í ávarpi sínu í síðasta Dagfara, ávarpi sem kannski hefði mátt líta til ekki síður en leiðara ritstjóranna. Mörgum virkum félögum í Samtökum herstöðvaandstæðinga þótti nafnið farið að virka heldur illa og fannst að vart væri tekið mark á samtökunum undir þessu nafni, litið væri á þau sem úrelt, og mátu það svo að nafnið virkaði hamlandi á starfsemina. Auðvitað er hægt að deila um þetta mat en meirihlutinn á landsfundinum var samt sammála því.

fridarhnefi1 Nafnið Samtök hernaðarandstæðinga varð fyrir valinu meðal annars af því að það líkist gamla nafninu og býður upp á sömu skammstöfun. Með þessu vali var sem sagt verið að halda í samfelluna í sögu og baráttu samtakanna. Eftir því sem mér hefur skilist var nafni eins og Friðarsamtökum Íslands hafnað fyrst og fremst af því að það hljómað svo „pasifískt“ og með því hefði mátt skilja að um meiri háttar stefnubreytingu væri að ræða.

Til tals kom nafnið Samtök gegn heimsvaldastefnu. Það hefði hins vegar verið heldur þröngt. Samtök herstöðvaandstæðinga hafa alltaf fyrst og fremst verið samtök gegn herstöðvum, hernaðarbandalögum, einkum NATO, kjarnorkuvopnum og hernaði almennt, en afstaða gegn heimsvaldastefnu hefur ævinlega mótað þá baráttu allt frá því samtökin voru stofnuð árið 1972 þegar baráttan gegn Víetnamstríðnu stóð sem hæst.

fridarmerki Það er ákaflega hæpið að dæma stefnubreytingu í átt til afstöðulauss pasifisma út frá þessari nafnbreytingu einni saman auk einnar greinar í Dagfara, þótt yfirskrift hennar sé „leiðari“. Nær væri að líta til starfsemi og yfirlýsinga samtakanna að undanförnu. Eins og ævinlega hafa samtökin barist gegn bandarísku herstöðvunum á Íslandi og aðild Íslands að NATO. Samtökin hafa staðið fyrir mótmælaaðgerðum gegn hernaði Bandaríkjanna í Írak, Afganistan og þar áður Júgóslavíu og aðild Íslendinga að þessum hernaði. Samtökin hafa líka staðið fyrir mótmælaaðgerðum gegn hernaði Ísraels gegn Palestínu og Líbanon og gegn stuðningi Bandaríkjanna við Ísrael. En engar ályktanir hafa verið gerðar né mótmælaaðgerðir skipulagðar gegn hernaðaraðgerðum Palestínumanna né uppreisnarmönnum eða hryðjuverkamönnum í Írak og Afganistan. Samtökin eru ekki hlynnt sjálfsmorðssprengingum eða öðrum hryðjuverkum sem bitna á almenningi, en áherslan hefur alltaf verið lögð á andóf gegn heimsvaldasinnum, arðræningjum og vopnaframleiðendunum og í því felst að samtökin hafa litið á þessi öfl sem helstu orsök hernaðar og ófriðar.

Fugl dagsins Vissulega hafa samtökin staðið að aðgerðum sem kalla mætti „pasifískar“, kertafleytingum og friðargöngum á Þorláksmessu, án þess að hljóta gagnrýni fyrir, enda hefur það verið styrkur samtakanna að geta staðið að slíkum aðgerðum þegar það á við og beinskeyttari andheimsvaldasinnuðum aðgerðum þegar svo ber undir.

Nútímaleg friðarbarátta?
Í leiðara Dagfara er mælt með nafninu Samtök hernaðarandstæðinga, enda séu engar herstöðvar lengur í landinu. „Þannig mætti taka skref í áttina að nútímalegri friðarbaráttu.“ En hvað er nútímaleg friðarbarátta?

