Monthly Archives

October 2006

Viðtal við Vigfús Geirdal um símhleranir og fleira á Morgunhananum

By Uncategorized

Í þættinum Morgunhaninn á Útvarp Sögu 30. nóvember ræddi Jóhann Haukson við Vigfús Geirdal sagnfræðing um símhleranir og skráningu á vinstrimönnum á kaldastríðsárunum. Þetta er langt og fróðlegt viðtal. Hægt er að hlusta á það með því að fara á vefslóðina www.morgunhaninn.is/?p=1&dagur=2006-10-30 en stuttan útdrátt úr viðtalinu má finna á vefslóðinni www.morgunhaninn.is/?f=view&id=72.

Baráttan heldur áfram!

By Uncategorized

kjartanolafsson Húsfyllir var á hinum mánaðarlega föstudagskvöldverði í Friðarhúsi 28. október. Kjartan Ólafsson fv. alþingismaður kom og fjallaði um hleranamálið auk þess sem hann rifjaði upp ýmislegt úr sögu baráttunnar gegn hernámi og herstöðvum, en hann var meðal stofnenda Samtaka hernámsandstæðinga, framkvæmdastjóri samtakanna og aðalhvatamaður að fyrstu Keflavíkurgöngunni. Í fróðlegu og bráðskemmtilegu erindi fagnaði hann því að loksins væri herinn farinn en benti jafnframt á að í nýgerðum samningum milli Íslands og Bandaríkjanna væri gert ráð fyrir nánu samstarfi milli landanna á hernaðarlegu sviði sem meðal annars fæli í sér tengsl milli Landhelgisgæslunnar og bandaríska hersins og undraðist hann hversu litla athygli það hefði fengið. Baráttunni væri því engan veginn lokið og brýndi hann herstöðvaandstæðinga til að láta ekki deigann síga.

ragnararnalds Þess má geta að Ragnar Arnalds, sem var í líka forystu Samtaka hernámsandstæðinga og hefur einnig séð ástæðu til að fá að sjá hlerunarskjöl sem varða hann, kom í kvöldverð í Friðarhúsi 29. september í tilefni brottfarar hersins og rifjaði upp ýmislegt úr baráttunni. Hann benti á þau áhrif sem barátta hernáms/herstöðvaandstæðinga hefur haft en margir átta sig ekki á. Í eðli sínu eru þau nefnilega ekki mjög sýnileg en mikilvæg samt, því að uppi voru áform um miklu meiri herstöðvar, svo sem herflugvelli á Rangárvöllum, í Skagafirði og í Aðaldal og flotastöð í Hvalfirði. Það verður sjálfsagt aldrei úr því skorið hver áhrif andófsbáttunnar voru, en það er vert að velta fyrir sér hvort íslensk stjórnvöld hefðu ekki orðið eftirgefanlegri gagnvart Bandaríkjamönnum ef engin skipulögð andstaða hefði verið gegn þessum áformum.

Kjartan benti á í erindi sínu að hernámsandstæðingar hefðu alltaf lagt mikið upp úr friðsamlegum aðgerðum enda kom nánast ekki til átaka frá 30. mars 1949 og þar til utanríkisráðherrafundur NATO var haldinn í Reykjavík 1968. Eigi að síður létu stjórnvöld hlera síma Samtaka hernámsandstæðinga, sem sýnir kannski umfram allt hversu mikill þyrnir í augum þeirra þessi samtök voru. Með friðsamlegri baráttu sinni þvældust þau sífellt fyrir því að stjórnvöld gætu þjónað heimsveldinu eins og þau hefðu viljað. Og fyrir það megum við þakka Kjartani, Ragnari og fjölmörgum öðrum sem héldu þessari baráttu uppi á árum áður. Og, eins og Kjartan benti á, baráttunni verður að halda áfram!

Myndin af Kjartani er tekin af www.mbl.is og myndin af Ragnari af www.xx.is

Staðið á blístri – legið á hleri

By Uncategorized

KokkurN.k. föstudagskvöld verður hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss. Matseðillinn er að vanda glæsilegur:

Kjúklingasalat með austurlensku ívafi
Litlar kjötbollur með heimagerðu remúlaði
Pasta með rækjum
Vatnsmelónusalat með osti
Heimabakað brauð
Kokkar eru Sigríður Kristinsdóttir og Guðrún Bóasdóttir(Systa)

Borðhald hefst kl. 19 en húsið opnar hálftíma fyrr. Máltíðin kostar litlar 1.500 kr.

Það er SHA gleðiefni að upplýsa að Kjartan Ólafsson fv. Alþingismaður og framkvæmdastjóri Samtaka hernámsandstæðinga mun mæta og fjalla um hleranamálið, sem verið hefur mjög í fréttum undanfarna daga. Það er því óhætt að lofa sögulegri samkomu.

NATO er ekki friðarbandalag

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Einars Ólafssonar birtist í Morgunblaðinu 21. október 2006. Þar hafði slæðst inn ein villa, orðið ekki féll niður í setningunni: Þetta skref NATO út fyrir það hlutverk sem skilgreint er í NATO-sáttmálanum var ekki eitt tvístígandi skref.

Flestum stóð á sama um brottför hersins en hefðu fegnir viljað losna úr vafasömum félagsskap við Bush, félagsskap sem síður en svo hefur verið slitið. Margir virðast hins vegar telja að NATO sé orðið friðarbandalag eftir inngöngu fyrrverandi austantjaldsríkja og friðargæslu í Kósóvó og Afganistan.

En veruleikinn er allt annar. Vissulega lítur samstarf eins og Partnership for Peace eða samráð NATO við Rússland og Úkraínu vel út. En í reynd er NATO að breytast úr tiltölulega óvirku varnarbandalagi kaldastríðsáranna í virkt, pólitískt og árásargjarnt hernaðarbandalag í þjónustu Bandaríkjanna. Í mars 1999 stóð NATO í fyrsta sinn að beinni hernaðarárás með innrásinni í Júgóslavíu, ólögmætri árás sem var gerð án samþykkis Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og út frá uppspunnum forsendum. Ófremdarástandið í Kósóvó á þessum tíma var stórlega ýkt. Skv. Atlantshafssamningnum er hlutverk NATO að standa saman gegn vopnaðri árás á einn eða fleiri aðila samningsins á því svæði sem samnningurinn nær til. Hvað sem segja má um forsendur innrásarinnar, þá var ekki um að ræða vopnaða árás gegn aðildaríkjum NATO né hótun um slíkt.

