Monthly Archives

April 2006

Munið morgunkaffið í Friðarhúsi 1. maí

By Uncategorized

ganga Að morgni 1. maí verður að venju morgunkaffi SHA. Það hefst kl. 11 í Friðarhúsi. Ómissandi upphitun fyrir kröfugönguna!

Að kvöldi 1. maí verður opið í Friðarhúsi, þar sem gestir og gangandi geta rekið inn nefið og spjallað yfir kaffibolla.

Morgunfundur á Akureyri 1. maí kl. 10.30. Sjá hér

Dagskrá 1. maí: sjá hér

1. maí: baráttudagur verkalýðsins, baráttudagur fyrir friði

By Uncategorized

Ritstjórnargrein

Labor Against War Herstöðvaandstæðingar hafa löngum látið mikið á sér bera í kröfugöngu verkalýðsfélaganna 1. maí. Jafnvel svo að það hefur farið fyrir brjóstið á sumum verkalýðsforingjum. Við herstöðvaandstæðingar og friðarsinnar teljum okkur samt engan veginn vera að stela deginum frá verkalýðshreyfingunni. Ef við þykjum of áberandi, þá er það frekar vegna þess að verkalýðshreyfingin er ekki nógu áberandi. Fyrir utan það að við tilheyrum flest verkalýðshreyfingunni.

Friðarbaráttan er mjög mikilvæg fyrir verkalýðinn, fyrir alþýðuna, fyrir okkur venjulegt fólk sem hefur hvorki auð né völd. Það erum við sem alltaf erum fórnarlömb styrjalda. Í Bandaríkjunum hafa fjölmörg verkalýðsfélög myndað með sér bandalag undir nafninu Bandarísk verkalýðshreyfing gegn stríði (U.S. Labor Against War). Þetta bandalag tók þátt í mótmælaaðgerðum gegn Íraksstríðinu 29. apríl og gaf þá út yfirlýsingu þar sem spurt er: Hvers vegna á verkalýðshreyfingin að láta í sér heyra? Og spurningunni er svarað: Í Íraksstríðinu hafa meira en 2200 bandarískir hermenn látið lífið og meira en 20 þúsund særst. Margir þeirra eru úr verkamannafjölskyldum. Þjóðvarðliðar og varaliðsmenn eru teknir úr störfum sínum og frá fjölskyldum sínum vegna stríðsins. Kostnaður af stríðinu kemur niður á velferðarþjónustu við almenning. Það er almenningur sem borgar stríðið, venjulegt launafólk. Og talið er að meira en 100 þúsund manns hafi farist í Írak, venjulegt alþýðufólk. Og verkalýðsleiðtogar.

En svo er auðvitað hin hliðin. Vígbúnaður og styrjaldir eru atvinnuskapandi. Það vita gerst þeir fjölmörgu starfsmenn á Keflavíkurflugvelli sem hafa fengið uppsagnarbréf. Það vita þeir sem starfa í vopnaverksmiðjum víðsvegar um heim. Og auk þess hafa margir lifibrauð sitt af þessu að einhverju leyti án þess að gera sé grein fyrir því. Starfsmenn Alcoa fá hluta launa sinna, kannski ekki mjög stóran hluta, en einhvern hluta, af vopnaframleiðslu.

En það getur ekki verið meginmarkmið verkalýðshreyfingarinnar að skapa meiri vinnu. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er að berjast fyrir bættum kjörum vinnandi fólks, þ.á.m. styttri vinnutíma. Nátengd sögu 1. maí er barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir 8 stunda vinnudag á þeim tíma sem verkafólk vann 10-12 tíma á sólarhringa eða jafnvel meira. Vopnaframleiðsla er óþörf, vopnaframleiðsla er sóun, tímaeyðsla. Styrjaldir eru líka sóun og tímaeyðsla fyrir utan allt annað. Með skynsamlegu skipulagi væri hægt að stytta vinnutímann og bætta kjör almennings með því að stöðva vígbúnað og styrjaldir og leggja niður alla heri.

Í 1. maí ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, BSRB, BHM, Kennarsambands Íslands og Iðnemasambands Íslands er samhljómur með málflutningi okkar herstöðvaandstæðinga. Þar segir meðal annars:

    Um leið og verkalýðshreyfingin fagnar brottför Bandaríkjahers frá landinu krefst hún þess að myndarlega verði staðið að uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum eftir brottför hans. Það er þjóðarinnar allrar að taka á með Suðurnesjamönnum þegar 600 störf hverfa með öllu á nokkrum mánuðum. Verkalýðshreyfingin lýsir áhyggjum sínum af sívaxandi ófriði í heiminum og getuleysi ráðamanna til að koma á friði. Það er sorglegt að horfa upp á þjóðir búa árum saman við ófrið og kúgun án þess að þeim sé rétt hjálparhönd. Þjónkun íslenskra ráðamanna við þau öfl í heiminum sem telja sig hafa lögregluvald yfir öðrum þjóðum en kynda eingöngu undir ófriðarbálinu er ekki hægt að sætta sig við.