listgegnstridi Á fyrstu árum þessarar aldar efldist hin alþjóðlega friðarhreyfing mjög. Um allan heim starfa fjölmörg friðarsamtök sem sum hver eru áratuga gömul, eiga jafnvel rót að rekja til fyrstu ára síðustu aldar. Í aðdraganda Íraksstríðsins, á árunum 2001 til 2003, reis upp gífurleg alþjóðleg hreyfing sem gjarnan var kölluð „hreyfingin gegn stríði“ (anti-war movement), hreyfing sem Samtök herstöðvaandstæðinga hafa verið hluti af. Þessi hreyfing var að nokkru leyti byrjuð að þróast fyrr í tengslum við innrásina í Júgóslavíu 1999 en byggðist líka talsvert á gömlu friðarhreyfingunum og alþjóðlegu réttlætishreyfingunni eða öðru nafni hreyfingunni gegn hnattvæðingu, sem varð til á seinni hluta 10. áratugarins og kringum aldamótin (sjá „Yfirlit yfir sögu nýju friðarhreyfingarinnar“. Þessi hreyfing er í ríkum mæli andheimsvaldasinnuð og upp úr henni varð til alþjóðleg hreyfing gegn erlendum herstöðvum og þá fyrst og fremst bandarískum, hreyfing sem mun halda alþjóðlega ráðstefnu í Ekvador í mars 2007 þar sem stofnuð verða Alþjóðasamtök herstöðvaandstæðinga. Þessi hreyfing hefur verið kynnt hér á Friðarvefnum (sjá https://fridur.is/nobases) og SHA hafa tilheyrt henni bæði meðan að baki þessari skammstöfun voru Samtök herstöðvaandstæðinga og eftir að þau urðu Samtök hernaðarandstæðinga af praktískum ástæðum hér innan lands.

Í hinni alþjóðlegu friðarhreyfingu fer barátta gegn kjarnorkuvopnum líka vaxandi, barátta sem Samtök herstöðvaandstæðinga hafa löngum lagt áherslu á. Þannig má segja að nútímaleg friðarbarátta sé nokkurn veginn sú barátta sem Samtök herstöðvaandstæðinga hafa alltaf háð og munu heyja áfram undir hvaða nafni sem er.

Einar Ólafsson

Friðarganga á Þorláksmessu í Reykjavík, á Ísafirði og Akureyri

By Uncategorized

fridarganga Að venju verða friðargöngur á Þorláksmessu í Reykjavík, á Ísafirði og á Akureyri.

Í Reykjavík verður safnast saman á Hlemmi og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Sjá nánar

Á Ísafirði hefst gangan einnig kl. 18. Lagt verður af stað frá Ísafjarðarkirkju. Sjá nánar

Á Akureyri hefst blysför í þágu friðar kl. 20 og verður gengið frá Samkomuhúsinu (Leikhúsinu) og út á Ráðhústorg. Sjá nánar

Blysför á Akureyri í þágu friðar

By Uncategorized

AkureyriÁhugafólk um friðvænlegri heim stendur að hinni árlegu blysför í þágu friðar á Þorláksmessu, en gengið hefur verið frá árinu 2002. Gengið verður frá Samkomuhúsinu (Leikhúsinu) á Akureyri kl. 20.00 og út á Ráðhústorg.

Blysför í þágu friðar felur annars vegar í sér almennar jólaóskir um frið og hins vegar beinist hún gegn versta tilræðinu við friðinn nú um stundir, Íraksstríðinu.

Stíðið í Írak heldur áfram. Innrásaröflin verða stundum að breyta túlkun sinni á eðli þess. Flestar vestrænar fréttastofur (m.a. íslenskar) bergmála þá túlkun. Í byrjun var fylgismönnum Saddams helst kennt um ofbeldið. Síðan var áherslan lögð á al-Qaeda, ekki síst á al-Zarqawi, hinn blóðþyrsta jórdanska al-Qaedaliða. Eftir að hann var drepinn er kápunni enn snúið og nú kallast ofbeldið „átök trúarhópa” og „borgarastríð” og er túlkað sem stríð milli ofstækisfullra sía- og súnnímanna.

Stöku sinnum heyrast þó fréttir af að dauðsaveitir þær sem flesta myrða tengist svonefndri „ríkisstjórn” Íraks og C.I.A. og að allt sé þetta hluti af hinu grimmilega, löglausa og tilefnislausa ensk-bandaríska hernámi á Írak.

Innrásin og hernámið hefur enn fullan og yfirlýstan stuning Íslands.

Kjörorð okkar eru hin sömu og áður:

– Frið í Írak!
– Burt með árásar- og hernámsöflin!
– Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!

Ávarp flytur Hlynur Hallsson, myndlistamaður
Kór Akureyrarkirkju syngur
Kerti verða seld í upphafi göngunnar.
Taka ber fram í ljósi verðurspár að aðeins verður gengið ef veður leyfir.

Áhugafólk um friðvænlegri heim