Þetta skref NATO út fyrir það hlutverk sem skilgreint er í NATO-sáttmálanum var ekki eitt tvístígandi skref. Á leiðtogafundi NATO í Washington 1999 var friðargæslu og mannúðarhjálp bætt á hlutverkaskrá NATO og á utanríkisráðherrafundi í Reykjavík í maí 2002 var tekin ákvörðun um að nauðsynlegt væri að mæta og takast á við ógnanir við öryggi aðildarríkjanna hvaðan sem þær stöfuðu. Síðan hefur verið bætt um betur á ýmsan hátt og unnið að breytingum á skipulagi bandalagsins til þess að það ráði betur við hið nýja árásargjarna hlutverk sitt.

Vissulega hefur NATO unnið að friðargæslu og mannúðarverkefnum, svo sem í Darfúr og eftir jarðskjálftana í Pakistan í fyrrahaust. En verkefnin í Kósóvó og Afganistan eru vægast sagt umdeilanleg. NATO tók við friðargæsluverkefni sínu í Kósóvó-héraðinu í Júgóslavíu eftir að hafa sjálft ráðist inn í landið og í Afganistan tók bandalagið við friðargæslu í kjölfar innrásar forysturíkis þess sjálfs. Fréttir frá Afganistan að undanförnu eru ekki beint fréttir af friðargæslu heldur hreinni styrjöld sem er framhald þeirra styrjaldar sem Bandaríkin hófu haustið 2001. Að vísu hefur NATO verið á báðum þessum stöðum í umboði Öryggisráðsins, en sú ráðstöfun er auðvitað mjög sérkennileg og leiðir hugann að því hvort nú sé mest þörf á að lítið og þægt NATO-ríki taki sæti í Öryggisráðinu.

Clinton-stjórnin vildi að NATO tæki að sér verkefni á fjarlægari slóðum en Evrópuríkin voru í fyrstu treg. Bandarísku ríkisstjórninni tókst þó að nýta NATO við innrásina í Júgóslavíu 1999. Stjórn Bush hafði hins vegar takmarkaða trú á NATO til að byrja með og vildi ekki nýta bandalagið til hernaðar í Afganistan haustið 2001, m.a. vegna þess að skipulag þess þótti þungt í vöfum við þesskonar aðgerðir. Madeleine Albright, utanríkisráðherra í stjórn Clintons, hefur hinsvegar sagst þess fullviss að Bandaríkjamenn hefðu nýtt sér NATO við þessa innrás ef Al Gore hefði orðið forseti (Foreign Affairs, haustið 2003). Að vinna með bandamönnum, sagði hún, „skilar líka miklu: kostnaði er skipt, álagi deilt, lögmætið verður tryggara og mismunandi hæfni virkjuð“.

Bandaríkin hafa alla tíð verið óumdeilanlegt forysturíki NATO. M.a. er fast í skipulagi bandalagsins að herstjórn þess er í höndum bandarískra herforingja og það er óbreytt þótt skipulaginu hafi verið breytt að undanförnu. Þegar áhrifamenn í Bandaríkjunum, hvort sem þeir eru stjórnarsinnar eða í stjórnarandstöðu, tala um NATO er það undir þeim formerkjum hvernig það geti nýst Bandaríkjunum í þeirra stríði, hvort sem það heitir „heimsstríðið gegn hryðjuverkum“ eða stríð fyrir frelsi, lýðræði, okkar gildum eða hvaða frasa sem þeir finna fyrir hið hnattvædda hagkerfi stórfyrirtækjanna og yfirráð yfir orkulindum. M.a. á þátttaka NATO að styrkja lögmæti hugsanlegra aðgerða.

Þróun NATO stýrist fyrst og fremst af þeim heimsvaldahagsmunum sem endurspeglast í innrásunum í Júgóslavíu, Afganistan og Írak, þróun sem birtist m.a. annars í hinum nýju viðbragðssveitum NATO (NATO Response Force), vaxandi starfsemi NATO í Miðausturlöndum og nánari tengslum milli NATO og Ísrael. Þróuninni er vel lýst með eftirfarandi orðum úr NATO-fréttum vorið 2004: „Í dag hefur landfræðilegt umfang öryggissamstarfs NATO og samráðsríkjanna stækkað til austurs, allt til Afganistan og jafnvel lengra. Hinni svonefndu „Clinton-nálgun” gagnvart suður- og austur-Miðjarðarhafssvæðinu, þar sem áhersla var lögð á viðræður, samninga, byggingu trausts og efnahagslega hvatningu, hefur verið varpað fyrir róða og í staðinn tekin upp stefna sem felst meðal annars í hindrunaraðgerðum og íhlutun. Íhlutunarstefnu Bandaríkjanna í Miðausturlöndum fylgir viðleitni til þess að breyta gildismati í þessum heimshluta og færa það nær lýðræðishugsun Vesturlanda.“

Hafi einhverntíma verið ástæða til að segja skilið við NATO, þá er það nú.

Bandaríkin, NATO og stríðið gegn hryðjuverkum

By Uncategorized

eftir Einar Ólafsson
Prentvæn útgáfa

Ný heimskipan: alger yfirráð Bandaríkjanna
„Áður en Japanir réðust á Pearl Harbor höfðu áætlanasmiðir í Washington og úrvalsliðið í Ráðinu um utanríkissamskipti (Council on Foreign Relations) gert ráð fyrir að Bandaríkin kæmu út úr seinni heimsstyrjöldinni sem hið óumdeilda hernaðarlega og efnahagslega heimsveldi sem réði hnattrænu „stórsvæði“ (Grand Area) með einu alþjóðlegu markaðskerfi. Óvænt komu Sovétríkin fram sem stórveldi sem keppti við Bandaríkin og í 44 ár var heimveldisáætlun Bandaríkjanna hindruð af kalda stríðinu. Með hruni Sovétríkjanna hafa Clinton og síðan nýíhaldsmennirnir reynt að nýta tækifærið til að skapa sér loksins þetta „stórsvæði“.“(1)

Við lok kalda stríðsins litu margir svo á í fyrstu að kapítalisminn, eða hvaða orð sem menn notuðu (hið frjálslynda lýðræði, frjálst markaðskerfi o.s.frv.), hefði sigrað. Á vissan hátt væri komið að endapunkti sögunnar, svo vísað sé til frægs rits (Francis Fukuyama, The End of History). Nýfrjálshyggjan og hnattvæðingin væru endanlega viðurkenndar staðreyndir. Bandaríkin voru eina risaveldið. Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) tók formlega til starfa 1. janúar 1995. Yfirþjóðlegu stórfyrirtækin (sem bera nær alltaf ávöxt sinn í Norður-Ameríku eða Vestur-Evrópu) skyldu fá frítt spil um allan heim. George Bush eldri tók upp hugtakið „hin nýja heimsskipan“ (the new world order)(2) í tengslum við innrásina í Írak 1991.