Nú, 1. maí 2006, krefjumst við, herstöðvaandstæðingar á Íslandi, að íslensk stjórnvöld noti það tækifæri, sem heimkvaðning herliðins á Keflavíkurflugvelli gefur, til að segja upp herstöðvasamningnum, segja Ísland úr Atlantshafsbandalaginu, lýsa yfir hlutleysi og leggja sitt af mörkum til að stöðva vígbúnað og styrjaldir. En fyrst af öllu þarf að taka á málum starfsfólksins á Keflavíkurflugvelli sem hefur jafnvel meirihluta starfsævi sinnar treyst á herinn sér til lífsviðurværis. Það þarf ekki að eyða tíma í fáránlegar viðræður um hvernig eigi að tryggja varnir landins. Við ríkisstjórn Íslands segjum við: Snúið ykkur að því sem máli skiptir hér og nú, fólkinu sem er að missa lífsviðurværi sitt. Og komið ykkur svo úr félagsskap hinna borðalögðu.

Barátta okkar herstöðvaandstæðinga og friðarsinna er barátta fyrir hagsmunum verkafólks, fyrir hagmunum almennings. Þegar allt kemur til alls er það aðeins fámenn yfirstétt sem græðir á styrjöldum og vígbúnaði – en kannski tapa allir að lokum.

Einar Ólafsson

Munið morgunkaffið 1. maí

By Uncategorized

ganga Að morgni 1. maí verður að venju morgunkaffi SHA. Það hefst kl. 11 í Friðarhúsi. Ómissandi upphitun fyrir kröfugönguna!

Að kvöldi 1. maí verður opið í Friðarhúsi, þar sem gestir og gangandi geta rekið inn nefið og spjallað yfir kaffibolla.

Morgunfundur á Akureyri 1. maí kl. 10.30. Sjá hér

Dagskrá 1. maí í Reykjavík:

Safnast saman á Hlemmi kl. 13.00. Gangan leggur af stað kl. 13.30. Gengið verður niður Laugaveg, Bankastræti, Austurstræti og inn á Ingólfstorg. Útifundur á Ingólfstorgi hefst kl. 14.10. og áætlað að honum ljúki kl. 15.00.

Ávarp fundarstjóra: Ágúst Þorláksson, Efling – stéttarfélag
Ávarp: Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, formaður Landssambands íslenskra verzlunarmanna
Tónlist: Ragnheiður Gröndal og hljómsveit
Ávarp: Vernharð Guðnason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Gamanmál: Karl Ágúst Úlfsson og Sigurður Sigurjónsson, leikarar
Ávarp: Guðni Rúnar Jónasson, formaður Iðnnemasambands Íslands
Tónlist: Ragnheiður Gröndal og hljómsveit.
Fundarstjóri slítur fundi. „Internationalinn“ sunginn. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika undir.

Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík
BSRB
Bandalag háskólamanna
Kennarasamband Íslands
Iðnnemasamband Íslands

Friður, réttlæti og lýðræði – New York 29. apríl

By Uncategorized

29.april.06 Laugardaginn 29. apríl verður fjöldaganga og útifundur í New York fyrir friði, réttlæti og lýðræði. Það er friðarbandalagið United for Peace and Justice sem stendur fyrir þessu ásamt ýmsum fleiri samtökum, svo sem Friends of the Earth, U.S. Labor Against the War, National Organization for Women og Veterans For Peace. Samtökin The Troops Out Now Coalition skipuleggja einnig aðgerðir þennan dag.

Einnig verða aðgerðir og fundir í allmörgum öðrum borgum í Bandaríkjunum.

Kjörorð dagsins eru:

Stöðvið stríð í Írak!
Kallið herliðið heim!
Ekkert stríð gegn Íran!
Virðið réttindi innflytjenda og kvenna!

Sjá www.april29.org/

Málsverður og morgunkaffi

By Uncategorized

KokkurFöstudagskvöldið 28. apríl verður fjáröflunarmálsverður í Friðarhúsi þar sem Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi sér um eldamennsku. Borðhald hefst kl. 19 og kostar maturinn litlar 1.000 krónur.

Á matseðlinum eru suðræn fiskisúpa a la Björk & vistvæn brauð frá Brauðhúsinu.

Baldvin Halldórsson leikari les ljóð.