En sum lönd vildu ekki spila með, lönd eins og Norður-Kórea, Íran, Írak, Afganistan, Líbýa, Júgóslavía og Kúba. Í stjórnartíð Clintons undir lok síðustu aldar fengu sum þessara ríkja merkimiðann „útlagaríki“ (rogue states) og þrjú hin fyrstnefndu fengu nafnið „öxulveldi hins illa“ í ræðu sem George Bush yngri hélt í janúar 2002. Rússland hefur, þrátt fyrir villtan kapítalisma undanfarin ár, ekki spilað alveg með og er t.d. enn utan WTO, þótt stefnt sé að því að það fái aðild. Kína er hinsvegar í mjög sérstakri stöðu og í reynd orðið kapítalískt og aðili að WTO þrátt yfir yfirlýsta kommúnistastjórn. En þótt bæði þessi ríki séu komin inn á hina kapítalísku braut er hvorugt þeirra tilbúið til að lúta forsjá Bandaríkjanna né standa skilyrðislaust með þeim í baráttunni fyrir hinni nýju heimskipan. En að auki er ýmsum ríkjum hins íslamska heims illa treystandi að ótöldum þjóðum í Rómönsku Ameríku sem hafa á undanförnum árum kosið sér vafasama forseta. Svo er aðgangur að olíu auðvitað stórt atriði í öllu þessu.

Hugmyndinni um hina nýju heimskipan fylgdi að Bandaríkin hefðu rétt til íhlutunar hvar sem er. Bandaríkin höfðu auðvitað alla 20. öldina áskilið sér rétt til íhlutunar eftir því sem heimspólitískar aðstæður leyfðu. Hann takmarkaðist í fyrstu við Ameríku og síðan við varnarbaráttuna gegn kommúnismanum. Á stjórnarárum Bill Clintons 1993 til 2001 var hugmyndin um hina nýju heimskipan og íhlutunarstefnu þróuð áfram og talað hefur verið um „Clinton-kennninguna“, sem kristallast í þessum orðum úr ræðu í San Francisco í febrúar 1999: „En hinn sanni mælikvarði á hagsmuni okkar liggur ekki í hversu litlir eða fjarlægir þessir staðir eru eða hvort við eigum erfitt með að bera fram nöfn þeirra. Spurningin, sem við verðum að spyrja, er hvaða afleiðingar það hefur fyrir öryggi okkar að láta átök festast í sessi og breiðast út. Við viljum ekki, og raunar eigum við ekki, að gera allt eða vera alls staðar. En þar sem okkar gildi og okkar hagsmunir eru í húfi og þar sem við getum áorkað einhverju eigum við að vera tilbúin til að gera það.“(3) Clinton-stjórnin lagði upp með „Engagement and Enlargement“ sem stjórnarstefnu. Samkvæmt orðabókinni þýðir „engagement“ þátttaka eða afskipti. Með „enlargement“, stækkun eða útvíkkun, er átt við útvíkkun samfélags lýðræðisríkja. Réttlæting íhlutunar var víkkuð út. Innrásin í Írak 1991 var réttlætt með að Írak hefði ráðist á fullvalda ríki. Loftárásirnar á Júgóslavíu voru hins vegar réttlættar með mannréttindabrotum innanlands í Júgóslavíu. Stefna Bandaríkjanna hefur í raun lítið breyst í grundvallatriðum. Meginmunurinn á stefnu Clintons og Bush er að stefna hins fyrrnefnda var mun sveigjanlegri.

Það er frekar að stefna Evrópuríkjanna hafi breyst. Bandaríkin hafa haft frumkvæði að því allt frá stjórnarárum Clintons að færa starfsemi NATO út fyrir landsvæði og hefðbundið hlutverk bandalagsins og í leiðinni út fyrir ramma alþjóðlegra laga og sáttmála, en gömlu evrópsku aðildarríkin hafa flest verið fremur treg í taumi. Bandaríkjunum hef þó orðið talsvert ágengt. Árás NATO á Júgóslavíu markar þáttaskil í evrópskum stjórnmálum. Gerð var árás á fullvalda ríki í Evrópu án þess að lýsa yfir stríði og með því var sagt sagt skilið við hina hefðbundnu virðingu fyrir fullveldi, virðingu sem þó náði auðvitað aldrei til hins svonefnda þriðja heims.(4)

Undir lok stjórnartímabils Clintons, í maí 2000, gaf varnarmálaráðuneytið út áætlun til næstu tveggja áratuga undir nafninu Joint Vision 2020.(5) Lykilhugtak í þeirri áætlun er „Alger yfirráð“ (Full-spectrum dominance) sem felur í sér „getu herafla Bandaríkjanna til að vinna sigur á hvaða andstæðingi sem er einn síns liðs eða í samstarfi við bandamenn og ná tökum á hvaða stöðu sem upp kann að koma í hernaðaraðgerðum“.(6) Og herafla Bandaríkjanna er leyfilegt að starfa hvar sem er, í geimnum, á hafi eða landi og á sviði upplýsinga. Bandaríkin verða að vera áfram til staðar í öðrum heimsálfum og halda getu sinni til að beita valdi sínu hvar sem er um allan heim til að við ná „algerum yfirráðum“.(7) Þetta hugtak Clinton-stjórnarinnar er í raun varða á veginum frá „hinni nýju heimskipan“ Bush eldra til stefnu stjórnar Bush yngra eins og hún kemur fram í þjóðaröryggistefnunni (National Security Strategy)(8) haustið 2002.(9)

Heimsstríðið gegn hryðjuverkum til að ná fullum yfirráðum
Hver svo sem sannleikurinn er um hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001, þá komu þau sér tvímælalaust vel fyrir heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Með því að lýsa yfir „heimsstríði gegn hryðjuverkum“ hefur Bandaríkjastjórn búið sér til ástæðu til sóknar þar sem alþjóðalög og sáttmálar varðandi styrjaldir eru látin gilda bara eftir hentugleikum. Það hefur reyndar fyrr verið lýst yfir stríði gegn hryðjuverkum. Þannig talaði Ronald Reagan um stríðið gegn hryðjuverkum á níunda áratug síðustu aldar. En nú er það heimsstríð, skrifað með upphafsstaf í hverju nafnorði, the Global War on Terrorism, og hefur fengið skammstöfun: GWOT.

Bandaríkjastjórn gefur á nokkurra ára fresti út svokallaða Þjóðaröryggistefnu (National Security Strategy) í nafni forsetans. Slík stefna var gefin út 17. september 2002.(10) Í inngangi, sem er undirritaður af George Bush, er vikið að því að aðstæður hafi breyst gífurlega. Áður fyrr hafi óvinirnir þurft mikið vopnabúr og sterkan iðnað til að ógna Bandaríkjunum en nú geti leynileg bandalög einstaklinga valdið öngþveiti og miklum þjáningum fyrir minna en andvirði eins skriðdreka. Strax á fyrstu síðum er talað um „stríð gegn hryðjuverkum“ (s. 3). Þá er sagt að „óvinir okkar“ hafi opinskátt lýst því yfir að þeir séu að leitast við að koma sér upp kjarnorkuvopnum. „Við munum byggja upp varnir gegn langdrægum (ballistic) eldflaugum…“ (s. 4). En í rauninni er fátt sem hönd er festandi á í þessi plaggi. Það er fullt af mærðarlegu hjali um frelsi og lýðræði og vestræn gildi sem Bandaríkin standa vörð um en er ógnað af hryðjuverkamönnum og utangarðsríkjum (rogue states). Samt er þetta talið mjög mikilvægt plagg og oft vitnað til þess enda má svo sem greina ýmislegt ef rýnt er í það.

Stundum er talað um Bush-kenninguna (the Bush-doctrine) og talið að hún hafi farið að birtast strax eftir 11. september 2002 þegar Bush sagði að enginn greinarmunur yrði gerður á hryðjuverkamönnum og þeim sem skytu skjólshúsi yfir þá. Með því var innrásin í Afganistan réttlætt. Þegar talað er um þessa kenningu er gjarnan vitnað til ræðu sem Bush flutti 1. júní 2002 í West Point herskólanum(11) en ýmsar setningar úr henni skutu aftur upp kollinum í þjóðaröryggisstefnunni sem kom út í september sama ár. Með Bush-kenningunni er rétturinn til sjálfvarnar gerður að rétti til fyrirbyggjandi (pre-emptive)(12) árása gegn hugsanlegum árásaraðilum. Þá ber Bandaríkjunum einnig skylda til að hefja einhliða aðgerðir ef marghliða lausn finnst ekki. Bandaríkin munu líka leggja áherslu á ótvíræða hernaðarlega yfirburði. Loks ber Bandaríkjunum skylda til að verja og stuðla að lýðræði, frelsi og öryggi um allan heim. Bent hefur verið á að þessi kenning hafi komið fram í uppkasti að leiðarvísi fyrir varnaráætlun (Defense Planning Guidance) 1992 sem Paul Wolfowitz, fyrrum aðstoðarvarnarmálaráðherra í stjórn Bush eldri, bar ábyrgð á. Uppkastið lak út í fjölmiðla en var breytt fyrir útgáfu. Tíu árum seinna var hún aftur tekin upp, en þó mun ekki hafa verið eining um hana innan stjórnarinnar. Sagt er að Dick Cheney, Donald Rumsfeld, Paul Wolfowitz og fleiri hafi haldið henni fram en Colin Powell og Condoleezza Rice andæft henni.(13)

Þjóðaröryggisstefna var aftur gefin út í mars 2006.(14) Plaggið hefst að venju með inngangi forsetans sem hefur mál sitt á dramatískan hátt: „Samlandar, Ameríka er í stríði (My fellow Americans, America is at war).“ Og síðan er snúið beint að vandanum sem við er að etja: „Tilkoma hryðjuverkastarfsemi er drifin áfram af hugmyndafræði haturs og morða… Sú stefna, sem hér er sett fram, endurspeglar okkar alvarlegustu skyldu: að standa vörð um öryggi íbúa Ameríku.“ (s. 2) Með Ameríku er auðvitað átt við Bandaríkin.

Í fyrsta kaflanum segir að á 20. öldinni hafi unnist sigur á fasismanum og kommúnismanum, en nú hafi ný alræðisstefna birst, sem ekki er byggð á veraldlegri hugmyndafræði heldur á afskræmingu virðingarverðra trúarbragða, og þótt þessi stefna sé frábrugðin alræðisstefnum síðustu aldar eru aðferðir hennar sambærilegar: umburðarleysi, morð, ógnarverk, þrælkun og kúgun. (s. 6). Síðan fylgir sama mærðarlega rausið um frelsi og lýðræði og skyldu Bandaríkjanna til að standa vörð um það hvar sem er í heiminum og koma því á þar sem það er ekki. Þó er þetta heldur meira plagg en hið fyrra, ekki eins almennt orðað og farið nánar í einstök atriði.