* * *

gangaAð morgni mánudagsins 1. maí verður að venju morgunkaffi SHA. Það hefst kl. 11 í Friðarhúsi. Ómissandi upphitun fyrir kröfugönguna!

Að kvöldi 1. maí verður opið í Friðarhúsi, þar sem gestir og gangandi geta rekið inn nefið og spjallað yfir kaffibolla.

Morgunfundur 1. maí á Akureyri

By Uncategorized

Morgunfundur 1. maí 2006
Mongo sportbar, Kaupangi kl. 10.30

Stefna – félag vinstri manna heldur árlegan morgunfund á baráttudegi
verkalýðsins, í áttunda sinn á Mongo sportbar, Kaupangi 10.30

Kjörorð Stefnu eru nú þessi:

• Aðeins grasrótar- og samtakabarátta alþýðu gefur sigra.
• Vinnu við hæfi handa öllum.
• Gegn markaðsvæðingu og einkavæðingu.
• Gegn stóriðjustefnu stjórnvalda.
• Gegn sölu lands, vatns og sjálfstæðis.
• Höfnum Evrópusambandsaðild.
• Gegn félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði.
• Jafnrétti kynjanna.
• Írak: Hernámsöflin burt. Ísland úr stríðsliðinu.
• Ísland úr NATO – segjum herstöðvarsamningnum upp.

Ræðumaður dagsins er Atli Gíslason, hæstaréttarlögmaður.

Atli hefur getið sér gott orð fyrir flutning mála sem snerta mannréttindi,
réttindi launafólks, jafnrétti kynja, kynferðisbrot o. fl. Þessar vikurnar
situr hann á Alþingi.

Steinunn Rögnvaldsdóttir menntaskólanemi syngur og meira verður sungið og
lesið upp sem snertir málstað dagsins.

Allir velkomnir.

Stefna – félag vinstri manna

Upplausn bandamannaraka

By Uncategorized

eftir Hugin Frey Þorsteinsson

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 21. apríl 2006

Síðastliðin 60 ár hefur Sjálfstæðisflokknum tekist með áróðursbragði að toga umræðu um utanríkismál í ákveðna átt. Hefur þeim orðið mjög ágengt með notkun þessa áróðursbragðs og þá einkum í að stýra öðrum stjórnmálaflokkum inn á sína braut. Notuð eru svokölluð ,,bandamannarök” en þau felast í því að réttlæta og rökstyðja afdrifaríkar ákvarðanir í íslenskri utanríkispólitík með vísan til þess að ekki megi styggja samstarfsríki í hernaðarmálum; aðildarríki Atlantshafsbandalaginu (NATO) og þá sérstaklega ríkisstjórn Bandaríkjanna. Notkun þessara raka hefur verið rauður þráður í að afgreiða friðarsinna og hverja þá er efasemdir hafa um hug og vilja fyrrnefndra aðila til stórpólitískra ákvarðana. Og það sem er enn alvarlegra er að áróðurinn hefur fælt íslensk stjórnvöld frá því að taka sjálfstæðar ákvarðanir er varða utanríkispólitík. Nefna má mörg dæmi þar sem þessu bragði er beitt en við látum nægja að nefna þrjú stórmál því til sönnunar.

Útfærsla landhelginnar í 12 mílur
Fyrrum sjávarútvegsráðherra og einn helsti brautryðjandi í útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar, Lúðvík Jósefsson, skýrði vel frá því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn gátu ekki stutt hugmyndir ráðherrans um útfærslu landhelginnar í 12 mílur, í lok 6. áratugarins. Forystumenn í þeim flokkum gátu ekki stutt þetta þjóðþrifamál á þeim forsendum að það gengi gegn hagsmunum Breta, sem var ein öflugasta aðildarþjóðin að Atlantshafsbandalaginu. Þrátt fyrir yfirgnæfandi stuðning íslensku þjóðarinnar að þessari útfærslu, fordæmi annarra landa fyrir 12 mílna útfærslu, hroka Breta í okkar garð, sem og stjórnarsáttmala er Alþýðuflokkurinn var bundinn að, fannst þessum tveimur flokkum mikilvægara að njóta virðingar hjá Atlantshafsbandalaginu. Á þeim forsendum voru þessir flokkar tilbúnir að gera málamiðlanir sem höfðu stórlega tafið sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og skaðað þar af leiðandi langtímahagsmuni okkar. Um þetta mál sagði Lúðvík ,,[u]m það er ekki að villast að það sem stóð í vegi fyrir eðlilegum vinnubrögðum íslenskra manna og íslenskra stjórnmálaflokka var bandalagið við þjóðir Vestur-Evrópu og Bandaríkin. Sífellt var látið í það skína að Íslendingar væru ,,rjúfa samstöðu vestrænna þjóða” veikja Atlantshafsbandalagið ef þeir aðhefðust það í landhelgismálinu sem Bretar gætu ekki unað við.” (Landhelgismálið : 68)