Í þriðja kafla (s. 14-17) er fjallað um hryðjuverkastarfsemi, eðli hennar og ástæður, og er það sett fram í því skyni að styðja stríð gegn hryðjuverkum einhverjum rökum. Þarna kemur eitthvað sem hægt er að festa hönd á en er samt yfirborðslegt og vægast sagt umdeilanlegt. M.a. er alltaf talað um hryðjuverkamennina eins og þeir séu nánast einsleitt fyrirbæri sem hafi alræðishugmyndafræði og berjist gegn lýðræði og frelsi – og Bandaríkjunum:

„Núna líta hryðjuverkamennirnir á Írak sem sínar helstu vígstöðvar í baráttunni gegn Bandaríkjunum. Þeir vilja sigra Ameríku í Írak og neyða okkur til að yfirgefa bandamenn okkar áður en öruggri lýðræðisstjórn hefur verið komið á laggirnar sem getur sjálf tryggt öryggi sitt. Hryðjuverkamennirnir halda þá að þeir hafi sannað að Bandaríkin séu dvínandi veldi og ótraustur vinur. Í þeirri óreiðu, sem fylgdi í kjölfarið af falli Íraks, gera hryðjuverkamennirnir ráð fyrir að þeim takist að skapa sér öruggt skjól eins og þeir höfðu í Afganistan, en í þetta sinn í hjarta mikilvægs svæðis í pólitísku og landfræðilegu tilliti. Að gefast upp fyrir hryðjuverkamönnunum væri sama og að leggja þeim í hendurnar öflugt tæki til að afla sér liðsmanna: þá tilfinningu að þeir séu framvörður sögunnar.“ (s. 17-18)

Síðan koma stefnumál varðandi þetta, svo sem að koma í veg fyrir að net hryðjuverkamanna verði til. Hinum harða kjarna hryðjuverkamannanna verður ekki breytt, það verður að yfirbuga þá, drepa eða handsama. Bandaríkin og bandamenn þeirra í stríðinu gegn hryðjuverkum gera engan greinarmun á hryðjuverkamönnum og þeim sem styðja þá og veita þeim skjól. Sérhver ríkisstjórn sem hefur kosið að vera í bandalagi við hryðjuverkamenn, svo sem Sýrland og Íran, hefur um leið kosið að vera óvinur frelsis, réttlætis og friðar. (s. 17)

Það sem kemur fram í þessum köflum endurspeglast í ýmsum greinum sem stjórnmálamenn, diplómatar og fræðimenn skrifa í tímarit eins og t.d. Foreign Affairs, mikilvægt tímarit sem Council of Foreign Affairs gefur út. Talað er um ógn sem steðjar að Vesturlöndum, „hryðjuverkamenn og utangarðsríki sem hafa gereyðingarvopn undir höndum“ (Ronald D. Asmus, aðstoðarutanríkisráðherra 1997-2000).(15) Bandaríkin og Vestur-Evrópa eru handhafar hins eina sannleika og hins eina sanna samfélagsforms og það er í senn köllun og lífsnauðsyn að útbreiða það.

Með því að skapa þennan óáþreifanlega óvin sem er nánast illskan einber og ógnar hinum algilda sannleika, óvin sem verður að sækja gegn og gersigra, hefur verið búin til átylla til að beita hvaða meðulum sem er og hvenær og hvar sem er til að ná og halda fullum yfirráðum.

NATO í þjónustu Bandaríkjanna
Ronald D. Asmus, fyrrum aðstoðarutanríkisráðherra á sviði Evrópumála, sagði í NATO-fréttum vorið 2002 að Clinton-stjórnin hafi viljað og unnið „að því að það yrði eðlileg þróun bandalagsins að taka að sér verkefni á fjarlægari slóðum, því þar væri helst að vænta nýrra ógna þegar NATO hefði fært ríkjum Mið- og Austur-Evrópu stöðugleika og bundist nýjum samstarfsböndum við Rússa. Við reyndum að leggja grunn að því fyrir leiðtogafundinn í Washington 1999 að bandalagið þróaðist í þessa átt, en varð lítt ágengt sökum þess að flest evrópsku aðildarríkin vildu heldur að hlutverk NATO yrði takmarkað við að sjá um stjórn á hættutímum í næsta nágrenni við Evrópu.“(16)

En Clinton og hans menn voru meiri heimsmenn en Bush-liðið, höfðu meiri skilning á Evrópu og voru ekki eins einstrengingslegir. Bush kom sér ekki sérlega vel við Evrópu á fyrsta ári sínu á forsetastóli en eftir atburðina 11. september 2001 fengu Bandaríkjamenn mikla samúð og í fyrsta sinn var 5. grein NATO-sáttmálans virkjuð, þ.e. „að vopnuð árás á einn þeirra [aðila samningsins] eða fleiri í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þá alla“. En þótt fjöldi ríkja færi með Bandaríkjunum í herförina til Afganistan tók NATO ekki beinan þátt í henni. Kannski var spurning hvort tímabært væri að færa hlutverk NATO yfir í slík verkefni utan Evrópu rétt rúmum tveim árum eftir innrásina í Júgóslavíu.

Annar fyrrum aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna á sviði Evrópumála, Charles Grant, sagði á sama vettvangi: „Það sem gerst hefur eftir 11. september hefur vissulega styrkt langtímaþróun í þá átt að hlutverk NATO verði í meira mæli pólitískt. Stjórn Bush vildi ekki nýta sér NATO til hernaðar í Afganistan. Að hluta til var það af þeirri einföldu ástæðu að bandalagið réð ekki yfir miklu af vígbúnaði til baráttu gegn talibönum og al Quaeda. En einnig var það vegna þess að margir í bandaríska varnarmálaráðuneytinu líta á NATO sem evrópsk samtök í hálfgerðu aukahlutverki. Þeir nýttu sér bandalagið til að stjórna lofthernaði í Kosovo og Serbíu árið 1999, en þeim fannst ákaflega hægt ganga að eiga við hinar mörgu nefndir, sem gerðu einstökum bandalagsríkjum, svo sem Frökkum, kleift að beita neitunarvaldi varðandi sum skotmörk.“(17)

Þó telja ýmsir fræðimenn og stjórnmálamenn í Bandaríkjunum að vel hefði mátt notast við NATO og Bush-stjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir klúður í samskiptum við Evrópu á þessum tíma.(18) Í grein í tímaritinu Foreign Affairs haustið 2003 kveðst Madeleine Albright, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fullviss um að hefði Al Gore verið forseti 11. september 2001 hefðu Bandaríkin og NATO staðið saman að innrásinni í Afganistan.(19) Í þessari grein segir Albright ennfremur:

„Það væri gagnlegt ef kenningin um fyrirbyggjandi aðgerðir (preemption) yrði látin hverfa hljóðlega úr umræðunni um þjóðaröryggi og lögð til hliðar. Það er líka brýnt að verkefnunum í Afganistan og Írak verði í raun lokið áður en lýst er yfir sigri enn einu sinni. Og þá munu stjórnvöld kannski viðurkenna, að þótt engin alþjóðleg stofnun geti gert allt, þá getur hver og ein gert eitthvað. Ef til vill munu núverandi leiðtogar Bandaríkjanna jafnvel leggja til hliðar sjálfhverfa fyrirlitningu sína á öllu sem Clinton-stjórnin gerði og líta til þess sem gert var í Kósóvó. Þar eru friðargæslusveitir undir forystu NATO með þátttöku Rússa og aðstoð nýrrar borgaralegrar lögreglu að tryggja öryggi fyrir stjórnendur frá Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) sem eru að vinna með innlendum aðilum við undirbúning að umskiptum til lýðræðis. Það er ekki aðeins að þessi tilhögun virki ágætlega heldur gefur hún líka öllum sem að þessu koma tilfinningu um að unnið sé með árangri að mikilsverðu verkefni. Það krefst þolinmæði að vinna með bandamönnum og fá það besta út úr alþjóðlegum stofnunum. En það skilar líka miklu: kostnaði er skipt, álagi deilt, lögmætið verður tryggara og mismunandi hæfni virkjuð. Og allir sameinast um að vilja ná árangri.“(20)

En ráðamönnum í Washington varð þó fljótlega ljóst að NATO væri mikilvægt tæki eins og Victoria Nuland, þá nýtekin við sendiherrastöðu Bandaríkjanna hjá NATO, sagði í ræðu í Brussel í september 2005: „Ef það sundurlyndi sem ríkti varðandi Írak hefur kennt okkur eitthvað, þá er það að NATO verður að vera á staðnum hvenær sem við ræðum málefni sem varða framtíð okkar – Miðausturlönd, Írak, Norður-Kóreu, Kína, Íran, svo fátt eitt sé nefnt.“(21)

Reyndar var vikið að mikilvægi NATO í þjóðaröryggisstefnunni sem var gefin út í september 2002, hálfu ári fyrir innrásina í Írak, en lögð áhersla á að bandalagið yrði að þróa nýtt skipulag og getu til að sinna sínu helsta hlutverki, sem er sameiginleg vörn lýðræðisríkjanna sitthvoru megin við Atlantshafið. Talað er um getu til að virkja með litlum fyrirvara sérþjálfaðar sveitir hvenær sem þörf er til að bregðast við ógnunum gagnvart sérhverjum aðila bandalagsins. Það þurfi að geta brugðist við hvar sem hagsmunum „okkar“ er ógnað, mynda bandalög undir forystu NATO og taka þátt í samstarfi um einstök verkefni. (s. 28)

Í þjóðaröryggisstefnunni 2006 er líka vikið að mikilvægi NATO en þó á mjög almennan hátt og í stuttu máli. Þeirri spurningu hefur verið velt upp í Bandaríkjunum á undanförnum árum, án þess hún hafi kannski verið skýrt orðuð, hvort Bandaríkin þurfi lengur á NATO að halda. Í hópi nýíhaldsmanna (neoconservatives) eru ýmsir sem telja að NATO eigi ekki að skipta miklu máli í utanríkisstefnu Bandaríkjanna, Evrópa sé á allt öðru róli en Bandaríkin. Raunar eru nýíhaldsmennirnir ekki einir um þá skoðun að Evrópumenn eigi bágt með að skilja Bandaríkjamenn. Frjálslyndari menn, sem leggja mikið upp úr samstarfinu við Evrópu, skafa heldur ekki af því eins og þessi tilvitnun sýnir: „Evrópumenn skilja ekki enn til fulls hið hræðilega áfall (trauma) Bandaríkjamanna…“(22)

Almennt virðist þó litið svo á að NATO skipti máli fyrir Bandaríkin. Í þjóðaröryggisstefnunni, bæði 2002 og 2006, er lögð áhersla á samstarf Bandaríkjanna við önnur lönd, bæði gegnum gróin bandalög eins og NATO og ANZUS (Bandaríkin, Ástralía og Nýja Sjáland), óformleg bandalög eins og bandalag hinna viljugu í Íraksstríðinu og einstök ríki. En NATO er mjög mikilvægt vegna þess að það er víðtækast allra hernaðarbandalaga og innan þess eru gömlu heimsveldin Bretland og Frakkland og stór hluti annars stærsta efnahagskerfis heims, Evrópusambandsins, en frá 1999 hefur verið formlegt samstarf milli NATO og ESB á sviði öryggis- og varnarmála.(23) Einnig hefur verið bent á að Bandaríkin og Evrópa eigi meiri sameiginlega hagsmuni en gagnstæða. Bandaríkin hafa miklu meiri viðskipti við Evrópu en aðra heimshluta og bandarísk fyrirtæki hafa gífurlegar tekjur af starfsemi og fjárfestingum í Evrópu. Evrópa hefur sömuleiðis miklar tekjur af viðskiptum við Bandaríkin. Og gagnvart öðrum heimshlutum eiga Evrópa og Bandaríkin sameiginlegra hagsmuna að gæta, bæði varðandi almenn viðskipti, framleiðslu og atvinnumál sem og varðandi orku. Öfl hnattvæðingar og samkeppnismarkaðar þjappa Evrópu og Bandaríkjum frekar saman en sundrar og það öryggi eða öryggistilfinning sem NATO skapar er stórfyrirtækjunum mikils virði.(24)

Það er innbyggt í skipulag NATO að Bandaríkjamenn ráði þar mestu. Frá upphafi var bandalaginu skipti í tvær svæðisbundnar meginstjórnunareiningar, Atlantshafsherstjórnina og Evrópuherstjórnina, en báðar lutu stjórn bandarísks hershöfðingja og sá síðarnefndi (Supreme Allied Commander Europe – SACEUR) var – og er – jafnframt yfirhershöfðingi Bandaríkjahers í Evrópu. Sú tilhögun er óbreytt með hinu nýja skipulagi bandalagins frá 2003 þar sem „yfirstjórn aðgerða“ og „yfirstjórn umbreytinga“ komu í stað hinna gömlu svæðisbundnu herstjórna: yfirhershöfðingjarnir skulu áfram vera bandarískir. Gegnum forystu sína í NATO hafa Bandaríkin alltaf haft mikil áhrif á evrópsk málefni. Sumir hafa haft áhggjur af að fækkun bandarískra hermanna í Evrópu mundi draga úr þessum áhrifum og jafnvel vekja upp kröfuna um að Evrópuherstjórn færist í hendur heimamanna. Eftir því sem Evrópusambandið styrkist verður hins vegar forysta fyrir NATO mikilvæg leið fyrir Bandaríkin til að halda áhrifum í Evrópu.(25)