Írak
Þegar kemur að stuðningi stjórnmálaflokka við stríð hefur sömu taktík verið beitt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur örugglega stutt flest þau stríð sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur háð frá seinni heimsstyrjöld. Sú afstaða hefur stundum komið flokknum í bobba og þá er því iðullega borið við að ástæða stuðningsins hvíli á sérstöku sambandi við þá ríkisstjórn. Þó að stríð megi alltaf teljast subbulega eru kannski minnugustu dæmin Víetnam og Írak. Bæði stríðin voru gríðarlega óvinsæl og kostuðu mörg óþarfa mannslíf – flestir viðurkenna nú að þau hafi verið óverjandi. Nóg var samt um að hægri-armurinn á Íslandi verði þau. Sama dag og Bandaríkin réðust ólöglega á Írak, þann 20. mars 2003, ritaði leiðarahöfundur Morgunblaðsins ,,[n]ú er ljóst að margir Íslendingar eiga erfitt með að skilja hvers vegna Ísland lýsir yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir í fjarlægu landi og hafa miklar efasemdir um þá afstöðu. Þessar ákvarðanir má rökstyðja með eftirfarandi hætti: Bandaríkjamenn hafa verið nánir bandamenn okkar í sex áratugi. Þeir hafa veitt okkur öflugan stuðning, þegar við höfum þurft á að halda. Við höfum veitt þeim, þegar þeir hafa þurft á að halda”. Morgunblaðið lýsti þarna afstöðu ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks til þeirrar einhliða ákvörðunar forystumanna að styðja innrásina á forsendum bandamannaraka.

Miðnesheiði
Vera erlends hers á Miðnesheiði orsakaði taugaveiklun meðal hernaðarsinna á Íslandi. Vegna hans þorðu margir íslenskir stjórnmálamenn ekki að taka sjálfstæðar ákvarðanir heldur höfðu einatt í huga þrönga hagsmuni ríkisstjórna annara ríkja. Slíkur undirlægjuháttur var síðan alltaf skrautfjaðraður með því að halda fram að á milli forystumanna Sjálfstæðisflokksins og Bandaríkjastjórnar ríkti sérstakt trúnaðarsamband. Auk þessa átti utanríkispólitík flokksins að teljast ábyrg en stjórnmál friðarsinna óábyrg. Þessari aðgreiningu hafa Framsóknarflokkurinn, þá sérstaklega í seinni tíð, gert að sinni. Alþýðuflokkurinn gerði það alltaf og arftaki hans, Samfylkingin, hefur fylgt honum í því. Það er til að mynda athyglisvert að Samfylkingin studdi innrás Nató í Júgóslavíu 1999 og árás Bandaríkjamanna á Afghanistan í árslok 2001. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því sögulega markað línurnar í utanríkismálum og náð að tukta hina flokkana til.

Í þessu ljósi er brotthvarf Bandaríkjahers stórkostleg tíðindi í íslenskum stjórnmálum. Þrátt fyrir þá margtuggðu klisju hernaðarafla á Íslandi, að trúnaðarsamaband ríkti milli Sjálfstæðisflokks og Bandaríkjastjórnar um þessa mál, voru höfð að engu þegar tilkynningin um brotthvarfið kom. Varaskeifa í bandaríska utanríkisráðuneytinu hafði ekki einu sinni fyrir því að koma á fund til Íslands og tilkynna fréttirnar heldur rétt hafði fyrir því að taka upp símtólið til að breiða út boðskapinn. Eftir standa þessi atriði:

  1. Friðarsinnar höfðu rétt fyrir sér um að Bandaríkjamenn væru hér á eigin forsendum en ekki til að þjónusta Íslendinga.
  2. Sjálfstæðisflokkurinn stóð ekki í neinu sérstöku trúnaðarsambandi við yfirvöld í Washington. Hann var þægileg hækja og notaður eftir því. Aðrir stjórnmálaflokkar létu að óþörfu nota sig líka.
  3. Það borgaði sig aldrei að taka rangar pólitískar ákvarðanir til að halda stjórnvöldum vestra góðum.
  4. Miklu fyrr hefði átt að undirbúa að herinn væri á förum – það lá alltaf ljóst fyrir.

Með brottför hersins hefur grundvöllur undir lífseigum mýtum hægrisinnaðra stjórnmálamanna brostið. Ekki verður hægt fyrir þau að öfl að fylkja sér á bakvið við stríðsaðgerðir Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna með vísun í ,,bandamannarök”. Þau hafa einfaldlega verið leyst upp.