Þá hefur einnig verið bent á að með þátttöku NATO styrkist lögmæti aðgerða miðað við aðgerðir Bandaríkjanna einna. Á sama hátt gagnast NATO líka varðandi samskipti við Austur-Evrópu og allt austur í Kákasus og Mið-Asíu, sem og við Rússland og Úkraínu. Einnig má ætla að gagnsemi NATO fari vaxandi varðandi samskipti við það svæði sem hefur verið kallað hin víðari Miðausturlönd, það er frá Norður-Afríku og austur til Afganistan, enda er nú lögð áhersla á að styrkja áhrif NATO þar. Ronald D. Asmus, aðstoðarutanríkisráðherra í stjórn Clintons, komst svo að orði í grein í Foreign Affairs haustið 2003 að ef NATO yrði byggt upp aftur yrðu Bandaríkin og Evrópa aftur að skilgreina sameiginlegt stefnumið sem snýst um að mæta helstu ógnunum dagsins í dag. Annarvegar þyrfti að líta til austurs og styrkja betur Evró-Atlantshafssamstarfið og teygja það lengra austur. Mikilvægasta verkefnið væri að tengja Úkraínu við vestrið, vinna bug á síðasta alræðisríkinu í Evrópu, Hvíta-Rússlandi, aðstoða Rússland við að þróast áfram til lýðræðislegs, nútímalegs samstarfsaðila við Vesturlönd og síðan þyrfti að þróa stefnuna gagnvart Kákasus og Mið-Asíu. Hitt meginverkefnið væru hin víðari Miðausturlönd. Ef ógnunin við alþjóðlegt öryggi var mest í Evrópu á tímum kalda stríðsins, þá er hún nú mest á þessu svæði. Hér er að finna samhengi vaxandi andvestrænnar hugmyndafræði, hryðjuverkastarfsemi og gereyðingarvopna. Frá þessu svæði er að vænta mestu hættunar gagnvart Evrópu og Ameríku á næstu árum ef ekki áratugum. Meðan meginhluti heimsins er að færast inn í 21. öldina eru of mörg svæði í víðari Miðausturlöndum að færast til baka. „Til að takast á við þetta verkefni þurfa Vesturlönd þó meira en hernaðarlega áætlun. Þau þurfa að nálgast það með því framar öllu að taka á rót vandans með því að breyta þeim aðstæðum sem gátu af sér slík afstyrmisleg ríki og ríkjahópa. Að öðrum kosti munu nöfn hryðjuverkahópanna og utangarðsríkjanna kannski breytast, en langtímaógnin mun ekki breytast. Þannig verða Vesturlönd að komast yfir þá stefnu að láta nægja að ráða við óbreytt en jafnframt ótryggt ástandi. Þess í stað verða þau af alefli að hjálpa þessu svæði að umbreytast í þjóðfélög sem geta lifað í friði við hvert annað og hætta að framleiða hryðjuverkamenn og hugmyndafræði sem langar til að drepa unnvörpum og hafa stöðugt meiri aðgang að þeirri tækni sem til þess þarf.“(26)


(1) Joseph Gerson: „Empire and Resistance in an Increasingly Dangerous Era“, ræða á japönsku friðarráðstefnunni í Sasebo, Japan, 19. nóvember 2004. Sjá einnig Joseph Gerson og Bruce Birchard: The Sun Never Sets. Confronting the Network of Foreign U.S. Military Bases, South End Press, 1991, s. 11-12.
(2) Sjá grein á Wikipedia.
(3) Ræðan er aðgengileg á vef Clinton Foundation.
(4) Sjá Einar Ólafsson: „Seinna kalda stríðið og endalok fullveldis“, Dagfari, 1.tbl. 26. árg. 2000.
(5) Joint Vision 2020; sjá einnig Future Joint Warfare.
(6) Jim Garamone: „Joint Vision 2020 Emphasizes Full-spectrum Dominance“, American Forces Press Service, June 2, 2000.
(7) Kaflar úr skjalinu Joint Vision 2020 birtir á vef Bertrand Russell Peace Foundation.
(8) Aðgengileg á vef Hvíta hússins.
(9) Joseph Gerson: „Empire and Resistance in an Increasingly Dangerous Era“, sjá nmgr. 1
(10) National Security Strategy of the United States of America, september 2002.
(11) Ræðan er aðgengileg á vef Hvíta hússins.
(12) Um hugtökin preemptive og preventive attack (war) sjá grein á Wikipedia.
(13) Sjá grein á Wikipedia, sjá einnig „Þeir hafa gert þetta áður“, Múrinn 11. okt. 2005.
(14) National Security Strategy of the United States of America, mars 2006.
(15) Ronald D. Asmus (aðstoðarutanríkisráðherra á sviði Evrópumála frá 1997 til 2000): „Rebuilding the Atlantic Alliance“, Foreign Affairs, Vol. 82, No. 5, sept./okt. 2003, s. 27
(16) Ronald D. Asmus: „ Getur NATO áfram verið árangursríkt hernaðarlegt og pólitískt bandalag ef það heldur áfram að stækka?“, NATO-fréttir, vor 2002.
(17) Charles Grant (aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna á sviði Evrópumála frá 1997 til 2000): „Getur NATO áfram verið árangursríkt hernaðarlegt og pólitískt bandalag ef það heldur áfram að stækka?“, NATO-fréttir, vor 2002.
(18) Sjá t.d. Ronald D. Asmus: „Rebuilding the Atlantic Alliance“, Foreign Affairs, Vol. 82, No. 5, sept./okt. 2003, s. 23.
(19) Madeleine Albright: „Bridges, Bombs, or Bluster?“, Foreign Affairs, Vol. 82, No. 5, sept./okt. 2003, s. 5.
(20) Madeleine Albright, sama, s. 18.
(21) Frétt á vef Radio Free Europe / Radio Liberty 23. sept. 2005.
(22) William Drozdiak, „The North Atlantic Drift,“ Foreign Affairs, jan/feb. 2005, s. 92
(23) Í skýrslu utanríkisráðherra, apríl 2004, er fjallað um Öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins (ESDP) og samstarf ESB og NATO. Ágætt yfirlit með tilvísunum er að finna á Wikipedia.
(24) William Drozdiak, sama, s. 89-91.
(25) Alan M Stull: A Strong NATO is Essential to the United States National Security Strategy, US Army War Collage, 2005, s. 3-4. Aðgengilegt á .
(26) Ronald D. Asmus: „Rebuilding the Atlantic Alliance“, Foreign Affairs, Vol. 82, No. 5, sept./okt. 2003, s. 24-25. Varðandi þróun NATO og hernaðarastefnu Bandaríkjanna er vert að benda á fróðlega grein Magneu Marinósdóttur, „Orrustuþotur eða gagneldflaugar“, í tímaritinu Þjóðmál, 2. hefti, 2. árg., sumar 2006, s. 56, en sú grein er öllu jákvæðari í garð NATO og Bandaríkjanna en þessi. Flett var upp á öllum tilvitnuðum vefsíðum 22. október 2006.

Stríðið í Afganistan

By Uncategorized

Afganistan-USA Eftirfarandi grein Þórðar Sveinssonar birtist einnig á vefritinu MIR.IS.

Í Afganistan ríkir enginn friður. Hersveitir NATO eiga í hörðum átökum við stríðsherra sem ráða lögum og lofum víða í landinu, en meðal þeirra eru hinir alræmdu Talibanar. Óbreyttir borgarar hafa dáið í hrönnum eins og títt er í hernaðarátökum. Og þetta virðist engan enda ætla að taka.

En hvernig stendur á þessu hræðilega ástandi í landinu? Er þetta allt einhverjum vondum miðaldaofstækismönnum að kenna sem vilja ekki sætta sig við umbótatilraunir ríkisstjórnar Hamids Karzai? Eða eru orsakirnar ef til vill aðrar? Við skulum kanna það með því að rekja okkur til baka í sögu Afganistan.

Nú, 2001 réðust Bandaríkin ásamt öðrum NATO-ríkjum á Afganistan til að koma Talibönum frá völdum, knésetja Al-Quaeda-hryðjuverkasamtökin og góma Osama bin Laden. Þetta gerðist í framhaldi af árásum áðurnefndra samtaka á tvíburaturnana og Pentagon hinn 11. september 2001. Höfðu þau komið sér fyrir í Afganistan og myndað sterk tengsl við ríkisstjórn Talibana.

Hún hafði þá verið við völd síðan 1996 en átt í stöðugu stríði við hið svonenda Norðurbandalag. Engu að síður réði hún yfir stærstum hluta Afganistan og hafði náð honum á vald sitt eftir nokkurra ára borgarastríð afganskra stríðsherra sem geysað hafði frá því að sovéski herinn yfirgaf landið árið 1989.

Allir höfðu þessir stríðsherrar barist gegn Sovétríkjunum á sínum tíma og þeirri ríkisstjórn sem þau höfðu stutt. Í desember 1979 höfðu Sovétríkin sent mikið herlið inn í landið til að tryggja þar ítök sín, en skæruliðahreyfingar undir stjórn afturhaldssamra ættarhöfðingja höfðu þá þegar hafið vopnaða baráttu gegn hinni sovétsinnuðu ríkisstjórn.

Barátta skæruliðanna var fjármögnuð af Bandaríkjunum sem dældu í þá peningum og vopnum. Einnig studdu þau dyggilega við bakið á trúarfanatíkerum úr hinum íslamska heimi, þeirra á meðal sjálfum Osama bin Laden, sem streymdu til Afganistan til að taka þátt í baráttunni gegn Sovétríkjunum; litu þeir á hana sem heilagt stríð – djíhad.

Með þessu töldu Bandaríkin að unnt yrði að knésetja Sovétríkin algjörlega og vinna þannig sigur í Kalda stríðinu. Þessi stuðningur hófst þegar í júlí árið 1979 – um hálfu ári fyrir innrás Sovétríkjanna – eins og Zbigniew Brzezinski þjóðaröryggisráðgjafi Jimmys Carters, forseta Bandaríkjanna frá 1976 til 1980, upplýsti hinn 18. janúar 1998 í viðtali við franska blaðið Le Nouvel Observateur. Var það beinlínis ætlun Bandaríkjanna að skapa þær aðstæður að Sovétríkin teldu sig knúin til innrásar.

Aðspurður sagðist Brzesinski ekki sjá eftir neinu – þetta hefði leitt til þess að að heimsveldi Sovétríkjanna hefði liðið undir lok. Eins og allir ættu að sjá lýsir þetta viðhorf þjóðaröryggisráðgjafans fyrrverandi stækum rasisma. Það að milljónir karla, kvenna og barna hafi látið lífið í Afganistan skiptir hann engu máli – þetta fólk er bara peð í hans huga sem allt í lagi er að fórna í refskák alþjóðapólitíkur og heimsvaldastefnu. Þetta eru jú ekki siðmenntaðir Evrópubúar heldur bara einhverjir múslímar með vefjarhetti.

Einhvern veginn svona hefur Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna frá 1980 til 1988, væntanlega líka hugsað, en hann var ófeiminn við að ýta undir stríðsátök í fátækum löndum og dæla fé og vopnum í blóðþyrsta einræðisherra mætti það gagnast bandarískum hagsmunum. Auk stuðningsins við skæruliðana í Afganistan má til dæmis nefna stuðninginn við Contrana í stríðinu í Nicaragua og hina morðóðu herforingjastjórn í El Salvador sem æpandi dæmi.

Á þessu hefur aldrei verið beðist afsökunar og mun sennilega aldrei verða gert. Ekki virðist litið á allt það saklausa fólk, sem látið hefur lífið vegna siðlausrar utanríkisstefnu Bandaríkjanna og raunar fleiri Vesturlanda, sem manneskjur. Fremur virðist litið á það sem dýr sem allt í lagi er að leiða til slátrunar. Þetta er ógeðslegt og við skulum hafa það í huga næst þegar fregnir berast til dæmis af mannfalli meðal óbreyttra borgara í Afganistan að það er heimsvaldastefna Vesturlanda sem veldur hörmungunum.

Höfundur þessarar greinar, Þórður Sveinsson, er í miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga

Mynd: http://angelcrafts.net/usa.html